Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 195

Sjósetning nýs rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar í dag

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar verður sjósett síðdegis í dag 12. janúar í borginni Vigo á Spáni. Skipinu verður gefið nafnið Þórunn Þórðardóttir með formlegum hætti við það tækifæri. Nafnið fær skipið eftir fyrstu íslensku konunni sem var sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og miklum frumkvöðli í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland.

Í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að áætlað er að nýja rannsóknarskipið verði afhent til Íslands í lok ársins. Skipið mun taka við af rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni sem fagnar í ár 54 aldursári sínu í þjónustu fyrir hafrannsóknir hér við land.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir að nýja rannsóknaskipið marki þáttaskil í hafrannsóknum hérlendis, hjá þjóð sem er eins háð sjávarútvegi og sjálfbærum veiðum og raun ber vitni.

„Það er með mikilli ánægju sem við nefnum nýja rannsóknarskipið Þórunni Þórðardóttur; í höfuðið á konu sem ól allan sinn starfsaldur hjá Hafrannsóknarstofnun og áður hjá fyrirrennara stofnunarinnar (Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild) en eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins. Framlag Þórunnar til vísinda er okkur öllum mikilvægt og því vel við hæfi að skipið beri nafn hennar í hafrannsóknum næstu kynslóða vísindafólks,“ segir Þorsteinn.

Hnífsdalur: tveggja milljarða króna snjóflóðavarnir

Verkís hefur unnið frumathugun að snjóflóðavörnum í sunnanverðum Hnífsdal undir Bakkahyrnu.

Lagt er til að reisa um 410 m langan og um 6-17 m háan þvergarð ofan við Bakkaveg og um 2,1 km af upptakastoðvirkjum austar í Bakkahyrnu. Heildarefnismagn í snjóflóðavarnargarð er um 110 þús. m3.

Kostnaður við ofanflóðavarnirnar er metinn um 1,7-2 milljarðar króna. Heildarverðmætti varinna eigna á hættusvæði B og C er 1.284 milljónir króna fyrir fasteignamat ársins 2024. Brunabótamat sömu eigna er hins vegar 2.667 milljónir króna.

Hádegissteinn

Ofan við austur hluta byggðar, í um 180 m y.s. situr um 50 tonna bjarg sem kallast Hádegissteinn í fjallshlíðinni en byggðinni getur stafað ógn ef það veltur niður hlíðina.Árið 2017 var lagt til að Hádegissteinn yrði fjarlægður en því var slegið á frest árið 2018 og ákveðið að festa bjargið til bráðabirgða með neti og steyptri undirstöðu. Haustið 2018 voru festingar boraðar við steininn og net lagt yfir hann, til þess að auðvelda öruggt niðurbrot steinsins. Árið 2020 var steypt undirstaða undir bjargið til að auka stöðugleika þess. Aðgerðirnar eru tímabundnar, þar sem enn stendur til að fjarlægja bjargið.

Í skýrslunni segir að mestar líkur á snjósöfnun í upptakasvæðið séu í suðaustanátt með ofankomu sem eru tiltölulega sjaldgæfar á svæðinu og snjókomu í logni. Í algengum N til A áttum skefur úr hlíðinni. Snjóflóðahætta skapist því í svipuðum aðstæðum og í Kubba á Ísafirði. Hlíðin er venjulega snjólétt en gilin sem eru á sunnanverðu fjallinu gætu hjálpað við að takmarka snjósöfnun í toppi hlíðarinnar norðan megin.

Stór hluti norðurhlíðar Bakkahyrnu er mögulegt upptakasvæði snjóflóða (Hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar, 2003). Samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands er eingöngu svæðið í efstu 150 m fjallsins skilgreint sem upptakasvæði vegna snjóflóða en það er talið takmarkað af snjósöfnunaraðstæðum sem geta valdið snjóflóðum.

Einungis fá snjóflóð eru þekkt úr hlíðinni ofan við byggð. Fjögursnjóflóð hafa verið skráð úr Bakkahyrnu
ofan byggðarinnar en snjóflóð fyrir miðja 20. öld voru ekki skráð.

