Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2

Aflahluddeild í grásleppu

Fiskistofa hefur birt upplýsingar um aflahlutdeild í grásleppu.  Alls fá 262 bátar úthlutað aflahlutdeild.  Krókaaflamarksbátar eru með 61%, bátar á aflamarki 32% og aðrir með 7%.

Samkvæmt lista Fiskistofu fá eftirtaldir aflahlutdeild hærri en 1%.

Nafn bátsVeiðisvæði Aflahlutdeild
Hlökk ST 66Húnaflói1,50%
Ásdís ÞH 136Norðurland1,38%
Kóngsey ST 4Húnaflói1,37%
Rán SH 307Breiðafj. Vestfirðir1,35%
Æsir BA 808Breiðafj. Vestfirðir1,28%
Oddur í nesi SI  176Norðurland1,09%
Fjóla SH 7Breiðafj. Vestfirðir1,07%
Hugrún DA 1Breiðafj. Vestfirðir1,05%

Samtals er aflahlutdeild þessara 8 báta 10%.

Á svæðinu Breiðafjörður -Vestfirðir eru þetta þeir bátar sem fengu mesta úthlutun en samtals fengu 75 bátar á því svæði úthlutað aflahlutdeild samtals um 20% af heildar úthlutun.

Villtur lax losnar við lúsina

Ný skýrsla Náttúrustofu Vestfjarða hefur vakið þá ályktun að lús smitist frá eldiskvíum yfir í villtan lax og geti skaðað hann samanber umfjöllun í Morgunblaðinu í síðustu viku. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en í gær og þar má lesa fleira sem máli skiptir og bendir ekki til þess að svona sé í pottinn búið.

Athyglisvert er að aðeins einn lax var veiddur í rannsóknunum sem fram fóru í fyrra og eru því engar upplýsingar um áhrif eldisins á villtan lax út frá því. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá 2016 um lús á laxfiskum og eiga þær það sammerkt að villtur lax er ekki til rannsóknar.

Rannsóknirnar hafa snúið að bleikju og sjóbirtingi. Það eru vatnafiskar sem ganga í sjó 6 – 8 vikur á ári og fara yfirleitt ekki langt frá sinni á og eru grunnt. Þeir eru lúsalausir þegar þeir ganga í sjó og fá þar á sig lús. Það er mögulegt að þeir sæki lús í eldiskvíar og segir í skýrslunni :

„Gögnin sýndu enn fremur sterka fylgni á milli lúsamagns á villtum fiski og magns fullorðinna kvenkyns laxalúsa í nærliggjandi fiskeldisstöðvum. Marktækt fleiri smittilvik fundust í villtum fiski frá svæðum þar sem hátt magn fiskilúsa fannst í fiskeldisstöðvum, sérstaklega þegar heimkynni þeirra voru nálægt netakvíum.“

En þessar tegundir, bleikja og sjóbirtingu, ganga aftur upp í ferskt vatn yfir vetrartímann og „losna þeir þá við sjávarlúsina á náttúrulegan hátt.“ segir í skýrslunni. En lúsin drepst í fersku vatni. Tíminn sem lús er á fiskunum er svo stuttur að varla verður skaði af enda er það ekki fullyrt í skýrslunni. Það hefði mátt segja frá því í skýrslunni með skýrum hætti að silungurinn losnar við alla lús innan fárra vikna.

Varðandi villta laxinn þá gefa skýrslurnar ekki neinar upplýsingar um lúsasmit frá eldiskvíum. Athuga ber þó að eldisfiskur er lúsalaus þegar hann er settur út og lús berst í kvíarnar utan frá , frá villtum lax og silungi.

Það er þó vitað að laxaseiði ganga í sjó á vorin og halda til hafs. Þau geta synt framhjá kvíum en á þeim tíma er lúsin ekki áberandi. Seiðin koma svo til baka eftir 1-3 ár sem fullvaxinn fiskur og væntanlega með lús á sér. Mögulegt er að laxinn bæti á sig lús á leiðinni upp í sína á en það er skammur tími og þegar í ána er komið drepst lúsin.

Þetta bendir ekki til þess að villtir laxafiskar séu í teljandi hættu af lús frá eldiskvíum.

Helsti skaðinn af lús er á eldisfiskinn og verkefnið er að halda lúsasmiti í kvíunum í lágmarki.

-k

Þekkir einhver þennan franska mann? Hefur einhver hitt hann eða verið í sambandi við hann?

