Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 197

Guðbjörg ÍS 14

Guðbjörg ÍS 14. Ljósmynd Hannes Baldvinsson Siglufirði.

Guðbjörg ÍS 14 var smíðuð árið 1956 í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar hf. á Ísafirði.

Hún var smíðuð fyrir Hrönn hf. á Ísafirði og var fyrsta Guggan af sex sem fyrirtækið gerði út. Guðbjörgin var 47 brl. að stærð, búin 220 hestafla GM aðalvél.

Hrönn hf. fékk nýja og stærri Guðbjörgu ÍS 14 árið 1959 og þá varð þessi ÍS 46 þar til hún var seld árið 1963.

Kaupandinn var Karl Karlsson í Þorlákshöfn. Útgerð bátsins, sem fékk nafnið Hrönn ÁR 21, varð þó ekki löng. Bátinn rak á land í Þorlákshöfn 26. janúar 1964 og eyðilagðist.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Jarðræktarstyrkir vegna útiræktaðs grænmetis

Matvælaráðuneytið afgreiddi skömmu fyrir áramót jarðræktarstyrki í garðyrkju í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við garðyrkju nr. 1273/2020, með síðari breytingum.

Heildargreiðsla vegna útiræktaðs grænmetis nam samtals 83.672.585 kr. á árinu 2023.

Annars vegar var greitt út á rótarafurðir fyrir samtals 62.184.506 kr. og hins vegar 21.488.079 kr. á afurðir ræktaðar ofanjarðar. Til grundvallar útreikninga lágu 568 ha hjá 50 framleiðendum og reiknaðist framlag á hvern ha í samræmi við eftirfarandi stuðla.

1-30 ha                                    1,0 fyrir rótarafurðir

1-30 ha                                    4,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar

> 30 ha                                    0,7 fyrir rótararfurðir

> 30 ha                                    3,0 fyrir afurðir ræktaðar ofanjarðar

Jarðgöng – og hvað svo?

Áhugi fólks á byggingu jarðganga er mikill, enda stytta þau vegalengdir og tengja samfélög, en færri vita hvað felst í því að viðhalda og reka göng svo þau virki best fyrir þá umferð sem um þau fara.

Tækjabúnaður í jarðgöngum er til að mynda æði mikill. Sem dæmi eru þar fjölmargar myndavélar sem vaktstöð Vegagerðarinnar notar til að vakta alla króka og kima ganganna. Þar má einnig finna yfir tug mismunandi skilta, ljósabúnað af ýmsu tagi, neyðarsíma, slökkvitæki og margar ólíkar tegundir af nemum sem mæla meðal annars veghita, lofthita, mengun og umferðarþunga. Þá má nefna rafdreifikerfi, ljósleiðarakerfi, fjarskiptakerfi, vöktunarkerfi, lokunarbúnað og loftræstikerfi með öflugum blásurum.

Brunavarnir eru afar mikilvægar í jarðgöngum. Á fundinum verður farið yfir atvik sem varð í Hvalfjarðargöngum í haust þegar kviknaði í bíl, hvernig var brugðist við og almennt hvað vegfarendur þurfa að hafa í huga við slíkar aðstæður.

Loks  verður sagt frá  hlutverki vaktstöðva Vegagerðarinnar í vöktun á jarðgöngum landsins og frumsýnt stutt myndband þar sem farið er yfir það hvað gerist ef bíll bilar í Hvalfjarðargöngum en slíkt gerist nánast daglega.

Vegagerðin stendur fyrir morgunfundi fimmtudaginn 18. janúar kl. 09:00-10:15 þar sem fjallað verður um búnað, vöktun og brunavarnir í jarðgöngum. 

Fundurinn verður haldinn í húsnæði Vegagerðarinnar, Suðurhrauni 3 í Garðabæ.

Opið er á meðan húsrúm leyfir og það verður heitt á könnunni. Fundinum er einnig streymt hér á heimasíðu Vegagerðarinnar og á facebook.

Hagsýn heimili – Námskeið hjá Fræðslumiðstöð

Námskeið þar sem farið verður yfir leiðir til að hámarka sparnað, nýtingu hráefna, skipulag og almenna hagsýni í rekstri heimila.

Farið verður yfir leiðir til að skipuleggja máltíðir og mat 4 vikur fram í tímann hvað varðar innkaup, máltíðir og leiðir til að undirbúa og kaupa inn fyrir þennan tíma á skipulagðan og hagkvæman hátt. Fyrir hverja viku verða skipulagðar 3 kvöldmáltíðir, 1 helgarmáltíð, 2-3 nestismöguleikar og 1 eftirréttur.