Um þvergarðinn sem lagt er til að verði reistur segir að stærðarákvörðun garðsins sé samkvæmt samevrópskum viðmiðunarreglum. Vegna plássleysis milli hlíðar Bakkahyrnu og húsa er gert ráð fyrir bröttum garði.

Hæð þvergarðs miðast við að stöðva flóð með um 2 000 ára endurkomutíma ofan garðs. Ofan garðs rúmast um 185 þús. m3 af snjó og rúmmál hönnunarsnjóflóða er metið 30-70 þús. m3.

Hjúkrunarheimili: sveitarfélög hætti að greiða 15% af stofnkostnaði

Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Áformað er nú að ríkið sjái að öllu leyti um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Tillögur starfshóps þessa efnis voru kynntar fyrir ríkisstjórn á dögunum.

Núverandi fyrirkomulag er þannig að ríkið greiðir 85% af stofnkostnaði og sveitarfélög 15%. Þá greiða rekstraraðilar lágt gjald fyrir afnotin af húsnæðinu sem á að duga fyrir kostnaði og minni háttar viðhaldi. þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að viðhaldsskuld hefur myndast.

Lagt er til í tillögum starfshópsins að greitt verði húsnæðisgjald sem standi undir viðhaldskostnaði, stofnkostnaði, fjármagnskostnaði og afskriftum. Greint verði á milli þjónustunnar og reksturs húsnæðisins og að fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum verði gefinn kostur á að byggja og reka hjúkrunarheimili á grundvelli útboða. Sveitarfélögin hætti að taka þátt í uppbyggingu hjúkrunarheimilanna og ríkið eitt beri ábyrgð á fjármögnun vegna húsnæðisins.

Starfshópurinn vill að athugað verði hvort þurfi að endurskilgreina þurfi kostnaðarþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum. Horfa þurfi til kosta og galla við núverandi fyrirkomulag þar sem íbúar greiða þegar fyrir húsnæðisþáttinn og mögulegra valkosta við það. Verði tekið upp fyrirkomulag þar sem íbúar greiði leigu verði grundvöllur gjaldtöku ítarlega skilgreindur m.a. neð tilliti til jafnræðis og skoðað að taka upp stuðningskerfi vegna húsnæðis sem lúti almennum reglum.

Fram kemur í skýrslunni að búist er við því að fram til 2040 þurfi 1.591 nýtt hjúkrunarrými en rýmin voru í maí 2023 alls 2.951. Árlega þurfi því að meðaltali eitt 94 rýma hjúkrunarheimili að bætast við.

Fjárfestingarþörfin er talin vera um 104 milljarðar króna fram til 2040 og hlutur sveitarfélaganna af því er 15% sem er um 15,6 milljarðar króna.

Í starfshópnum voru þrír fulltrúar frá hvoru ráðuneyti.

Vegagerðin: varar við hálku á fjallvegum

Í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun kemur fram að vegir eru flestir blautir og nú þegar kólnar hægt og bítandi í hægum vindi, myndast ísing og lúmsk hálka. Gerist þetta framan af degi á fjallvegum og inn til landsins, en við sjávarsíðuna í kvöld og nótt.

Vefur Veðurstofunnar.

Háafell: hyggur á útsetningu seiða í Seyðisfjörð í vor

Mynd úr matsskyldufyrirspurn Háafells.

Háafell hefur sent fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um það hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat fyrir þá tímabundnu breytingu að hafa tvo árganga eldislax á sama kvíaeldissvæði. Um er að ræða svæði utan Álftafjarðar og Seyðisfjarðar. Í matsskýrslu fyrir laxeldi Háafells í Ísafjarðardjúpi, sem unnin var, er gert ráð fyrir að sami árgangur lax sé í öllum kvíastæðum á þessu svæði.

Nú vill Háafell fá samþykkt að setja út í Seyðisfirði í vor seiði en fyrir er í Kofradýpi kvíastæði með seiðum sem sett voru út í fyrra. Ástæðan er að ekki er útlit fyrir að minnsti fiskurinn í Skötufirði verði tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst og síðan þarf að gera ráð fyrir að hvíla svæðið áður en næstu seiði fara í kvíarnar.

