Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 191

Fundur á Flateyri um snjóflóðahættu

Myndina tók Jóhannes Jónsson

Á mánudag var haldinn fundur á Flateyri um snjóflóð.

Þar voru mættir fulltrúar flestra viðbragðsaðila sem koma með einum eða öðrum hætti að því að tryggja öryggi íbúa á Flateyri ef til snjóflóðahættu kemur.

Auk lögreglunnar voru fulltrúar frá slökkviliði, björgunarsveit, Rauðakrossinum, áhöfn björgunarskipsins á Flateyri, Vegagerðinni, verkefnisstjóranum á Flateyri og fleirum.

Á fundinum fór Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn og þátttakandi í Aðgerðastjórn Almannavarna á Vestfjörðum, yfir viðbrögð og aðgerðaáætlun ef snjóflóðahætta skapast ofan Flateyrarvegar og byggðarinnar.

Frv um lagareldi: áhyggjur af meðalhófsreglu stjórnsýslu

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur segja í sameiginlegri umsögn um frumvarp um lagareldi, sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda að umsagnaraðilar hafi áhyggjur af því að meðalhófsreglu stjórnsýslunnar sé ekki gætt við gerð frumvarpsins.

Bent er á að í frumvarpinu sé margt óljóst, þar sem mikilvæg atriði skulu sett í reglugerð. Af þeim sökum sé erfitt að gera heildstæða umsögn um frumvarpið enda margir óvissuþættir, skortur á upplýsingum og forsendum, þar sem drög að reglugerðum eru ekki komin fram.

Sveitarfélögin segja að þau séu fylgjandi áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum og leggja
áherslu á að hugað sé að samfélagslegum áhrifum einstakra greina frumvarpsins. Sjókvíaeldi sé ráðandi atvinnugrein á sunnanverðum Vestfjörðum og því geti refsingar og takmarkanir í rekstri sjókvíaeldisfyrirtækja haft mikil neikvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fyrir íbúa og sveitarfélög svæðisins.

Umsagnaraðilar segjast ekki munu leggja mat á hvort tillögur í frumvarpinu um gjaldtöku teljist sanngjörn og í samræmi við umsvif hennar en gjöld af greininni megi ekki koma í veg fyrir frekari tækniframfarir og þróun, enda ætti frumvarpið að leiða til hagrænna hvata til þróunar og innleiðingu framleiðsluaðferða sem minnka neikvæð umhverfisleg áhrif.

Vilja sveitarfélögin að stórum hluta fiskeldisgjalds verði varið beint til sveitarfélaganna til innviðauppbyggingar í stað þriðjungs sem nú er og gera athugasemdir við að sækja þurfi um til sérstaks sjóðs og það fyrirkomulag skapi óvissu og ófyrirsjáanleika.

Skorað er á stjórnvöld að hluti nýrra starfa í eftirliti, vöktun og rannsóknum séu staðbundin og unnin í námunda við framleiðsluna.

Að lokum er lögð áherslu á að lagareldi sé byggt á vísindalegum grunni og vilja sveitarfélögin að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar sé gert hærra undir höfði, sé leiðbeinandi eða bindandi að hluta.

Birgitta Ólafsdóttir í úrslitakeppni Idol

Birgitta Ólafsdóttir flytur lag sitt í síðustu viku. Mynd: visir.is

Úrslitakeppni Idol er hafin á Stöð 2 og komust átta keppendur í úrslitin. Þegar er búinn einn þáttur af úrslitunum og eru sjö keppendur eftir. Þeim mun svo fækka um einn í hverjum þætti. Næsti þáttur verður á föstudaginn.

Meðal keppenda er Birgitta Ólafsdóttir sem er af ísfirskum ættum, dóttir Ólafs M. Birgissonar á Tangagötu 22. Verður spennandi að fylgjast með gengi hennar í keppninni.

Birgitta þótti standa sig vel í undankeppninni Birgitta þegar hún flutti lagið Stand up með Cynthia Erivo.

Tálknafjörður: vill tryggja vetrarþjónustu um Klettháls

Vetrarveður á Kletthálsi.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ræddi á fundi sínum í síðustu viku um vetrarþjónustu af því tilefni að fyrirhugað er útboð á vetrarþjónustu á leiðinni Dynjandisheiði – Klettháls.

