Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 193

Kynning á viðbragðsáætlun fyrir Flateyri

Í dag þann 15. janúar kl.17:00 verður öllum Flateyringum boðið í Gunnu kaffi á Flateyri.

Þar ætlar lögreglan á Vestfjörðum ásamt öðrum viðbragðsaðilum, s.s. slökkviliði/sjúkraflutningum, björgunarsvetinni á Flateyri, RKÍ deildinni á Flateyri ásamt verkefnisstjóranum á Flateyri að kynna viðbragðsáætlun sem stuðst er við ef til snjóflóðahættu kemur ofan Flateyrarvegar og ofan byggðarinnar á Flateyri.

Boðið verður upp á veitingar.
Ætlunin er að gefa þeim sem ekki komast kost á að fylgjast með í streymi á Facebook.

Umdeilt bann við laxeldi

Húsavík.

Sveitarfélagið Norðurþing gerir athugasemdir við tillögu Matvælaráðherra í drögum að frumvarpi um lagareldi um bann við laxeldi í sjó í Eyjafirði og Öxarfirði. Segir í bréfi Norðurþings að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin við vinnslu frumvarpsins né haf það verið sent sveitarfélögunum til umsagnar. „Friðun hafsvæða og lögfesting þess er mjög stór ákvörðun og eðlilegt að byggðarlögin sem verða fyrir mestu áhrifum frumvarpsins og íbúar þess komi að umræðunni um friðun.“ segir í bréfinu.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur að umræða um friðun ákveðinna svæða eigi ekki heima innan lagasetningar sem snýr annars að almennri umgjörð greinarinnar. Umræða um friðun svæða eigi frekar að fara fram í sér tillögum að svæðisbundnum lögum eftir því sem við á hverju sinni og byggja til að mynda á burðaþolsmati sem leitt geti til upplýstrar umræðu á hverjum stað fyrir sig. 

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggur áherslu á að ekki sé mögulegt að taka upplýsta og vel rökstudda ákvörðun um það hvort rétt sé að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í sjókvíum fyrir komandi kynslóðir fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar til slíkrar ákvarðanatöku liggja fyrir, svo sem burðarþolsmat, og málefnaleg umræða hafi í kjölfarið átt sér stað.

Mikilvægt sé því að lögfesting friðunarsvæða verði því ekki hluti af lögunum og að viðkomandi samfélög fái tíma og upplýsingar til að taka málefnalegar umræður um sín nærsvæði og að lögfesting friðunarsvæða fari því frekar fram í sérfrumvarpi til laga.

Sveitarstjórn er meðvituð um þá möguleika til atvinnu og verðmætasköpunar sem felast í fiskeldi og að mismunandi aðferðir við eldi geti haft mismikil áhrif á umhverfið segir í umsögninni. Bendir sveitarstjórn því á að í stað íþyngjandi ákvarðana um friðun ákveðinna svæða sé heillavænlegra að leggja áherslu á það í lagasetningunni að skapa greininni viðunandi umgjörð, líkt og frumvarp þetta til laga leggur grunn að, þar sem skýrt sé til hvers sé ætlað af aðilum í greininni, eftirlit sé raunverulegt og fullnægjandi og brot á reglum sé mætt með viðeigandi viðurlögum.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fagnar löggildingu friðunar Skjálfandaflóa fyrir sjókvíaeldi og leggur áherslu á að vernda lax og silungsveiði.

Sigmundur Þórðarson fékk hvatningarverðlaun

Sigmundur Þórðarson með viðurkenninguna. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Sigmundur Þórðarson Þingeyri fékk hvatningaverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar fyrir óeigingjarnt og ötult starf um áratugaskeið í þágu íþrótta, sérstaklega á Þingeyri. Athöfnin fór fram á Logni á Hótel Ísafirði á laugardaginn.

Efnilegustu íþróttamenn ársins 2023 voru útnefnd þau Maria Kozak í bogfimideild Skotís og Sverrir Bjarki Svavarsson í blakdeild Vestra.

Efnilegustu íþróttamenn ársins 2023 Maria Kozak til hægri og systir Sverris tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd og er til vinstri. Lengst til hægri er Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri hjá Ísafjarðarbæ.

