Síða 2

Skemmtiferðaskip: Innviðagjaldi ekki breytt

Sigurður Jökull Ólafsson. Mynd: aðsend.

Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland, samtaka hafna og fleiri hagsmunaaðila sem þjónusta skemmtiferðaskip, segir að í gær hafi borist svar frá atvinnuvegaráðherra við erindi samtakanna um endurskoðun innviðagjaldsins, sem sett var á með lögum fyrir áramót og tók gildi um áramótin. Það er 2.500 kr/farþega fyrirhvern sólarhring.

Ráðherrann segir í svarinu að gjaldið muni standa óbreytt.

Frá þessu er greint í Fiskifréttum í dag.

Þar sem gjaldtakan kemur með svo skömmum fyrirvara leggst gjaldið einvörðungu á skipafélögin en farþegarnir eru búnir að greiða ferðina og verða ekki rukkaðir um gjaldið. Eitt skipafélaganna Norwegian sem sendir stór skemmtiferðaskip til landsins mun þurfa að greiða hálfan milljarð króna í innviðagjald.

Viðbrögð skipafélaganna við innviðagjaldinu hafa verið þau að fækka komum sínum til landsins á árinu 2026 og síðar. Á Ísafirði eru bókaðar um helmingu færri komur á árin 2027 en var í fyrra fyrir árið 2026. Í upplýsingum Bæjarins besta frá Ísafjarðarbæ fyrr í þessum mánuði kom fram að á Ísafirði eru bókaðar um helmingu færri komur á árin 2027 en var í fyrra fyrir árið 2026. Í upplýsingum Bæjarins besta frá Ísafjarðarbæ fyrr í þessum mánuði kom fram að bókunum skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 voru þá aðeins 84 skipakomur bókaðar. Til samanburðar voru um 150 skip bókuð í fyrra á sama tíma fyrir 2026.

  Íslenskur sjávarútvegur á heljarþröm

         eða svo er helst að skilja á útgerðarmönnum – þeim sem treyst hefur verið fyrir gjöfulustu auðlind þjóðarinnar.

Nú þegar gerð er krafa um að þjóðin sem sannarlega er í vanda fái að njóta að einhverju leiti arðsins af auðlindinni þá mótmæla þeir hástöfum sem malað hafa undir sig gullið í áratugi sem handhafar hennar.

Þjóðin hefur í raun verið að borga með sjávarútvegnum um nokkurt skeið þar sem auðlindagjöldin hafa ekki dugað fyrir útlögðum kostnaði ríkisins í tengslum við hann. Það hlýtur að heyra til undantekningar að þjóð þurfi að greiða með sinni gjöfulustu auðlind – vart að finna dæmi um slíkt nema þá helst meðal þjóða sem myndu flokkast sem bananalýðveldi.

Það er eitthvað ekki í lagi þegar okkar áður traustasta tekjulind er fallin undir útgjaldalið í ríkisbókhaldinu.

Nú hljótum við að velta fyrir okkur hvort þjóðkjörnir fulltrúar sem deildu aflaheimildum í upphafi kvótakerfis hafi veðjað á ranga hesta.

Aflaheimildum var úthlutað frítt gegn auðlindargjaldi – ekki svo löngu síðar var þeim sem duttu í lukkupottinn leyft að leigja og eða selja frá sér þessar heimildir – svo spyrja má hvernig í ósköpunum hafi verið hægt að spila svona illa úr hlutunum eins og kveinstafir stórútgerðarinnar vitna nú um verandi með öll tromp á hendi ?

Kveinstafir útgerðarmanna nú segja okkur að þeir hafa brugðist trausti okkar og ekki skilið þá ábyrgð sem þeim var falin – því siðferðilega rétt að þeir skili inn aflaheimildum svo hægt verði að afhenda þær öðrum sem treysta sér til að gera betur fyrir hóflegri arðgreiðslur en tíðkast hafa hjá stórútgerðinni hingað til.

Arðgreiðslur stórfyrirtækja í sjávarútvegi hafa lengi verið umdeildar þar sem um gríðalegar fjárhæðir hefur verið að ræða – enda hér  fyrirtæki á ferð sem ekki hafa treyst sér til að greiða sanngjarna rentu í þjóðarbúið fyrir einkaafnot af dýrmætustu auðlind þjóðarinnar.