Kennari námskeiðsins er Hjördís Þráinsdóttir, sem heldur úti instagram aðganginum Salt í grautinn, „eldhúsverk upptekinnar konu sem leitast við að gera líf sitt einfaldara“. Hagsýn heimilisráð, innkaup, uppskriftir, undirbúningur máltíða og almennt fjör.“

Nánari upplýsinga eru á vefsíðu Fræðslumiðstöðvar

Strandabyggð: útsvar 14,97%

Hólmavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur hækkað útsvarsprósentuna úr 14,75% í 14,97%. Er það vegna 0,23% af tekjuskatti til ríkisins sem færðist yfir til sveitarfélaga sem útsvar vegna málefna fatlaðra.

Er þá sama útsvarsprósenta í Strandabyggð og í öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Hins vegar hefur verið fellt niður álag á útsvarið sem Strandabyggð fékk heimild í fyrra til þess að innheimta vegna erfðrar fjárhagsstöðu og er því ekki lengur það ástand að skattgreiðendur í Strandabyggð greiði hærra útsvar en íbúar í öðrum sveitarfélögum.

Steinadalur: endurbygging vegar

Eitt af fyrirhuguðum útboðum Vegagerðarinnar á þessu ári er Steinadalsvegur (690), Vestfjarðarvegur – Ólafsdalur. Um er að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á um 6,5 km löngum kafla á Steinadalsvegi milli Vestfjarðavegar og Ólafsdals í sunnanverðum Gilsfirði í Dalabyggð.  Um er að ræða endurbyggingu núverandi vegar.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur inn í Ólafsdal, auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á svæðinu. Vegurinn verður breiðari en núverandi vegur, með bundnu slitlagi og bættum sjónlengdum.

Ekki er um eiginlega styttingu að ræða heldur fyrst og fremst vegabætur til að auka umferðaröryggi og greiðfærni, og efla menningartengda ferðaþjónustu á svæðinu.

Kostnaðaráætlun er um 400 millj. kr. og verður framkvæmdin fjármögnuð af tengivegasjóði. Hægt verður að taka mannvirkið í notkun haustið 2024.

Í kynningarskýrslu um framkvæmdina segir að með endurbyggingu húsanna í Ólafsdal auk núverandi vegar, milli Vestfjarðavegar og Ólafsdals, verði menningar- og sögutengd ferðaþjónusta styrkt
til muna.

Núverandi Steinadalsvegur (690) er alls um 27,8 km langur og nær frá Vestfjarðavegi við Gilsfjarðarbrú og yfir heiðina að Innstrandarvegi í Strandasýslu.

Engin vetrarþjónusta er á Steinadalsvegi eins og er. Sveitarfélagið sér um mokstur á honum eftir þörfum auk Minjaverndar sem hefur látið moka hann fyrir starfsfólk sitt í Ólafsdal.

Mynd úr kynningarskýrslu Vegagerðarinnar.

Nýr samskiptastjóri ráðinn til Hafrannsóknarstofnunar

Dóra Magnúsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf samskiptastjóra Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. Þessi nýja staða gerir stofnuninni kleift að fylgja stefnu sinni um aukna áherslu á á upplýsingamiðlun, samskipti og almannatengsl.

Í fréttatilynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að Dóra hafi yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði samskipta og almannatengsla. Hún hefur einnig reynslu af markaðsmálum, vef-, verkefna- og viðburðastjórnun sem og blaðamennsku og leiðsögn. Dóra er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA), gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og viðskipta- og markaðsfræði frá Interactive Marketing and Multimedia Academy í Danmörku auk þess að vera með B.Sc.gráðu í landfræði frá HÍ.

Áður en Dóra hóf störf hjá Hafrannsóknarstofnun starfaði hún sem fræðslu- og kynningarstjóri hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Þar bar hún ábyrgð á námskeiðahaldi stofnunarinnar og öðrum fræðslumálum ásamt kynningar- og vefmálum, samfélagsmiðlum, þróun rafrænnar miðlunar og almannatengslum.

49 manns sóttu um stöðuna og var Dóra valin úr hópi hæfra umsækjenda eftir vandað og ítarlegt umsóknarferli.

Þungatakmarkanir 10 tonn

Vestfjarðavegur á Dynjandisheiði og Bíldudalsvegur. Mynd: skipulag.is

Frá og með gærdeginum tilkynnti Vegagerðin að viðauki 1 hafi verið felldur úr gildi og ásþungi takmarkaður við 10 tonn á eftirtöldum leiðum á Vestfjörðum:

60 Vestfjarðavegur frá Dalsmynni til Ísafjarðar

62 Barðastrandarvegur

63 Bíldudalsvegur

64 Flateyrarvegur

65 Súgandafjarðarvegur

622 Þingeyrarvegur

61 Djúpvegur Frá Súðavík að gatnamótum Vestfjarðavegar

68 Innstrandavegur

643 Strandavegur

645 Drangsnesvegur

7 tonna ásþungi á Dynjandisheiði

Uppfært kl 10:31: Rétt áðan tilkynnti Vegagerðin að frá kl. 12:00 í dag, miðvikudaginn 10. janúar 2024, verður ásþungi á Dynjandisheiði takmarkaður við 7 tonn.

