Síða 2

Okkar villtustu draumar!

Fyrir réttum tuttugu árum varð til  hópur einstaklinga, fyrirtækja og opinberra stofnana, sem vildi koma á fót menntastofnun á háskólastigi á Vestfjörðum. Í sjálfu sér var það rökrétt framhald baráttu þeirra einstaklinga sem börðust fyrir mennta/framhaldsskóla í heimabyggð á Vestfjörðum, en slíkur var stofnaður 1970 og var löngu búinn að sanna ágæti sitt, festa sig í sessi og auka menntunarstig Vestfirðinga mikið.

Eins og alltaf voru einhverjar úrtöluraddir en þær höfðu ekki nokkur áhrif á frumkvöðla stofnunar Háskólaseturs, sem voru 42 og héldu þeir ótrauðir áfram og beittu sér fyrir tilurð þess.

Nú tuttugu árum síðar þegar litið er um öxl er ekki hægt að segja annað en að vel hafi til tekist.

Svo vel að þessi stofnun hefur farið langt fram úr villtustu draumum okkar stofnenda.

Ísafjörður, sem hefur frá alda öðli verið mikill menningar- og menntabær hefur fyrir tilstilli Háskólaseturs Vestfjarða komist á „alheimskortið“ sem slíkur og þannig hefur hróður og kostir þessa landshluta orðið stórum hluta heimsbyggðarinnar augljós. Leyfi ég mér að fullyrða að einmitt það eigi ekki hvað síst þátt í því hversu margir ferðalangar utan úr heimi sækja Vestfirði heim.  Nemendur skólans hafa gætt mannlíf okkar Vestfirðinga nýjum straumum, sem hafa munu veruleg áhrif til góðs fyrir menningu, atvinnulíf og víðsýni okkar bæði í nútíð og framtíð.

En vel að merkja, þessi árangur hefði ekki náðst án tilvistar forstöðumanns, starfsmanna skólans og samhentrar stjórnar hans, sem okkar „gamli“ bæjarstjóri Halldór Halldórsson fór lengst af fyrir og í dag Harpa Grímsdóttir. Þeim öllum ber að þakka fyrir frábært og óeigingjarnt starf í þágu Vestfjarða.

Vestfirðingar, til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða. Haldið áfram að styðja þessa stofnun, sem verður  áður en langt um líður, ein af sterkustu innviðastoðum Vestfjarða.

Hér með hvet ég alla einstaklinga og fyrirtæki á Vestfjörðum að gaumgæfa starfsemi þessarar merku stofnunar og leggja henni lið að fremsta megni, því hún á eftir að hafa mikil áhrif á framtíð Vestfjarða.

Þorsteinn Jóhannesson Dr. Med. Skurðlæknir, fyrrverandi yfirlæknir á sjúkrahúsi Ísafjarðar, einn af stofnendum Háskólaseturs og formaður fulltrúaráðs þess til 9 ára.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: mikil skerðing á framlögum Súðavíkurhrepps

Súðavík. Sveitarfélagið er til húsa í þessu húsi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Tillögur Innviðaráðuneytisins að nýjum úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu lækka framlögin til Súðavíkurhrepps um 67-68%. Þetta kemur fram í umsögn Súðavíkurhrepps um frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er tillögunum líkt við hamfarir fyrir sveitarfélagið.

Tillögurnar eru sagðar blanda pólitískum markmiðum um fækkun sveitarfélaga inn í úthlutunina með því að lækka framlögin til fámennra sveitarfélaga. Spurt er hvort það sé hlutverk Jöfnunarsjóðs að knýja sveitarfélögin í þrot og ná þannig fram fækkun þeirra.

Í hinum nýju reglum er aukið við framlög til svonefndra fjölkjarna sveitarfélaga eins og Ísafjarðarbæjar og tekur Súðavíkurhreppur undir að það sé eðlilegt og því verði þá mætt með línulegri skerðingu á öll önnur sveitarfélög. Hins vegar sé skerðingin sem Súðavík sé ætlað að bera ósanngjörn, sveitarfélagið sé landmikið og fámennt.

Ísafjarðarbær: fimm umsóknir í Fiskeldissjóð

Félagsheimilið á Þingeyri. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á mánudaginn að leggja inn umsóknir fyrir fimm verkefni í Fiskeldissjóð.

Um er að ræða hönnun slökkvistöðvar á Ísafirði og framkvæmdir við grunn byggingarinnar, endurnýjun lagna í Sundhöll Ísafjarðar, endurbætur á félagsheimilinu á Þingeyri, varmadælur fyrir Torfnesvöll og jarðgerðarvél (moltuvél).

Bæjarráð telur rétt að forgangsraða verkefnum þannig að fyrir gangi verkefni þar sem hægt er að ljúka framkvæmdum á þessu ári.