Þessi voru tilnefnd sem efnilegasta íþróttafólkið:

Anna Magnea Rafnsdóttir, Skíðafélagi Ísfirðinga, snjóbrettadeild

Axel Vilji Bragason, handknattleiksdeild Harðar

Bríet Emma Freysdóttir, Skíðafélagi Ísfirðinga, alpagrein

Dagný Emma Kristinsdóttir, körfuknattleiksdeild Vestra

Dagný Emma Kristinsdóttir, Skíðafélagi Ísfirðinga, skíðaganga

Grétar Nökkvi Traustason, Golfklúbbi Ísafjarðar

Grétar Smári Samúelsson, Skíðafélagi Ísfirðinga, skíðaganga

Guðrún Helga Sigurðardóttir, lyftingadeild Vestra

Hjálmar Helgi Jakobsson, körfuknattleiksdeild Vestra

Ísar Logi Ágústsson, Skíðafélagi Ísfirðinga, snjóbrettadeild

Karen Rós Valsdóttir, Skotís, skotfimideild

Maria Kozak, Skotís, bogfimideild

Patrekur Bjarni Snorrason, knattspyrnudeild Vestra

Svala Katrín Birkisdóttir, knattspyrnudeild Vestra

Sverrir Bjarki Svavarsson, blakdeild Vestra

Þessi voru tilnefnd sem íþróttamaður ársins:

Axel Sveinsson, handknattleiksdeild Harðar, tilnefndur af handknattleiksdeild Harðar

Ásgeir Óli Kristjánsson, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefndur af Golfklúbbi Ísafjarðar

Elmar Atli Garðarsson, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af bæjarbúa

Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísfirðinga, tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga

Gustav Kjeldsen, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra

Leifur Bremnes, Skotís, tilnefndur af Skotís

Sigrún Betanía Kristjánsdóttir, knattspyrnudeild Vestra, tilnefnd af knattspyrnudeild Vestra

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, körfuknattleiksdeild Vestra, tilnefndur af körfuknattleiksdeild Vestra

Sólveig Pálsdóttir, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefnd af Golfklúbbi Ísafjarðar

Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir, blakdeild Vestra, tilnefnd af blakdeild Vestra

Aparólumálið: nefndin setur sig ekki á móti sáttaleið

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir aparólumálið á fundi sínum í síðustu viku. Þar var kynnt erindi frá Berglindi Árnadóttur sem leggur til að rólan verði flutt í Holtahverfi og sett þar upp.

Starfsmanni nefndarinnar var falið að uppfæra minnisblað um mat á framkvæmdaleyfi í samræmi við umræður á fundi. Hvað fólst í þeim umræðum var ekki upplýst.

Bærinn hyggst setja upp aparóluna við leikvöll á Eyrartúni. Íbúi á Túngötu 12, Sigríður Gísladóttir kærði málið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og telur framkvæmdina ekki vera í samræmi við skipulagsáætlanir Ísafjarðarbæjar. Nefndin vísaði kærunni frá þar sem ekki væri um að ræða kæranlega stjórnvaldsákvörðun.

Formaður skipulags- og mannvirkjanefndar Sigríður Júlía Bryleifsdóttir var innt eftir því hvort nefndin væri hlynnt hugmyndinni um flutninga á aparólunni.

Í svari hennar segir að nefndin setji sig ekki upp á móti því að fundin verði leið til að sætta sjónarmið.

Bolungavík: Flosi Valgeir Jakobsson íþróttamaður ársins

Frá athöfninni í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fræðslumála- og æskulýðsráð Bolungavíkur tilkynnti á laugardaginn um val á íþróttamanni ársins í Bolungavík í hófi sem haldið var í Félagsheimili Bolungavíkur.

Það var Karitas S. Ingimarsdóttir  sem sagði frá því að Flosi Valgeir Jakobsson hefði orðið fyrir valinu , en hann var tilnefndur af Golfklúbbi Bolungavíkur. Flosi Valgeir var í liði Golflúbbsins sem vann sig upp um deild í liðakeppni golfklúbba á landinu ásíðasta ári.

Aðrir sem tilnefndir voru

Hestamananfélagið Gnýr tilnefndi Hugrúnu Emblu Sigmundsdóttur

Körfuboltadeild Vestra tilnefndi Jóhönnu Wiktoríu Harðardóttur

Knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokkur tilnefndi Guðmund Pál Einarsson

Skíðafélag Ísfirðinga tilnefndi Mattías Breka Birgisson

Öll fengu þau viðurkenningar fyrir ástundun og góðan árangur hvert í sinni íþrótt.

Dynjandisheiði: ásþungi hækkar í 10 tonn

Vegagerðin tilkynnti í gær að ásþungi á Dynjandisheiði hefði verið hækkaður í 7 tonnum í 10 tonn. Á öðrum vegum á Vestfjörðum var leyfður ásþungi 10 tonn svo þar verður engin breyting á.

Í gærkvöldi var færð góð á vegum og opið norður í Árneshrepp. Hálkublettir í Barðastrandarsýslu og á heiðunum, Dynjandisheiði og Steingrímsfjarðarheiði en hálka norðan Steingrímsfjarðar.

Jörð brennur í Grindavík

Eldgos hófst í gær morgun skammt norður af Grindavík og um hádegisbilið opnaðist sprunga við byggðina og hraunstraumur hefur runnið að efstu götu og a.m.k. þrjú hús brunnið.

