Föstudagur 25. október 2024
Síða 2

Vikuviðtalið: Gylfi Ólafsson

Villl vera vel formaður formaður

Ég heiti Gylfi Ólafsson. Ég er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og var á síðustu helgi kjörinn formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar með Vestfjarðastofu. Þá er ég formaður starfshóps heilbrigðisráðherra um stöðumat og endurskoðun á kafla í heilbrigðisstefnu, en sá hópur var skipuður í sumar og lýkur störfum fyrir árslok. Einnig er ég að undirbúa verkefni í ferðaþjónustu sem vonandi opnar á næstu misserum sem ber vinnuheitið Þorskasaga þjóðar.

Frá Ísafirði til Stokkhólms og aftur heim

Menntaveginn gekk ég á Ísafirði, bæði í grunn- og menntaskóla, áður en ég lærði til grunnskólakennara á Akureyri og bjó svo á Spáni um hríð. Þaðan fór ég til Stokkhólms og kom heim með meistaragráðu í hagfræði og innritaður í doktorsnám í heilsuhagfræði sem ég lauk nokkru síðar.

Við Tinna Ólafsdóttir fluttum til Reykjavíkur árið 2013 og þá tók ég til við ýmis ráðgjafastörf í heilsuhagfræði innan lands og utan þangað til ég söðlaði um og fór í framboð fyrir Viðreisn haustið 2016. Ég náði ekki kjöri en varð í kjölfarið aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar formanns flokksins og síðar fjármála- og efnahagsráðherra. Sú ríkisstjórn varð skammlíf. Blásið var til kosninga um haustið 2017 og þá komst ég ekki heldur inn á alþingi. Ég tók þá til við að klára doktorsverkefnið sem beðið hafði í skúffunni og sinnti nokkrum ráðgjafaverkefnum áður en ég sótti um og fékk stöðu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sumarið 2018.

Þá hafði sonur minn bæst við dóttur sem fæðst hafði 2015. Við fluttum vestur og fundum okkur hús við Tangagötuna. Mamma mín og pabbi, Áslaug S. Alfreðsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson, sem búið höfðu á Ísafirði við rekstur Hótels Ísafjarðar í kvartöld, höfðu þá flutt heim til sín í höfuðborgina.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Starfið á Heilbrigðisstofnuninni var lærdómsríkt og gekk vel. Stofnunin hafði glímt við innbyrðis deilur, hafði dregist aftur úr í ýmisskonar nútímavæðingu og hafði aldrei almennilega orðið að einni stofnun, en Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði rann inn í þáverandi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða árið 2014. Tveir stórir atburðir settu sérstaklega mark sitt á tíma minn í starfi. Annars vegar var það covid-faraldurinn sem kom illa niður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í apríl 2020 og hins vegar opnun Dýrafjarðarganga í október sama ár sem bylti samgöngum milli starfsstöðva.

Heilbrigðisráðherra framlengdi skipun mína þegar leið að því að fimm ára skipunartíma lyki en mér fannst tími kominn til að láta gott heita í bili. Tímabært væri að hleypa öðrum að með aðra sýn, og önnur verkefni, bæði á sviði héraðsstjórnmála og öðrum vettvangi, kölluðu á mig. Þannig hef ég verið að þróa ferðaþjónustuverkefni, sinna bókaútgáfu og tónlist, setið af skriftum og margt fleira.

Ég hef einnig setið í bæjarstjórn og bæjarráði Ísafjarðarbæjar frá sveitarstjórnarkosningunum 2022 fyrir Í-listann, en það er samsteypuframboð Viðreisnar, Samfylkingarinnar og VG. Við náðum hreinum meirihluta. Starfið hefur gengið afar vel enda hefur gott fólk raðast í helstu stöður kjörinna fulltrúa og embættismanna.

Nú síðast var ég svo kjörinn formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og þar með Vestfjarðastofu, sem er hnútpunktur samstarfs milli sveitarfélaga og atvinnulífs á svæðinu auk ríkisins.

Áhugamál: Píanó og skíðaganga

Ég á ýmis áhugamál. Ég rækta til dæmis mjölorma í kjallaranum hjá mér. Einnig spila ég talsvert á píanó, einkum djass, og hef verið að gefa píanóinu meiri gaum síðustu mánuði. Á sunnudaginn 27. október er ég að gefa út bók sem heitir Lög frá Ísafirði, þar sem nótur að 37 lögum frá Ísafirði og nærsveitum eru prentuð upp. Það hefur verið skemmtilegt bras að koma því verkefni saman.