Frédérik Chabanel er franskur maður fæddur 1975. Hann er með fæðingarblett á hálsinum.
Hann kom til Íslands þann 26. júní 1999. Þann 21. júlí fréttist af honum á hótel Ísafirði og 22 ágúst tók hann peninga úr heimabanka í Reykjavík.
Í ágústmánuði 1999 hringdi hann nokkrum sinnum í fjölskyldu sína í Frakklandi. Hann talaði um að honum liði vel á Íslandi, að hann hefði fengið vinnu á fiskibáti eða í byggingarvinnu.
Eftir það hefur ekkert heyrst frá honum, hvorki símtal né bréf. Gerð hefur verið leit að honum á Íslandi en án árangurs. Nafn hans hefur ekki fundist í opinberum gögnum.
Varð hann fyrir slysi? Var hann ef til vill tekinn af lífi? Yfirgaf hann Ísland og lét sig hverfa?
Við biðjum um ykkar hjálp. Frédérik hafði gaman af göngum úti í náttúrunni. Hann hafði einnig ánægju af að hitta og spjalla við Íslendinga á börum. Ef þú manst eftir að hafa hitt hann þætti okkur vænt um að þú hefðir samband og segðir okkur um hvað þið töluðuð. Var hann með einhver plön?
Ræddi hann um einhver lönd sem hann langaði til að heimsækja?
Er kannski einhver ennþá í sambandi við hann?
Í 25 ár hefur fjölskylda hans leitað að honum án árangurs. Samtökin ARPD sem hjálpa við leit á týndu fólki óska eftir aðstoð við að komast að því hvað kom fyrir Frédérik Chabanel.
Ef einhver telur sig hafa upplýsingar sem geta hjálpað, vinsamlegast hafið samband við international@arpd.fr . það má vera á Íslensku,Frönsku,Ensku
Bestu þakkir!
ARPD (Assistance et Recherche de Personnes Disparues)
(Aðstoð og leit að týndum einstaklingum)

Gagnaver í Veðrarárdal – heimilað verði að gera deiliskipulag

Neðri -Breiðadalur, Fremri-Breiðadalur og Ytri-Veðrará. Mynd: Mats Wibe Lund.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjaðarbæjar hefur fengið yfirlýsingu um samþykkti landeiganda við áform um gerð deiliskipulags fyrir gagnaver í Veðrarárdal. Veitt er samþykki fyrir því að unnið verði deiliskipulag og mögulegar aðalskipulagsbreytingar því tengdum.

Erindi frá Birni Davíðssyni f.h. óstofnaðs hlutafélags var lagt fram 12. desember. Þá vildi nefndin fá undirritaða heimild landeigenda þar sem þeir heimila breytingar. Nú liggur það fyrir og leggur skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að heimila Birni Davíðssyni að hefja vinnu við deiliskipulag.

Bolungavík: 13 þúsund tonn af eldislaxi á síðasta ári

Brunnbáturinn Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað í Bolungavík og slátrað 13 þúsund tonnum af eldislaxi á síðasta ári í Drimlu, laxasláturhúsi Arctic Fish í Bolungavík.

Um 11.600 tonn komu frá eldi Arctic Fish og um 1.400 tonn frá Háafelli.

Mest kom á landi í september á einum mánuði en þá var slátrað 2.055 tonnum.

Útflutningsverðmæti aflans miðað við meðalverð ársins er um 13 milljarðar króna.

Þórsberg: sala aflaheimilda áhyggjuefni

Þórsberg á Tálknafirði.

„Það er áhyggjuefni þegar aflaheimildir eru seldar úr sveitarfélag líkt á nú á sér stað með aflaheimildir Þórsbergs“ segir Gerður B. Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð. Hún segir að umtalsverðum hluta aflans hafi verið landað á Tálknafjarðarhöfn og ríkir nú óviss um það hvort og hve lengi það mun haldast óbreytt. „Kaupandi kvótans hefur sagt að ekki verði neinar breytingar fyrst um sinn en ekki gefið neitt út annað en það.  Eins ríkir óvissa um hvort og hve lengi áhöfn heldur sínum störfum.“

„Ef svo verður að þessum kvóta verði að engu leiti landað í Tálknafirði mun hafa mikil áhrif á rekstur hafnarinnar og þá þjónustu sem rekin er í tengslum við hana.“

Málið er á dagskrá fundar bæjarráðs í dag.

Meistaraflokkur kvenna fékk hvatningarverðlaun

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnudeild Vestra.

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnudeild Vestra hlaut hvatningarverðlaun skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar, fyrir eldmóð, atorkusemi og góðan árangur á árinu 2024, en þetta var fyrsta árið sem Vestri tefldi fram meistaraflokki kvenna.

Ekki hafði verið kvennalið í fótbolta í Ísafjarðarbæ síðan árið 2013, þá undir nafni BÍ/Bolungarvíkur. 

Lögreglan varar við mikilli hálku

Lögreglan á Vestfjörðum segir mikla hálku á götum og gangstéttum, sérstaklega á NV Vestfjörðum og eru gangandi, akandi og hjólandi vegfarendur hvattir til þess að gæta sérstakrar varúðar.

