Mánudagur 2. september 2024
Síða 19

Bolungavík: vinir gamla róló í miklum endurbótum

Gamli róló. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í Bolungavík hafa verið mynduð samtök um endurbætur á gamla róló, sem kallaður er, en þar var leikskólinn lengi áður en byggt var nýr leikskóli við Hlíðarstræti. Leikvöllurinn hefur áfram verið notaður sem leiksvæði fyrir börn og þar er m.a. ærslabelgur staðsettur.

Samtökin nefnast vinir gamla róló og hafa þau að sögn Magnúsar Inga Jónssonar safnað hátt í 4 m.kr. til kaupa á leiktækjum. Magnús segir um að ræða 10 leiktæki af ýmsum gerðum svo sem körfurólu, vegasalt, gámatæki og hljómlistartæki. Búið er að panta tækin erlendis frá og eru þau væntanleg innan skamms og verða sett upp í sumar.

Magnús segir að gengið hafi vel að safna fé, haldið hafi verið bingó, leitað til einstaklinga og fyrirtækja og nú er verið að selja snúða þar sem poki með 10 snúðum selst á 3.000 kr. Auglýst er á eigin facebooksíðu , sem nefnist vinir gamla róló og eins á auglýsingartöflunni fyrir Bolungavík.

Magnús Ingi segir að endurbætur sumarsins séu aðeins fyrsti áfangi af þremur sem fyrirhugaðar eru á gamla róló. Hann segir hugmyndir uppi um næstu skref, m.a. hafi komið upp tillögur um hjólabraut og rampa en þetta verði frekar ákveðið síðar.

Samtökin sendu erindi til Bolungavíkurkaupstaðar og fóru fram á fjárstyrk til tækjakaupanna.

Katrín Pálsdóttir, starfandi bæjarstjóri segir að bæjarráðið hafi tekið vel í erindið og fagnað framtakinu. Verður fulltrúum samtakanna boðið til fundar við bæjarráð til þess að fara yfir erindið.

Act alone á einstökum föstudegi

Salome Katrín verður með tónleika í kvöld.

Áfram heldur hin einstaka listaveisla á Act alone á Suðureyri í dag. Nú verður leikið á öllum sviðum ef svo má segja bæði þessa heims og handan. Því kveldið hefst á miðilsfundi Önnu Birtu kl.19.01. Viðburðurinn hefst á söng við undirspil píanistans Sigurðar Helga. Anna Birta Lionaraki miðill rýnir á milli tveggja heima hvar rætt verður við lífs og liðna. Vert er að taka fram að aðeins komast 40 sálir á þennan viðburð og verður hægt að nálgast miða frá kl.18.01 í félagsheimilinu á Suðureyri.

Næst stígur á stokk belgísk/franski trúðurinn Fransoise Simon með trúðaeinleikinn Heading North. Trúðurinn heldur af stað á slóð fortíðarinnar sem mótaði hana. Sýningin hefst kl.20.31 og kl.22.01 stígur á stokk leikkonan Þórey Birgisdóttir. Hún æfir nú einleikinn Ífigenía í Ásbrú og er mætt vestur til að hafa opna æfingu á þessu verðlaunaverki sem hefur farið sigurför um heiminn. Tónleikar kveldsins eru með hinni vestfirsku Salóme Katrínu og hefur hún leik kl.23.21. Kveldinu lýkur síðan fyrir utan félagsheimilið þar sem dansmyndböndum verður varpað á vegg leikhússins á Suðureyri. Hér eru á ferðinni þrjú videódansverk úr sarpi Boreal danshátíðarinnar og er þessi viðburður upphaf á samstarfi millum þeirra og Actsins.

Rétt er að minna á að hægt er að fá ókeypis far með langferðabifreið Act alone sem gengur daglega millum Ísafjarðar og Suðureyrar. Áætlun má finna á www.actalone.net

Anna Birta miðill.

Íslandsmót í hrútadómum á Sauðfjársetri á Ströndum

Verðlaunahafar á síðasta móti.

Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum þann 18. ágúst næstkomandi og hefst keppnin kl. 14. Undirbúningur fyrir helgina gengur vel.

Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Venjulega eru keppendur um 50 og koma víða að. Fjölmargir mæta svo til að sjá á keppendur sýna snilli sína.

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd  sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Á síðasta ári stóð Jón Stefánsson frá Broddanesi á Ströndum uppi sem sigurvegari og er núverandi Íslandsmeistari. Strandamönnum þykir alltaf nokkuð gott þegar heimafólk vinnur titilinn og munu því væntanlega reyna eins og þeir geta til að halda honum áfram. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár og þess fyrir utan eru veglegir vinningar í báðum flokkum.

Á þessu ári er Beint frá býli dagurinn haldinn samhliða hrútaþuklinu í Sævangi frá kl. 13-16. Þar munu framleiðendur verða með kynningu og sölu á sínum vörum. Gert er ráð fyrir að að um 8-10 framleiðendur taki þátt í markaðnum og verður fjölbreytt úrval vara til sölu. Nánari upplýsingar um þann viðburð, má finna á heimsíðunni: https://www.beintfrabyli.is/

Sævangur í Tungusveit.

Vikuviðtalið: Katrín Pálsdóttir

Í viðtali vikunnar er Katrín Pálsdóttir fjármálastjóri Bolungavíkurkaupstaðar og staðgengill bæjarstjóra. Gefum henni orðið:

Í ár er afmælisár Bolungarvíkurkaupstaðar og hefur margt verið í gangi í tilefni 50 ára afmælisins. Sjómannadagurinn og markaðsdagurinn var virkilega flottur þetta árið þar sem mikið var lagt í dagana í tilefni hátíðarhaldanna. Fjöldi fólks kom og sótti viðburðinn og tók þátt í honum á ýmsa vegu. Sveitarfélagði var virkilega ánægt með vel heppnaða daga og ofan á allt var veðrið fullkomið. Mikill straumur hefur verið til Bolungarvíkur í sumar meðal annars á sjóminnjasafnið Ósvör, upp á Bolafjall, í sundlaugina, Einarshús og fleiri viðkomustaði í sveitarfélaginu. Við höldum á að gera umhverfið í kringum útsýnispallinn á Bolafjalli sem eftirsóknaverðastan þannig fólk geti komið og notið einstaks útsýnis yfir náttúrufegurðina sem er allt í kringum svæðið. Vestfirðirðingar eru heppnir að eiga svona fallega náttúruparadís hvert sem við lítum og getum notið þess í allskonar veðri og fengið sem bestu upplifunina sem hentar öllum.

Ég hef því miður þurft að breyta högum mínum þannig að ég er stundum starfandi fjármálastjóri Bolungarvíkur fyrir sunnan og stundum fyrir vestan þar sem tvíburarnir mínir fluttu suður til Hafnarfjarðar í menntaskóla og æfa sund með sundfélagi Hafnarfjarðar. Mikilvægasta í lífinu er að styðja bornin sín í gegnum þeirra drauma og létta þeim lundina til að ná markmkiðum sínum. En ég trúi því að þarna eru á ferðinni ólympíutvíburar í sundi, gætum örugglega stofnað veðbanka og séð úrslitin eftir 4 ár 🙂

