Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 192

Vestfirðir: erlendir ríkisborgarar 22,6% íbúanna

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Erlendir ríkisborgarar með lögheimili á Vestfjörðum voru 1.691 þann 1. desember 2023 samkvæmt tölum Þjóðskrár, sem birtar voru í morgun. Íbúar voru alls 7.484 og erlendu ríkisborgararnir því 22,6% af íbúunum. Það er næsthæsta hlutfall á landinu. Aðeins eru fleiri erlendir íbúar hlutfallslega á Suðurnesjum, en þar er hlutfallið 29,9%.

Næst koma Austurland og Suðurland með 19,2% og 19,6%. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi, liðlega 11%. Á landinu öllu er hlutfallið 18,7%.

Hlutfallið er á Vestfjörðum hæst í Súðavík 32,8% og Vesturbyggð 31,9%, en lægst er það í Árneshreppi 3,8% og 6% í Reykhólasveit.

Árneshreppur er það sveitarfélag landsins sem hefur fæsta erlenda ríkisborgara og Reykhólahreppur er í fimmta lægsta sæti. Á hinum endanum er Súðavík með 6. hæsta hlutfallið á landinu og Vesturbyggð er í 7. sæti.

Langflestir erlendir íbúar eru í Mýrdalshreppi 61,7%.

Hnjótur: eigandi krefst samninga um vatnsréttindi og hótar lögbanni

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Kristinn Þór Egilsson landeigandi að Hnjóti í Örlygshöfn krefst þess að sveitarfélögin Vetsurbyggð og Tálknafjarðarhreppur gangi til samninga við hann um nýtingu á vatnsréttindum á jörðinni fyrir byggðasafnið að Hnjóti, sem er í eigu sveitarfélaganna. Jafnframt er þess krafist að látið verði af nýtingu réttindanna í framtíðinni og virtur eignarréttur hans að eignarlandi umhverfis húsnæði Minjasafnsins. Verði ekki orðið við þessu er hótað aðgerðum svo sem lögbanns.

Tildrögin eru þau að um mitt ár 2013 stóð Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti fyrir borun eftir vatni að Hnjóti og segir í kröfubréfinu að það hafi verið að eigandanum forspurðum. Segir að borholan sé staðsett utan lóðarmarka safnsins.

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps tók erindið fyrir á sundi sínum í síðustu viku og bókað var að fresta afgreiðslu erindisins til næsta fundar safnsins á meðan frekari gagna er aflað.

Ásætuvarnir í Arnarfirði – Vesturbyggð vill umhverfismat en Ísafjarðarbær ekki

Kvíar í Arnarfirði.

Skipulagsstofnun hefur sent Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð til umsagnar erindi frá Arctic Fish þar sem fyrirtækið gerir grein fyrir áformum um að taka í notkun svokallaðar ásætuvarnir á eldiskvíum í Arnarfirði.

Ásætur á kvíum eru að mestu gróður og aðrar lífverur sem setjast á net og búnað eldiskvía og vaxa þar og valda auka álagi á búnaðinn.

Verkfræðistofan Efla hefur unnið viðamikla skýrslu um ásætuvarnirnar og þar kemur fram að til þess að viðhalda heilbrigði eldisfiska í árangursríku sjókvíaeldi þurfi hreinan og súrefnisríkan sjó sem flæði óhindrað í gegnum netin. Vegna þess er nauðsynlegt að netin séu hrein og án ásæta.

Ásætur á nótum í kvíum skapa aukið lífrænt álag, aukið álag á búnað og eykur slit. Ásætur og háþrýstiþvottur á nótum til að losa ásætur skapa streitu, skaða og geta leitt til affalla á eldisfiskum. Ásætuvarnir geta komið í staðinn fyrir stöðugan háþrýstiþvott á nótum og þar með bætt aðbúnað í kvíum.

Arctic Fish áformar að nota ásætuvarnir sem innihalda ECONEA® (Tralopyril) og Zinc Pyrithione á nætur eldiskvía fyrirtækisins í Arnarfirði. Notkun ásætuvarna sem innihalda slíka blöndu krefst breytingar á starfsleyfi. Skipulagsstofnun metur hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða Eflu er að áhrifin á lífríki í sjó eru metin nokkuð neikvæð og áhrif á heilsu manna eru metin óveruleg. Heildarniðurstaða Arctic Fish á grundvelli skýrslu Eflu er að notkun ásætuvarnanna fylgi ekki verulega neikvæð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Spurningin er því hvort fyrirliggjandi umhverfismat á sjókvíaeldinu í Arnarfirði dugi til eða hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat með þessari breytingu.

Ísafjarðarbær: þarf ekki

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók erindið fyrir í síðustu viku og ályktaði að nefndin telur að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.