Þá stunda ég skíðagöngu og verið sjálfboðaliði í stjórn Fossavatnsgöngunnar og gengið þar í ýmis störf svo sem kynningarmál og samantekt á sögulegum gögnum. Skíðagangan, og ýmis önnur líkamsrækt svo sem útihlaup, hjálpa mér að halda mér í formi. Ég þarf að vísu aðeins að taka mig á og tálga og forma líkamann betur í haust og vetur. Markmiðið er að vera vel formaður formaður.

Skattlagning laxeldis: fréttin sem ekki var sögð

Skjáskot úr Kjastljósi RUV á mánudaginn.

Alþýðusamband Íslands hélt þing sitt á dögunum og fyrsta mál á dagskrá var að fjalla um auðlindir í þágu þjóðar, eins og dagskrárliðurinn hét. Þar var tekin fyrir skattlagning auðlindarentu og fengin norskur hagfræðingur Karen Ulltveit Moe sem kynnti norsku leiðina, nýlega löggjöf um 25% sérstakan skatt af hagnaði stórra eldisfyrirtækja. Í kjölfar erindis var rætt við Karen um fyrirkomulag auðlindagjalda í Noregi og hvernig reynsla Norðmanna gæti nýst Íslendingum eins og segir í kynningu ASÍ um málið.

Það fer ekkert á milli mála hver hinu pólitísku skilaboð verkalýðshreyfingarinnar voru í aðdraganda alþingiskosninga. Skattleggja ber helsta vaxtarbrodd í íslensku efnahagslífi með sérstökum auðlindaskatti og afla tekna í ríkissjóð.

Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja og fékk hagfræðinginn norska í viðhafnarviðtal á mánudaginn í Kastljós. Þar lagði RUV ranglega áherslu á ekki væri tekið auðlindagjald og undirstrikaði það sem Moe sagði að „Því lengur sem stjórnvöld bíða með að skattleggja laxeldi því erfiðara verður það, segir hagfræðingur sem var norskum stjórnvöldum innan handar þegar þau hækkuðu gjöld á laxeldi þar í landi í fyrra.“

Krafan er sérstök skattlagning

Bæði ASÍ og RUV tala fyrir því að laxeldið verði skattlagt sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar, þar sem um auðlindanýtingu er að ræða. Um það má margt segja. Laxeldið er arðvænleg atvinnugrein bæði í Noregi og líka á Íslandi. Auðvitað á eldið að greiða skatta og jafnvel sérstakan skatt eins og sjávarútvegurinn gerir í gegnum veiðigjaldið. Það er einmitt einn af kostunum við laxeldið hvað það er gjöfult fyrir land og þjóð. Greinin greiðir skatta, góð laun, skaffar mikla vinnu fyrir allra handa verktaka og færir okkur útflutningstekjur sem gerir kleift að bæta almenn lífskjör og viðhalda stöðugu gengi krónunnar. Skattaspor laxeldisfyrirtækjanna er einmitt hátt, ólíkt ýmsum öðrum atvinnugreinum sem þó fá jákvæða umfjöllun í Reykjavíkurfjölmiðlunum og tekið er á með silkihöndum.

Hvert er skattaspor stangveiðinnar, atvinnugreinar sem sækir viðskiptavini í hóp erlendra auðkýfinga sem hingað koma í einkaþotum, en er samt svo aum að hún er undanþegin virðisaukaskatti? Að ekki sé talað um ríku Hollywood kvikmyndafyrirtækin sem eru lokkuð til einhverrar starfsemi hér á landi með gylliboðum um 35% endurgreiðslu á öllum kostnaði og ríkið mokar út milljörðum króna á hverju ári til þeirra. Og nú þarf að setja sérstakan skatt, innviðagjald, á skemmtiferðaskip sem koma við á höfnum úti á landi af því það er svo ósanngjarnt gagnvart hóteleigendum á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að fækka ferðamönnum á landsbyggðinni og fjölga þeim á höfuðborgarsvæðinu skal nú greitt innviðagjald á landsbyggðinni fyrir litla notkun innviða og sleppa því að rukka þá ferðamenn sem nota innviðina mikið akandi út frá hótelum í Reykjavík.

Kannski verður fjallað um það í Kastljósi – en kannski ekki.