Stórútgerðin hefur síðan verið að nota þennan arð til fjárfestinga í í öðrum óskyldum greinum –  þannig aukið völd sín stórlega hér á landi. Í ljósi þessa er vert að hafa í huga að ekkert vald er eins hættulegt og auðvald án ábyrgðar – það hótar og kúgar og það getur sett allt á hliðina þjóni það hagsmunum þess – án tillits til alls annars.

Er fólk yfirleitt að gera sér grein fyrir hvað hér um ræðir?

Laxeldi í nokkrum sjókvíum er að gefa af sér milljarða til eigenda – svo 200 mílna fiskveiðilögsaga ætti ef rétt væri að málum staðið að vera gullnáma þjóðarinnar í dag eins og hún var áður en sjávarútvegurinn var einkavæddur.

Útgerðarmenn bera gjarnan fyrir sig að viðhaldið í greininni sé svo kostnaðarsamt því hún þurfi að vera samkeppnishæf. Þetta er billegur fyrirsláttur – ef laxeldið er tekið til samanburðar þá virðist vera þó nokkur útgerð í kringum það miðað við aflamagn – samt er hagnaðurinn talin í milljörðum og þrátt fyrir tíð afföll í sambandi við sjúkdóm og rof á kvíum.

Norðmenn sækja það fast að fá afnot af íslenskum fjörðum undir laxeldi því það þykir gróðravænlegt – á meðan barma sér íslenskir útgerðarmenn sem hafa yfir að ráða 200 mílna fiskveiðilögsögu og segjast ekki aflögufærir.

Það er eitthvað bogið við þetta

Nú segjast höfðingjar stórútgerðanna  hafa áhyggjur af landsbyggðinni vegna væntanlegra breytinga á veiðigjöldum – en spyrja má hvar þeir hafi verið staddir siðferðilega þegar þeir fóru fjarða á milli og hreinsuðu þar upp kvóta og skildu íbúana eftir bjargalausa. Það virðist þá ekki hafa örlað á samviskubiti hjá þeim né þá heldur áhyggjum af afkomu þeirra sem eftir sátu sviptir lífsviðurværinu og ævistörfunum. Þessar nýtilkomnu áhyggjur höfðingjanna eru auðvitað ekkert annað en fyrirsláttur og hræsni – sem þeir munu væntanlega skýla sér á bak við taki enn frekar að halla undan fæti á landsbyggðinni.

Þessir menn eru gríðalega valdamiklir – þeirra þræðir liggja víða um íslenskt samfélag og þeir þræðir eru ekki spunnir úr gæsku og mannkærleika né heldur samvisku og ábyrgð – þeir eru samtvinnaðir úr græðgi og ásælni í völd og meiri völd.

Fólk talar helst ekki orðið um sjávarútvegsmál hér nema í hálfum hljóðum eins og við messugjörðir af því að það er hrætt við að viðra skoðanir sínar á þessu skrímsli sem sjávarútvegsstefna þjóðarinnar er – sá ótti er ekki sprottinn upp úr engu – það er klárt.

Leiða má að því líkum að sumir flokkar hafi verið farnir að gæla við nýfrjálshyggjuna þegar sjávarútvegsstefnan var í mótun með sínum göllum – sem liggja nú fyrir þar sem sjávarútvegurinn getur vart flokkast undir annað en ríkisstyrktan einkarekstur í dag – samt virðist alltaf vera afgangur til að greiða út rausnalegan arð til hluthafa útgerðanna  – sem á stundum hefur verið notaður til fjárfestinga í ríkiseigum – þeim sem ríkið hefur neyðst til að selja til að geta svo stoppað upp í fjárlagagötin – sem lengi hafa verið árviss af því að þjóðarbúið nýtur ekki lengur arðsins af auðlindinni.

Það kerfi sem smíðað hefur verið í kringum aðrbærustu auðlind þjóðarinnar hlýtur að vera meingallað þar sem réttir eigendur hennar þurfa að borga með henni – það hljóta allir að sjá – en sennilega skortir ráðamönnum kjark eða vilja til að umbylta því í þágu þjóðar.

