Steinshús er sjálfseignarstofnun sem hóf starfsemi 2008 þegar öld var liðin frá fæðingu Steins Steinarrs skálds (1908-1958). Steinshús var opnað 15. ágúst 2015 með sýningu um Stein Steinarr. Hlutverk Steinshúss er að gera skil ferli Steins Steinarrs skálds, uppruna hans á norðanverðum Vestfjörðum, áhrifum hans á samferðafólk og seinni tíma kynslóðir. Það gerir safnið með því að varðveita, rannsaka og sýna gögn, gripi og aðrar minjar sem tengjast Steini. Steinshús safnar minjum sem gefa mynd af sögu Steins og hans samtíma.
Í starfi sínu hefur Steinshús samráð og samvinnu við söfn á svæðinu og söfn sem halda á lofti minningu skálda er voru samtíða Steini sem og aðra opinbera aðila er annast minjavernd og skjalavörslu í landinu, þ.m. Byggðasafn Vestfjarða og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir fágæt skjöl og útgáfur sem berast Steinshúsi.
Í stofnsamþykktum Steinshúss segir svo um hlutverk þess:
Tilgangur Steinshúss er að safna saman og varðveita skjöl, muni, myndir og önnur gögn sem tengjast Steini Steinarr, lífi hans og tengslum hans við fæðingarsveit sína, Nauteyrarhrepp, skáldferli hans, áhrifum hans og arfleifð í þeim tilgangi að miðla til almennings m.a. með sýningahaldi, erindaflutningi, málþingum, virkri vefsíðu og útgáfu. Steinshús leggur sérstaka áherslu á bókmenntasögu fyrri hluta tuttugustu aldar með rannsóknum sem og almennri kynningu á ferli Steins og hvers konar miðlun þessa efnis, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við aðra.

Á meðal muna sem eru í eigu Steinshúss eru skriffæri, bækur, bollastell og fleiri smámunir sem voru í eigu Steins og koma frá ættingjum Ásthildar Björnsdóttur, konu Steins. Einnig gamlar útgáfur af ljóðabókum Steins, ástarbréf frá honum til heimasætunnar í Fagradal, bókin Tindátarnir, diskur hannaður af Guðmundi frá Miðdal, málverk af Steini eftir Einar Hákonarson, Hallgrím Helgason og fleira eins og húsgögn og aðrir munir frá Ósi í Steingrímsfirði, en þangað vandi Steinn komur sínar.
Af sarpur.is