Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 194

Ísafjarðarbær: Elmar Atli íþróttamaður ársins

Elmar Atli Garðarson með verðlaun og viðukenningar.

Elmar Atli Garðarson frá knattspyrnudeild Vestra var í dag valinn íþróttamaður ársins í Ísafjarðarbæ í athöfn sem íþrótta- og tómstundanefnd stóð fyrir. Elmar Atli er fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra sem vann sér sæti í efstu deild í knattspyrnu með eftirminnilegri frammistöðu síðastliðið sumar.

Veittur var verðlaunagripur, styrkur frá Ísafjarðarbæ og peningaverðlaun frá Arctic Fish.

Veitingasalurinn Lognið á Hótel Ísafirði var þéttsetinn íþróttafólki og aðstandendum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Hnjótur- minjasafn Egils Ólafssonar þarfnast mikilla úrbóta

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Fram kemur í heimsóknarskýrslu eftirlitsfulltrúa á vegum safnaráðs vegna 2.hluta eftirlits með viðurkenndum söfnum að Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn þarfnist viðamikilla úrbóta og alvarlegar athugasemdir eru gerðar við það húsnæði sem að hýsir aðalgeymslur safnsins.

Skýrslan var lögð fram í samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps þar sem safnverðir fóru yfir skýrsluna og það sem gert hefur verið eftir að skýrslan var send, en búið er að fara yfir skýrsluna og unnið að því að gera úrbótaáætlun fyrir safnið. Safnaráð hefur óskað eftir áætlun á úrbótum innan 6 mánaða.

Samráðsnefndin óskaði eftir því við stjórnendur safnsins að farið verði yfir úrbótaáætlunina áður en henni verður skilað fyrir miðjan mars nk.

Um geymsluhúsnæðið segir að mikið af gripum séu á gólfi í óskipulagi, pökkun gripa óviðunandi og safngripir geymdir í óviðunandi umhverfi.

Forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar er Ingu Hlín Valdimarsdóttur og fékk hún á síðasta fundi samráðsnefndarinnar launalaust námsleyfi.  Forstöðumanni var falið að ráða staðgengil forstöðumanns þar til hún snýr aftur til starfa.

Úttektarskýrsla safnaráðs.

Mynd úr skýrslu safnaráðs.

Landssambands veiðifélaga: engin svör

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga.

Engin svör hafa borist frá Gunnari Erni Petersen, framkvæmdastjóra landssambands veiðifélaga um rökstuðning fyrir ásökunum hans um vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum til þess að rannsaka kæru Mast á Arctic Fish vegna slysasleppingar eldislaxa úr kví í Patreksfirði í ágúst sl.

Gunnar Örn sagði í fréttum Stöðvar 2 30. desember sl að „Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi“. Þá sagði hann ennfremur að það hefði sýnt erlendis „að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða að nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra.“

Ásakanirnar endurtók Gunnar Örn 4. janúar, einnig í fréttum Stöðvar 2.

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum hafnaði því í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hafa verið beittur pólitíski afli: „Arctic Fish hefur ekki reynt að beita mig eða aðra starfsmenn embættisins pólitísku afli, hvorki í þessu máli né öðrum.“

Menntaskólinn á Ísafirði fær 4,9 m.kr. styrk

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Menntaskólinn á Ísafirði hefur fengið 4.909.420 kr. styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til þerfaglegs skólaverkefnis með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu. Nefnist verkefnið : Nýting mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Styrkirnir eru til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja tímabundna styrki er að ræða til að innleiða aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.

Markmið styrkjanna er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur og annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að og deila í kjölfarið með öðrum. Horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla.

Styrkjunum er ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.

Alls bárust 73 umsóknir og hljóta 40 þeirra styrk að upphæð 99.816.802 kr.

„Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 leggur ríka áherslu á aukna skólaþróun og er það ein af fyrstu níu aðgerðum við innleiðingu hennar. Við ætlum að skapa nýja þekkingu og sjá til þess að þeirri þekkingu verði deilt vítt og breitt innan skólasamfélagsins og frístundastarfs til frekari lærdóms og ávinnings með aukinni fjárveitingu. Við viljum valdefla fagfólk okkar og hvetja til lærdómshugsunar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Arnarlax fær gæðavottun á matvælaöryggi

Björn Hembre forstjóri Arnarlax.

Arnarlax hefur fengið AA+ einkunn í fyrstu BRC vottun fyrirtækisins. BRC vottun er samþykkt af GFSI (Global Food Safety Initiative) sem þýðir að ferlar í vinnslu standast gæða- og matvælaöryggiskröfur á alþjóðlegum vettvangi.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vefsíðu fyrirtækisins.

Vottunin er svonefnd ótilkynnt, sem þýðir að úttektaraðili kemur fyrirvaralaust í heimsókn. Fyrirtækið þarf því að vera tilbúið til úttektar hvenær sem er.

