Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 190

Breyting á skipulagslögum sem varða hagkvæmar íbúðir

Nýlega tóku gildi breytingar á skipulagslögum.

Samkvæmt breytingunni hafa sveitarfélög nú heimild til að gera kröfu um að við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðarsvæði verði allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða fyrir hagkvæmar íbúðir, þ.e. íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016, og íbúðir sem falla undir VI. kafla A og VIII. kafla laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Heimildin gildir hvort sem landeigandi er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili.

Fiðlarinn á þakinu

Í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarskólans var ákveðið í samvinnu við Litla Leikklúbbinn að setja upp Fiðlarann á þakinu.

Ísfirðingurinn Þórhildur Þorleifsdóttir tók að sér að leikstýra og Bergþór Pálsson skólastjóri fer með aðalhlutverkið.

Bea Joó er hljómsveitarstjóri og hljómsveitin er skipuð kennurum, nemendum og fyrrum nemendum skólans. Æfingar hófust fyrir áramót í Hömrum. 

Vel yfir þrjátíu manns þátt í uppsetningunni, yfir 20 leikarar og 9 manna hljómsveit.

Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, fyndinn og hjartnæmur söngleikur eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein, sem var fyrst frumsýndur á Broadway 1964. 1971 kom út vinsæl söngvamynd byggð á söngleiknum.

Söngleikurinn er meðal þeirra sem oftast hefur verið settur upp á heimsvísu enda er tónlistin létt og skemmtileg og mörgum kunn.

Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje, sem leikinn er af Bergþóri Pálssyni. Verkið gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir en foreldrarnir, miðlarinn og samfélagið.

Fiðlarinn á þakinu verður frumsýndur 1. febrúar í Edinborgarhúsinu.

Vestfjarðastofa: 80% af fiskeldisgjaldi renni til sveitarfélaga

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Vestfjarðastofa segir í umsögn sinni um frumvarp matvælaráðherra um lagareldi að Fjórðungssamband Vestfirðinga hafi ályktað að meginhluti fjármagns Fiskeldissjóðs renni til verkefna sveitarfélaga eða allt að 80%. Í dag er það þriðjungur fiskeldisgjaldsins. Hins vegar tekur Vestfjarðastofa undir þá breytingu á Fiskeldissjóði að gera hann að Samfélagssjóði sjókvíaeldis og úthlutun sjóðsins breytt úr umsóknarfyrirkomulagi yfir fyrirkomulag með fastri skiptingu á sjókvíaeldissvæði og þaðan innan sveitarfélaga.

Vestfjarðastofa gerir athugasemd við áform um að friðlýsa svæða gagnvart sjókvíaeldi auk
annarra takmarkandi ákvæða með lögum. Með því muni eldismagn við Ísland vera fest við rétt um 145 þús tonn m.v. núverandi burðarþolsmat og óljóst hvernig atvinnugreinin geti þróast innan þess ramma.

Það er mat Vestfjarðastofu að með því verði um að ræða gjörbreytta mynd af framþróun atvinnugreinarinnar sem að óbreyttu verði í andstöðu við aðalmarkmiði laganna, um að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu.

áhyggjur af áhrifum frumvarpsins

Stjórnvöld verða á hverjum tíma að gæta að samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar gagnvart öðrum þjóðum og skapa rými til að þróa eldisaðferðir sem henta aðstæðum við Ísland. Sá rammi sem frumvarpsdrögin setja telur Vestfjarðastofa dragi mjög úr fjárhagslegri og sérfræðilegri getu fyrirtækja að þróa sjókvíeldi og útilokað að ná því markmiði að innan fimm ára að vera í forystu varðandi stöðu lífríkis og velferð dýra.

Vestfjarðastofa hefur áhyggjur af því, að gangi frumvarpið fram í óbreyttri mynd, muni að það skapi mikla óvissu og alvarlega stöðu og framtíð samfélaga sem byggja á lagareldi. Drögin skorti heildarsýn á áhrif breytinga lagaramma og hugsanleg mögnunaráhrif og árekstra mismunandi aðgerða. Í annan stað hafi ekki verið skoðað meðalhóf um setningu aðgerða og ætluðum árangri þeirra.