Laxeldið: auðlindagjaldið er komið – og það er hærra en í Noregi

En aftur að sanngjarnri skattlagningu laxeldis, baráttumáli ASÍ og RUV. Það verður ekki sagt að þessi samtök séu fyrst með fréttina. Auðlindagjaldið í fiskeldinu var sett á með lög fyrir fimm árum, árið 2019 og var fyrst innheimt á árinu 2020. Hvað sem segja má um Alþingi og stjórnarflokkana þá biðu þeir ekki boðana þegar ljóst var að laxeldið var góður bísness og efnilegur skattstofn. Lög um fiskeldisgjald var sett á 2019. Skatttekjur hafa vaxið hröðum skrefum og skilar árlega milljörðum króna í ríkissjóð.

Það er örugglega alveg rétt sem norski hagfræðingurinn segir að það verði erfiðara að koma nýjum skatti á ef beðið er með það. RUV hefði getað slegið sér upp með því að upplýsa áhorfendur um að þegar væri búið að koma skattinum á og að hann væri bara nokkuð ríflegur.

En einhverra hluta vegna þá kom sú frétt ekki. Kannski vegna þess að þá hefði uppleggið verið alveg ónýtt. Það þarf ekki að berjast fyrir því í aðdraganda alþingiskosninga að koma skattinum á, að greinin greiði sanngjarnan hlut af arðvænlegri starfsemi í ríkissjóð. Því markmiði hefur þegar verið náð. En kannski vill RUV og ASÍ líka ekki segja frá því núna fyrir kosningar. Kannski finnst þeim betra að kjósendur haldi að laxeldið lifi í einhverju lágskattaumhverfi vondra ríkisstjórnarflokka. Hver veit. Vegir RUV eru að mörgu leyti órannsakanlegir.

Hæsta skattlagningin á laxeldi

RUV og ASÍ hefðu getað leitað sér upplýsingar um skattlagninguna á laxeldið og sagt okkur fréttirnar. Hagsmunasamtök fiskeldisins, samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, hafa látið gera samanburð á skattlagningu laxeldis í þremur löndum Íslandi, Noregi og í Færeyjum. Í þeim samanburði var auðvitað tekið mið af nýju lögunum í Noregi um 25% sérstaka skattinn.

Niðurstaða SFS er að íslensku laxeldisfyrirtækin greiði hæstu skattana. Með öðrum orðum ef tekið yrði upp hér á landi norska löggjöfin þá myndu skattarnir á laxeldið lækka.

Þetta er eiginlega stóra fréttin í málinu. Íslensk stjórnvöld eru fremst meðal jafningja í skattlagningu atvinnugreinarinnar. Þetta er fréttin sem ekki var sögð. Atvinnugreinin á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem þó er enn í uppbyggingu og mikilli fjárfestingu, er skattlögð hiklaust og undanbragðalaust og má segja vægðarlaust.

Hvar eru sérstöku skattarnir á kvikmyndagerð, stangveiði, hótelrekstur í Reykjavík eða jöklaskoðunarferðir í þjóðlendurnar?

Niðurstaðan er að laxeldið er sérstaklega gjöfult fyrir hið opinbera. Öflugt laxeldi gefur ríkinu miklar tekjur og almennan ávinning og það er öllum fyrir bestu að nýta auðlindir fjarðanna til laxeldis. Með öðrum orðum það á að tala fyrir uppgangi laxeldisins og treysta það í sessi með traustum lagagrundvelli og góðu eftirliti. Atvinnugreinin mun þróast og finna lausnir á umhverfislegum áskorunum eins og það heitir nú til dags.

Í stuttu máli segir SFS stöðuna vera þessa:

  • Í Noregi er lagður 25% auðlindaskattur á fiskeldisfyrirtæki, en skatturinn gildir aðeins um þann hluta virðiskeðjunnar sem á sér stað í sjónum. Fyrir stærri, lóðrétt samþætt fyrirtæki (þar sem virðiskeðjan samanstendur t.d. af hrogna- og seiðaframleiðslu, áframeldis, pakkningu, sölu og markaðssetningu, er raunskatthlutfallið á heildina nær 10%. Í Noregi er einnig frítekjumark upp á 70 milljónir NOK, sem er dregið frá hagnaði áður en auðlindaskattur er reiknaður.
  • Í Færeyjum er stighækkandi gjaldtaka þar sem gjaldhlutfall fer eftir alþjóðlegu markaðsverði. Þótt íslenska kerfið byggi á færeysku fyrirmyndinni, þá er það færeyska mun sveigjanlegra með fleiri gjaldþrep og nú einnig með framleiðslukostnað í reikningnum.
  • Á Íslandi er gjaldtakan einnig byggð á alþjóðlegu meðalverði á laxi. Gjaldhlutföllin eru þrjú, en undanfarið hefur hæsta hlutfallið ávallt verið greitt. Það var nýlega hækkað úr 3,5% í 4,3%. Gjaldið er lagt á í þrepum og árið 2020 var greiddur 1/7 hluti gjaldsins. Í ár er greitt 5/7 hluta, og fullt gjald verður greitt árið 2026.