Hækkun veiðigjalda er vissulega skref í rétta átt og almenningur örugglega þakklátur því að loksins hafi verið hlustað eftir hans vilja – en betur má ef duga skal.

Íslendingar koma stundum saman á Austurvelli til að mótmæla misgjörðum – en vitið – það er líka hægt að mæta á Austurvöll og styðja ríkisstjórn til góðra verka þegar stjórnarandstaðan ætlað með málþófi að standa gegn þjóðarvilja og hag.

Í hvernig þjóðfélagi viljum við búa?

Viljum við búa við alræði auðvaldsins eins og sumstaðar er veruleiki í sjávarplássum út á landi  þar sem stórútgerðir ráða lögum, lofi og lasti – þar sem þeir sem hafa skoðanir á óheilbrigðum stjórnunarháttum eru útilokaðir eða flæmdir á brott.

Svona staðir eru gróðrarstíur spillingar og hún á það til að breiða úr sér eins og sinueldur sé ekkert að gert og þá getur landið allt orðið eins og sjávarplássin sem lúta lögmálum stórútgerðanna í einu og öllu. Sumir vilja meina að landinu sé nú þegar stjórnað af auðvaldinu og að ráðamenn séu einungis þeirra strengjabrúður.

Íslenskur sjávarútvegur hefur lengi verið mitt hjartansmál því ég varð þess áskynja strax í upphafi kvótakerfisins að þar á bæ var ekki allt með felldu.

Sem dæmi þá óskaði hraðfrystistöð ein út á landi sem orðið hafði fyrir áföllum eftir að fá keyptan humarkvóta af bát í öðrum landsfjórðungi sem ekki ætlaði að nýta þann kvóta – þáverandi sjávarútvegsráðherra hafnar þeirri beiðni á þeim forsendum að gjörningurinn myndi brjóta í bága við nýsett kvótalög. Nokkrum klukkutímum síðar hringdi eigandi bátsins í þann sem hafði falast eftir kvótanum í gegnum sjávarútvegsráðuneytið og sagði honum að fyrirtæki í eigu fjölskyldu ráðherrans hafi verið að gera tilboð í humarkvótann. Það var sem sé í lagi að fara á svig við lögin þegar slekti ráðherrans átti í hlut en ekki þegar lítil vinnslustöð sem misst hafði tvo báta var annars vegar.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi sem augljóslega sýna að kvóta í öllum tegundum var markvisst stýrt á „réttar“ hendur.

Spilling hefur loðað við kerfið frá upphafi – það er því freistandi að ætla kerfinu hafi ekki einungis verið komið á til að vernda fiskistofnana heldur og ekki síst til að hefja suma yfir aðra..

Það má svo velta fyrir sér hvort framsalahugmyndin hafi fæðst með kvótakerfinu í bakherbergjum þó hún hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en síðar – þegar þeir „réttu“ voru búnir að sanka að sér aflaheimildum.

Það er ekkert grín að lenda í valdi sem ekki vill láta gagnrýna sig – ég þekki það af eigin raun – skoðanir mínar hafa svo oft fallið í grýttann jarveg hjá valdhöfum svo stundum hef ég átt erfitt með að gera mér grein fyrir hvaðan á mig stendur veðrið – ég get samt aldrei á mér setið þegar óréttlætið er hrópandi og gengur augljóslega gegn almannahagsmunum.

Það eina sem dugar gegn spilltu valdi er samstaða fjöldans.

Spilling verður til svo lengi sem henni er þjónað.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífreyndur eldri borgari.

Sjávarspendýraráðið: aukin áhersla á velferð dýranna

Á mánudaginn var fundur í Nammco, sem er samstarf 11 landssvæða á Norður Atlantshafi um rannsóknir og skynsamlega nýtingu sjávarspendýrastofna. Einkum er þar um að ræða hvali, seli og rostunga. Sáttmáli aðildarríkjanna var undirritaður í Nuuk á Grænlandi á árinu 1992.