Landsvirkjun auglýsir útboð á vindmyllum við Búrfellslund

Landsvirkjun tilkynnti í gær um útboð fyrir Búrfellslund sem hefst á næstu dögum – með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál.

Þetta er óhefðbundið ferli en með því að halda útboð samhliða lokavinnu við skipulag, leyfi og samninga er þeim möguleika haldið opnum að vindorkuverið verði gangsett á árinu 2026. Útboðsferlið og afhendingartími búnaðar er það langur að annars frestast verkið um heilt ár.

Allt að 30 vindmyllur verða í Búrfellslundi, hver og ein með 4-5 MW uppsett afl og samanlögð orkugeta verður um 440 GWst á ári. Rammaáætlun gerir ráð fyrir allt að 120 MW uppsettu afli.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að orkuvinnslukerfi Landsvirkjunar sé nú fullnýtt og orkan uppseld. Fyrirsjáanlegt sé að þetta ástand vari þar til hægt er að auka orkuvinnslu. Raforkuorkuvinnslan í dag geti ekki mætt eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti.

Orkubú Vestfjarða fær ekki orku

Á morgun 19. janúar hefst boðuð skerðing Landsvirkjunar til Orkubús Vestfjarða á afhendingu afgangsorku sem mun standa til 30. apríl eða í 103 daga. Á þeim tíma áætlar Orkubú Vestfjarða að það muni brenna 3,4 milljónir lítra af olíu m.a. til þess að keyra katla fjarvarmaveitna á Vestfjörðum sem annars eru kyntar með rafmagni. Kostnaðurinn er áætlaður 520 m.kr.

Búvörusamningur: endurskoðun með litlum breytingum

Frá réttum í Minnihlíð í Bolungavík. Gísli Skarphéðinsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ríkið og Bændasamtök Íslands undirrituðu í gær samkomulag um endurskoðun á gildandi búvörussamningum. Í fréttatilkynningu frá Matvælaráðuneytinu segir að ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á samningunum að svo stöddu. Helstu breytingar eru að hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt sem helst þannig óbreytt frá árinu 2024 og út gildistíma samninga eða til 31. desember 2026. Þá eru gerðar minni háttar breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. 

Í bókunum við samkomulagsskjalið er einnig lögð áhersla á sameiginlegt markmið samningsaðila um að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að nauðsynlegt sé að hefja undirbúning innleiðingar á loftslagsbókhaldi landbúnaðarins.  Einnig er bókun um að samningsaðilar séu sammála því að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2015 séu breyttar og að markmið yfirstandandi endurskoðunar verði að auka jafnvægi í samningnum.

Bændasamtökin töldu þörf á 12 milljörðum króna til þess að bregðast við alvaræegri stöðu landbúnaðarins en stjórnvöld lögðu fram 2,1 milljarða króna undir lok síðasta árs. Skipting þessara fjármuna var ekki borin undir samninganefnd bænda og voru stórir hópar bænda sem ekki nutu þessarar einskiptis aðgerðar segir á vef Bændasamtakanna. Lýsti stjórn Bændasamtakanna bæði vonbrigðum og áhyggjum vegna þessarar niðurstöðu.

Það er afstaða stjórnar Bændasamtaka Íslands að mikill áfangi hafi náðst því nú hafi stjórnvöld áttað sig á stöðunni og viðurkennt vandann sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir. Aftur á móti liggi fyrir að viðbrögð stjórnvalda síðustu tveggja ára hafa ekki verið til þess fallin að snerta með fullnægjandi hætti á grafalvarlegri stöðu greinarinnar.Nú þurfi að treysta stoðirnar til framtíðar og tryggja stöðu bænda, afkomu þeirra og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi atvinnugreinarinnar.

Bolungavík: 300 m.kr. lántaka

Vatnsveitan í Bolungavík verður í Hlíðardal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti í fyrradag að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 300.000.000 með lokagjalddaga þann 23. mars 2040.

Er lánið tekið til að endurfjármagna afborganir sveitarfélagsins og Bolungavíkurhafnar ásamt fjárfestingum á árinu 2024.

Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2024 verður framkvæmt fyrir nærri 400 m.kr. þar af eru 300 m.kr. fjármagnaðar úr bæjarsjóði.

Stærsta framkvæmdi er við nýja vatnsveitu og eru settar 146 m.kr. í það verkefni. Miklar framkvæmdir verða við götur og gangstéttir á árinu. Í Lundahverfi verður framkvæmt við götur og lagnir fyrir 100 m.kr., byrjað verður á miklu viðhaldi á Völusteinsstræti og settar eru 40 m.kr. í það , 50 m.kr. eru áætlaðar í annað malbik og 9 m.kr. í gangstéttir.

Dynjandisheiði: sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga  uppbyggingar Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði. Vegarkaflinn er um 7 km langur og allur í Ísafjarðarbæ.

Alls er áætlað að það þurfi 640 þúsund rúmmetra af efni sem sótt verður í skeringar og nálægar námur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og taki 2 ár. Í umsókninni er tilgreint hvernig ganga eigi frá vegsvæði og uppgræðslu á efnistökusvæðum og skeringum í samráði við landeigendur og Umhverfisstofnun. Kemur fram að kjarr verði endurheimt á svæðum sem eru utan 1,5 metra fjarlægðar frá axlarkanti.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar mælir með því að bæjarstjórn veiti framkvæmdaleyfi en með því skilyrði að kjarr verði ekki endurheimt svo nálægt vegöxl, eins og kemur fram í umsókninni, þar sem það gæti haft áhrif á snjósöfnun á veginum.

Málið verður tekið til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í dag.

Andlát: Birgir Valdimarsson

Birgir Valdimarsson.

Birgir Breiðfjörð Valdimarsson lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 14. janúar sl. Birgir var fæddur í Efri-Miðvík í Aðalvík þann 30. júlí 1934. Foreldrar hans voru Valdimar Þorbergsson frá Efri-Miðvík fæddur 14. nóvember 1906 og Ingibjörg Guðrún Bjarnadóttir frá Flatey í Breiðafirði, fædd 19. september 1908. 

Hinn 20. júlí 1957 kvæntist  Birgir eftirlifandi eiginkonu sinni, Maríu ErluEiríksdóttur frá Keflavík, fædd 16. ágúst 1936. Foreldrar hennar voru Eiríkur Jóel Sigurðsson frá Keflavík, fæddur 21. mars 1895 og Stefanía Dómhildur Guðmundsdóttir frá Hvalsnesi, fædd 26. janúar 1900.

Börn Birgis og Erlu eru:

Stefanía, fædd 1. mars 1957. Maki hennar er Olgeir Hávarðarson, fæddur 4. ágúst 1955. Synir þeirra eru Olgeir Stefán sem er látinn, Hávarður, Birgir og Valdimar. Dætur Hávarðar eru Hildur Kristín og Sóley Erla.

Oddný Bára, fædd 4. apríl 1958. Maki hennar er Sigurjón Jóhann Sigurðsson, fæddur 10. apríl 1957. Börn þeirra eru Sæunn Sigríður Sigurjónsdóttir, maður hennar er Steingrímur Rúnar Guðmundsson. Dætur þeirra eru Svava Rún, Elma Katrín og Hildur Lóa. Birgir Örn Breiðfjörð, sambýliskona hans er Sara Fönn Einarsdóttir, börn hans eru Alexander Örn Breiðfjörð og Margrét Bára Breiðfjörð. Sambýliskona Alexanders er Aníta Ósk Logadóttir og eiga þau soninn Arnar Gauta Breiðfjörð. Kristín Ósk, sambýlismaður hennar er Haukur Örn Gunnarsson og dóttir þeirra er Hólmfríður Lilja. 

Valdimar Breiðfjörð fæddur 1. júní 1962.  Maki hans er Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fædd 28. september 1972. Börn hans eru Aldís María, Matthías Már, Þorbjörg Edda, Bríet Erla Breiðfjörð og Birgir Marzilíus. Synir Aldísar eru Róbert Blær og Valdimar Leó Bjarnasynir. Sambýliskona Matthíasar er Ásdís Eva Diðriksdóttir.

