Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 199

Veðurviðvaranir árið 2023

Árið 2023 var tiltölulega rólegt ef litið er til fjölda viðvarana sem gefnar voru út á árinu, en þær voru samtals 311 talsins sem er heldur undir meðallagi, en frá 2018 hafa að meðaltali verið gefnar út um 380 viðvaranir á ári.

Viðvaranirnar dreifðust nokkuð jafnt yfir spásvæðin og voru yfirleitt um 25 – 35 viðvaranir gefnar út fyrir hvert spásvæði nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem einungis 15 viðvaranir voru gefnar út og á Austurlandi að Glettingi þar sem 18 viðvaranir voru gefnar út.

Árið 2023 voru gefnar út 280 gular viðvaranir sem langflestar voru vegna vinds eða hríðar eða 252 talsins, en 28 viðvaranir voru vegna snjókomu, rigningar eða asahláku.

Appelsínugular viðvaranir voru 31 sem skiptust þannig að 22 voru vegna vinds, sex vegna hríðar, en þrjár appelsínugular viðvaranir voru gefnar út vegna annarra veðurþátta, þ.e. vegna rigningar, snjókomu og asahláku, og voru þær allar gefnar út fyrir Austfirði.

Engin rauð viðvörun var gefin út síðastliðið ár.

Vatnsrennsli vatnsveitu í Súgandafirði tvöfaldað

Endurnýjun vatnslagnar fyrir vatnsveitu í Súgandafirði lauk fyrir nokkru, en verkið hófst sumarið 2022. Með nýrri lögn tvöfaldaðist vatnsrennslið í vatnsveitunni.

Fyrri vatnslögn frá Staðardal til Suðureyrar var 140 mm í þvermál og hafði verið í notkun í nær 50 ár. Lögnin annaði ekki alltaf vatnsþörfinni í bænum þannig að rekstraröryggi vatnsveitunnar var ótryggt. Ný lögn er 180 mm í þvermál og með henni hefur rennsli til Suðureyrar aukist úr 35-40 rúmmetrum á klukkustund í 80 rúmmetra á klukkustund.

Verkinu var skipt í tvo áfanga og fengust styrkir úr Fiskeldissjóði fyrir þeim báðum, samtals upp á 53,8 m.kr.

Áætlaður heildarkostnaður verksins var 130 m.kr. en við verklok var áfallinn kostnaður 103,8 m.kr.

Verktaki í fyrri áfanga var Verkhaf og í seinni áfanga var verktakinn Gröfuþjónusta Bjarna. Um hönnun og eftirlit sá Verkís.

EINAR MARGEIR KJÖRINN ÍÞRÓTTAMAÐUR AKRANESS ÁRIÐ 2023

Einar Margeir Ágústsson 18 ára sundmaður úr röðum ÍA var kjörinn Íþróttamaður Akraness árið 2023 við hátíðlega athöfn á Garðavöllum.

Einar Margeir er Íslandsmeistari í 100m fjórsundi, unglingameistari í 50m, 100m, 200m bringusundi og 100m fjórsundi. Einar setti einnig unglingamet í sömu greinum.

Hann á 9 Akranesmet í fullorðinsflokki og 13 í unglingaflokki. Hann á jafnframt 3 hraðasta tímann frá upphafi í 200m bringusundi og 50 m bringusundi. Hann er í A-Landsliði Íslands og hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra móta fyrir hönd Íslands. Sundfélag Akraness er stolt af því að hafa Einar innan sinna vébanda.

Einar Margeir æfði og keppti áður með Ungmennafélagi Bolungarvík eða allt þar til að hann flutti á Akranes.

Uppfært kl 23:18: leiðréttur var aldur Einars, en hann er 18 ára en ekki 22 ára.

SFS: ásetningur Matvælaráðherra að virða skyldur og réttindi að vettugi

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í tilkynningu um úrskurð umboðsmanns Alþingis um stöðvun hvalveiða í sumar að ekki  verði annað ráðið en að ásetningur ráðherra hafi staðið til þess að virða að vettugi mikilsverð réttindi Hvals hf og skyldur ráðherra sem framkvæmdavaldshafa. Samtökin segja það til mikillar umhugsunar þegar ráðherra gengur svo um grundvallarréttindi fólks og fyrirtækja.  