Byggðin var rýmt í tæka tíð áður eldgosið hófst en ljóst er að ástandið er mjög alvarlegt. Hraun hefur runnið yfir Grindavikurveg og lokað honum og jafnframt tekið í sundur heitavatnslögnina frá Svartsengi. Bærin er auk þess kaldavatnslaus og rafmagnslaus. Sprungur hafa gliðnað og nýjar opnast.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands flutti ávarp í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi og lagði áherslu á samstöðu þjóðarinnar og vonina. Vitnaði hann til Heimeyjargossins fyrir liðlega hálfri öld, þar sem útliti’ var vissulega svart en fór þó vel að lokum.

Ávarpinu lauk hann með þessum orðum:

„Kæru landsmenn. Síðan höfum við þolað ýmsar þrautir hér, kynslóð af kynslóð, en um leið notið gæða landsins, þessa ægifagra lands. Nú bíðum við og vonum og tökum því sem að höndum ber. Nú þurfa öll okkar framtíðaráform að taka mið af því að öflugt umbrotaskeið virðist hafið á Reykjanesskaga. En við
munum ekki gefast upp. Grindvíkingar hafa reynst æðrulausir og þrautseigir: það er skylda okkar allra að tryggja að þeir geti áfram sýnt sjálfum sér og öðrum hvað í þeim býr, að þeir geti áfram átt heimili, notið öryggis og leyft sér að horfa björtum augum fram á veg. Þetta gerum við saman, við Íslendingar. Já, við gefumst ekki upp.“

Sjámynd af RUV af eldunum.

Hraunstraumurinn hefur þarna náð efstu húsunum.

Ísafjarðarbær: Elmar Atli íþróttamaður ársins

Elmar Atli Garðarson með verðlaun og viðukenningar.

Elmar Atli Garðarson frá knattspyrnudeild Vestra var í dag valinn íþróttamaður ársins í Ísafjarðarbæ í athöfn sem íþrótta- og tómstundanefnd stóð fyrir. Elmar Atli er fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra sem vann sér sæti í efstu deild í knattspyrnu með eftirminnilegri frammistöðu síðastliðið sumar.

Veittur var verðlaunagripur, styrkur frá Ísafjarðarbæ og peningaverðlaun frá Arctic Fish.

Veitingasalurinn Lognið á Hótel Ísafirði var þéttsetinn íþróttafólki og aðstandendum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Hnjótur- minjasafn Egils Ólafssonar þarfnast mikilla úrbóta

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Fram kemur í heimsóknarskýrslu eftirlitsfulltrúa á vegum safnaráðs vegna 2.hluta eftirlits með viðurkenndum söfnum að Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn þarfnist viðamikilla úrbóta og alvarlegar athugasemdir eru gerðar við það húsnæði sem að hýsir aðalgeymslur safnsins.

Skýrslan var lögð fram í samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps þar sem safnverðir fóru yfir skýrsluna og það sem gert hefur verið eftir að skýrslan var send, en búið er að fara yfir skýrsluna og unnið að því að gera úrbótaáætlun fyrir safnið. Safnaráð hefur óskað eftir áætlun á úrbótum innan 6 mánaða.

Samráðsnefndin óskaði eftir því við stjórnendur safnsins að farið verði yfir úrbótaáætlunina áður en henni verður skilað fyrir miðjan mars nk.

Um geymsluhúsnæðið segir að mikið af gripum séu á gólfi í óskipulagi, pökkun gripa óviðunandi og safngripir geymdir í óviðunandi umhverfi.

Forstöðumaður Minjasafns Egils Ólafssonar er Ingu Hlín Valdimarsdóttur og fékk hún á síðasta fundi samráðsnefndarinnar launalaust námsleyfi.  Forstöðumanni var falið að ráða staðgengil forstöðumanns þar til hún snýr aftur til starfa.

Úttektarskýrsla safnaráðs.

Mynd úr skýrslu safnaráðs.

Landssambands veiðifélaga: engin svör

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga.

Engin svör hafa borist frá Gunnari Erni Petersen, framkvæmdastjóra landssambands veiðifélaga um rökstuðning fyrir ásökunum hans um vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum til þess að rannsaka kæru Mast á Arctic Fish vegna slysasleppingar eldislaxa úr kví í Patreksfirði í ágúst sl.

Gunnar Örn sagði í fréttum Stöðvar 2 30. desember sl að „Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi“. Þá sagði hann ennfremur að það hefði sýnt erlendis „að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða að nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra.“

Ásakanirnar endurtók Gunnar Örn 4. janúar, einnig í fréttum Stöðvar 2.

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum hafnaði því í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hafa verið beittur pólitíski afli: „Arctic Fish hefur ekki reynt að beita mig eða aðra starfsmenn embættisins pólitísku afli, hvorki í þessu máli né öðrum.“

Nýjustu fréttir