Ég er sjálf mikil íþróttakona og hef verið upptekin þetta ár við að keppa um allan heim og gengið virkilega vel. Árið byrjaði í Valencia á Spáni þar sem ég keppni í hálfum járnkarli, svo fór ég til Girona og keppni í 200 km malarhjólreiðum, fór svo til Tenerife og keppti í 180 km götuhjólakeppni og var þar reyndar í 2 sæti en ég fékk sérstakt boð í þessa keppni þar sem ég hafði áður farið og gengið vel. Eftir það fór ég til Portugals og tók þátt í Evrópumóti í þríþraut. Keppti í tveim greinum þar og var í fyrsta sæti í báðum greinunum í mínum flokki, þetta var utanvegar þrírþaut og tvíþraut en í tvíþrautinni var ég einnig önnur yfir alla kvennkeppendur í Evrópu. En svo tók ég einnig þátt í stórri keppni á Íslandi sem er 200 km malarkeppni og kallast Riftið og er staðsett á Hvolsvelli, þessi keppni er hluti af Gravel world seriu og koma helstu malarhjólreiða stjörnur heimsins til Íslands og keppa fyrir sitt lið. Ég var svo lukkuleg að vinna almenna flokkinn og vera einnig fyrsta íslenska konan en tek samt fram að ég var númer tíu af atvinnukonunum sem stunda malarhjólreiðar sem atvinnu. Ég er náttúrlega bara fjármálastjóri í Bolungarvík og sinni íþróttastarfi sem áhugamál ásamt því að hugsa um íþróttatvíburana og öllu því sem fylgir.

Í sumarfríinu stökk ég til Sviss í Alpana en það hafði lengi verið draumurinn minn að hjóla í Ölpunum, ég læt eina mynd fylgja með sem sýnir fegurðina og fjöllin. En þegar maður elst upp í svona fallegu fjallaþorpi eins og Bolungarvík þá er það eitthvað við fjöllin sem maður sækir svo mikið í, þetta er óútskýrð orka sem sogast inn í hjartað mans og gefur manni svo mikið. Svolítið eins og að hlaða símann sinn, eftir góðan tíma í kringum fjöllin þá er maður fullhlaðinn í hjartanu.

Klofningur ehf: hagnaðist um 2,5 milljarða króna á Kerecis

Guðni A. Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings.

KLofningur ehf á Suðureyri hagnaðist á síðasta ári um 2.486 milljónir króna af sölu hlutabréfa í Kerecis. Bókfært eigið fé félagsins nam 2,6 milljörðum króna í lok ársins 2023.

Á aðalfundi félagsins á þessu ári var samþykkt að greiða 1.370 m.kr. í arð til hluthafa.

Níu hluthafar eru að félaginu og skiptist arðgreiðslan til þeirra eftir eignarhluta hvers og eins:

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf er stærsti eigandinn með 36,6% hlutafjár og fær 494 m.kr. í arðgreiðslu. Jakob Valgeir ehf á 26,92% og fær 369 m.kr. Sigurmar ehf , sem er í eigu Guðna A. Einarssonar og Sigrúnar Sigurgeirsdóttur Suðureyri, á 14,54% og fær 200 m.kr. í arðgreiðslu. Næst er EGO Export ehf sem á 12,46% og fær 170 m.kr.

Fimm hluthafar eiga minna en 5% hver. Oddi hf á Patreksfirði á 3,53% og fær 48 m.kr. í arðgreiðslu, Norðureyri ehf á Suðureyri á 2,75% og fær 38 m.kr., Silfurtorg ehf á Ísafirði, sem er í eigu Alberts Högnasonar og Gunnhildar Gestsdóttur, á 1,9% og fær 26 m.kr. í arð, Þórsberg ehf á Tálknafirði, sem er að meirihluta til í eigu Guðjóns Indriðasonar, á 1,78% og fær 24 m.kr. Loks er Páll S. Önundarson með 0,06% hlut og fær 1 m.kr.

Klofningur ehf. er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í þurrkun fisks auk úrvinnslu allra aukaafurða úr fiski. Félagið er með 4 starfsstöðvar, eina á Ísafirði og Tálknafirði og tvær á Suðureyri.

Í skýrslu stjórnar segir að grunnrekstur félagsins hafi verið erfiður á árinu 2023 og nam tap af grunnrekstinum fyrir afskriftir og vexti 18 millj. kr. Stjórn félagsins gerir ráð fyrir að grunnrekstur félagsins verði erfiður á árinu 2024, einkum vegna slæmra markaðsaðstæðna í Nígeríu og kostnaðarhækkana á Íslandi. Stjórnendur félagsins hafa hafið vinnu við að beina framleiðslu félagsins á aðra markaði til að minnka markaðsáhættu félagsins.