Frávik frá matsskýrslu vegna eldis á árgangi 2024 í Seyðisfirði myndi vara frá vori 2024 til vorsins 2026.

Fjarlægðin frá kvı́aþyrpingum í Seyðisfirði yfir í kvı́aþyrpingar í Ytra-Kofradýpi og Skötufirði er í báðum tilvikum meira en tilskyldir 5 km sem draga verulega úr líkum á að sjúkdómar berist á milli eldissvæða.

Fyrirhugað er að setja út 250.000 seiði í maı́ 2024 og 300.000 seiði í september sama ár. Gert er ráð fyrir að seiðin verði um 200 g við útsetningu ı́ kvı́ar í Seyðisfirði. Seiðin fari í fjórar eldiskvíar.

Fiskurinn verður síðan alinn í Seyðisfirði yfir 25-27 mánaða tímabil, frá maí 2024 fram til sumars 2026.

Gert er ráð fyrir að hámarki verði um 1.870 tonn ı́ kvı́unum þegar slátrun hefst ı́ nóvember 2025.

Skipulagsstofnun sendir áformin til umsagnar áður en stofnunin tekur ákvörðun um það hvort breytingin er matsskyld. Frestur til athugasemda er til 5. febrúar 2024.

Skipulags- og mannvirkjanefnd tók málið fyrir á fundi sínum í vikunni til kynningar.

Aparólan: lagt til að hún verði í Holtahverfi

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Berghildur Árnadóttir hefur ritað bréf til Ísafjarðarbæjar og óskað eftir því að aparólan sem setja á upp á Eyrartúni verði sett inn í Holtahverfi á bak við varnargarðinn, nánar tiltekið á svæði þar sem gengið er upp úr Stórholtinu í átt að Vegagerð. Þar verði aparólan mikið notuð og muni ekki raska ró íbúa, enda sjái varnargarðurinn til þess.

Berghildur segir að gallinn við að hafa slíkt tæki í íbúðarhverfi sé sá að „hægt er að leika sér í því allan
sólarhringinn á meðan t.d. í ærslabelgjum fer loftið úr þeim kl.21:00 á kvöldin, þá 4-6 mánuði árs sem hægt er að nota þá.
Má alveg gera ráð fyrir að krakkar og ungmenni noti aparóluna langt fram á kvöld, sem mun því miður raska svefnfrið íbúa sem búa upp við leiktækið. Einnig er það viðbúið að leiktækið laði til sín fólk að næturlagi sem er að koma heim af skrallinu. Þetta fyrirkomulag er dæmt til að valda verulegu ónæði að kvöldi og næturlagi fyrir íbúa.“

Erindi Berghildar var tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd í vikunni ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa, dags. 10. janúar 2024, vegna mats á því hvort framkvæmdin er framkvæmdaleyfisskyld.

Minnisblaðið hefur ekki verið birt og ekkert upplýst um innihald þess.

Nefndin bókaði að loknum umræðum að starfsmanni væri falið að uppfæra minnisblaðið um mat á framkvæmdaleyfi í samræmi við umræður á fundi. Hverjar þær umræður voru hefur ekki verið upplýst. Hverjar undirtektir nefndarinnar við erindi Berghildar voru er heldur ekki upplýst.

Landssamband veiðifélaga: lögreglustjórinn á Vestfjörðum vanhæfur – þorir ekki á móti fyrirtæki með pólitísk afl á bak við sig

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga.

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga sagði í viðtali við Stöð 2 þann 30. desember sl. að að vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í máli Arctic Fish væri algjört.