Þetta mun RUV kannski segja okkur síðar. Ég spái því að það verði ekki fyrr en eftir kosningar. En hver veit.

-k

Áhyggjur af áhrifum loðnubrests á efnahagslíf

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sendi frá sér í gær ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af mögulegum loðnubresti á íslenskt efnahagslíf.

Í ályktuninni segir:

„Ekki síst gætir áhrifanna hjá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélögum þar sem uppsjávarvinnsla er ein af meginstoðum atvinnulífsins. Ef ekki verður loðnuvertíð á næsta ári verður það annað árið í röð sem tekjutap af þeim völdum dynur yfir þessi sveitarfélög og samfélagið allt hér á landi. Jafnframt mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hagvöxt á næsta ári sem er grafalvarlegt. 

 Haustmælingar á loðnu gáfu þó vísbendingar um að hægt verði að gefa út upphafskvóta og því leggja Samtök sjávarútvegssveitarfélaga mikla áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Í nýlegri spá greiningardeildar Landsbankans segir að stór loðnuvertíð gæti þýtt að hagvöxtur yrði 0,5 – 1 prósenti meiri en ella, en spáð er 2,3% hagvexti á næsta ári án loðnuveiði. Þetta þýðir með öðrum orðum að hagvöxturinn yrði 20 – 40% meiri ef af loðnuveiðum verður. Það munar verulega um það.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða var í nóvember 2022 orðið 46 milljarðar króna það ár og veiðin var 521 þúsund tonn samkvæmt því sem fram kemur á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Útflutningsverðmæti eldislax hefur síðustu tvö ár verið um 40 milljarðar króna og mun vaxa hratt á næstu þremur árum. og jafnvel tvöfaldast.

Í samtökum sjávarútvegssveitarfélaga eru 27 sveitarfélög á landinu þar af eru fimm sveitarfélög á Vestfjörðum. Tveir af fimm kjörnum stjórnarmönnum eru frá Vestfjörðum.

Allt eru þetta mannanna verk

Horft af nýja veginum við Hallsteinsnes og yfir á Skálanes.

Hörðustu átök varðandi samgöngumál, sem undirritaður tók þátt í á löngum þingmannsferli, snerust um vegagerð í Gufudalssveitinni. Mikill samhljómur var á meðal lang flestra Vestfirðinga um legu vegarins en einnig birtist okkur þaul skipulögð og vel fjármögnuð andstaða, einkum utan Vestfjarða. Þrátt fyrir það virtist okkur sem börðumst fyrir þessu máli, að það væri í höfn, þegar þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, staðfesti skipulag vegarins. Var þar gert ráð fyrir þverun Þorskafjarðar, vegagerð út að Hallsteinsnesi og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Þetta var í ársbyrjun 2007, sum sé fyrir nær 18 árum.

Margt fer öðruvísi en ætlað var

En margt fer öðruvísi en ætlað var.

Úrskurður ráðherrans var kærður og fór fyrir tvö dómstig, þar sem hann var ógiltur, á mismunandi forsendum þó, í hvoru dómstiginu fyrir sig. Í úrskurði Hæstaréttar  frá 22. október 2009 fólst m.a að  “umhverfisráðherra hefði verið óheimilt að lögum að taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum í úrskurði sínum.”

Þó mörgum þætti þessi dómsforsenda með nokkrum ólíkindum, gilti hið fornkveðna; ekki þýðir að deila við dómarann. Vandinn í málinu var hins vegar sá að innan þáverandi ríkisstjórnarflokka voru skoðanir skiptar. Sannarlega voru þar  innanborðs þingmenn sem studdu dyggilega sjónarmið sveitarfélaganna á Vestfjörðum um að fara þá leið sem lagt hafi verið upp með, sem sagt með láglendisleið. En það var einnig fyrir hendi veruleg andstaða í hópi þáverandi stjórnarliða, sem vildu frekar leggja vegi yfir hálsana, sem vitaskuld var miklu verri og óöruggari leið. Þetta olli því að fátt gerðist á kjörtímabilinu 2009 til 2013.

