Guðlax ehf hefur sótt um að breyta Hafnarbraut 8 á Bíldudal. Áformað er að byggja 109,3 m2 hæð úr timbri ofan á húsið og fjölga íbúðum úr einni í tvær. Húsið er steinsteypt, byggt árið 1954.
Mikill íbúðaskortur er á Bíldudal og kemur fram í húsnæðisáætlun Vesturbyggðar að þörf sé á 73 íbúðum næstu 10 árin þar sem fjölga muni um 100 manns á tímabilinu samkvæmt miðspá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar en er ódeiliskipulagt.
Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við Heimastjórn Arnarfjarðar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna byggingaráformin og fjölgun íbúða fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ráðið leggur til að framkvæmdin verði grenndarkynnt fyrir eigendum fasteignanna að Hafnarbraut 6 og 10, Dalbraut 1, 7 og 9.

Uppdrættir af breytingunum.