Á fundinum, sem haldin var í Tromsö í Noregi, var einkum rætt um öruggari og skjótvirkari aðferðir við aflífun dýrana. Þátttakendur skiptust á upplýsingum um aðferðir og veiðarnar og ræddu um leiðir til þess að gera þær öruggari og stytta veiðitímann sem mest hverju sinni. Lögð var áhersla á að nota bestu fáanlega tækni og þjálfa veiðimenn sem best.

Þátttakendur voru úr hópi veiðimanna, dýralækna og vísindamanna frá Karabíska hafinu, Kanada, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Álandseyjum, Íslandi og Japan.

Vikuviðtalið: Sigurður Bjarki Guðbjartsson

Ég heiti Sigurður Bjarki Guðbjartsson, fæddur árið 1965 í Bolungarvík og ólst þar upp. Því hef ég og mun alltaf líta á mig sem Víkara þó meirihluta æfinnar hafi ég búið á Ísafirði. Æskuárin í Víkinni einkenndust eins og víða í öðrum sjávarbæjum af miklu frjálsræði. Það var mikill uppgangstími, mikið af framkvæmdum og nýbyggingum sem nýttust okkur krökkunum óspart til leikja þó trúlega oft í óþökk húsbyggjenda. Eða höfnin með sitt iðandi mannlíf, trillur og bátar að koma og landa, nú eða bara grípa veiðistöng og fara niður á bryggju að veiða. Þó aflinn væri einungis ófrínilegir marhnútar var það aukaatriði. Um leið og maður hafði aldur til var haldið út á vinnumarkaðinn. Fyrst í frystihúsið eins og flestir unglingar gerðu. Síðar lá leiðin í Vélsmiðju Bolungarvíkur þar sem ég kláraði námssamning og útskrifaðist sem vélvirki.

Þegar ég kynntist fyrri konu minni Bergþóru Borgasdóttur flutti ég til Ísafjarðar hvar við hófum saman búskap. Og hér er ég enn tæpum 40 árum síðar. Saman eigum við þrjú börn, Hákon Óla, Evu Karen og Guðný Ósk. Seinni kona mín er Pannipha Khotsombat frá Tælandi. Hún á einnig þrjú börn svo fjölskyldan er dágóður hópur og má segja nokkuð fjölþjóðlegur því auk Íslands og Tælands er tengdadóttir mín frá Þýskalandi og tengdasonur frá Frakklandi.

Það er ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í gegnum tíðina hér á Ísafirði.  Verið véla og verkstæðismaður hjá Vegagerðinni, stundað leigubílahark, rekið hjólbarðaverkstæði, unnið við framleiðslu á sáraroði hjá Kerecis. En í dag þekkja mig líklega flestir sem Bjarki í Thai Tawee. En árið 2020 keyptum við Pannipha Thai Tawee sem er tælenskur veitingastaður hér á Ísafirði. Fyrri eigendur þau Grétar og Edda höfðu náð að skapa staðnum góðan orðstír og leggjum við Pannipha okkur fram um að viðhalda honum. Reyndar gætum við þetta ekki ein og erum við með þrjár afburða manneskjur í vinnu. Enda tala ég oft um þau sem listafólkið hér á Thai Tawee. Árið 2023 var prófdómari ökuprófa hér að láta af störfum og lagði þungt að mér að sækja um. Lét ég til leiðast og var ráðinn. Hef ég séð um framkvæmd ökuprófa hér á svæðinu síðastliðið eitt og hálft ár meðfram rekstrinum á Thai Tawee.

Svona í lokin langar mig til gamans að segja frá hvað gamall kunningi minn sagði við mig fyrir ekki svo löngu síðan. Hann sagði: Þú ættir að hugsa þig vandlega um ef þú ætlar að skipta um starfsvettvang. Þú réðir þig sem snjómokstursmann hjá Vegagerðinni og strax fyrsta veturinn var brjáluð óveðurstíð með snjóflóði í Súðavík og fleira. Síðar ferð þú að reka hjólbarðaverkstæði og það kemur bankahrun og fjármálakreppa örstuttu síðar. Nú síðast kaupirðu veitingastað og tíu dögum eftir að þú tekur við staðnum kemur Covid19 til Íslands með allt sem því fylgdi. Þannig ef þú ert að spá í að skipta um starfsvettvang held ég þú ættir ekki að sækja um vinnu hjá t.d. Landsvirkjun. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst!