Málin komast á hreyfingu að nýju

Strax við upphaf nýs kjörtímabils, árið 2013 hafði undirritaður frumkvæði að fundi með þáverandi samgönguráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og þáverandi umhverfisráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni, um hvernig mætti tryggja vegagerð í Gufudalssveitinni með láglendisvegi, líkt og upphaflega hafði verið stefnt að. Báðir ráðherrarnir voru eindregin í  þeim vilja sínum að þoka málinu áfram og eftir gott samráð við heimamenn og lögfræðilega athugun var það niðurstaðan að hefja leikinn að nýju. Leggja fram tillögu að vegstæði líkt og hafði verið gert árið 2007, en með breytingum þó, þar sem tillit væri tekið til athugasemda.

Þetta var farsæl leið þó að sönnu hafi hún reynst tafsöm. Þann 25. febrúar 2020 veitti sveitarstjórn Reykhólahrepps framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðavegi frá Skálanesi að Bjarkarlundi. En ekki voru allir að baki dottnir. Enn hófst kæruferli fyrir Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hafnaði kærunni með ítarlegum og vel rökstuddum úrskurði 1. október 2020 og var því hægt að hefjast handa við loka undirbúning framkvæmda á þessari umtöluðu leið miðað við þær forsendur sem þá höfðu teiknast upp. Þá voru liðin nær 14 ár frá því að upphaflegur úrskurður þáverandi umhverfisráðherra var upp kveðinn og sem við töldum mörg að væri hið græna ljós á framkvæmdir í Gufudalssveitinni.

Enn er allt í logandi óvissu

Þegar öll þessi sorgarsaga er rakin er það þyngra en tárum taki að verða vitni að því að enn er allt í logandi óvissu um hvenær vegagerðinni í Gufudalssveit verði lokið. Í gildandi Samgönguáætlun ( 2019 – 2024 ) er gert ráð fyrir 7,2 milljörðum til þessa verkefnis og kemur hvergi annað fram í þingskjölum en að þessi uphæð nægi til þess að ljúka því á gildistíma áætlunarinnar. Í tillögunni sjálfri var gert ráð fyrir að lokaupphæð til verkefnisins væri árið 2023 og það samþykkti Alþingi, án nokkurrar fyrirstöðu.

Þó skal á það minnt að í nefndaráliti við Samgönguáætlunina segir að meiri hlutinn leggi áherslu á að framkvæmdum verði flýtt ef svigrúm skapast. Í nefndarálitinu frá árinu 2020 segir nefnilega: “Meiri hlutinn leggur áherslu á að þeir stofnvegir sem enn hafa ekki fengið bundið slitlag njóti forgangs í framkvæmdum. Með því er umferðaröryggi bætt, leiðir gerðar greiðfærari og byggðir betur tengdar saman. Þeir eru flestir á samgönguáætlun en meiri hlutinn leggur áherslu á að framkvæmdum verði flýtt ef svigrúm skapast. Um er að ræða Vestfjarðaveg um Gufudalssveit, Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði, Bíldudalsveg að flugvelli, Skógarstrandarveg, Borgarfjarðarveg eystri, Hlíðarveg á Héraði, Brekknaheiði, Innstrandaveg og Bárðardalsveg.”

Hvergi var minnst á frekari tafir

Þarna er tónninn sleginn skýr og tær. Hvergi er imprað á nokkrum töfum, heldur þvert á móti. Það er hvatt til flýtingar tiltekinna framkvæmda skapist til þess svigrúm. Þar á meðal eru framkvæmdir í Gufudalssveitinni.

Þegar öll þessi sorglega forsaga er skoðuð, þegar fyrir liggur skýr vilji meirihluti viðeigandi þingnefndar að leita færis um flýtingu framkvæmda í Gufudalssveitinni, þegar hvergi nokkurs staðar er minnst á mögulegar tafir framkvæmda  á svæðinu verður málið allt hið dularfyllsta. Þó má segja að í þeim undantekningartilvikum sem þessi mál hafa borið á góma í opinberri umræðu hafi verið tilefni til bjartsýni. Þannig sagði talsmaður Vegagerðarinnar í viðtali hér á BB, 7. mars sl  að stefnt sé að því að bjóða út síðasta áfanga Gufudalssveitar í haust. Er það um byggingu tveggja brúa að ræða. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem nýlega var haldið er verkið áætlað kosta 3.500 m.krónur, að sögn fulltrúa Vegagerðarinnar

Enginn veit hvenær þessu verki verður lokið

Á hinn bóginn verður því miður ekki hægt að segja að viðbrögð innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir hafi gefið tilefni til bjartsýni þegar hún svaraði fyrirspurn Teits Björns Einarssonar alþingismanns á Alþingi 7. október sl. Í svari ráðherrans kom nefnilega ekkert það fram sem varpað gæti ljósi á frekari framvindu verksins.

