Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 198

Axel Arnfjörð

Axel Þórarinn Arnfjörð Kristjánsson var fæddur i Bolungarvik 1910. Snemma kom í ljós næm tónvísi hans, sem Jónas Tómasson á Ísafirði og Anna, kona hans beindu með kennslu sinni inn á réttar brautir. Þannig varð Axel kornungur fær um að taka að sér organleik og kórstjórn við Hólskirkju í Bolungarvíkur.

Eftir stutta námsdvöl i Reykjavík heldur hann 1930 til Kaupmannahafnar og innritast við konservatóríuna þar. Jafnhliða stundar hann þar einnig orgelnám. Burtfararprófi lýkur hann i báðum greinum árið 1935.

Hann var eftir það búsettur í Kaupmannahöfn og fékkst við tónlistarkennslu . Á styrjaldarárunum í febrúar 1943 stofnaði hann Íslendingakórinn í Kaupmannahöfn og stjórnaði honum.

Axel lést árið 1982.

Gistináttaskattur tekinn upp að nýju

Gistináttaskattur kemur aftur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2024. Skatturinn var afnumin tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Frá áramótum verður hann lagður á að nýju, þó í nokkuð breyttri mynd.

Gistináttaskattur er lagður á gistingu sem er seld til skemmri tíma t.d. á hótelum, farfuglaheimilum og tjaldsvæðum. Framvegis mun gistináttaskattur einnig taka til gistingar um borð í skemmtiferðaskipum. Fjárhæðir skattsins hafa tekið breytingum og eru nú þrepaskiptar eftir tegund seldrar gistiaðstöðu.

Fyrir sölu á gistiaðstöðu skal frá áramótum innheimta gistináttaskatt sem hér segir:

  • Hótel, gistiheimili og samskonar gististaðir – 600 kr.
  • Tjaldstæði og vegna stæða fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi – 300 kr.
  • Fyrir gistiaðstöðu um borð í skemmtiferðaskipi á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins – 1.000 kr.

Ef seljandi gistiþjónustu er virðisaukaskattsskyldur myndar gistináttaskatturinn jafnframt stofn til virðisaukaskatts.

Allur gistináttaskattur er nú gerður upp á tveggja mánaða fresti hjá öllum gjaldskyldum aðilum.

Skemmtiferðaskip skulu innheimta gistináttaskatt þær nætur sem það er innan tollsvæðis Íslands og er gjalddagi þegar að skip yfirgefur tollsvæðið.

Gisting sem seld hefur verið fyrir áramót en er afhent á árinu 2024 eða síðar er undanþegin gistináttaskatti hafi hún verið fullgreidd og sölureikningur gefinn út.

ÁRSRIT SÖGUFÉLAGS ÍSFIRÐINGA KOMIÐ ÚT

Forsíðumynd Ársrits Sögufélags Ísfirðinga 2022-2023 er frá Hlöðuvík í Sléttuhreppi með Hælavíkurbjarg í baksýn. Myndina tók Sigrún Halla Tryggvadóttir

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2022-2023 er nýkomið út. Það er 59. árgangur ritsins, sem félagið hefur gefið út frá árinu 1956. Að venju er þar að finna fjölbreyttan fróðleik sögu Ísafjarðar og Ísafjarðarsýslna. Níu ritgerðir og greinar birtast í Ársritinu að þessu sinni og eru allar prýddar vönduðum ljósmyndum. Þar á meðal er ljósmynd af frönskum vísindamönnum sem heimsóttu Ísafjörð árið 1913.

Arnheiður Steinþórsdóttir birtir ritgerð um Eyrarannál sem Magnús sýslumaður Magnússon ritaði eftir miðja 18. öld og afstöðu hans til galdramála sem upp komu í héraðinu á hans tíð. Önnur athyglisverð grein um dauðans alvöru fjallar um staursetningu látinna manna við sérstakar aðstæður og er hún frá árinu 1934, rituð af séra Runólfi Magnúsi Jónssyni presti á Stað í Aðalvík.