Niðurstaða umboðsmanns var að mati SFS að ákvörðun matvælaráðherra að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum við Ísland 20. júní sl. hafi farið í bága við lög og matvælaráðherra hafi ekki gætt að meðalhófi við ákvörðun sína, sem honum beri að gera samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Niðurstaðan sé í fullu samræmi við málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og lögfræðilegt álit lögmannsstofunnar LEX sem SFS aflaði í kjölfar ákvörðunar ráðherra og birti hinn 27. júní sl. 

Ráðherra hunsaði ráðleggingar eigin sérfræðinga

Þá hafi ráðherra virt „að vettugi ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytis síns sem töldu m.a. nauðsynlegt að (i) rannsaka með sjálfstæðum hætti allar mögulegar tillögur til breytinga á reglugerð og áhrif þeirra, (ii) huga að meðalhófi og (iii) gæta að andmælarétti Hvals hf. Þegar hin ólögmæta ákvörðun ráðherra lá fyrir töldu sérfræðingar ráðuneytisins einnig rétt að vekja máls á mögulegri skaðabótaábyrgð sem af ákvörðun þessari gæti kviknað.“

Vitnað er til minnisblaðs frá skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu til ráðherra, dags. 12. júní, þar sem reifaðar voru ýmsar hugmyndir að mögulegum breytingum á reglugerð. Hvergi var þar að finna umfjöllun um bann við veiðum þetta sumarið. Þar sagði hins vegar orðrétt: Öll reglusetning á grundvelli þeirra heimilda ráðherra sem að framan eru rakin þarf, auk lagaáskilnaðarreglna, að uppfylla kröfur um réttmæti og meðalhóf og rannsóknarskyldu ráðuneytisins. Í því felst að allar ákvarðanir þurfa að vera hófstilltar og byggjast á málefnalegum sjónarmiðum auk þess að vera reistar á viðeigandi og fullnægjandi upplýsingum.“

Vitnað er frekar í minnisblaðið, en bannið var sett á daginn áður en veiðarnar áttu að hefjast og þar segir: Hinn skammi frestur og þeir fjárhagslegu hagsmuna [sic] leyfishafa af því að geta skipulagt starfsemi sína í samræmi við gildandi lög og reglur setja því nokkrar skorður við hversu langt er hægt að ganga vegna núverandi vertíðar“.

Loks segir í minnisblaði skrifstofunnar: „Ákveði ráðherra að nýta þær reglugerðarheimildir sem tilgreindar eru að framan er lagt til að undirstofnunum ráðuneytisins verði umsvifalaust falið að afla nauðsynlegra sérfræðilegra upplýsinga um þau atriði sem til greina kemur að kveða á um í reglugerð. Þá er æskilegt að gefa leyfishafa kost á að tjá sig um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar og lýsa afstöðu sinni til þeirra, þar á meðal að upplýsa hvort og þá hvaða tjóni félagið telji sig verða fyrir ef af reglugerðarbreytingum verði.“

Í öðru minnisblaði sömu skrifstofu frá 20. júní er varað við því að viðbúið sé að látið verði reyna á lögmæti stöðvunarinnar fyrir dómstólum eða umboðsmanni alþingis og segir að ekki sé unnt að segja fyrir um niðurstöðu þess og um bótaábyrgð ríkisins gæti verið að ræða. Er mælt með því að aflað verði utanaðkomandi lögfrfæðiálits um það.

Ísafjarðarbær: rætt um snjómokstur á gervigrasvöll á Torfnesi

Fyrir bæjarráð voru í morgun lagðar drög að reglum um vetrarþjónustu á Torfnesi til umræðu og samþykktar svo og minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um kostnað.

Reglurnar voru ekki afgreiddar og kostnaðurinn hefur ekki verið upplýstur en bæjarráðið fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Vestra vegna málsins með hliðsjón af umræðum í bæjarráði.