Allt er þetta mál hið sorglegasta. En nú gildir hið fornkveðna úr ranni Ólafar ríku: ”Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði ….” ( og nú kýs ég fyrir friðsemdar sakir að sleppa síðustu orðunum úr þessari frægu tilvitnun ! )

Úr því sem komið er má ljóst vera að þetta brýna verkefni, sem við töldum að væri á beinu brautinni fyrir hérumbil 20 árum, er enn umvafið fullkominni óvissu. Við vitum auðvitað að verkinu mun ekki ljúka á þessu ári. Það er á  þeim tíma sem fyrirheit voru gefin um í Samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024 og langtímaáætlun Samgönguáætlunar árið 2020 til 2034 og Alþingi samþykkti. Og svo vitum við að því muni heldur ekki ljúka á næsta ári, eða yfirhöfuð um hvenær verkinu muni ljúka.

Með öðrum orðum: Nú undir árslok 2024 veit ekki nokkur maður hvenær þessu verki muni verða lokið.

Tafarlaust útboð er sjálfsögð krafa

En við skulum ekki dvelja frekar við fortíðina í þessu máli, heldur einfaldlega gera þá sjálfsögðu kröfu að tafarlaust verði ráðist í útboð og tryggt að verkið verði unnið svo hratt sem verða má, þannig að ljúka megi þessu dæmalausa máli, án frekari skammar fyrir þá sem hlut eiga að máli.

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Vestfjarða og Norðvesturkjöræmis.

Samfylkingin: Arna Lára í fyrsta sæti

Arna Lára Jónsdóttir.

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember 2024 var samþykktur á fundi kjördæmisráðs í kvöld.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar, leiðir listann í Norðvesturkjördæmi. Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ), er í öðru sæti. Í þriðja sæti er Jóhanna Ösp Einarsdóttir, bóndi og oddviti í Reykhólahreppi, og fjórða sætið skipar Magnús Vignir Eðvaldsson, íþróttakennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra.

Heiðurssætið skipar Guðjón S. Brjánsson, fyrrverandi alþingismaður.

Arna Lára: Auðvelt að tala máli Samfylkingar í kjördæminu
„Nú keyrum við baráttuna í gang. Ég er þakklát fyrir traustið og vil líka þakka öðrum frambjóðendum og sjálfboðaliðum sem ætla að vinna að sigri Samfylkingar með okkur í Norðvesturkjördæmi.

Þetta verður ekki minn fyrsti hringur um kjördæmið. Ég tók slaginn fyrst með Guðbjarti heitnum og Ólínu og fleiri góðum fyrir 15 árum. Þá kom ég inn sem varaþingmaður en síðan hef ég viðað að mér reynslu úr atvinnulífi og sveitarstjórnarmálum, nú síðast sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingar frá því haustið 2022,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, nýr oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

„Það er mikil stemmning og jákvæðni gagnvart Samfylkingunni og fullt af fólki sem er tilbúið að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Ég þori að fullyrða að það hefur aldrei verið jafn auðvelt að tala máli Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi. Og það er vegna þeirrar miklu vinnu sem lagt hefur verið í og sem hefur verið leidd af okkar öfluga formanni, Kristrúnu Frostadóttur. Við erum með skýra sýn fyrir íslenska þjóð og vel útfært plan sem birtist í útspilum okkar: Öruggum skrefum í heilbrigðis- og öldrunarmálum, Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum og því nýjasta, um húsnæðis- og kjaramál, sem verður kynnt á þriðjudaginn næstkomandi eftir 6 mánaða málefnavinnu um land allt.

Ég hlakka til kosningabaráttu sem ég held að verði snörp og kraftmikil. Nú förum við öll í bátana og sækjum sigurinn saman. En svo þetta gangi upp verðum við að sýna samstöðu, vera jákvæð, setja kassann út og tala hátt og snjallt fyrir áherslumálum okkar jafnaðarfólks. Þá er ég viss um að Ísland og íslenskt samfélag mun uppskera ríkulega.“