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir ritar grein um bakarí og bakarameistara sem störfuðu á Ísafirði frá 1870-1910, þegar kaupstaðurinn var í miklum og örum vexti og þilskipaútgerð, verslun og iðnaður dafnaði. Um þann tíma fjallar einnig grein Lýðs Björnssonar um stofnun Ísafjarðarkaupstaðar árið 1866 og misheppnaða tilraun til að sameina kaupstaðinn og Eyrarhrepp á ný árið 1917.

Um læknamál á Ísafirði ritar Sigurður Pétursson grein sem nefnist „Löðrungur við læknastétt þessa lands.“ Hún fjallar um ráðningu nýs héraðslæknis árin 1917-1919 og blaðaskrif sem urðu vegna hennar. Þeir Eiríkur Kjerúlf og Vilmundur Jónsson þóttu álitlegastir til starfans, en afstaða til vínbanns og stjórnmála blönduðust mjög í ráðningarmálin.

„Helgireitur æskunnar“ nefnist ritgerð Kobrúnar Soffíu Arnfinnsdóttur um upphaf skólahalds í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar segir frá tildrögum að stofnun skólans árið 1934 og fyrsta skólastjóranum Aðalsteini Eiríkssyni sem stýrði skólanum í áratug. Ennfremur greinir þar frá skólabrag, starfsfólki, byggingum, sundkennslu og gróðurhúsaræktun í Reykjanesi.

Leifur Reynisson ritar um systur tvær frá Arnarnesi í Mýrahreppi, Maríu og Þorlaugu Mósesdætur, sem fæddust laust fyrir aldamótin 1900 og lifðu tíma mikilla samfélagsbreytinga. María varð hjúkrunarfræðingur við Laugarnesspítala og fluttist til Kanada, en Þorlaug glímdi lengi við eftirköst Spænsku veikinnar 1918 og vann sem vinnukona. Grein Leifs er framhald fyrri greina hans um ævi og örlög fjölmenns systkinahóps úr Mýrahreppi við upphaf nýrrar aldar.

Þannig veitir Ársrit Sögufélags Ísfirðinga innsýn í líf og störf íbúa á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslum á fyrri tíð. Afgreiðslumaður ritsins er Magni Örvar Guðmundsson, Seljalandi Ísafirði og formaður félagsins er Björgvin Bjarnason Bolungarvík. Áhugasömum er bent á að snúa sér til þeirra til að ganga í félagið og fá þar með Ársritið sent heim. Fyrri árgangar fást jafnramt gegn vægu gjaldi.

Stjórn Sögufélags Ísfirðinga skipa: Björgvin Bjarnason Bolungarvík, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Arnheiður Steinþórsdóttir Ísafirði, Ólafur Sigurðsson Reykjavík og Sigurður Pétursson Laugarvatni.

Stutt við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni

Á Akureyrarflugvelli: Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Pétur Óskarsson forstjóri Íslandsstofu og Dagmar Ýr Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar.

Menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði í dag samning við Íslandsstofu um áframhaldandi stuðning við markaðssetningu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.

Verkefninu Nature Direct er ætlað að hvetja til samstarfs og samvinnu Íslandsstofu, Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar um kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug á svæðinu. Samningurinn er til tveggja ára og nemur árlegt framlag til hans 15 m.kr.

Með samningum fá Isavia innanlandsflugvellir og Íslandsstofa það hlutverk að kynna flugvellina sem og Flugþróunarsjóð, en sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.

Þá ákvað menningar- og viðskiptaráðherra jafnframt að veita Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú 20 m.kr framlag hvorri til þess að kynna áfangastaðina, innviði og þjónustu í boði, vöruframboð og undirbúa komu væntanlegra ferðamanna með beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaðaflugvallar.

Arnarlax: Linda Gunnlaugsdóttir nýr sölustjóri

Linda Gunnlaugsdóttir.

Arnarlax hefur ráðið Lindu Gunnlaugsdóttur í starf sölustjóra fyrirtækisins og hefur hún störf í dag. Linda tekur við af Kjersti Haugen, sem er flutt aftur til Noregs.

