Hvert leiðir ofbeldið? Er spurning sem kemur fyrir í kynningarstiklu splunkunýrrar íslenskrar kvikmyndar Eftirleikir sem sýnd verður á PIFF á föstudag. Í þetta sinn er svarið greinlega: beinustu leið á Ísafjörð! „Ég er að pakka í töskur og er helvíti spenntur að taka þátt í PIFF og sýna hátíðagestum myndina,“ sagði leikstjórinn Ólafur Árheim er blaðamaður heyrði í honum á dögunum.
Myndin fjallar um ofbeldisfull átök á milli nokkurra einstaklinga sem hrinda af stað keðjuverkun og vítahring hefndar. Hún var frumsýnd á RIFF nú í september við góðar undirtektir. „Ég er auðvitað mjög spenntur að sýna Vestfirðingum myndina. Eftirleikir er sálfræðilegur og svolítið vökvakenndur ógnartryllir og miðað við viðbrögð sem ég hef fengið frá RIFF virðist þetta vera eitthvað nýtt fyrir íslenska áhorfendur.“
Með helstu hlutverk fara Andri Freyr Sigurpálsson, Vivian Ólafsdóttir, Joi Johannsson og Eggert Þ. Rafnsson. Handritið skrifaði Ólafur Árheim ásamt Róbert Keshishzadeh.
Myndin verður sýnd í Ísafjarðarbíói í kvöld kl. 20 að sýningu lokinni mun Ólafur sitja fyrir svörum úr sal. Þess má geta að hún er stranglega bönnuð börnum. Nánari lýsingu á myndinni má finna á heimasíðu PIFF: https://piff.is/2024/events/fbf79b80-6b5a-4753-8229-f79f967e520c
Fyrir ættfræðiþyrsta má bæta við að Ólafur á ættir að rekja til Vestfjarða. Hörður Einarsson föðurafi hans var margrómaður skipstjóri frá Barðaströnd og Rauðasandi,og Steinunn Finnbogadóttir föðuramma hans var ljósmóðir frá Bolungavík (Finnbogi sem stofnaði fyrsta sjómannafélag Íslands) og Hróbergi í Steingrímsfirði. Og Pabbi Einar Harðarson var kaupfélagsstjóri á Flateyri áður en fjölskyldan flutti til Úganda í Afríku á 10. áratugnum, þar sem Ólafur eyddi sínum fyrstu árum.