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi:
1. Arna Lára Jónsdóttir – bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar,
2. Hannes S. Jónsson – framkvæmdastjóri KKÍ,
3. Jóhanna Ösp Einarsdóttir – bóndi og oddviti í Reykhólahreppi,
4. Magnús Vignir Eðvaldsson – íþróttakennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra,
5. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir – forstöðumaður í Borgarnesi,
6. Garðar Svansson – fangavörður og bæjarfulltrúi í Grundarfirði,
7. Bryndís Kristín Þráinsdóttir Williams – verkefnastjóri á Sauðárkróki,
8. Gylfi Þór Gíslason – lögregluvarðstjóri á Vestfjörðum,
9. Líney Árnadóttir – starfsráðgjafi í Húnabyggð,
10. Guðrún Anna Finnbogadóttir – teymisstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu,
11. Stefán Sveinsson – sjómaður og smiður á Skagaströnd,
12. Bakir Anwar Nassar – starfsmaður Húsasmiðjunnar,
13. Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir – frístundaráðgjafi í Dalabyggð,
14. Guðjón Brjánsson – fyrrverandi alþingismaður

Neyðarkall í næstu viku

Eins og flestir vita þá er sala Neyðarkalls björgunarsveitanna ein mikilvægasta fjáröflun þeirra á ári hverju.

Landsbjörg undirbýr nú söluna í samráði við sveitir um land allt.

Áætlaðir söludagar eru 30. október til 3. nóvember.

Landsmenn eru hvattir til að taka vel á móti sölufólki.

Endurskoða á fyrirkomulag sóknargjalda

Hólskirkja í Bolungarvík

Í september skipaði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, starfshóp undir forystu Kristrúnar Heimisdóttur, sem hefur það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag sóknargjalda.
Aðrir í starfshópnum eru Gísli Páll Pálsson, Ingvar Smári Birgisson og Sólrún Halldóra Þrastardóttir.

Mælt er fyrir innheimtu sóknargjalda í lögum Þrátt fyrir að lögin kveði á um hvernig sóknargjöldin skulu reiknuð ár hvert hefur niðurskurður sóknargjalda verið viðvarandi síðustu ár.

Frá árinu 2008 hafa árlega komið inn bráðabirgðaákvæði í fyrrgreind lög sem kveða á um lægri sóknargjöld en upprunaleg ákvæði laganna gera ráð fyrir.

Starfshópnum er ætlað að gera tillögur um hvort nauðsynlegt sé að breyta lögunum eða framkvæmdinni, og eftir atvikum að gera tillögur að fjárhæð sóknargjalda með hliðsjón af þörfum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en einnig rekstri ríkissjóðs.

Eldur Smári í fyrsta sæti hjá Lýðræðisflokknum í Norðvesturkjördæmi

Eldur Smári Kristinsson

Lýðræðisflokkurinn sem stofnaður var af forsetaframbjóðandanum Arnari Þór Jónssyni kynnti í morgun þrjá efstu menn á lista flokksins í hverju kjördæmi fyrir sig ásamt nokkrum af stefnumálum sínum.

Í Norðvesturkjördæmi er Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22 í fyrsta sæti, í öðru sæti er Ágústa Árnadóttir snyrtifræðingur og þriðja sætið Sigurður Bjarnason kerfisfræðingur.

Í tilkynningu frá Lýðræðisflokknum segir að hann hafi verið stofnaður með það markmið að auka einstaklingsfrelsi og draga úr miðstýringu ríkisvaldsins.

Flokkurinn leggi áherslu á að tryggja borgurum rétt til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf, sér í lagi á sviðum efnahags, atvinnumála og menningar. Þá vilji flokkurinn einnig hófsemi í ríkisútgjöldum og vilji að skattalækkanir verði til þess að efla atvinnufrelsi og skapa ný tækifæri í íslensku efnahagslífi segir í tilkynningu frá framboðinu.

Þingeyri – Samningur tryggir reksturinn til lengri tíma

Á dögunum var undirritaðir ný samningar til sex ára um aflamark Byggðastofnunar við fyrirtækið Íslenskt sjávarfang ehf.

Rúnar Björgvinsson framkvæmdarstjóri fyrirtækisins segir samninginn grundvöll þess að hægt sé að halda uppi heilsárs vinnslu í frystihúsinu á Þingeyri.

Samningar til 6 ára í senn hafa tryggt að hægt sé að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar í tækjabúnaði sem tryggir reksturinn til lengri tíma litið.

„Íslenskt sjávarfang hefur rekið frystihúsið á Þingeyri síðastliðin 9 ár og hefur starfsmannafjöldi verið 25-35 manns lengst af og enginn dagur fallið niður í vinnslu.

Þetta skiptir sköpum fyrir lítið samfélag eins og Þingeyri enda er frystihúsið stærsti vinnustaðurinn þar. Þetta hefði ekki verið hægt án Aflamarks Byggðastofnunar og samningum við útgerðir sem tryggja hráefni til vinnslunnar.“

Frá undirritun á Þingeyri. Frá vinstri Reinhard Reynisson, Stefán Egilsson, Arnar Már Elíasson, Viktor Pálsson, Ragnar Örn Þórðarson og Hermann Úlfarsson.