Ekki kemur fram hverjar reglurnar eiga að vera.

Áramótakveðja

Fjallið  

Mig dreymir um fjallsins dýrð á efstu tindum, drottningu landsins í aldanna fumlausa tafli.

Þar skírist jörðin í himinsins hreinu lindum.

Hamrarnir syngja kliðmjúkt á organ í blænum.

Herðum það lyftir í blámann af öllu afli, en eilífðin stendur kyrr í hlíðunum grænum.

Upphafna kyrrðin ríkir við fjallsins rætur og ró og friður kennist í öllu þess fasi.

Býlin í dalnum auðmjúk gefa því gætur.

Í göfuga hugsun það hverfir fánýtu masi.

Þú leitar á andvaka hug minn á niðdimmri nóttu.

Nálægð þín finnst mjög glöggt í sortanum þunga.

Er raustirnar hljóðna og sofa á úrsvalri óttu, alvald þitt vakir stórt yfir byggðinni smáu.

Jörðin er horfin.  Þó breiðist þín jökulbunga björt eins og lín móti stjörnuvegunum háu.

Þá talarðu kraftarins hljóða og máttuga máli, sem megnar að sigra flest, er vér kennum við ótta, og andann þú leiðir frá auðævum heimsins og prjáli og áhyggjur hversdagsins margar þú rekur á flótta.

En veikara ertu í sambýli þínu við sjóinnn.

Í sífellu malar óvægið brim þínar rætur.

Og ofar rýfur hafáttin opinn móinn

með ólmum flaumi, kaldsaman snemmvetrardaginn.

Í örmum hafsins, öndvert við þína fætur, aukast nú þangi, komnir í fangbrögð við sæinn klettar, sem trónuðu áður traustir í hlíðum með tignarfas, líkt og stoltir óðalsbændur, og horfðu við djúpinu hreyknir, með svip svo blíðum, hátignarlegir á snið eins og konungsfrændur.

 Mislynt ertu í meira lagi á vetrum.

Mjöllin hleðst í sköflum á þínar kinnar.

Þá bólgnar þín ásýnd, svo skakkar mörgum metrum, mökkinn skefur í veðrum um allar hlíðar.

Þá lætur þú sterklega getið stórmennsku þinnar og stefnir í byggðina harðviðri frosts og hríðar og snjóskriður æða hvæsandi úr hvilftum og giljum og kveða sér hljóðs á dimmum alfaraleiðum og loka vegum með fannhvítum, þöglum þiljum og þekja hvern troðning á fáförnum, afskekktum  heiðum.

Um vornótt ég sá þig ljúflega skipta liti.

Logandi gyllti miðnætursól þína tinda.

Þú sveipaðist fagurrauðu geislagliti

og gagnsæjum, heillandi, svifléttum töfrahjúpi.

Þá vildi ég heitasta draum minn við þig binda og vonir míns hjarta leggja að þínum núpi.

Á þessari nóttu þú sefaðir hulda harminn, sem höfugur lifir og vakir í mínum óði, en nóttleysa gældi svöl við svefnugan hvarm minn og svæfði hvert angur með blíðu vögguljóði.

Í hverfulli veröld óbreytt og stöðugt þú stendur.

Styrkur þinn varir í trássi við smámuni dagsins.

Þótt skorti þig andlit og fætur, augu og hendur, er ásýnd þín sífellt ný úr fjölmörgum áttum.

Þú tónar um daga afbrigði ósamda lagsins og andar látlaust þöglasta sönginn á náttum.

Ljáðu mér afl þitt og æðruleysi í raunum, ófeigi kraftur, sem hvorki dvín eða bilar.

Ég fæ þér hollustu mína og líf að launum, uns loks mér um síðir í fang Hins almáttka skilar.

sr. Gunnar Björnsson, pastor emeritus

Suðureyri: 4.110 tonna afli á síðasta ári

Einar Guðnason ÍS. Mynd: Suðureyrarhöfn.