Vesturbyggð: vill umhverfismat

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar tók einnig erindið fyrir í sí’ustu viku. Þar kveður við annan tón. Ráðið segir að í skýrslu Eflu sé ekki lagt mat á áhrif á aðrar tegundir í firðinum, svo sem rækju og botnfisk að öðru leyti en að áhrifin séu metin staðbundin og safnist ekki upp í lífkeðjunni.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar liggur því ekki fyrir í fyrirliggjandi gögnum hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði.

„Skipulags- og umhverfisráð telur því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“

Af hverju orkuskipti? – Loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga

Hjörleifur Finnsson

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga síðastliðið haust var ákveðið að sveitarfélögin á Vestfjörðum myndu sameiginlega hefja vinnu við að setja sér loftslagsstefnu og var Vestfjarðastofu falið að leiða þá vinnu.

Skömmu fyrr hafði Vestfjarðastofa heppilega hlotið styrk, ásamt samstarfsaðilum, til að auka þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum og þróa orkuskiptaáætlanir hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum. Verkefnið ber heitið RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) og er styrkt af LIFE áætlun Evrópusambandsins. Það má þó segja að engin loftslagsstefna sé ljóseindar virði ef hluti af henni er ekki áætlun um orkuskipti. Loftlagsstefna og aðgerðaáætlun henni tengd felur í sér áætlun um orkuskipti og verða því verkefnin tvö að miklu leyti rekin sem ein heild loftslags- og orkuskiptaáætlana.

En hvers vegna þurfum við loftslags- og orkuskiptaáætlanir?

Augljósa ástæðan eru loftslagsbreytingar með öllum sínum margháttuðu áhrifum og afleiðingum, sem að mestu leynast í óræðri framtíð. Þess vegna hættir okkur til að gleyma þeim. Þau geta hins vegar birst okkur hér sem fleiri stormar, færri fiskar, minni snjór en fleiri snjóflóð, nýjar tegundir en fábreyttari lífheimur, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru bara nokkrar ástæður þess hvers vegna það er skynsamlegt að gera svona áætlanir og fara eftir þeim – en þær eru fleiri:

  • Í fyrsta lagi því það getur sparað pening
  • Í öðru lagi af því að það getur minnkað sóun og sparað pening
  • Í þriðja lagi af því að það getur eflt og betrumbætt gæðastjórnun sveitarfélaganna og sparað pening
  • Í fjórða lagi af því að stjórnvöld krefjast þess og eru með suð og kvabb ef það er ekki gert
  • Í fimmta lagi því þá er hægt að sækja um styrki sem gera kröfu um svona áætlanir (og fá pening)
  • Í sjötta lagi af því að einhverjum tilfellum fást hagstæðari lánakjör vegna þessa, sem sparar pening
  • Í sjöunda og síðasta lagi vegna þess að það er rétt. Það er einfaldlega rétt að búa komandi kynslóðum upp á lífvænlegan heim, svo allt okkar tal um sjálfbærni verði ekki einungis orðin tóm

Nú er þessi vegferð við gerð loftslagsáætlana og orkuskipta að hefjast á Vestfjörðum og þann 8. febrúar n.k. blásum við til fundar þar sem farið verður betur í saumana á því. Sérfræðingur að sunnan mætir. Sérfræðingur norðan úr Bolungarvík mætir. Sérfræðingur að vestan mætir. Sérhæfður rithöfundur frá Ísafirði mætir. Síðast en ekki síst mætir mjög sérhæfður smiður frá Danmörku, og jafnvel þú!

Dagskráin verður betur auglýst síðar, t.d. á heimasíðu Vestfjarðastofu, þar sem líka má finna upplýsingar um RECET verkefnið Recet | Vestfjarðastofa (vestfirdir.is) eða RECET (recetproject.eu).

Hjörleifur Finnsson,

Verkefnastjóri umhverfis og loftslagsmála

Vestfjarðastofu

Dómsmálaráðherra: lögreglustjórar almennt ekki vanhæfir til að fara með mál stærri fyrirtækja

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

Dómsmálaráðherra segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að óhætt virðist „að árétta að ekki hefur verið byggt á því sjónarmiði í íslenskri réttarframkvæmd að embættismenn eða dómarar séu almennt vanhæfir til að fara með mál stærri fyrirtækja í sínum umdæmum.

Ráðherrann var inntur eftir því hvort hann teldi að málatilbúnaður Gunnar Arnar Petersen, framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga ætti rétt á sér, en Gunnar hefur haldið því fram að lögreglustjórinn á Vestfjörðum væri vanhæfur til þess að rannsaka mál á hendur Arctic Fish og vísar til þess að erlendis „að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða ð nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra. Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi.“ (Stöð 2 , 30. desember 2023).

