Föstudaginn 14.mars verður Háskólinn á Bifröst með kynningu á námsframboði sínu í Menntaskólanum.
Kynningin verður í Gryfjunni kl.12:40 – 13:10. Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir umsjónarmaður háskólagáttar háskólans á Bifröst verða á staðnum til að spjalla við nemendur um allt sem viðkemur háskólanum og náminu.
Bifröst er fjarnáms háskóli og er námsferill nemenda að mestu undir þeim kominn. Fjarnám hentar t.d. þeim vel sem eiga ekki kost á að sækja staðarnám eða vilja stunda nám samhliða starfi.
Þá verða Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Háskólasetur Vestfjarða með kynningu á sínu námsframboði föstudaginn 28. mars frá kl. 12:30 – 14:00 í Menntaskólanum.
Aðalfundi Vesturferða sem halda átti í síðustu viku var frestað eftir að bréf barst fá einum hluthafanna þar sem gerðar voru athugasemdir við nokkur atriði. Staðfestur ársreikningur hafi ekki verið lagður fram og því ekki hægt að taka hann til afgreiðslu. Einnig var gerð athugasemd um arðgreiðslu sem stjórn félagsins leggur til.
Jón Auðunsson, framkvæmdastjóri Vesturferða staðfesti að tillaga væri um 45 m.kr. arðgreiðslu. Rekstur félagsins hafi gengið vel síðustu tvö ár og verið metár. Hagnaður af rekstri hefði verið 43,6 m.kr. i fyrra. Aðeins einu sinni áður í sögu félagsins hefði verið greiddur arður sem þá var 1 m.kr.
ólögmæt eigendaskipti að hlutafé
Í bréfinu er einnig gerð athugasemd við eigendaskipti að hlutafé í félaginu á síðasta ári og fullyrt að um ólögmæt viðskipti hafi verið að ræða. Á síðasta ári hafi hlutir gengið kaupum og sölum án þess að stjórn hafi upplýst hluthafa um það sem eigi forkaupsrétt. Segir í bréfinu að grunur sé um að einn stjórnarmanna hafi tekið þátt í sölu á hlutum til sjálfs síns og haft þá upplýsingar um stöðu félagsins sem aðrir hluthafa höfðu ekki. Skrá yfir hluthafa sé röng þar sem eigendaskipti að hlutum án þess að gæta að forkaupsrétti annarra hluthafa séu óskuldbindandi.
Í upphafi ársins 2025 tók gildi ný löggjöf, sem felur í sér að embættið fer nú með framkvæmd laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999.
Í upphaflegu lögunum um sjóði og stofnanir var kveðið á um að dómsmálaráðherra annaðist framkvæmd laganna, þ.e. hefði eftirlit með ýmsum þáttum sjóða og stofnana sem undir lögin falla. Hins vegar var Ríkisendurskoðun með lögunum falið að annast móttöku og yfirferð ársreikninga þeirra aðila sem lögin taka til.
Árið 2006 var ákveðið að færa þann þátt framkvæmdar laganna sem dómsmálaráðuneytið annaðist til sýslumanna og hefur hún verið hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra þar til nú. Áfram skyldi Ríkisendurskoðun þó annast móttöku og kalla eftir þeim ársreikningum sem í lögunum var kveðið á um. Þó hefur ekki verið beitt neinum viðurlögum ef útaf hefur verið brugðið með skil ársreikninga og nokkuð um að þeim hafi ekki verið skilað.
Auk áðurnefndra tilflutninga um síðustu áramót tók gildi nýtt ákvæði þess efnis að þeir aðilar sem lögin taka til og ekki skiluðu ársreikningum fyrir 1. september næsta ár skyldu sæta stjórnsýslusektum að fjárhæð allt að kr. 600.000. Var jafnfram ákveðið að móttaka ársreikninga færðist frá Ríkisendurskoðun til Sýslumannsins á Vestfjörðum auk þess að embættið skyldi annast álagningu stjórnsýslusekta ef skilum var ekki sinnt. Ekki er ljóst um hversu viðamikið verkefni er að ræða en skilskyldir aðilar voru um síðustu áramót 681.
Auk framangreinds var ákveðið að umsýsla með trú – og lífsskoðunarfélögum færðist til embættisins frá embætti Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, þar með talin móttaka árlegra skýrslna trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem skila ber fyrir 31. mars ár hvert. Um skil ársreikninga þessara félaga gilda frá og með síðustu áramótum sömu reglur og viðurlög ef útaf er brugðið og að framan greinir um sjóði og stofnanir.