Félagsheimili Þingeyri

  • Sótt er eingöngu fyrir 2025
  • Sótt er um vegna endurbóta innan og utandyra, fyrir nýju gólfi, hitakerfi,
    gluggum og múrviðgerðum.

Sundhöll Ísafjarðar

  • Sótt er eingöngu fyrir 2025
  • Sótt er um styrk vegna endurbóta innan -og utanhúss, ásamt endurnýjun
    lagnakerfis.

Jarðgerðarvél

  • Sótt er eingöngu fyrir 2025
  • Sótt er um fyrir innkaupum og uppsetningu á jarðgerðarstöð

Slökkvistöð á Suðurtanga 1

  • Fyrirvari er um að mögulega verður sótt um aftur fyrir 2026.
  • Sótt verður um styrk fyrir hönnun, útboð og fyrsta fasa verkframkvæmda 2025

Torfnes – Varmadælur

  • Sótt er um eingöngu fyrir 2025
  • Endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, þar sem farið verður í endalega
    hönnun ef styrkur fæst.
  • Kostnaðaráætlun er byggð á mati Bláma en skekkjumörk geta verið töluverð
    vegna óvissuþátta í hönnun og innkaupaverða
  • Rekstrarkostnaður er einnig breytilegur og fer eftir vali á búnaði og hönnun
    lausnarinnar.

Steinshús

Steinshús er sjálfseignarstofnun sem hóf starfsemi 2008 þegar öld var liðin frá fæðingu Steins Steinarrs skálds (1908-1958). Steinshús var opnað 15. ágúst 2015 með sýningu um Stein Steinarr. Hlutverk Steinshúss er að gera skil ferli Steins Steinarrs skálds, uppruna hans á norðanverðum Vestfjörðum, áhrifum hans á samferðafólk og seinni tíma kynslóðir. Það gerir safnið með því að varðveita, rannsaka og sýna gögn, gripi og aðrar minjar sem tengjast Steini. Steinshús safnar minjum sem gefa mynd af sögu Steins og hans samtíma.

Í starfi sínu hefur Steinshús samráð og samvinnu við söfn á svæðinu og söfn sem halda á lofti minningu skálda er voru samtíða Steini sem og aðra opinbera aðila er annast minjavernd og skjalavörslu í landinu, þ.m. Byggðasafn Vestfjarða og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir fágæt skjöl og útgáfur sem berast Steinshúsi.

Í stofnsamþykktum Steinshúss segir svo um hlutverk þess:

Tilgangur Steinshúss er að safna saman og varðveita skjöl, muni, myndir og önnur gögn sem tengjast Steini Steinarr, lífi hans og tengslum hans við fæðingarsveit sína, Nauteyrarhrepp, skáldferli hans, áhrifum hans og arfleifð í þeim tilgangi að miðla til almennings m.a. með sýningahaldi, erindaflutningi, málþingum, virkri vefsíðu og útgáfu. Steinshús leggur sérstaka áherslu á bókmenntasögu fyrri hluta tuttugustu aldar með rannsóknum sem og almennri kynningu á ferli Steins og hvers konar miðlun þessa efnis, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við aðra.

Platti


Á meðal muna sem eru í eigu Steinshúss eru skriffæri, bækur, bollastell og fleiri smámunir sem voru í eigu Steins og koma frá ættingjum Ásthildar Björnsdóttur, konu Steins. Einnig gamlar útgáfur af ljóðabókum Steins, ástarbréf frá honum til heimasætunnar í Fagradal, bókin Tindátarnir, diskur hannaður af Guðmundi frá Miðdal, málverk af Steini eftir Einar Hákonarson, Hallgrím Helgason og fleira eins og húsgögn og aðrir munir frá Ósi í Steingrímsfirði, en þangað vandi Steinn komur sínar.

Af sarpur.is

Þrettán verkefni fá 140 milljónir – 30 milljónir til Vestfjarða

Flateyri

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum kr. til þrettán fjölbreyttra  verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag til styrkjanna kemur af byggðaáætlun (aðgerð C.1 – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða). Alls bárust nítján umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 m.kr.

Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Valnefndina skipa Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður, Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. 

Þrjú verkefni á Vestfjörðum fengu styrk:

Byggðabragur – sjálfsmynd íbúa og ímynd nýs sveitarfélags

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 9,4 m.kr.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinuðust árið 2024. Svæðið hefur átt undir högg að sækja í áratugi og umfjöllun oft reynst íbúum erfið. Verkefnið miðar að því að styrkja sjálfsmynd svæðisins og vinna með sveitarfélaginu og íbúum að því að skapa framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag og byggja á henni ímyndarsókn. 

Tenging fjárfesta við innviði og auðlindir á Vestfjörðum

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 10,6 m.kr.