Söludeildin er í Reykjavík og annast sölu á afurðum Arnarlax og flutningi eldislaxsins á erlendan markað. Þar starfa 6 – 7 manns.

Linda Gunnlaugsdóttir var áður framkvæmdastjóri hjá Smyril Line og hefur einnig starfað hjá skipafélögunum.

Ísafjarðarhöfn: 77% tekna vegna erlendra skemmtiferðaskipa

Sundahöfn. Dýpkunarskipið siglir framhjá skemmtiferðaskipi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarhafnar fyrir 2024 kemur fram að tekjur hafnarinnar af erlendum skemmtiferðaskipum eru áætlaðar 512 m.kr. Heildartekjur hafnarinnar er taldar verða 665 m.kr. og koma því 77% þeirra af erlendu skemmtiferðaskipunum.

Fram kemur að 217 skip hafi bókað komu á árinu sem er ívið meira en var í fyrra þegar bókanir voru 209. Nokkur afföll urðu og komu 187 skip þegar upp var staðið í fyrra. Talið er að 184.000 ferðamenn hafi komið með erlendum skipunum. Afbókanir voru einkum vegna þess að framkvæmdir í Sundahöfn hafa dregist og viðlegukanturinn er ekki enn tilbúinn. Reiknað er með svipuðum afföllum og í fyrra en að tekjurnar af erlendu skipunum aukist um 33 m.kr. milli ára..

Þjónustutekjur af innlendum aðilum eru áætlaðar 125 m.kr. en það eru einkum fiskiskipin.

gert er ráð fyrir kostnaði 489 m.kr. og að afgangur af rekstri verði 176 m.kr. Helstu útgjaldaliðir eru rekstur hafnarskrifstofunnar 304 m.kr., afskriftir 42 m.kr., þjónustukaup 35 m.kr. og hafnsögubátur 25 m.kr.

Guli liturinn táknar tekjur af erlendum aðilum og sá blái almennar þjónustutekjur.

Hugleiðingar á akstri um Hallsteinsnes

Úlfar Thoroddsen.

Þegar þetta er fest á blað er komin myndarleg brú yfir Þorskafjörð og nýr glæsilegur vegur um Hallsteinsnes og lokað hefur verið á umferð yfir Hjallaháls.  Reyndar er eftirsjá að útsýninu beggja vegna af hálsinum, það sama á við um Hrafnseyrarheiði. Bundið slitlag lengist á Dynjandisheiði.  Malarvegum fækkar. Malarvegur með slétt og þjappað yfirborð hefur ritara þessarar greinar fundist mun áhugaverðari til aksturs en olíuborið eða malbikað yfirborð. Sérstaklega átti það við rauðleitan malarveginn yfir Dynjandisheiði meðan umferðin var léttari og honum var vel viðhaldið.

Sumt er ekki ljóst.

Fyrir skemmstu  ýtti  ráðandi hluti í bæjarstjórn Vesturbyggðar hugmynd að virkjun í Vatnsdal á Barðaströnd langt út yfir ystu sjónarrönd en lagði til lausnir sem flýta ekki fyrir umbótum. Sérstaka athygli vekur, að afstaða forseta bæjarstjórnar kom ekki fram í nýlegri skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum sem hann átti aðild að. Leiðtogar eiga hafa skoðun og sannfæringu. Öllum á að vera ljóst frá upphafi fyrir hvað þeir standa í hverju máli.

Í fögrum dal: Vatnsdalur á Barðaströnd.

„Hér er brautin byggð af snilli“  

Greinarritari ók hina nýju leið um Hallsteinsnes fyrir skemmstu. Áður hafði hann gengið um svæðið meðan allt var í uppnámi um það hvort lagður yrði vegur þar og hvar. Rifjaðist ýmislegt upp á akstrinum varðandi það mál og fleiri og sérstaklega allt andstreymið sem leiddi til ótrúlegra og ónauðsynlegra tafa. Tafa sem nú virðast ætla að endurtaka sig á öðru sviði og heimamenn standa fyrir. Komið verður að þeim þætti síðar.  Framundan er áframhaldandi vegagerð um Gufufjörð og Djúpafjörð og Dynjandisheiði og einhver jarðgöng eftir 30 til 50 ár. Mörgum steininum hefur verið velt fyrir vegagerðina í Reykhólasveit bæði af óvilja og í nafni náttúruverndar. Nú eru  landsamgöngur þar eystra að komast í nútímalegt horf og um 30 ára baráttu er að ljúka. Það væri þarft að taka saman þá baráttusögu frá upphafi og ætti efnið að vera hluti af átthagafræði í efstu bekkjum grunnskólastigsins á Vestfjörðum.  