Atvinnuvegaráðuneyti skoðar að banna hrefnuveiðar í Djúpinu

Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ritað bréf til atvinnuvegaráðherra og farið fram á að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala og að ráðherrann setji reglugerð um það.

Í bréfinu kemur fram að tilefnið er að veitt hefur verið leyfi til fimm ára til hrefnuveiða og að hrefnuveiðimenn hafi lýst því yfir að veiðarnar muni fara fram í og við Ísafjarðardjúp. Aðeins sáust tvær hrefnu í Djúpinu við rannsóknir á síðasta ári sem fram fóru frá júní til september.

Nú hefur ráðuneytið ritað bréf og óskar umsagnar um tillögu um griðarsvæði hvala í Ísafjarðardjúpi.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi málið í vikunni.

Bæjarráðið var sammála um að skoðaðir verði möguleikar þess að koma í veg fyrir árekstra milli hvalaskoðunar og hvalveiða. Bæjarráðið telur svæðisráð strandsvæðiskipulags Vestfjarða sé tilvalin vettvangur til að ræða umræddar tillögur og gefa umsögn.

Af því tilefni ítrekaði bæjarráðið áskorun á ráðherra um að skipa nýtt svæðisráð við fyrsta tækifæri.

Ísafjörður: svæðisráðið rétti vettvangurinn

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í síðustu viku sams konar erindi frá Sjóferðum ehf, þar sem óskað var eftir jákvæðum undirtektum Ísafjarðarbæjar, vegna erindis Samtaka ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, dags. 24. febrúar 2025, til ráðherra, þess efnis að Ísafjarðardjúp, allt frá mynni þess, verði skilgreint griðarsvæði hvala með reglugerð settri af ráðherra.

Bæjarráðið bókaði að Ísafjarðarbæjar geti „tekið undir að hvalveiðar og hvalaskoðun eigi illa samleið ef ekki er hugað að sambúð þessara atvinnugreina. Bæði minnkar það sem af er tekið, en einnig geta veiðarnar, löndun og verkun haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Ein leið er að stofna griðarsvæði eins og bréfritarar leggja upp með, en einnig má hugsa sér aðrar takmarkanir í tíma eða rúmi.“

Þá vísaði bæjarráðið til þess að svæðisráð um strandsvæðaskipulag væri rétti vettvangurinn til þess að fjalla um þetta efni:

„Í þessu samhengi er einnig tilefni til að minnast á frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða sem lagt var fram á Alþingi fyrr í mánuðinum. Þar er kveðið á um að svæðisráð geti starfað eftir að strandsvæðaskipulag hefur verið samþykkt. Bæjarráð telur eftir á að hyggja bagalegt að hvalveiðar hafi ekki teknar til skoðunar í svæðisskipulaginu sem samþykkt var fyrir nokkrum misserum. Svæðisskipulag er rétti vettvangurinn til að ákveða hvar og undir hvaða skilyrðum hvalveiðar eigi að leyfa.“

Vesturbyggð: Brák byggir sex íbúðir

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt að greiða stofnframlög vegna bygginga á sex leiguíbúðum á Patreksfirði. Það er Brák íbúðarfélag hses sem byggir.

Heildarframlag Vesturbyggðar eru 34.878.816 kr. sem eru 12% af byggingakostnaði. Það skiptist þannig að þar af eru 9.608.970 kr. opinber gjöld og beint fjárframlag eru 25.269.846 kr.

Gert er ráð fyrir framlaginu í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2025.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur fram 18% af byggingarkostnaði.

Jarðhiti jafnar leikinn

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki vegna átaksins Jarðhiti jafnar leikinn, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti nýlega.

Um er að ræða stærsta jarðhitaátak sem farið hefur verið í hér á landi á þessari öld, en alls verður einum milljarði króna varið í átak til leitar og nýtingar jarðhita á árunum 2025-2028.