Verkefnið gengur út á að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Vestfjörðum með því að kynna vannýttar auðlindir og staðsetningar fyrir fjárfestum sem hafa áhuga og getu til nýfjárfestinga í matvælaframleiðslugreinum eins og landeldi, smáþörungaframleiðslu og líftækni, ásamt öðrum greinum sem styðja við verðmætasköpun á svæðinu. 

Samræmd móttaka og inngilding íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

  • Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
  • Styrkupphæð: 10 m.kr.

Verkefnið snýr að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélög á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélög. Annar hlutinn snýr að því að vinna með sveitarfélögum að því að finna leiðir innan stjórnsýslunnar til þess að raddir íbúa af erlendum uppruna nái að heyrast. 

Hafís gæti færst nær landi

Hafískort byggt á VIIRS-gervitunglamyndum. Ísjaðarinn er næst landi um 65 SML út af Straumnesi. Vestan- og suðvestanáttir næstu daga geta borið borgarís að landi, einkum á Vestfjörðum, Ströndum, Húnaflóa og Skaga.

Á sunnudag mátti sjá borgarísjakar á gervitunglamynd Sentinel um 2,5 sjómílur N frá Kögri. 66°30N 22°53’V; 11 sjómílur frá Körgi: 66°39’N 22°55’V; og 12 sjómílur V af Galtarvita: 66°15’N og 24°02V.

Atvinnuvegaráðherra ætlar að tryggja 48 daga strandveiðar með reglugerð

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í morgun í viðtali við Ríkisútvarpið að nýtt frumvarp um strandveiðar muni ekki nást fyrir sumarið. Hún ætli hins vegar að tryggja 48 daga strandveiðar í sumar með reglugerð.

Ráðherrann segir að frumvarpið sem lagt verður fram á næstu mánuðum muni tryggja utanumhald og eftirlit með strandveiðum.

„Við erum að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika með það hvenær þarf að sækja um leyfið. Við erum að tryggja að sá sem veiðir eigi 51 prósent eða meira í bátnum til þess að tryggja eins og við getum að þetta skilji eftir í heimahöfn eða heimabyggð eins og ætlunin er.“ sagði ráðherrann í viðtalinu.

Húsafriðunarsjóður: 24 styrkir til Vestfjarða

Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson á Flateyri var ein af mörgum byggingum á Vestfjörðum sem fékk styrk úr Húsafriðingarsjóði í ár.

Úthlutað hefur verið úr Húsafriðunarsjóði fyrir þetta ár 2025. Minjastofnun Íslands bárust alls 242 umsóknir um styrki samtals að upphæð 1.243.927.679 kr. Styrkir eru veittir til 178 verkefna, samtals að upphæð 265.500.000 kr.

friðlýstar kirkjur

Í flokknum friðlýstar kirkjur voru veittir styrkir að fjárhæð 75,3 m.kr. Fimm kirkjur á Vestfjörðum fengu styrk að þessu sinni. Það voru:

Eyrarkirkja , Seyðisfirði 1,5 m.kr.

Árneskirkja eldri, Trékyllisvík, Ströndum 2,4 m.kr.

Staðarkirkja, Aðalvík 1,4 m.kr.

Súðavíkurkirkja 0,9 m.kr.

Sæbólskirkja, Ingjaldssandi, Önundarfirði 0,7 m.kr.

friðuð hús og mannvirki

Í flokknum friðuð hús og mannvirki fóru 14 styrkir til Vestfjarða.

Árós, Strandgata 3b, Hnífsdal 0,4 m.kr.

Gamli spítalinn, Aðalstræti 69, Patreksfirði 0,8 m.kr.

Gramsverslun, Vallargata 1, Þingeyri 0,9 m.kr.

Hafnarstræti 3, Þingeyri 2,0 m.kr.

Herkastalinn, Mánagata 4, Ísafjarðarkaupstað 1,0 m.kr.

Hesteyri, skólahús, Jökulfjörðum 2,3 m.kr.

Holtastígur 9, Bolungarvík 1,3 m.kr.

Karlsbúð, Silfurgata 2, Ísafjarðarkaupstað 1,0 m.kr.

Rauða húsið, Suðurgata 10, Ísafjarðarkaupstað 0,2 m.kr.

Sjóarhús, Suðureyri, Tálknafirði 0,5 m.kr.

Sveinseyri, gamli bærinn, Tálknafirði 0,7 m.kr.

Sveinseyri ytri, Steinhús, Tálknafirði 1,0 m.kr.

Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson (Gamla bókabúðin) Flateyri 1,8 m.kr.

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar, Þingeyri 1,5 m.kr.

önnur hús og mannvirki

Í flokknum önnur hús og mannvirki voru veittir fimm styrkir til Vestfjarða.

Eysteinseyri, hjallurinn, Tálknafirði 0,4 m.kr.