Alls bárust 4.110 tonn af botnfiski að landi í Suðureyrarhöfn á síðasta ári samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Athyglisvert að eingöngu var um veiðar með öngli að ræða, línuveiðar, handfæri og sjóstangveiði.

Fjórir bátar voru á línuveiðum. Aflahæstir þeirra voru Einar Guðnason ÍS sem landaði 2.250 tonn á árinu og Hrefna ÍS aflaði 877 tonnum.

Strandveiðibátar á handfærum lönduðu nærri 400 tonnum í Suðureyrarhöfn í sumar.

Ísafjarðarbær: fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar um 67% á þremur árum

Frá Ísafirði.

Tekjur Ísafjarðarbæjar af fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði er samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 talinn skila 330 m.kr. í tekjur. Skatturinn var árið 2021 197 m.kr. og hefur hækkað um 67% á þessum þremur árum. Álagningarprósentur er nánast þær sömu á þessum tíma, þó hefur álagning á íbúðarhúsnæði lækkað úr 0,56% í 0,54% af fasteignamati. Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði er 1,65% öll árin og 1,32% af öðru húsnæði.

Heildartekjur af fasteignaskatti hækka úr 375 m.kr. árið 2021 í 565 m.kr. í ár eða um 190 m.kr.

Meginskýringin á hækkuðum tekjum af fasteignaskattinum er hækkun fasteignamatsins. Frá árinu 2020 til 2024 hefur fasteignamat í Ísafjarðarbæ hækkað um samtals 81% og frá árinu 2021 til 2024 er hækkunin 63%.

Fasteignaskatturinn af öllum fasteignum hækkar um 11% frá fyrra ári. Tekjurnar eru áætlaðar verða 565 m.kr. á þessu ári en voru 515 m.kr. á því síðasta. Hækkunin er heldur meiri á íbúðarhúnæði en öðru húsnæði eða nærri 12%.

úr greinargerð með fjárhagsáætlun.

Vestfirðir: Aukin hætta á krapaflóðum og grjóthruni

Veðurstofa Íslands vekur athygli á því að frostlaust hafi verið til fjalla síðan á miðnætti, aðfaranótt sunnudags. Spáð er áframhaldandi hlýindum næstu daga og er spáð rigningu í kvöld og nótt, mestri á sunnanverðum Vestfjörðum, Snæfellsnesi og suðvestanverðu landinu. Leysingin eykst með rigningunni og er spáð mikilli leysingu í kvöld og nótt. Jafnframt eykst hætta á krapaflóðum og grjóthruni.

Ekki er mikill snjór ofan við byggð á svæðinu og því ekki búist við stórum krapaflóðum. En vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum.

Í fyrramálið dregur úr úrkomu, segir í tilkynningu Veðurstofunnar, og þá jafnframt úr hættu á krapaflóðum.

7.476 íbúar á Vestfjörðum um áramótin

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Þjóðskrá hefur birt íbúatölur í einstökum sveitarfélögum um síðustu áramót. Á Vestfjörðum voru 7.476 manns með lögheimili í fjórðungnum. Íbúum hefur fjölgað frá 1. desember 2020 þegar þeir voru aðeins 7.099 manns um 5,3%. Til samanburðar þá voru um áramótin á Norðurlandi vestra 7.494 manns eða eins 18 manns fleiri en á Vestfjörðum. Fyrir rúmum þremur árum, 1. desember 2020 voru íbúarnir 7.412. Sáralítil fjölgun hefur orðið á Norðurlandi vestra síðustu 3 ár eða aðeins 0,9%. Virðist stutt í að Vestfirðir taki fram úr Norðurlandi vestra hvað íbúafjölda varðar og lyfti sér upp úr því að vera fámennasta landssvæðið.

Litlar breytingar urðu í desember á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 5 manns og um fjóra í Súðavík. Í Vesturbyggð og Reykhólahreppi fækkaði um fimm manns í hvoru sveitarfélagi um sig.

Í byrjun ársins 2024 voru 3.940 íbúar í Ísafjarðarbæ, 1.190 manns í Vesturbyggð og 1.018 í Bolungavík.

Nýjustu fréttir