Björn Bjarki: þurfum að nýta virkjunarkosti á Vestfjörðum

Björn Bjarki Þorsteinsson.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sem skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins var inntur eftir afstöðu sinni til Hvalárvirkjunar og hugmynda Orkubús Vestfjarða um virkjun í Vatnsdalnum í Vatnsfirði.

„Að mínu mati er ljóst að það vantar meiri orku inn á Vestfjarðarlínu og eins að bæta afhendingaröryggi á rafmagni, það verður samfélagið á Vestfjörðum og eins við í nágrenninu of oft vör við. Núverandi Vestfjarðarlína er úr sér gengin eins og bent hefur verið á og óásættanlegt að verið sé að brenna díselolíu á varaaflstöðvum þegar rafmagnslaust verður eða rafmagn skortir. Við þurfum að nýta þá virkjunarkosti sem til staðar eru og rétt að benda á í því tilliti á að Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Stutta svarið mitt ef svo má segja er að ég tel að við þurfum að nýta fleiri möguleika til þess fjölga grænum orkukostum bæði á Vestfjörðum og annars staðar í kjördæminu okkar til að styrkja innviði því það er innviða brestur í orkumálum líkt og öðrum grunn innviðum s.s. eins og í vegamálum eins og mér hefur orðið tíðrætt um á síðustu misserum.“

 

Laxeldið mikilvægt – en frjór lax bannaður innan 10 ára

Björn Bjarki var einnig spurður um afstöðu sína til laxeldisins á Vestfjörðun. Spurt var: Styður þú laxeldið eða tekur þú undir með þeim sem vilja stöðva eldið og jafnvel banna það?

„Hvað laxeldið varðar þá þurfum við að útbúa leikreglur allar þannig að sú starfsemi sem til staðar er sé gert kleift að starfa áfram því þessi atvinnuvegur er gríðarlega mikilvægur, ekki síst í Norðvesturkjördæmi. Mikilvægt er að hugað sé að því, eins og ég vísa til þegar ég nefni leikreglur, að þessi atvinnugrein sé í sátt við laxveiðiárnar okkar dýrmætu í kjördæminu og um land allt. Mikilvægt er að klára frumvarp varðandi lagareldi því við verðum að koma á heildstæðri löggjöf um atvinnugreinina. Fram eru komnar umsagnir um frumvarpið, bæði frá veiðifélögum einstakra svæða og sveitarfélögum svo dæmi séu tekin, sem vert er að skoða vel og taka með í umræðuna á næstunni. Einnig vil ég nefna að það er mikilvægt að fá þá rekstraraðila sem í greininni starfa, laxeldinu, að borði þegar kemur að rannsóknum og þ.h. á áhrif þessa á náttúruna okkar, bæði í nærumhverfi laxeldisstöðvanna sem og á verndarsvæði laxveiðiánna.“

Spurningunni var fylgt eftir með annarri: Varðandi laxeldið nefnir þú að leikreglurnar verði í sátt við laxveiðiárnar. Nú er krafan frá veiðifélögunum að laxeldið verði bannað. Hvernig sérðu fyrir þér að leikreglurnar verði sem verða í sátt við veiðifélögin?

Í svari sínu vísaði Björn Bjarki til umsagnar frá Húnaþingi vestra um nýtt lagareldisfrumvarp á síðastliðnum vetri. Þar væru nefnd atriði sem taka mætti til hliðsjónar. Í umsögninni eru nefnd þrjú atriði:

Rekstrarleyfi í laxeldinu verði ekki ótímabundin eins og frv. gerir ráð fyrir. Eðlilegt er að leyfi sem þessi séu gefin út til ákveðins árafjölda í senn. Við endurnýjun leyfis þurfi lagareldisfyrirtæki að fara í gegnum leyfisveitingaferlið að nýju sem gefur tækifæri til grandskoðunar á starfseminni sem að mati byggðaráðs Húnaþings vestra er nauðsynlegt til að auka líkur á að markmið frumvarpsins náist.

Rekstrarleyfishafi skuli greiða veiðifélögum/veiðiréttarhöfum þann kostnað sem til fellur við leit/veiðar á strokulaxi.

Sett verði ákvæði í frumvarpið þess efnis að innan 10 ára verði óheimilt með öllu að rækta frjóan lax. Með því megi minnka til muna þá áhættu sem af eldinu stafar gagnvart villta laxastofninum.

Nýjustu fréttir