Áhersla er lögð á stuðning við nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Um 10% heimila landsins eru á svo nefndum köldum svæðum og ver ríkissjóður árlega rúmlega 2,5 milljörðum króna til niðurgreiðslu húshitunar á þeim.

Styrkirnir sem nú hafa verið auglýstir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í þeirra umboði. Við styrkveitingar verður m.a. horft til þess að nokkur þekking sé þegar til staðar á jarðhita viðkomandi svæðis og að vísbendingar séu um að finna megi heitt vatn sem hægt sé að nýta beint inn á hitaveitu, eða volgt vatn í nægilegu magni svo nýta megi á miðlæga varmadælu á svæðum.

Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði verkefnisins gegn mótframlagi umsækjanda. Verkefnin geta snúið að því að hefja nýtingu þar sem það á við, eða að frekari rannsóknum með vísan í fyrri niðurstöður.

Byggðastofnun með styrki vegna starfa á landsbyggðinni

Með aðgerð sem nefnist B.7. byggðaáætlun er markmiðið að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.

Ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrkina vegna starfa utan svæðisins eða starfa sem hafa verið færð frá höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. nóvember 2024.

Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Ekki verða veittir styrkir vegna tímabundinnar fjarvinnu eða blendingsstarfs, þ.e. starfs sem unnið er bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins.

Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári.

Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.

Púkinn fer fram dagana 31. mars-11. apríl

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, verður haldin í þriðja sinn dagana 31. mars-11.apríl.

Á hátíðinni verður fjöldi spennandi viðburða fyrir vestfirsk börn. Hryggjarstykki hátíðarinnar að þessu sinni eru valdeflandi leiklistarsmiðjur, þar sem unnið verður eftir aðferðum Theatre of the Opressed, undir handleiðslu Birgittu Birgisdóttur sem heimsækir krakka á miðstigi í grunnskólum á Vestfjörðum.

Hátíðin sem áður er í góðu samstarfi við List fyrir alla og munu hinir hæfileikaríku Frach bræður fara víða með tónleikadagskrána Árstíðir, en á þeim stöðum sem þeir verða ekki býður List fyrir alla upp á Eldblómið í maí. UngRIFF hefur þegar heimsótt bæði Reykhóla og unglingastigið á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.

12 verkefni fengu styrk úr Púkasjóðnum til að bjóða upp á vandaða barnamenningu.

Katerina Blahutova kemur með Sæskrímslabúrið inn í grunnskólana á Bíldudal og Ísafirði. Trumbur, tröll og jötnar fara fram í grunnskólanum á Drangsnesi og Emil Kohlmayer verður með vinnustofur í sviðslistum fyrir krakka í Vesturbyggð. Aðrir viðburðir sem hlutu styrk en verða haldnir utan skóla eru: Vestfirska þjóðsagnagerðin sem haldin verður á Galdrasýningunni á Hólmavík, Þjóðsögustofan sem haldin verður í Bókasafni Vesturbyggðar, Púkapodcast – hlaðvarpsgerð fyrir ungmenni, verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, Ævintýraheimur myndskreytinga, verður í Listasafni Ísafjarðar, Námskeið í frásagnarlist með Ragnheiði Þóru Grímsdóttur verður á Reykhólum, Langspilssmiðjur með Eyjólfi Eyjólfssyni á Hólmavík, Safnabingó Minjasafns Egils Ólafssonar, Furðuverur á flandri í Bókasafninu í Bolungarvík og Tröll segja sögur á Bókasafninu á Ísafirði.

32% lækkun á ráðlögðum grásleppuafla

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2024/2025 verði ekki meiri en 2760 tonn. Er það um 32% lækkun milli ára.

Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvísitölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2025 en einnig frá árinu á undan. Vísitala þessa árs var sú næst lægsta síðan að mælingar hófust 1985. Vísitala síðasta árs var einnig lág og vel undir langtíma meðaltali.

Stofnvísitölur hrognkelsa sveiflast milli ára, sem endurspegla að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla.

Að teknu tilliti til þess leggur Hafrannsóknastofnun jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2025/2026 verði 662 tonn.

Nýjustu fréttir