Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur dæmt Elmar Atla Garðarsson í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 18. mars 2025 til og með 18. maí 2025.
Heimilt er að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ.
Málið er tilkomið í kjölfar almennrar vöktunar veðmála hjá KSÍ vegna tilkynninga um veðmál. Fram kemur í dómnum að KSÍ hafi í október 2024 valið tíu leikmenn Bestu deildar karla af handahófi í því skyni að kanna veðmálasögu þeirra á árinu 2024.
Listi leikmanna var sendur UEFA sem aflaði í kjölfarið gagna frá Malta Gaming Authority (MGA) um veðmálasögu þessara tíu leikmanna hjá veðmálafyrirtækjum sem sæta eftirliti MGA.
Í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ kemur fram að gögnin sýni fram á tugi veðmála leikmannsins á leiki í mótum á vegum KSÍ á tímabilinu 17. janúar 2024 til 27. október s.á. Samkvæmt greinargerð er um að ræða 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Mjólkurbikar og tvo leiki í Lengjubikar, og var Vestri þátttakandi í öllum þessum mótum.
Leikmaðurinn gekkst við brotum á lögum og reglugerðum KSÍ og baðst afsökunar á þeirri rýrð sem háttsemi hans hefur varpað á knattspyrnuhreyfinguna. Kærði benti á að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki, fjárhæðir hafi verið óverulegar og veðmálin verið gerð til skemmtunar án þess að leikmaðurinn hafi áttað sig á alvarleika þeirra.
Aga- og úrskurðarnefndin tók tillit til þess tillit til þess sem og þess að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi með brotum sínum reynt að hagræða úrslitum leikja.