Lýsti sveitarstjórnin yfir áhyggjum sínum af mögulega lakari vetrarþjónustu vegna fyrirséðra breytinga í fyrirhuguðu útboði Vegagerðarinnar þar sem ætlun Vegagerðarinnar sé að nota sömu tæki á leiðinni frá Dynjanda að Klettshálsi til að opna leiðina og halda henni opinni þann tíma sem vegurinn er þjónustaður. Segir sveitarstjórnin að brýnt sé að hafa í huga hversu erfiður fjallvegur Dynjandisheiðin getur verið á snjóþungum vetri og því „óttast sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps að slíkt ástand geti komið niður á vetrarþjónustu á leiðinni Flókalundur-Klettsháls ef gengur erfiðlega að opna Dynjandisheiðina. Það má ekki gerast að fyrirkomulag þjónustu valdi því að leiðin að Klettshálsi opni síðar en er í núverandi fyrirkomulagi.“

Bent er á að mikið af þungaflutningum til og frá svæðinu fari um Klettsháls auk umferðar almennra íbúa og því sé algjört lykilatriði að tryggja að vetrarþjónusta á leiðinni að Klettshálsi sé ávallt eins og best verður á kosið.

„Því leggur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mikla áherslu á að Vegagerðin tryggi að vetrarþjónustu verði ávallt sinnt sem best má verða og að vandað sé til verka við undirbúning útboðs ef breyta á leiðum í vetrarþjónustu.“

Ríkið dæmt til að greiða Reykjavíkurborg 3,4 milljarða króna vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Frá Reykjavík.

Fyrir áramót féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem Reykjavíkurborg höfðaði á hendur ríkinu vegna greiðslna úr Jöfnunarjóði sveitarfélaga. Krafðist Reykjavíkurborg þess að fá greiddar 5.418 milljónir króna vegna áranna 2015-19 vegna reksturs grunnskóla og vegna nýbúafræðslu.

Gert var samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga 1996 um færslu grunnskólans til sveitarfélaganna og í framhaldinu voru gerðar breytingar á tekjustofnum sveitafélaganna þannig að tekjuskattsprósenta varð að útsvarsprósentu. Miðað var við þá tölu sem Reykjavíkurborg taldi sig þurfa. Önnur sveitarfélög voru talin þurfa meira fé til rekstursins og hafa fengið viðbót úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að mæta því.

Reykjavíkurborg gerði kröfuna í ljósi dóms í öðru máli þar sem lagastoð skorti fyrir útdeilingu fjár úr Jöfnunarsjóðnum og var ríkið dæmt til að greiða viðkomandi sveitarfélagi sem hafði fengið skertar greiðslur. Benti Reykjavíkurborg á að lagastoð skorti fyrir því að Reykjavíkurborg fengi ekki framlög úr Jöfnunarsjóðnum vegna reksturs grunnskóla og vegna nýbúafræðslu í grunnskólum.

Héraðsdómur tók undir þetta og segir að stefnandi haft átt rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóði. Samkomulag milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um tilteknar forsendur, sérstöðu borgarinnar og möguleikar á fjármögnun og hagræðingu voru ekki talin breyta því að lagheimild skorti til að undanskilja stefnanda lögbundnum framlögum. 

Var ríkið dæmt til þess að greiða 2.114 m.kr. vegna reksturs grunnskóla á umræddu árabili og 1.256 m.kr. vegna nýbúafræðslu auk vaxta eða samtals 3.370 m.kr.

Ríkið hafði lýst því yfir áður að ef Reykjavíkurborg ynni málið yrði ekki aukið við fé til Jöfnunarsjóðsins heldur yrði endurútreiknað og lækkað framlag til sveitarfélaganna sem höfðu fengið úthlutun. Með vöxtum og dráttarvöxtum er gert ráð fyrir að fjárhæðin verði 5,5 milljarðar króna.

Málinu verður áfrýjað.