Súðavík: samningar um stálþil í burðarliðnum

Væntanlegt stæði kalkþörungaverksmiðjunnar í Súðavík. Unnið er að landfyllingu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lægstbjóðandi í stálþil við Langeyri hefur verið metinn og ljóst að hægt er að ganga til samninga við hann en það er ekki búið að skrifa undir. Það verður væntanlega  gert í þessari viku eða næstu. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Um er að ræða hafnargerð vegna byggingar kalkþörungaverksmiðju á Langeyri í Álftafirði. Vegagerðin opnaði tilboð í stálþilið í desember sl. og bárust þrjú tilboð.

Kranar ehf., Egilsstöðum var lægstbjóðandi. Tilboð þess var 157.776.666 kr. sem er 3,9% undir áætluðum verktakakostnaði 164,1 m.kr.

Aðrir bjóðendur voru HAGTAK HF., Hafnarfirði sem bauð 213,2 m.kr. og Borgarverk ehf., Borgarnesi, en tilboð þess var 238,8 m.kr.

Verkinu skal lokið eigi síðan en 1. nóvember 2024.

Steypa á 23 akkerissteina. Reka niður 85 tvöfaldar stálþilsplötur og steypa um 119 m langan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum.

Matvælaráðuneytið: úrskurðar um sekt Arnarlax um miðjan febrúar

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið stefnir að því að öllu óbreyttu að birta úrskurð sinn um miðjan febrúarmánuð um 120 m.kr. stjórnvaldssekt Matvælastofnunar á Arnarlax.

Í nóvember 2022 lagði Matvælastofnun stjórnvaldssekt á Arnarlax ehf. upp á kr. 120.000.000 fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski.

Við slátrun úr sjókví 11 við Haganes í Arnarfirði í október 2022 varð ljóst að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa hið minnsta segir í frétt Mast um málið.

Alls hafði 132.976 löxum verið komið fyrir í kvínni í október 2020 og júlí 2021. Skráð afföll voru 33.097 fiskar en í október 2022, þegar slátrun var lokið úr kvínni, reyndist fjöldinn sem kom upp úr kvínni hins vegar vera aðeins 18.315 laxar.

Tildrög málsins voru að Arnarlax tilkynnti í ágústlok 2021 að gat hefði fundist á umræddri sjókví. Þegar slátrun var lokið upp úr kvínni í október varð ljóst að ekki var hægt að gera grein fyrir afdrifum rúmlega 80 þúsund laxa. Mast hóf þá rannsókn og segir að veruleg frávik hafi orðið í fóðurgjöf í kví 11 frá því í júní 2021, eða tveimur mánuðum áður en tilkynnt var um gat á kvínni síðastliðið sumar, sem hefðu átt að vekja sterkar grunsemdir fyrirtækisins um að eitthvað alvarlegt væri á seyði. Matvælastofnun telur aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar.

Arnarlax kærði stjórnvaldssektina til Matvælaráðuneytisins og nú rúmlega ári síðar upplýsir Matvælaráðuneytið að von sé á úrskurði þess um miðjan næsta mánuð. Úrskurður ráðuneytisins er endanlegur á stjórnsýslustigi en unnt er að bera hann undir dómstóla.

Samkvæmt ákvæði í lögum um fiskeldi getur Matvælastofnun lagt á stjórnvaldssekt frá 100 þús kr. að 150 m.kr. vegna tilgreindra brota, ma. vegna brota á skyldu til að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokufiski.

 

enginn lax hefur veiðst í laxveiðiá

Meðalþyngd eldislaxanna í umræddri kví var um 900 gr. að því er upplyst er í grein Ragnars Jóhannessonar, rannsóknastjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun í grein hans sem birt var á bb.is og í Bændablaðinu í mars 2023. Ragnar hefur umsjón með áhættumati erfðablöndunar og segir hann að 92 laxveiðiár á landinu séu í áhættumatinu, þar af 12 á Vestfjörðum. Enginn af 81.564 löxum kvíarinnar hefur veiðst í þeim ám. Árið 2022 veiddust 25 eldislaxar úr þessu stroki í Arnarfirði, flestir í frárennslu Mjólkárvirkjunar. Búast hefði mátt við samkvæmt forsendum áhættumatsins að veiða 40 laxa úr þessu stroki eftir einn vetur í sjó.

Á árinu 2023 spáir áhættumatið fyrir um að veiða 23 strokulaxa og þriðja veturnn 15 laxa. Alls 77 laxa úr strokinu sem er innan við 0,1%. Telur Ragnar að þetta sýni að áhættumatið sé spálíkan sem sé raunhæft.

Nýjustu fréttir