Síldarverksmiðjan Eyri, Ingólfsfirði 0,9 m.kr.

Síldarverksmiðjan Djúpavík, Ströndum 0,9 m.kr.

Sæbólsskóli, Aðalvík 1,0 m.kr.

Veðramæti, Aðalstræti 77a, Patreksfirði 0,5 m.kr.

Kalkþörungaverksmiðjan Bíldudal: áfrýjar dómi til Landsréttar

Verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

Íslenska kalkþörungaverksmiðjan hf hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um endurákvörðun skatta fyrir 5 ára tímabil, 2016 – 2020, til Landsréttar. Ríkisskattstjóraembættið og yfirskattanefnd höfðu hækkað tekjur fyrirtækisins um 488 m.kr. með þeim rökum að móðurfélagið Marigot Ltd. hefði stýrt afkomu samstæðu félagana með þeim hætti að enginn skattskyldur hagnaður yrði til hjá íslenska kalkþörungafélagini á Bíldudal.

Félagið skaut málinu til dómstóla og Héraðsdómur staðfesti ákvörðun yfirskattanefndar og Ríkisskattstjóra.

Halldór Halldórsson, forstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að félagið væri ósammála dómnum í öllum atriðum. Tveir dómkvaddir matsmenn hefðu verið fengnir til þess að gera greiningu á verðlagningunni og bera saman við sambærileg fyrirtæki í Evrópu og hefðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að útreikningar íslenska kalkþörungafélagisins væri réttir. Héraðsdómur hefði hins vegar vísað áliti þeirra frá.

Halldór sagði að ekkert félag gæti lifað við dóminn, það væri ekki hægt að greiða skatta af tekjum sem ekki væru til.

3

hagnaður yrði til hjá

stefn

anda á Íslandi

.

Endurnýjun á björgunarskipinu Gísla Jóns framundan

Framundan er endurnýjun á björgunarskipinu Gísla Jóns en skipið er smíðað árið 1990 í Noregi. Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur nú fyrir endurnýjun björgunarskipa hringinn í kringum landið og er röðin komin að Gísla Jóns.

Á Ísafirði hefur verið rekið björgunarskip frá árinu 1988 þegar björgunarsveitin Skutull og Tindar keyptu Daníel Sigmundsson, nýjan björgunarbát frá Noregi.  Var tilkoma Daníels mikil breyting í björgunargetu á svæðinu og nú, tæplega 40 árum seinna stendur til að ráðast í nýsmíði að nýju en undanfarnir björgunarbátar hafa verið keyptir notaðir frá Þýskalandi, Bretlandi og Noregi.

Björgunarskipin hafa oft á tíðum skipt sköpum þegar kemur að því að tryggja öryggi sjómanna við strendur landsins. Á hverju ári fara björgunarskip félagsins í 130-150 útköll, allt frá aðstoð við vélarvana báta, strönduð skip eða til að sækja slasaða sjófarendur svo eitthvað sé nefnt. Skipið á Ísafirði sinnir einnig flutningi á sjúkum eða slösuðum ferðamönnum og sumaríbúum í Jökulfjörðum og Hornströndum og er jafnvel stjórnstöð í leitum á þessum svæðum. Skipið gegnir einnig mikilvægu öryggishlutverki þar sem erfitt getur verið með samgöngur á landi, eins og hér á norðanverðum Vestfjörðum. Meðalfjöldi útkalla síðustu ár hjá Gísla Jóns hafa verið um 25 útköll á ári

Þetta er stærsta einstaka fjáröflunaverkefnið sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur ráðist í og um leið samfélagslega mikilvægt verkefni. Heildarkostnaðaráætlun við endurnýjunina eru 4,4 milljarðar. Íslenska ríkið leggur til 50% vegna fyrstu 10 skipanna og viðræður standa yfir um aðkomu ríkisins um fjármögnun síðustu þriggja skipanna.

Verkefnið hefur farið vel af stað og nú eru komin til landsins 4 ný skip og von er á tveimur á þessu ári, afhending á nýjum Gísla Jóns er áætluð í lok október. Það sem kemur í hlut heimamana að leggja til allt að 25% af smíðaverði skipanna og því er nú að hefjast söfnun fyrir hlut Björgunarbátasjóðsins sem rekur skipið.

Helstu upplýsingar um nýtt skip:

Lengd: 16.9 metrar
Breidd 4.5 metrar
Vélar: 2x551kw
Hámarksganghraði: 30 mílur
Farsvið: 200 mílur
Sjálfréttandi
Ásamt öllum helstu björgunartækjum

Nánari upplýsingar um söfnunina gefur stjórn Björgunarbátasjóðsins: Gauti Geirsson 8441718, Ragnar Kristinsson 8920660,  Eggert Stefánsson 8933895 og Guðmundur Sigurlaugsson 8919888.

Nýjustu fréttir