Rétt þótti að þessum verkefnum yrði sinnt á skrifstofu embættisins á Patreksfirði til að efla starfsemina þar og til þess ráðnir einn skrifstofumaður og einn lögfræðingur, sem nýlega hófu störf.
Allt hefur þetta kallað á nokkurn undirbúning, ekki síst varðandi tölvukerfi og forritun og er sú vinna í fullum gangi. Embættið hefur átt góða samvinnu við dómsmálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun sem og embætti sýslumannanna á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra sem samkvæmt sérstöku samkomulagi veita enn trausta handleiðslu í ýmsum þáttum þeirra verkefna sem þau önnuðust.
Föstudaginn 8.mars sl. færði svo Ríkisendurskoðun embættinu öll pappírsgögn sem stofnunin varðveitti og lúta að sjóðum og stofnunum og teljast enn hafa þýðingu fyrir þetta nýja verkefni embættisins og þurfti undir þau þrjá kassa. Var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. Eldri gögn voru afhent Þjóðskjalasafni til varðveislu en öll gögn sem varðveitt voru á tölvutæku formi hafa verið send embættinu.
Á myndinni má sjá Jarþrúði Hönnu Jóhannesdóttur, sviðsstjóra og staðgengil ríkisendurskoðanda, Jónas B. Guðmundsson, sýslumann á Vestfjörðum og fyrir framan þau standa Martyna Julia Czubaj, skrifstofumaður og Thelma Dögg Theodórsdóttir, lögfræðingur og milli þeirra þeir kassarnir sem nefndir voru.
Guðlax ehf hefur sótt um að breyta Hafnarbraut 8 á Bíldudal. Áformað er að byggja 109,3 m2 hæð úr timbri ofan á húsið og fjölga íbúðum úr einni í tvær. Húsið er steinsteypt, byggt árið 1954.
Mikill íbúðaskortur er á Bíldudal og kemur fram í húsnæðisáætlun Vesturbyggðar að þörf sé á 73 íbúðum næstu 10 árin þar sem fjölga muni um 100 manns á tímabilinu samkvæmt miðspá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar en er ódeiliskipulagt.
Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við Heimastjórn Arnarfjarðar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna byggingaráformin og fjölgun íbúða fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ráðið leggur til að framkvæmdin verði grenndarkynnt fyrir eigendum fasteignanna að Hafnarbraut 6 og 10, Dalbraut 1, 7 og 9.
Fyrir réttum tuttugu árum varð til hópur einstaklinga, fyrirtækja og opinberra stofnana, sem vildi koma á fót menntastofnun á háskólastigi á Vestfjörðum. Í sjálfu sér var það rökrétt framhald baráttu þeirra einstaklinga sem börðust fyrir mennta/framhaldsskóla í heimabyggð á Vestfjörðum, en slíkur var stofnaður 1970 og var löngu búinn að sanna ágæti sitt, festa sig í sessi og auka menntunarstig Vestfirðinga mikið.
Eins og alltaf voru einhverjar úrtöluraddir en þær höfðu ekki nokkur áhrif á frumkvöðla stofnunar Háskólaseturs, sem voru 42 og héldu þeir ótrauðir áfram og beittu sér fyrir tilurð þess.
Nú tuttugu árum síðar þegar litið er um öxl er ekki hægt að segja annað en að vel hafi til tekist.
Svo vel að þessi stofnun hefur farið langt fram úr villtustu draumum okkar stofnenda.
Ísafjörður, sem hefur frá alda öðli verið mikill menningar- og menntabær hefur fyrir tilstilli Háskólaseturs Vestfjarða komist á „alheimskortið“ sem slíkur og þannig hefur hróður og kostir þessa landshluta orðið stórum hluta heimsbyggðarinnar augljós. Leyfi ég mér að fullyrða að einmitt það eigi ekki hvað síst þátt í því hversu margir ferðalangar utan úr heimi sækja Vestfirði heim. Nemendur skólans hafa gætt mannlíf okkar Vestfirðinga nýjum straumum, sem hafa munu veruleg áhrif til góðs fyrir menningu, atvinnulíf og víðsýni okkar bæði í nútíð og framtíð.