Gunnar Örn svarar ekki

Gunnar Örn Petersen hefur enn ekki svarað fyrirspurn Bæjarsins besta þar sem hann var beðinn um rökstuðning fyrir ummælum sínum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra segir að almennt hafi verið talið að það fari ekki vel á því að dómsmálaráðherrar hafi bein afskipti af rannsókn eða meðferð einstakra sakamála sem eru til vinnslu hverju sinni eða tjái sig opinberlega um þau.

Vill ráðherrann ekki tjá sig um hæfi lögreglustjórans og vísar til þess að um vanhæfi til meðferðar sakamála er fjallað í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 og „dómsmálaráðherra hefur út af fyrir sig ekki sérstakar skoðanir á vanhæfismálum á þessu sviði, umfram og út fyrir það sem fram kemur í lagatextanum sjálfum.  Það er lögreglustjóra að meta hvort hann hafi slík tengsl við aðila að hann sé vanhæfur til meðferðar þess og samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna, getur hann borið álitaefni að þessu leyti undir ríkissaksóknara, en ekki dómsmálaráðherra.“

GUÐLAX

Guðlax er allþykkvaxinn og mjög hávaxinn fiskur, hæstur um miðjuna. Hausinn er stuttur og hár að aftan. Kjaftur er lítill og tannlaus. Augu eru stór. Bolur og stirtla eru stutt og spyrðustæði grannt. Bakuggi er hár að framan, eins og horn, og langur. Raufaruggi er langur og lágur. Báðir falla þeir niður í gróf. Eyruggar eru langir og grannir og bogadregnir. Einnig kviðuggar sem eru á miðjum kviði. Sporður er stór og bogasýldur. Hreistur er smátt og rákin er greinileg og liggur í stórum boga yfir eyruggum. Guðlax getur orðið allt að 200 cm langur og 270 kg. Hér veiddist 140 cm fiskur í júlí 1988 á Vestfjarðamiðum.

Guðlax er mjög skrautlegur á lit, dökkblár á baki, grænleitur á hliðum með silfur-, gull- og purpuraslikju. Kviður er silfraður með ljósrauðri slikju og silfurlitum blettum á bol og stirtlu. Uggar eru allir rauðir.

Heimkynni guðlax eru í öllum tempruðu hlutum heimshafanna umhverfis jörðina. Í Norðaustur-Atlantshafi hefur hann fundist frá Íslandsmiðum og Noregi um Norðursjó og allt suður í Miðjarðarhaf. Í Norðvestur-Atlantshafi er guðlax frá Stórabanka við Nýfundnaland suður til Vestur-Indía og Mexíkóflóa. Vart hefur orðið við guðlax undan Suðvestur-Grænlandi.

Guðlax flækist alloft til Íslandsmiða. Hans varð fyrst vart hér árið 1610 eða 1611 þegar einn rak á Skarðsströnd í Dalasýslu. Hann hefur fundist á svæðinu frá Berufirði vestur með landi og norður til Eyjafjarðar, ýmist rekinn eða í veiðarfærum. Stundum verður vart við fleiri en einn sama árið og 1977 veiddi togari sex í einu undan Norðvesturlandi. Algengastur er hann á sumrin og haustin og er hann þá m.a. að elta smokkfiskgöngur.

Guðlax er úthafs- og miðsævisfiskur. Hann hefur veiðst niður á um 400 m dýpi.

Fæða er einkum smokkfiskar og finnast oft skoltar þeirra í maga hans og görn. Einnig étur hann fiska eins og kolmunna, silfurkóð og síld, auk krabbadýra og marglyttna.

Lítið er vitað um hrygningu en egg eru sennilega sviflæg.

Nytsemi er lítil því ekki veiðist mikið af guðlaxi. Hann er þó stundum hirtur þegar hann veiðist hér og veitingahús keppast við að bjóða gestum upp á hann sem lúxusfæðu.

Af hafogvatn.is

KLIFUR ER NÝJASTA SPORTIÐ Á ÍSAFIRÐI

„Klifur er ekki síður andleg þjálfun en líkamleg. Við klifur notar fólk í raun flesta sína vöðva, sem gerir þessa íþrótt mjög hentuga til að halda sér í góðu formi. Síðan þarf útsjónarsemi, þolimæði, frumleika og oft þor og áræðni til að ná markmiðum sínum,“ segir Björgvin Hilmarsson, sem flutti með fjölskyldu sinni á Ísafjörð haustið 2019 og þá einungis til að búa þar einn vetur. 

„Það endaði svo með að við ílengdumst. Dætur okkar, 8 og 13 ára, eru báðar að klifra á fullu og ég var sjálfur mikið með þær í Klifurhúsinu í Reykjavík áður en við fluttum. Þær sögðu að það eina sem vantaði á Ísafjörð væri inniklifuraðstaða,“ segir Björgvin, sem fór strax í að skoða möguleikana fyrir klifur á Ísafirði.