Erla Kristín Breiðfjörð, fædd 16. ágúst 1969. Maki hennar er Sigdór Rúnarsson fæddur 17. febrúar 1964, börn þeirra eru Indíana Breiðfjörð og Arnar Jóel. Synir Indíönu eru Kristófer Rúnar, Sigdór Vilhelm og Frosti Laufdal. Unnusta Arnars er Karolina Darnowska.

Birgir bjó í Aðalvík til 13 ára aldurs þegar hann flutti með fjölskyldu sinni til Ísafjarðar og bjó þar alla tíð eftir það. Hann starfaði hjá Flugfélagi Íslands á Ísafirði og síðar sem flugumferðarstjóri þar. Hann vann um tíma sem skrifstofustjóri hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga þar til hann réð sig sem útgerðarstjóra hjá Gunnvör sem gerði út Júlíus Geirmundsson. Síðar var hann útgerðarstjóri hjá Útgerð Hafþórs. Birgir tók svo við starfi húsnæðisfulltrúa Ísafjarðarbæjar þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun.

Birgir var mikill fjölskyldumaður og stundaði íþróttir af kappi hvort sem það voru skíði, fótbolti, badminton, skák, bridge eða golf sem átti hug hans hin síðari ár.

Um helmingur skatttekna sveitarfélaga fer til leik- og grunnskóla

Grunnskólinn Suðureyri.

Samband íslenskra sveitarfélaleik hefur gefið út yfirlit um skólahald í leik- og grunnskólum á árinu 2022.
Heildarkostnaður sveitarfélaga vegna þessara tveggja skólastiga var um 205 milljarðar króna.

Um er að ræða fjölbreytt safn lykiltalna í 20 töflum. Má þar nefna menntun starfsfólks, fjölda stöðugilda, rekstrarkostnað á hvern nemanda/heilsdagsígildi og svo kostnað vegna fræðslumála sem hlutfall af skatttekjum og útgjöldum sveitarfélaga. Árið 2022 námu útgjöld sveitarfélaga vegna leik- og grunnskóla að meðaltali um 49% skatttekna þeirra eða 189 ma. króna nettó.

Hlutfall leikskólakennara í leikskólum reknum af sveitarfélögum var 26% en þegar horft er til allra með uppeldismenntun er sinna uppeldis- og menntunarstörfum þá er hlutfallið 44%. Árið 2022 er að jafnaði 3,33 heilsdagsígildi leikskólabarna á hvert stöðugildi í leikskólum og má leiða líkum að því að fjölgun yngri leikskólabarna hafi áhrif hér á. Heildarkostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla var 73,2 ma. kr. árið 2022.

Hlutfall grunnskólakennara í grunnskólum reknum af sveitarfélögum var 85%. Um 11,1 nemendur voru á hvert stöðugildi kennara. Hér eru stjórnendur ekki meðtaldir. Heildarkostnaður sveitarfélaga vegna grunnskóla var 132 ma. kr. árið 2022.

Yfir 29 þúsund bílar skráðir

Yfir 60% þeirra sem eiga rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla hafa nú skráð kílómetrastöðu á Ísland.is og eru skráningarnar orðnar rúmlega 29.000 að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Um áramótin tók gildi kílómetragjald fyrir notkun slíkra bíla og hafa eigendur frest til 20. janúar til að skrá kílómetrastöðuna.

Kílómetragjaldið byggist á fjölda ekinna kílómetra og því munu þeir greiða sem nota vegakerfið. Gjaldið verður 6 kr/km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr/km fyrir tengiltvinnbíla.

Fyrsti gjalddagi vegna kílómetragjalds er 1. febrúar og eindagi 14 dögum síðar. Þeir sem ekki skrá bíla sína fyrir 20. janúar fá reikning fyrir áætlaðri notkun sem miðast við meðalakstur fólksbíls og eru rétt rúmlega sjö þúsund krónur á mánuði. Með skráningu á kílómetrastöðu á Ísland.is munu greiðslur endurspegla notkun bíls.

Nýjustu fréttir