En vel að merkja, þessi árangur hefði ekki náðst án tilvistar forstöðumanns, starfsmanna skólans og samhentrar stjórnar hans, sem okkar „gamli“ bæjarstjóri Halldór Halldórsson fór lengst af fyrir og í dag Harpa Grímsdóttir. Þeim öllum ber að þakka fyrir frábært og óeigingjarnt starf í þágu Vestfjarða.
Vestfirðingar, til hamingju með 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða. Haldið áfram að styðja þessa stofnun, sem verður áður en langt um líður, ein af sterkustu innviðastoðum Vestfjarða.
Hér með hvet ég alla einstaklinga og fyrirtæki á Vestfjörðum að gaumgæfa starfsemi þessarar merku stofnunar og leggja henni lið að fremsta megni, því hún á eftir að hafa mikil áhrif á framtíð Vestfjarða.
Þorsteinn Jóhannesson Dr. Med. Skurðlæknir, fyrrverandi yfirlæknir á sjúkrahúsi Ísafjarðar, einn af stofnendum Háskólaseturs og formaður fulltrúaráðs þess til 9 ára.
Súðavík. Sveitarfélagið er til húsa í þessu húsi.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..
Tillögur Innviðaráðuneytisins að nýjum úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu lækka framlögin til Súðavíkurhrepps um 67-68%. Þetta kemur fram í umsögn Súðavíkurhrepps um frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er tillögunum líkt við hamfarir fyrir sveitarfélagið.
Tillögurnar eru sagðar blanda pólitískum markmiðum um fækkun sveitarfélaga inn í úthlutunina með því að lækka framlögin til fámennra sveitarfélaga. Spurt er hvort það sé hlutverk Jöfnunarsjóðs að knýja sveitarfélögin í þrot og ná þannig fram fækkun þeirra.
Í hinum nýju reglum er aukið við framlög til svonefndra fjölkjarna sveitarfélaga eins og Ísafjarðarbæjar og tekur Súðavíkurhreppur undir að það sé eðlilegt og því verði þá mætt með línulegri skerðingu á öll önnur sveitarfélög. Hins vegar sé skerðingin sem Súðavík sé ætlað að bera ósanngjörn, sveitarfélagið sé landmikið og fámennt.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á mánudaginn að leggja inn umsóknir fyrir fimm verkefni í Fiskeldissjóð.
Um er að ræða hönnun slökkvistöðvar á Ísafirði og framkvæmdir við grunn byggingarinnar, endurnýjun lagna í Sundhöll Ísafjarðar, endurbætur á félagsheimilinu á Þingeyri, varmadælur fyrir Torfnesvöll og jarðgerðarvél (moltuvél).
Bæjarráð telur rétt að forgangsraða verkefnum þannig að fyrir gangi verkefni þar sem hægt er að ljúka framkvæmdum á þessu ári.
Félagsheimili Þingeyri
Sótt er eingöngu fyrir 2025
Sótt er um vegna endurbóta innan og utandyra, fyrir nýju gólfi, hitakerfi, gluggum og múrviðgerðum.
Sundhöll Ísafjarðar
Sótt er eingöngu fyrir 2025
Sótt er um styrk vegna endurbóta innan -og utanhúss, ásamt endurnýjun lagnakerfis.
Jarðgerðarvél
Sótt er eingöngu fyrir 2025
Sótt er um fyrir innkaupum og uppsetningu á jarðgerðarstöð
Slökkvistöð á Suðurtanga 1
Fyrirvari er um að mögulega verður sótt um aftur fyrir 2026.
Sótt verður um styrk fyrir hönnun, útboð og fyrsta fasa verkframkvæmda 2025
Torfnes – Varmadælur
Sótt er um eingöngu fyrir 2025
Endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, þar sem farið verður í endalega hönnun ef styrkur fæst.
Kostnaðaráætlun er byggð á mati Bláma en skekkjumörk geta verið töluverð vegna óvissuþátta í hönnun og innkaupaverða
Rekstrarkostnaður er einnig breytilegur og fer eftir vali á búnaði og hönnun lausnarinnar.