Þetta kemur fram í viðtalið við Björgvin í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

Jón Arnór Stefánsson er formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf.

Á myndinni má sjá Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og Andra Stefánsson, framkvæmdastjóra ÍSÍ eftir undirritun samningsins

 Samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um stofnun félags, sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, Þjóðarhöll ehf var undirritaður í síðusu viku. 

 Í samningnum er byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000m2 að stærð. Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika. Til samanburðar rúmar Laugardalshöll 5.500 gesti hið mesta.

Einhugur ríkir um að mannvirkið muni nýtast vel sem þjóðarhöll í íþróttum og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra keppnisviðburða. Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstöðu fyrir íþróttafélög og skóla í nágrenni Laugardals fyrir kennslu, skólaíþróttir, æfingar og keppni. Þá verður þjóðarhöllin mikilvæg miðstöð fyrir afreks- og almenningsíþróttir og mun nýtast fyrir viðburði tengdum menningu og atvinnulífi.

Þá hefur Jón Arnór Stefánsson, fyrrum afreksíþróttamaður í körfuknattleik verið skipaður formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf.

Stjórn Þjóðarhallar ehf. skipa fimm einstaklingar. Ríki og borg tilnefna tvo fulltrúa hvort sem sitja í stjórn ásamt formanni. Þeir eru:

  • Helga Sigurrós Valgeirsdóttir
  • Þórey Edda Elísdóttir
  • Ómar Einarsson
  • Ólöf Örvarsdóttir

Kynning á viðbragðsáætlun fyrir Flateyri

Í dag þann 15. janúar kl.17:00 verður öllum Flateyringum boðið í Gunnu kaffi á Flateyri.

Þar ætlar lögreglan á Vestfjörðum ásamt öðrum viðbragðsaðilum, s.s. slökkviliði/sjúkraflutningum, björgunarsvetinni á Flateyri, RKÍ deildinni á Flateyri ásamt verkefnisstjóranum á Flateyri að kynna viðbragðsáætlun sem stuðst er við ef til snjóflóðahættu kemur ofan Flateyrarvegar og ofan byggðarinnar á Flateyri.

Boðið verður upp á veitingar.
Ætlunin er að gefa þeim sem ekki komast kost á að fylgjast með í streymi á Facebook.

Umdeilt bann við laxeldi

Húsavík.

Sveitarfélagið Norðurþing gerir athugasemdir við tillögu Matvælaráðherra í drögum að frumvarpi um lagareldi um bann við laxeldi í sjó í Eyjafirði og Öxarfirði. Segir í bréfi Norðurþings að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin við vinnslu frumvarpsins né haf það verið sent sveitarfélögunum til umsagnar. „Friðun hafsvæða og lögfesting þess er mjög stór ákvörðun og eðlilegt að byggðarlögin sem verða fyrir mestu áhrifum frumvarpsins og íbúar þess komi að umræðunni um friðun.“ segir í bréfinu.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur að umræða um friðun ákveðinna svæða eigi ekki heima innan lagasetningar sem snýr annars að almennri umgjörð greinarinnar. Umræða um friðun svæða eigi frekar að fara fram í sér tillögum að svæðisbundnum lögum eftir því sem við á hverju sinni og byggja til að mynda á burðaþolsmati sem leitt geti til upplýstrar umræðu á hverjum stað fyrir sig. 

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggur áherslu á að ekki sé mögulegt að taka upplýsta og vel rökstudda ákvörðun um það hvort rétt sé að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í sjókvíum fyrir komandi kynslóðir fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar til slíkrar ákvarðanatöku liggja fyrir, svo sem burðarþolsmat, og málefnaleg umræða hafi í kjölfarið átt sér stað.

Mikilvægt sé því að lögfesting friðunarsvæða verði því ekki hluti af lögunum og að viðkomandi samfélög fái tíma og upplýsingar til að taka málefnalegar umræður um sín nærsvæði og að lögfesting friðunarsvæða fari því frekar fram í sérfrumvarpi til laga.

Sveitarstjórn er meðvituð um þá möguleika til atvinnu og verðmætasköpunar sem felast í fiskeldi og að mismunandi aðferðir við eldi geti haft mismikil áhrif á umhverfið segir í umsögninni. Bendir sveitarstjórn því á að í stað íþyngjandi ákvarðana um friðun ákveðinna svæða sé heillavænlegra að leggja áherslu á það í lagasetningunni að skapa greininni viðunandi umgjörð, líkt og frumvarp þetta til laga leggur grunn að, þar sem skýrt sé til hvers sé ætlað af aðilum í greininni, eftirlit sé raunverulegt og fullnægjandi og brot á reglum sé mætt með viðeigandi viðurlögum.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fagnar löggildingu friðunar Skjálfandaflóa fyrir sjókvíaeldi og leggur áherslu á að vernda lax og silungsveiði.

Nýjustu fréttir