Um einkunnina segir Arnarlax: „Einkunnin AA+ er mikið hrós til okkar duglega og metnaðarfulla starfsfólks sem er alltaf einbeitt í því að ná framúrskarandi árangri á hverjum einasta degi.“

Vottunin þýði að „Viðskiptavinir geta treyst því að hér er laxinn okkar unnin á sem bestan hátt með gæði og matvælaöryggi í fyrirrúmi frá því að laxinn kemur inn til vinnslu og þangað til að hann er kominn til viðskiptavinar.“

Tálknfirðingur BA 325

Skuttogarinn Tálknfirðingur BA 325 er hér á toginu um árið en myndina tók Sigtryggur Georgsson skipverji á Kolbeinsey ÞH 10.

Tálknfirðingur BA 325 var smíðaður í Noregi árið 1979 og kom til heimahafnar á Tálknafirði 14 apríl það ár.

Í 6. tbl. Ægis 1979 sagði m.a :

14. apríl sl. kom skuttogarinn Tálknfirðingur BA 325 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Tálknafjarðar. Tálknfirðingur BA er byggður hjá Storvik Mek. Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, nýsmíði nr. 86 hjá stöðinni, og er áttundi skuttogarinn í eigu landsmanna, sem byggður er hjá umrœddri stöð.

Skuttogari þessi er af svonefndri R-155 A gerðfrd Storviks, sömu gerðar og Gullberg NS og Maí HF, en frábrugðinn fyrri skuttogurum af þessari gerð að því leyti til, að breiddin er 40 cm meiri, svo og breytt fyrirkomulag, einkum varðandi íbúðir og togþilfar.

Tálknfirðingur BA hefur mun hœrri mœlingu en fyrri systurskip, sem m.a. stafar afþví að hann er ekki byggður með mœlingabönd eins og þeir fyrri, enda voru þeir byggðir fyrir norska aðila, með 300 rúmlesta mörk sem kröfu.

Tálknfirðingur BA er í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar hf. Skipstjóri á Tálknfirðingi er Sölvi Pálsson og 1. vélstjóri Kristjdn Friðriksson. Framkvœmdastjóri útgerðarinnar er Pétur Þorsteinsson.

Tálknfirðingur, sem var 46,45 metra breiður og 9,40 metra breiður mældist 351 brl. að stærð. Búinn 1800 hestafla Wichmann aðalvél.

Hlutafélagið Melur keypti Tálknfirðing BA 325 í febrúar árið 1994 og nefndi Sindra VE 60. Félagið var að stærstum hluta í eigu Vinnslustöðvar Vestmannaeyja og Meitilsins í Þorlákshöfn.

Melur hf. seldi Sindra VE 60 ári síðar til Noregs.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Gott að eldast

Upplýsingar um hvað eina sem tengist þjónustu fyrir eldra fólk, réttindum þess og heilsueflingu má nú í fyrsta sinn nálgast á einum stað á vefnum island.is

Hingað til hafa upplýsingarnar verið dreifðar hér og þar og gjarnan flókið fyrir eldra fólk og aðstandendur þess að nálgast þær.

Ætlunin er að island.is verði til framtíðar sá vettvangur sem fyrstur kemur í hugann hjá einstaklingum sem leita sér upplýsinga um ýmsa þjónustu.

Vinnan við upplýsingagáttina á island.is er hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast sem er samstarfsverkefni félags- og vinnumálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins.

Ein stærsta breytingin á samsetningu samfélagsins næstu árin er fólgin í því að þjóðin er að eldast. Í því felst ekki einungis áskorun heldur einnig tækifæri.

Finna má upplýsingar um eftirfarandi atriði

  • Heilsuefling
  • Eftirlaun og lífeyrir eldra fólks
  • Sérkjör og afslættir fyrir eldra fólk
  • Íbúðir fyrir eldra fólk
  • Félags- og þjónustumiðstöðvar
  • Að búa heima með stuðningi
  • Dagdvalir og dagþjálfun
  • Heilbrigðisþjónusta
  • Breytingar á heilsufari eldra fólks
  • Stuðningur við aðstandendur
  • Við lífslok
  • Góð ráð fyrir eldra fólk

Í ítarlegri umfjöllun í hverjum flokki er lesandanum síðan beint í réttar áttir.

Afrekssjóður HSV gerir samning við fimm íþróttamenn

Úthlutað hefur verið styrkjum úr Afrekssjóði Héraðssambands Vestfirðinga en alls bárust þrettán umsóknir um styrk úr sjóðnum.

Stjórn Afrekssjóðsins hefur tekið ákvörðun um að gera samning við fimm einstaklinga um mánaðarlega styrki fyrir árið 2024. Helsta markmið með samningunum er að auka utanumhald og stefnumörkun á afrekssviði og jafnframt er sett aukin áhersla á markmið og markvissan undirbúning þeirra iðkenda sem stefna að því að komast í fremstu röð.

Þeir íþróttamenn sem gerður er samningur við eiga það öll sameiginlegt að vera með skýr og góð markmið um að styrkja sig og eflast í sinni íþróttagrein. 