Í stjórn félagsins eru Einar Valur Kristjánsson, formaður, Óðinn Gestsson og Jakob Valgeir Flosason. Framkvæmdastjóri er Guðni A. Einarsson.

Gleðilega hinsegin daga – um allt land

Hinsegin dagar fara fram þessa vikuna og óska ég öllum Íslendingum innilega til hamingju með þessa glæsilegu hátíð sem nær hámarki með gleðigöngunni á morgun, laugardag. Víða um land fer fram þétt dagskrá hinsegin daga sem fyllir mann ánægju og stolti yfir þeirri grósku sem á sér stað í hinsegin samfélaginu. Takk hinsegin sjálfboðaliðar, aktívistar, listafólk, veitingafólk, söngvarar, dansarar, fræðafólk, almenningur sem hefur sótt viðburði og ekki síst stjórn Hinsegin daga fyrir að gera þessa viku að þeirri veislu fjölbreytileikans sem hún er.

Það er ekki bara á blettinum í kringum Reykjavík þar sem hinsegin gróska ríkir. Hinsegin félög hafa verið stofnuð á Norðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi og standa fyrir öflugu starfi. Forsvarsmenn þessara félaga eru miklir frumkvöðlar og forystufólk og minna okkur á að við eigum öll rétt á að vera eins og við erum – í heimabyggð og hvar sem við komum. Sá veruleiki að hinsegin fólk þurfi að flytja búferlum til að geta komið út úr skápnum á að vera liðin tíð.

Í lok júní hélt Hinsegin Vesturland stórglæsilega Hinsegin hátíð í Borgarnesi og var ég þess heiðurs aðnjótandi að flytja þar ávarp. Ég ólst sjálfur upp á Mýrunum í næsta nágrenni Borgarness og mér þótti mjög vænt um að sjá allan stuðninginn sem samfélagið þar sýnir hinsegin fólki. Mætingin var frábær og bærinn undirlagður af regnbogafánanum og öðrum merkjum hinsegin fólks. Þessi sýnileiki skiptir gríðarlegu máli. Stuðningur í heimabyggð er lykilatriði í viðbragðinu við bakslaginu sem hefur orðið á undanförnum misserum.

Í vor bárust þær gleðifréttir að Ísland hafi tekið stökk upp í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe). Ísland er jafnframt áfram í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu. Þessi mikli árangur náðist ekki af tilviljun heldur vegna þrotlausar vinnu, metnaðar og baráttu hinsegin samfélagsins og áherslna stjórnvalda í málaflokknum. Það hefur verið gaman að taka þátt í þeirri vinnu og ég hlakka til áframhaldandi baráttu fyrir mannréttindum hinsegin fólks. Hluti af því er stuðningur við félagasamtök eins og Samtökin 78 sem á miklar þakkir skyldar fyrir öflugt starf í þágu fjölbreytileikans. Til hamingju við öll með hinsegin daga – úti um allt land.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra

Jói ÍS 118

7417. Jói ÍS 118 ex Jói ÍS 10. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Jói ÍS 118 kom við á Húsavík í ágústmánuði árið 2021 og þá var þessi mynd tekin.

Báturinn hét upphaflega Þrándur KE 67 og var smíðaður hjá Bátasmiðju Guðmundar árið 1995.

Árið 2000 fékk báturinn nafnið Jói ÍS 10 með heimahöfn á Ísafirði. Það hélst óbreytt til ársins 2018 en þá varð hann ÍS 118.

Haustið 2021 fékk báturinn nafnið Toppurinn SU 204 með heimahöfn á Breiðdalsvík en síðar Stöðvarfirði.

Ári síðar var Toppurinn skráður GK 401 með heimahöfn í Sandgerði og 2022 fékk hannn nafnið Guðrún GK 401.

Í fyrra fékk hann svo nafnið Una KE 22 með heimahöfn í Keflavík.