Þverun fjarða.

Hugmynd að nýjum vegi um Reykhólasveit er hefur lengi verið í umræðu. Magnús Ólafsson frá Vesturbotni í Patreksfirði talaði fyrir vegarbótum á þeim slóðum um 1965 og næstu árin þar eftir. Hann sá fyrir sér nýjan veg ásamt brú frá Skálanesi fyrir firðina og yfir í Reykjanes. Horfði hann til þess að nýta stórt framhlaup upp af Skálanesi til verksins. Enginn virtist hafa nokkuð við það að athuga á þeim tíma. Magnús stofnaði félag um fyrirhugaða framkvæmd og ýmsir lögðu fram fé, en hversu margir og hve hárri upphæð hann náði að safna er ritara þessarar greinar ekki kunnugt um. Hann ætlaði sér það sem ríkisvaldið taldi útilokað á þeim tíma en nú of dýrt. Margir studdu þann málflutning, aðrir hentu gaman að, en öðrum leist ekki á. Hugmyndin var frumleg og djörf og það svo, að yfirstjórn vegamála var ekkert um hana á þeim tíma. Svipuð hugmynd kom fram löngu síðar hjá Vegagerðinni en þótti of dýr í framkvæmd. Magnús hafði verið verkstjóri hjá Vegagerð ríkisins en gjarnan á öðru máli um legu vega og framkvæmd en þeir sem voru settir yfir hann. Hann sagði frá því, að aðeins í eitt skifti hefðu hann og þáverandi vegamálastjóri verið sammála en það var, þegar Magnús sagði upp störfum hjá Vegagerð ríkisins.

Jarðgöng.

Nú er horft til nokkurra jarðganga til að greiða samgöngur og örva samskifti um Vestfirði. Samt virðist langt í þær framkvæmdir, jafnvel 30 til 50 ár. Þeim fyrirætlunum verður vísast slegið aftur og aftur á frest út á slæmar horfur þjóðarbúsins eða flutning framlaga í brýnni forgangsverkefni í öðrum landshlutum. Vestfirðingar kannast vel við þá fyrirvara. Nægir nú að vísa til fyrirhugaðra vegaframkvæmda í Árneshreppi. Samgöngum og samskiftum innan Vestfjarða hefur hrakað frá því sem var eða frá þeim tíma er Hörður annaðist áætlunar og póstflug á nánast allar flugbrautir í fjórðungnum nokkrum sinnum í hverri viku. Um það leyti sem farið var í alvöru  að ræða jarðgöng til samgöngubóta á síðustu áratugum liðinnar aldar blandaði Magnús í Botni sér í þau mál. Kom hann með hugmyndir að nokkrum jarðgöngum milli fjarða á sunnanverðum Vestfjörðum. Fór Magnús milli manna með kort og kynnti hugmyndir sínar sem voru og eru áhugaverðar. Ekki voru allir sammála hugmyndum hans þá sem oft áður. Draumórar. Kort sem sýnir legu jarðganganna mun væntanlega birtast í riti sem  Sigurjón Bjarnason frá Hænuvík vinnur að og  fjallar um sögu vegagerðar í Vestur- Barðastrandarsýslu. Lýsa má Magnúsi sem snillingi en sérvitrum í ýmsu og fór aðrar slóðir en aðrir. Hann var frjór í hugsun og íhugaði margt, útsjónarsamur og verklaginn. Hann var sannkallaður brautryðjandi í hugsun og verki.  