Breytingum á Jöfnunarsjóðnum frestað

Innviðaráðherra hefur tilkynnt sveitarfélögunum að frestað verði lagabreytingum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar til óvissu hefur verið eytt. Fyrirhugað er að gera viðamiklar breytingar á sjóðnum og útdeilingu fjárins milli sveitarfélaganna.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lýsti yfir vonbrigðum með dóminn og segir í bókun að ótækt sé að sveitarfélög séu látin borga brúsann vegna málsins. Mikilvægt sé að halda áfram vinnu við breytt fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs þar sem markmiðin með þeirri vinnu eru að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í framlögum sjóðsins.

MÍ: ráðuneyti vill ganga frá samningi sem fyrst

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna
samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Fram kemur í skýrslu Vestfjarðastofu til sveitarfélaganna að Ásmundur Einar Daðason ráðherra vill koma eins fljótt og auðið er vestur til að undirrita samkomulag við sveitarfélögin. Fjórðungssamband Vetsfjarða fól Vestfjarðastofu að samræma sjónarmið sveitarfélaganna til aðkomu þeirra að byggingu hússins með þeim fyrirvara að í því fælist engin skuldbinding um aðkomu sveitarfélaganna að verkefninu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði á mánudaginn að það fagni því að umræða um nýtt verkmenntahús sé komin á skrið og fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Vestfjarðastofu og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna málsins.

Sérstakur kynningarfundur verður haldinn í fjarfundi í dag kl 13 fyrir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum.

Sett hefur verið upp skipting kostnaðar milli sveitarfélaga m.v. íbúafjölda um áramótin og að öll sveitarfélögin taki þátt í verkefninu.

Skrápflúra

Skrápflúra er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur. Haus er miðlungsstór, kjaftur frekar stór og ná skoltar aftur á móts við mitt hægra auga. Tennur eru hvassar og bognar, jafnsmáar og í einni röð á báðum skoltum. Augu eru stór, stærri en trjónulengdin og Iiggur vinstra auga aftar en það hægra. Bak- og raufaruggi eru langir og byrjar bakuggi yfir miðju vinstra auga. Sporður er bogadreginn eða smáyddur í miðju. Hreistur er stórgert og hrjúft og rák er greinileg. Hún er nokkuð bein nema með smábug yfir eyruggum. Stærsta skrápflúra sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 65 cm og veiddist hún á Gerpisgrunni í mars árið 1991.

Skrápflúra er rauðgrá á hægri hlið, stundum dökkgrá en vinstri hlið er hvít.

Heimkynni skrápflúru eru í Norður- Atlantshafi, Norður-Íshafi og Barentshafi frá Svalbarða og meðfram ströndum Noregs inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó, suður í Ermarsund og umhverfis Bretlandseyjar. Hún er við Færeyjar og Ísland. Við Grænland og Norður-Ameríku er undirtegundin Hippoglossoides platessoides platessoides. Hún hefur mælst lengst 82 cm.

Skrápflúra er mjög algeng allt í kringum Ísland.

Skrápflúra er botnfiskur sem heldur sig mest á leir- og leðjubotni á 10- 400 m dýpi og dýpra en hún hefur veiðst allt niður á 1200 m dýpi.

Fæða er mest loðna og alls konar botndýr, svo sem burstaormar, slöngustjörnur, samlokuskeljar, sniglar, kuðungakrabbar og fleiri krabbadýr en einnig sandsíli og fleiri smáfiskar.

Hrygning fer fram allt í kringum landið í mars til júní. Eggjafjöldi er 50-300 þúsund og þau eru 2-3 mm í þvermál, sviflæg og klekjast á um tveimur vikum. Seiði eru 4- 6 mm við klak og lifa í svifinu þar til þau eru 2-4 cm löng en hverfa þá til botns. Vöxtur er hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar, verða kynþroska seinna og geta náð hærri aldri.

Skrápflúra veiðist oft með öðrum fiskum í botnvörpu og var til skamms tíma lítils metin og henni fleygt.

Árið 1996 veiddu Íslendingar 6.435 tonn af skrápflúru á Íslandsmiðum sem er mesti afli þar til þessa.