Vegagerð og sveitafélög reyna af fremsta megni að hálkuverja en það dugar stundum ekki til.

Þá hafa ögreglumenn á Ísafirði af og til haft afskipti af nokkrum ungum ökumönnum sem hafa gert sér að leik að spóla og skrensa bifreiðum sínum á hafnarsvæðinu sem og á bílaplönum.

Þetta athæfi samrýmist ekki umferðarlögum og er auk þess afar hættulegt. Foreldrar ungra ökumanna eru hvattir til þess að ræða hættuna sem af þessu getur skapast.

Óætar döðlur og glerbrot í salsasósu

Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af Til hamingju döðlum sem Nathan og Olsen flytur inn vegna þess að varan stenst ekki gæðakröfur. Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað vöruna.

Innköllunin á einungis við eftirfarandi framleiðslulotur:

  • Vörumerki: Til hamingju
  • Vöruheiti: Döðlur saxaðar
  • Geymsluþol: Best fyrir lok: 06.2025, 08.2025, 10.2025
  • Strikamerki: 5690595095496
  • Nettómagn: 250 g
  • Framleitt fyrir: Nathan & Olsen, Klettagörðum 19, 104 Reykjavík
  • Framleiðsluland: Bretland
  • Innflytjandinn: Nathan & Olsen, Klettagörðum 19, 104 Reykjavík.
  • Dreifing: Aðföng (Bónus og Hagkaup), Verslunin Einar Ólafsson, Fjarðarkaup, Heimkaup, Hlíðarkaup, Hraðkaup Hellisandi, Kaupfélag Skagfirðinga, Kauptún, Krónan, Bláfell, Melabúðin, Smáalind, Verslunin Álfheimar, Verslunin Kassinn.

Þá varar Matvælastofnun neytendur við einni framleiðslulotu af Mild Chunky Salsa sósu frá Old Fashioned Cheese (OFC) sem Aðföng ehf. flytur inn vegna glerbrots sem fannst í einni krukku. Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað vöruna.

Innköllunin á eingöngu við eftirfarandi framleiðslulotu:

  • Vörumerki: Old Fashioned Cheese (OFC)
  • Vöruheiti: Mild Chunky Salsa
  • Geymsluþol: Best fyrir 16-02-2025 ( EXP 16 FEB 2025 )
  • Lotunúmer: MCSP 24-047 001
  • Strikamerki: 048707444215 Nettómagn: 425 g
  • Framleiðandi: Old Fashioned Foods, Inc. Framleiðsluland: Bandaríkin
  • Innflytjandi: Aðföng, Skútuvogi 7-9, 104 Reykjavík.
  • Dreifing: Verslanir Hagkaupa og Bónuss um land allt.

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki heldur farga eða fá endurgreitt í verslun þar sem hún var keypt.

Verðhækkanir í byrjun árs

Fyrstu verðhækkanir ársins birtast nú á verðmiðum landsins að því er kemur fram í frétt frá ASI.

Vörur frá Ölgerðinni og Kjörís hækka mest, Ölgerðin um rúmlega 4% og Kjörís um tæplega 3%. Af vörum Kjörís er það tveggja lítra vanillumjúkís í Prís sem hækkar mest. Þrátt fyrir hækkunina er hann enn ódýrastur í Prís, samkvæmt nýjustu tölum, en hann hafði verið þó nokkru ódýrari en í Bónus fyrir áramót.

Verð á appelsíni og malti frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar var mun lægra í Bónus og Krónunni í desember en mánuðina á undan. Nú hefur það hækkað í það verð sem var í boði í september-október. Appelsínið eitt skýrir um fimmtung hækkunar á meðalverði Ölgerðarinnar milli mánaða.

Þó ber ekki aðeins á verðhækkunum, heldur einnig lækkunum. Til dæmis veldur eftirjóla-útsalan á Lindu hátíðarbuffi því að meðalverð á Góu-Lindu-vörum lækkar lítillega milli desember og janúar.

Verð á hrávöru hækkaði mikið í kjölfar heimsfaraldurs og innrásar Rússa í Úkraínu snemma árs 2022. Þessar hækkanir voru meðal þess sem ýtt hefur undir mikla verðbólgu hér á landi og víðar. Verulega hefur dró úr hækkunum á hrávöru á síðasta ári og eru dæmi um að miklar hækkanir árana 2022-2023 hafi gengið til baka. Þó enn séu einstakar hrávörur sem hafi hækkað í verði, hefur hrávöruverð matvöru að jafnaði lækkað milli ára, um 2% á síðasta ári. Ýmsar hrávörur sem notaðar eru til framleiðslu hér á landi, t.d. olía og áburður lækkuðu einnig á síðasta ári. 

Nýjustu fréttir