Andstaða

Þegar vegur var lagður um Hörgsnes í Vatnsfirði á Barðaströnd á áttunda áratugi liðinnar aldar var leitast við að hindra þá framkvæmd með öllum tiltækum ráðum og ennfremur var agnúast og Umhverfisstofnun kölluð að, þegar sá vegur var endurbyggður í upphafi þessarar aldar. Vegurinn er vel gerður og fellur vel að landslaginu í Hörgsnesi. Raskið er nánast ósýnilegt en var úthrópað meðan á framkvæmdum stóð og þeir sem komu að því, kallaðir umhverfissóðar. Ein rökin ásamt þeim er lutu að jarðraski voru þau, að framkvæmdin myndi hrekja haferni frá óðölum í nesinu. Örninn myndi ekki þola þann skarkala og rask á umhverfinu sem fylgdi. Hann  væri forn að uppruna og heilastarfsemin læst í löngu mótað og steinrunnið far. Örninn er enn í nesinu, hreiðrar sig þar og „flýgur fugla hæst“.

Vatnsdalsvirkjun.

Enn skulu steinar lagðir í götur brýnna samfélagslegra framkvæmda á Vestfjörðum. Eða hvað?  Nú er sjónum beint að hugsanlegri vatnsaflsvirkjun í Vatnsdal á Barðaströnd.  Orkuveri sem talið er vera hagkvæmasta lausnin til að tryggja raforku og raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þegar áform um Hvalárvirkun virtust úti í móum er skyndilega kallað eftir þeirri virkjun eða annarri í Austurgili. Hver kallar? Meirihluti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, sjá 14. mál á 389. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar 13. desember 2023. Sjá ennfremur greinina „Tími ákvarðana runninn upp“ í BB þann 16. des. 2023, samlestur veitir innsýn og samhengi. Gjarnan hefði mátt telja upp að 10 áður en umsögnin var samþykkt og birt í núverandi mynd. Þau sem stóðu að samþykktinni vita eða ættu að vita eða vilja hugsanlega ekki vita, að það verður tæpast Austurgilsvirkjun, Hvalárvirkjun eða lítil og snotur vatnsaflsstöð við hverja líklega fossbunu um alla Vestfirði eða tvöföldun á flutningslínu Landsnets inn á Vestfirði. Það verður væntanlega Vatnsdalsvirkjun og endurnýjun núverandi loftlínukerfis sem mun auka og tryggja raforku á Vestfjörðum. Annað er of fjarlægt eða of dýrt. Það virðist í lagi að róta landi og spilla umhverfi í öðrum sveitum til hagsbóta fyrir samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum. Afar einfeldingslegt, afar sjálfhvert! Og kallað er eftir tvöföldun á flutningslínum inn á Vestfirði. Landrask frá Hrútafirði og vestur um hlýtur að fylgja þeim framkvæmdum. Er því landi fremur fórnandi en öðru? Hefur Vatnsdalur þá sérstöðu sem kallar á sérstaka vernd umfram annað land? Allt land hefur sín einkenni og sérstöðu, allt land á tilkall til verndar. Hvaða algildir mælikvarðar skera úr um vernd eða ekki vernd?

Fjallakyrrð: Öræfi ofan. 

Landinu í Vatnsdal og ofan þess hefur þegar verið raskað og að hluta með lagningu vegarslóða og loftlínu til flutnings á raforku inn á orkusvelta Vestfirði. Slóðinn hefur jafnframt komið að notum við heimtur sauðfjár af afréttum. Þar var ekkert ákall um friðun. Það virðist ekki sama hvar landi er raskað eða í hvaða tilgangi. Sumt virðist alls ekki mega en litið framhjá öðru og sérstaklega því, sem er vel utan bæjarhólsins heima og langt, langt í burtu suður á landi og handan við sjóndeildarhringinn. Grein Sóleyjar Einarsdóttur frá Seftjörn á Barðaströnd „Brýnir hagsmunir Vestfirðinga og annarra þegna alþjóðasamfélagsins“ í Vísi 9. nóvember 2023 er athyglisverð í þessu samhengi.