Tilefnið var að lögreglustjórinn hafði tilkynnt að hætt hefði verið rannsókn á sleppingu eldislax úr kví fyrirtækisins í Patreksfirði. Matvælastofnun hafði kært málið til lögreglunnar.

undir hælnum á stórum fyrirtækjum

Gunnar Örn bar lögreglustjóranum á brýn að þekkingarleysi á lögunum og sagði hann auk þess sérstaklega vanhæfur vegna aðstæðna. Það útskýrði hann svona í fréttinni á Stöð 2 samkv. útskrift af henni sem birt er á visir.is:

„Gunnar segir ákvörðunina ekki hafa komið neitt sérstaklega að óvart vegna stöðunnar sem uppi er á Vestfjörðum. „Síðan hefur það sýnt sig líka erlendis að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða að nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra. Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi,“ segir Gunnar jafnframt.“

Í öðru viðtali á Stöð 2 í síðustu viku þann 4. janúar endurtók Gunnar Örn þessar ásakanir og nú í spurnarformi og sagðist spyrja sig að því hvort lögreglustjórinn á Vestfjörðum treysti sér ekki til þess að fara með málið áfram gegn fyrirtækinu sem hefði svo mikil völd fyrir vestan

Lögreglustjóri: enginn beitt pólitísku afli

Bæjarins besta innti Gunnar Örn Petersen eftir rökstuðningi hans fyrir því að stjórnendur Arctic Fish hafi pólitísk afl á bak við sig sem valdi vanhæfi lögreglustjórans. Þá var hann einnig spurður að því hvort það væri bara á Vestfjörðum og bara varðandi laxeldisfyrirtæki sem hann sæi aðstæður sem geta haft áhrif á lögreglustjóra. Fyrirspurnirnar voru ítrekuðar í gær en engin svör hafa borist.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Helgi Jensson segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta að hann væri ekki sammála þessu áliti Gunnars á vanhæfi sínu. Þá hafnaði Helgi því að hafa verið beittur pólitíski afli: „Arctic Fish hefur ekki reynt að beita mig eða aðra starfsmenn embættisins pólitísku afli, hvorki í þessu máli né öðrum.“

 

Verð á mjólkurvöru lítið breyst frá októberlokum

Í meirihluta af þeim 11 verslunum þar sem verðkönnunin ASÍ fór fram í breyttist verð á mjólkurvöru lítið frá októberlokum 2023 til ársbyrjunar 2024.

Í flestum verslunum voru verðbreytingar á mjólkurvöru innan við 1%, til hækkunar eða lækkunar. Mest hækkaði verð á mjólkurvöru í Iceland, eða um 4%. Verð lækkaði mest í Kjörbúðinni, eða um tæplega 5% og næst mest í Krambúðinni, 4%.
Fimm flokkar voru skoðaðir; skyr og jógúrt, rjómi, ostar og smjör, mjólk og jurtamjólk, og loks aðrar mjólkurvörur.

Í síðastnefnda flokknum eru til dæmis prótein- og kaffidrykkir. Sá flokkur stóð í stað eða lækkaði í níu af ellefu verslunum og lækkaði mest í Kjörbúðinni (16%) og Krambúðinni (12%). Í Kjörbúðinni lækkaði verð í öðrum vöruflokkum um 1,1-2,6% og í Krambúðinni um 1-3,3%.

Útnefning íþróttamanns Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur verður á laugardag

Bolvíkingurinn Einar Margeir Ágústsson var á dögunum valinn íþróttamaður Akkraness 2023

Útnefning íþróttamanns Ísafjarðarbæjar 2023 fer fram á veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði þann 13. janúar 2024 kl. 13:00.

Einnig verður efnilegasti íþróttamaður ársins 2023 útnefndur, auk þess sem hvatningarverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar verða veitt.

Útnefningu á íþróttamanni Bolungarvíkur fyrir árið 2023 ásamt veitingu viðurkenninga verður í Félagsheimili Bolungarvíkur laugadaginn 13. janúar nk. kl.14:00.

Fiskistofustjóri lætur af störfum

Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri hefur beðist lausnar frá störfum frá og með 15. janúar 2024 en hann hefur tekið að sér starf hjá Alþjóðabankanum sem „Senior Fisheries Specialist“ fyrir Vestur Afríku. 

Elín Björg Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs og staðgengill Fiskistofustjóra mun sinna starfi Fiskistofustjóra þar til ráðinn verður nýr aðili í starfið sem verður auglýst á næstu dögum.

Nýjustu fréttir