Í upphafi ársins 2025 tók gildi ný löggjöf, sem felur í sér að embættið fer nú með framkvæmd laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999.
Í upphaflegu lögunum um sjóði og stofnanir var kveðið á um að dómsmálaráðherra annaðist framkvæmd laganna, þ.e. hefði eftirlit með ýmsum þáttum sjóða og stofnana sem undir lögin falla. Hins vegar var Ríkisendurskoðun með lögunum falið að annast móttöku og yfirferð ársreikninga þeirra aðila sem lögin taka til.
Árið 2006 var ákveðið að færa þann þátt framkvæmdar laganna sem dómsmálaráðuneytið annaðist til sýslumanna og hefur hún verið hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra þar til nú. Áfram skyldi Ríkisendurskoðun þó annast móttöku og kalla eftir þeim ársreikningum sem í lögunum var kveðið á um. Þó hefur ekki verið beitt neinum viðurlögum ef útaf hefur verið brugðið með skil ársreikninga og nokkuð um að þeim hafi ekki verið skilað.
Auk áðurnefndra tilflutninga um síðustu áramót tók gildi nýtt ákvæði þess efnis að þeir aðilar sem lögin taka til og ekki skiluðu ársreikningum fyrir 1. september næsta ár skyldu sæta stjórnsýslusektum að fjárhæð allt að kr. 600.000. Var jafnfram ákveðið að móttaka ársreikninga færðist frá Ríkisendurskoðun til Sýslumannsins á Vestfjörðum auk þess að embættið skyldi annast álagningu stjórnsýslusekta ef skilum var ekki sinnt. Ekki er ljóst um hversu viðamikið verkefni er að ræða en skilskyldir aðilar voru um síðustu áramót 681.
Auk framangreinds var ákveðið að umsýsla með trú – og lífsskoðunarfélögum færðist til embættisins frá embætti Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, þar með talin móttaka árlegra skýrslna trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem skila ber fyrir 31. mars ár hvert. Um skil ársreikninga þessara félaga gilda frá og með síðustu áramótum sömu reglur og viðurlög ef útaf er brugðið og að framan greinir um sjóði og stofnanir.
Rétt þótti að þessum verkefnum yrði sinnt á skrifstofu embættisins á Patreksfirði til að efla starfsemina þar og til þess ráðnir einn skrifstofumaður og einn lögfræðingur, sem nýlega hófu störf.
Allt hefur þetta kallað á nokkurn undirbúning, ekki síst varðandi tölvukerfi og forritun og er sú vinna í fullum gangi. Embættið hefur átt góða samvinnu við dómsmálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun sem og embætti sýslumannanna á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra sem samkvæmt sérstöku samkomulagi veita enn trausta handleiðslu í ýmsum þáttum þeirra verkefna sem þau önnuðust.
Föstudaginn 8.mars sl. færði svo Ríkisendurskoðun embættinu öll pappírsgögn sem stofnunin varðveitti og lúta að sjóðum og stofnunum og teljast enn hafa þýðingu fyrir þetta nýja verkefni embættisins og þurfti undir þau þrjá kassa. Var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. Eldri gögn voru afhent Þjóðskjalasafni til varðveislu en öll gögn sem varðveitt voru á tölvutæku formi hafa verið send embættinu.

Á myndinni má sjá Jarþrúði Hönnu Jóhannesdóttur, sviðsstjóra og staðgengil ríkisendurskoðanda, Jónas B. Guðmundsson, sýslumann á Vestfjörðum og fyrir framan þau standa Martyna Julia Czubaj, skrifstofumaður og Thelma Dögg Theodórsdóttir, lögfræðingur og milli þeirra þeir kassarnir sem nefndir voru.