Steinshús er sjálfseignarstofnun sem hóf starfsemi 2008 þegar öld var liðin frá fæðingu Steins Steinarrs skálds (1908-1958). Steinshús var opnað 15. ágúst 2015 með sýningu um Stein Steinarr. Hlutverk Steinshúss er að gera skil ferli Steins Steinarrs skálds, uppruna hans á norðanverðum Vestfjörðum, áhrifum hans á samferðafólk og seinni tíma kynslóðir. Það gerir safnið með því að varðveita, rannsaka og sýna gögn, gripi og aðrar minjar sem tengjast Steini. Steinshús safnar minjum sem gefa mynd af sögu Steins og hans samtíma.
Í starfi sínu hefur Steinshús samráð og samvinnu við söfn á svæðinu og söfn sem halda á lofti minningu skálda er voru samtíða Steini sem og aðra opinbera aðila er annast minjavernd og skjalavörslu í landinu, þ.m. Byggðasafn Vestfjarða og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir fágæt skjöl og útgáfur sem berast Steinshúsi.
Í stofnsamþykktum Steinshúss segir svo um hlutverk þess:
Tilgangur Steinshúss er að safna saman og varðveita skjöl, muni, myndir og önnur gögn sem tengjast Steini Steinarr, lífi hans og tengslum hans við fæðingarsveit sína, Nauteyrarhrepp, skáldferli hans, áhrifum hans og arfleifð í þeim tilgangi að miðla til almennings m.a. með sýningahaldi, erindaflutningi, málþingum, virkri vefsíðu og útgáfu. Steinshús leggur sérstaka áherslu á bókmenntasögu fyrri hluta tuttugustu aldar með rannsóknum sem og almennri kynningu á ferli Steins og hvers konar miðlun þessa efnis, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við aðra.
Á meðal muna sem eru í eigu Steinshúss eru skriffæri, bækur, bollastell og fleiri smámunir sem voru í eigu Steins og koma frá ættingjum Ásthildar Björnsdóttur, konu Steins. Einnig gamlar útgáfur af ljóðabókum Steins, ástarbréf frá honum til heimasætunnar í Fagradal, bókin Tindátarnir, diskur hannaður af Guðmundi frá Miðdal, málverk af Steini eftir Einar Hákonarson, Hallgrím Helgason og fleira eins og húsgögn og aðrir munir frá Ósi í Steingrímsfirði, en þangað vandi Steinn komur sínar.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum kr. til þrettán fjölbreyttra verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag til styrkjanna kemur af byggðaáætlun (aðgerð C.1 – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða). Alls bárust nítján umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 m.kr.
Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi.
Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Valnefndina skipa Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður, Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar.
Þrjú verkefni á Vestfjörðum fengu styrk:
Byggðabragur – sjálfsmynd íbúa og ímynd nýs sveitarfélags
Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
Styrkupphæð: 9,4 m.kr.
Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinuðust árið 2024. Svæðið hefur átt undir högg að sækja í áratugi og umfjöllun oft reynst íbúum erfið. Verkefnið miðar að því að styrkja sjálfsmynd svæðisins og vinna með sveitarfélaginu og íbúum að því að skapa framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag og byggja á henni ímyndarsókn.
Tenging fjárfesta við innviði og auðlindir á Vestfjörðum
Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
Styrkupphæð: 10,6 m.kr.
Verkefnið gengur út á að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Vestfjörðum með því að kynna vannýttar auðlindir og staðsetningar fyrir fjárfestum sem hafa áhuga og getu til nýfjárfestinga í matvælaframleiðslugreinum eins og landeldi, smáþörungaframleiðslu og líftækni, ásamt öðrum greinum sem styðja við verðmætasköpun á svæðinu.
Samræmd móttaka og inngilding íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum
Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.
Styrkupphæð: 10 m.kr.
Verkefnið snýr að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélög á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélög. Annar hlutinn snýr að því að vinna með sveitarfélögum að því að finna leiðir innan stjórnsýslunnar til þess að raddir íbúa af erlendum uppruna nái að heyrast.
Hafískort byggt á VIIRS-gervitunglamyndum. Ísjaðarinn er næst landi um 65 SML út af Straumnesi. Vestan- og suðvestanáttir næstu daga geta borið borgarís að landi, einkum á Vestfjörðum, Ströndum, Húnaflóa og Skaga.
Á sunnudag mátti sjá borgarísjakar á gervitunglamynd Sentinel um 2,5 sjómílur N frá Kögri. 66°30N 22°53’V; 11 sjómílur frá Körgi: 66°39’N 22°55’V; og 12 sjómílur V af Galtarvita: 66°15’N og 24°02V.