Þeir íþróttamenn sem gerðir verða árssamningar við eru:

Dagur Benediktsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Ástmar Helgi Kristinsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Grétar Smári Samúelsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Guðrún Helga Sigurðardóttir, Lyftingardeild Vestra

Hákon Ari Heimisson, Blakdeild Vestra

Einnig voru veittir styrkir til átta íþróttamanna samkvæmt því ferli sem áður hefur verið úthlutað eftir hjá Afrekssjóðnum.

Sjósetning nýs rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar í dag

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar verður sjósett síðdegis í dag 12. janúar í borginni Vigo á Spáni. Skipinu verður gefið nafnið Þórunn Þórðardóttir með formlegum hætti við það tækifæri. Nafnið fær skipið eftir fyrstu íslensku konunni sem var sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og miklum frumkvöðli í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland.

Í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að áætlað er að nýja rannsóknarskipið verði afhent til Íslands í lok ársins. Skipið mun taka við af rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni sem fagnar í ár 54 aldursári sínu í þjónustu fyrir hafrannsóknir hér við land.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir að nýja rannsóknaskipið marki þáttaskil í hafrannsóknum hérlendis, hjá þjóð sem er eins háð sjávarútvegi og sjálfbærum veiðum og raun ber vitni.

„Það er með mikilli ánægju sem við nefnum nýja rannsóknarskipið Þórunni Þórðardóttur; í höfuðið á konu sem ól allan sinn starfsaldur hjá Hafrannsóknarstofnun og áður hjá fyrirrennara stofnunarinnar (Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild) en eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins. Framlag Þórunnar til vísinda er okkur öllum mikilvægt og því vel við hæfi að skipið beri nafn hennar í hafrannsóknum næstu kynslóða vísindafólks,“ segir Þorsteinn.

Hnífsdalur: tveggja milljarða króna snjóflóðavarnir

Verkís hefur unnið frumathugun að snjóflóðavörnum í sunnanverðum Hnífsdal undir Bakkahyrnu.

Lagt er til að reisa um 410 m langan og um 6-17 m háan þvergarð ofan við Bakkaveg og um 2,1 km af upptakastoðvirkjum austar í Bakkahyrnu. Heildarefnismagn í snjóflóðavarnargarð er um 110 þús. m3.

Kostnaður við ofanflóðavarnirnar er metinn um 1,7-2 milljarðar króna. Heildarverðmætti varinna eigna á hættusvæði B og C er 1.284 milljónir króna fyrir fasteignamat ársins 2024. Brunabótamat sömu eigna er hins vegar 2.667 milljónir króna.

Hádegissteinn

Ofan við austur hluta byggðar, í um 180 m y.s. situr um 50 tonna bjarg sem kallast Hádegissteinn í fjallshlíðinni en byggðinni getur stafað ógn ef það veltur niður hlíðina.Árið 2017 var lagt til að Hádegissteinn yrði fjarlægður en því var slegið á frest árið 2018 og ákveðið að festa bjargið til bráðabirgða með neti og steyptri undirstöðu. Haustið 2018 voru festingar boraðar við steininn og net lagt yfir hann, til þess að auðvelda öruggt niðurbrot steinsins. Árið 2020 var steypt undirstaða undir bjargið til að auka stöðugleika þess. Aðgerðirnar eru tímabundnar, þar sem enn stendur til að fjarlægja bjargið.

Í skýrslunni segir að mestar líkur á snjósöfnun í upptakasvæðið séu í suðaustanátt með ofankomu sem eru tiltölulega sjaldgæfar á svæðinu og snjókomu í logni. Í algengum N til A áttum skefur úr hlíðinni. Snjóflóðahætta skapist því í svipuðum aðstæðum og í Kubba á Ísafirði. Hlíðin er venjulega snjólétt en gilin sem eru á sunnanverðu fjallinu gætu hjálpað við að takmarka snjósöfnun í toppi hlíðarinnar norðan megin.

Stór hluti norðurhlíðar Bakkahyrnu er mögulegt upptakasvæði snjóflóða (Hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar, 2003). Samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands er eingöngu svæðið í efstu 150 m fjallsins skilgreint sem upptakasvæði vegna snjóflóða en það er talið takmarkað af snjósöfnunaraðstæðum sem geta valdið snjóflóðum.

Einungis fá snjóflóð eru þekkt úr hlíðinni ofan við byggð. Fjögursnjóflóð hafa verið skráð úr Bakkahyrnu
ofan byggðarinnar en snjóflóð fyrir miðja 20. öld voru ekki skráð.

Um þvergarðinn sem lagt er til að verði reistur segir að stærðarákvörðun garðsins sé samkvæmt samevrópskum viðmiðunarreglum. Vegna plássleysis milli hlíðar Bakkahyrnu og húsa er gert ráð fyrir bröttum garði.

Hæð þvergarðs miðast við að stöðva flóð með um 2 000 ára endurkomutíma ofan garðs. Ofan garðs rúmast um 185 þús. m3 af snjó og rúmmál hönnunarsnjóflóða er metið 30-70 þús. m3.

Nýjustu fréttir