Tengja má hann Magnús okkar Ólafsson við raforkuvæðingu svæðisins. Hann hóf framkvæmdir árið 1943 við 30 kw vatnsaflsvirkun í Ósá í land Vesturbotns. „Hollur er heimafenginn baggi“ segir máltækið. Mættu núverandi ráðaöfl Vesturbyggðar stjórnast af þeim hyggindum. Þau endurspegla ábyrgð.  

Vegagerð á Dynjandisheiði

Engin mótmæli hafa komið fram hjá bæjarstjórn Vesturbyggðar varðandi það umrót og þá umbyltingu lands og umhverfis sem á sér stað í vegagerð ofan við Geirþjófssfjörð, ekki frá Tómasi í Andahvilt, ekki systrunum tveimur frá Seftjörn eða öðrum umhverfiskærum. Bæjarstjórnin sem rís upp til varnar Vatnsdals virtist  ekkert sjá athugavert við það sem er að gerast umhverfis Botnshest ofan við Geirþjófsfjörð.  

Að lokum.

Margt mætti fjalla um fleira svo sem framtíð í eldi laxfiska í  kvíum frammi á fjörðum og hins vegar, aðrar viðtakandi, fjölbreyttar og atvinnueflandi nýjungar  til stuðnings lífvænlegri búsetu á Vestfjörðum til framtíðar. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið! Það bíður seinni tíma og þar getur Magnús Ólafsson frá Vesturbotni enn komið við sögu.

Óska lesendum BB og öllum Vestfirðingum farsældar á nýbyrjuðu ári.

Á þrettándanum árið 2024.

Úlfar B Thoroddsen íbúi á Vestfjörðum og umhugað um samfélagið þar og umhverfið.

Mast: Landssamband veiðifélaga ekki málsaðili

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segir að Landssamband veiðifélaga sé ekki aðili að kæru Mast til lögreglunnar á Vestfjörðum vegna slysasleppningar í Patreksfirði í sumar. Hún segir að Landssambandið hafi fyrir jól óskað eftir gögnum, sem varði málið, en ekki sé búið að afgreiða erindið vegna orlofa. Því verði væntanlega svarað á næstu dögum. Hrönnn sagði ekkert um það á hvern veg erindinu yrði svarað.

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga sagði í fréttum Stöðvar2 á fimmtudaginn að hann hefði séð gögn málsins. Aðspurður segir hann í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að lögreglan á Vestfjörðum hafi sent honum gögnin og að hann geri ráð fyrir að hafa fengið öll gögn málsins í hendur.

Bæjarins besta óskaði eftir því við Matvælastofnun í nóvember að fá afrit af samskiptum stofnunarinnar við eldisfyrirtæki varðandi meðhöndlun eldislax vegna lúsar. Erindinu var hafnað með þeim rökum að verið væri að vinna að ítarlegri skýrslu um málið.

MÍ vann Menntaskólann á Egilsstöðum

Lið M.Í í Gettu betur. Mynd: M.Í.

Lið Menntaskólans á Ísafirði er komið áfram í 2. umferð Gettu betur sem fer fram í Ríkisútvarpinu.

Liðið vann í gærkvöldi góðan sigur á Menntaskólanum á Egilsstöðum, 29-13. 

Lið MÍ er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Mariann Raehni og Sögu Líf Ágústsdóttir.

Signý Stefánsdóttir er varamaður og þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson. 

Kirkjan í Árnesi

Árið 1991 var ný kirkja vígð í Árneshreppi og eru þar því tvær kirkjur sú eldri frá 1850.

Kirkjan er teiknuð af Guðlaugi Gauta Jónssyni arkitekt og yfirsmiður við kirkjubygginguna var Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði í Árneshreppi.

Byggingin skiptist annars vegar í kirkjuskipið, sem er um 100 fermetrar og tekur rúmlega 100 manns í sæti, og hins vegar skrifstofu sóknarprests, anddyri, fatahengi og snyrtingu.

Fyrirmyndin að ytra útliti hússins er sótt í stórbrotna náttúrufegurð svæðisins og er Reykjaneshyrnan sem er formfagurt fjall í sveitinni þar helst til hliðsjónar.

Nýjustu fréttir