Af hafogvatn.is

Hafró – Rýnt í ríflega hálfa milljón fiskamaga á 27 ára tímabili

Loðna er mikilvægur hluti af fæðu þorsks, sem er einn helsti ránsfiskur landgrunnsins. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknarstofnun gaf nýlega út viðamikla skýrslu um fæðu 36 tegunda botnfiska á Íslandsmiðum frá 1996 til 2023 og var alls skoðað í maga 590 þúsund botnfiska á tímabilinu. Af þessum 36 tegundum eru 17 þar sem fæðu hefur ekki áður verið lýst með magnbundnum hætti hér við land.

Í skýrslunni er lýst með stöðluðum hætti fæðuvali og magni einstakra botnfiskategunda. Auk þess veita niðurstöður einnig upplýsingar um hve háðar mismunandi tegundir ránfiska eru ákveðnum fæðuhópum og út frá mikilvægi fæðuhópa má flokka ránfiska í nokkra hópa.

Þorskur er einn helsti ránfiskur landgrunnsins hefur fjölbreytt fæðuval og nýtir það sem er í boði hverju sinni, mest loðnu, aðra fiska og ýmis krabbadýr. Af öðrum tegundum á landgrunninu eru langa, keila og skötuselur fyrst og fremst fiskætur en helstu krabbadýraætur landgrunnsins eru tindaskata, ufsi, lýsa og gullkarfi. Á hinn bóginn eru ýsa, steinbítur, blágóma, skarkoli, sandkoli og skrápflúra fyrst og fremst botndýraætur. Hrognkelsi hefur þá sérstöðu að treysta nær alfarið á ýmsar sviflægar hveljur sem fæðu, þ.e. marglyttur og kambhvelur.

Meðal magafylli (þ.e. magn fæðu sem hlutfall af þyngd ránfisks) var breytileg yfir tímabilið hjá flestum tegundunum en hefur þó farið gagngert minnkandi hjá þorski og ýsu auk þess sem hlutfall tómra maga hefur farið vaxandi hjá þessum tveimur tegundum.

Í skýrslunni er sérstaklega horft til útbreiðslu helstu fæðutegunda og hópa eins og hún endurspeglast í mögum botnfiska, og metin dreifing þeirra m.t.t. hitastigs og dýpis og hvaða afræningjar treysta helst á viðkomandi fæðu. Jafnframt er fjallað um breytingar sem orðið hafa á tímabilinu varðandi hlutfallslegt vægi helstu fæðutegunda.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar

Tími þorrablóta að renna upp

Þorrinn hefst á föstudegi í 13. viku vetrar en fyrsti dagur þorra er venju samkvæmt kallaður bóndadagur og er hann 26. janúar í ár.

Þorrablót er fastur liður í skemmtanahaldi víða um land og er nú þegar farið að auglýsa þorrablót.

Kvenfélagið Hvöt heldur sitt árlega þorrablót venju samkvæmt 1. laugardag í febrúar og verður blótið haldið í Félagsheimilinu Hnífsdal, 3. febrúar 2024. Blótið er með hefðbundnu sniði, gestir koma með sín eigin trog full af kræsingum.

Þá verður þorrablót kvenfélagsins Sifjar á Patreksfirði haldið þann 27. janúar nk.
Dýrindis heimagerður þorramatur, skemmtiatriði að hætti kvenfélagskvenna þar sem góðlátlegt grín er gert að helstu atburðum ársins og svo verður dansað fram á rauða nótt!

Laugardaginn 10. febrúar verður hið margrómaða þorrablót Stútungur haldinn á Flateyri.

Aukið viðlegupláss í Suðureyrarhöfn

Á fundi hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar var í dag lagt fram minnisblað Kjartans Elíassonar, fyrir hönd Vegagerðarinnar, dags. 31. ágúst 2023, þar sem óskað er eftir afstöðu hafnarstjórnar til þess hvaða leið verði valin til að auka viðlegupláss í Suðureyrarhöfn. Einnig lagður fram uppdráttur af valkostunum.

Hafnarstjórn leggur til að valkostur tvö í minnisblaði, um að færa grjótgarð og setja nýja flotbryggju í garðstæðið verði fyrir valinu.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 50,0 milljónum í framkvæmdir við Suðureyrarhöfn árið 2026.

Nýjustu fréttir