Af skipamyndir.com

Finna þarf nöfn á stíga í Ísafjarðarbæ

Stígum og útivistarvegum í Ísafjarðarbæ fjölgar frá ári til árs en margir þeirra eru nafnlausir þrátt fyrir að vera mikið notaðir.

Til stendur að bæta úr þessu með því að safna saman upplýsingum um nöfn á stígum sem þegar eru til, auk þess að kalla eftir tillögum að nöfnum á stíga og vegi sem ekkert nafn hafa.

Helstu kostir þess að nefna stígana eru að auðvelda rötun, styrkja tengingu við nærumhverfið og undirstrika áherslu sveitarfélagsins á útivist. Þá nýtast nöfnin einnig við birtingu stafrænna gagna á til dæmis kortasjá og í opnum kortakerfum.

Íbúar Ísafjarðarbæjar eru hvattir til að leggja verkefninu lið og á vefsíðu bæjarins eru upplýsingar um þá stíga sem vantar nöfn.

Hnúðlax í ám á Íslandi

Hafrannsóknastofnun hefur tekið þátt í rannsóknum í sumar til að auka þekkingu á hnúðlaxi.

Skráning veiða á hnúðlaxi er mikilvæg til að fylgjast með fjölda veiddra fiska og útbreiðslu tegundarinnar bæði í tíma og rúmi. Rannsóknirnar eru liður í samstarfi við vísindamenn frá Queen Mary háskólanum í London, Noregi og Finnlandi til að auka þekkingu á lífsferli og áhrifum hnúðlaxa. Veitt hefur verið í nokkrum ám hér á landi bæði í á Suðvesturlandi og á Norðausturlandi auk áa í Noregi, Finnlandi, Grænlandi og Svalbarða. 

Veiðar hófust í Botnsá í Hvalfirði í vor og þá veiddust nokkur seiði en vitað var af hrygningu hnúðlaxa þar síðasta haust.

Líkt og fyrri rannsóknum sem gerðar voru 2022 hafa veiðst gönguseiði hnúðlaxa sem bendir til þess að kominn sé vísir að stofni sem getur viðhaldið sér í ám hér á landi. Frekari rannsóknir eru fyrir hugaðar á ástandi og afdrifum seiðanna sem nú eru að ganga til sjávar. Á síðustu árum hefur hnúðlax í auknum mæli gengið í ár hér á landi einkum á oddatölu árum.

Hnúðlaxinn er af tegund Kyrrahafslaxa sem Rússar fluttu til sleppinga í ár við Hvítahaf og á Kolaskaga. Þaðan hefur hnúðlax verið að dreifa sér á síðustu árum m.a. í ár hér á landi.

Margir hafa áhyggjur af þeim áhrifum sem tilkoma hnúðlaxins hefur og mikilvægt er að auka þekkingu á áhrifum þessarar framandi tegundar.

Útkall djúpt norður af Vestfjörðum

Kort af flugleiðinni

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall, djúpt norður af Vestfjörðum, vegna veikinda um borð í skemmtiferðaskipi á Grænlandssundi um síðustu helgi.

Þyrlusveitin tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan fjögu um nóttr og tók stefnuna á Ísafjörð þar sem fyllt var á eldsneytistanka þyrlunnar.

Þaðan var flogið á haf út og á sjöunda tímanum um morguninn var TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, komin að skemmtiferðaskipinu.

Töluverður vindur var á staðnum eða um 40 hnútar sem samsvarar rúmlega tuttugu metrum á sekúndu. Þá var éljagangur og um fjögurra til fimm metra ölduhæð.

Áhöfn skemmtiferðaskipsins tók á móti tengilínu frá þyrlunni á þyrlupalli skipsins og fór sigmaður þyrlusveitarinnar um borð í skipið og undirbjó sjúklinginn fyrir hífingu um borð í þyrluna.


Vel gekk að koma manninum um borð í þyrluna og var flogið með hann til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Nýjustu fréttir