Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 19

Ný íslensk kvikmynd sýnd á PIFF

Hvert leiðir ofbeldið? Er spurning sem kemur fyrir í kynningarstiklu splunkunýrrar íslenskrar kvikmyndar Eftirleikir sem sýnd verður á PIFF á föstudag. Í þetta sinn er svarið greinlega: beinustu leið á Ísafjörð! „Ég er að pakka í töskur og er helvíti spenntur að taka þátt í PIFF og sýna hátíðagestum myndina,“ sagði leikstjórinn Ólafur Árheim er blaðamaður heyrði í honum á dögunum.

Myndin fjallar um ofbeldisfull átök á milli nokkurra einstaklinga sem hrinda af stað keðjuverkun og vítahring hefndar. Hún var frumsýnd á RIFF nú í september við góðar undirtektir. „Ég er auðvitað mjög spenntur að sýna Vestfirðingum myndina. Eftirleikir er sálfræðilegur og svolítið vökvakenndur ógnartryllir og miðað við viðbrögð sem ég hef fengið frá RIFF virðist þetta vera eitthvað nýtt fyrir íslenska áhorfendur.“

Með helstu hlutverk fara Andri Freyr Sigurpálsson, Vivian Ólafsdóttir, Joi Johannsson og Eggert Þ. Rafnsson. Handritið skrifaði Ólafur Árheim ásamt Róbert Keshishzadeh.

Myndin verður sýnd í Ísafjarðarbíói í kvöld kl. 20 að sýningu lokinni mun Ólafur sitja fyrir svörum úr sal. Þess má geta að hún er stranglega bönnuð börnum. Nánari lýsingu á myndinni má finna á heimasíðu PIFF: https://piff.is/2024/events/fbf79b80-6b5a-4753-8229-f79f967e520c

Fyrir ættfræðiþyrsta má bæta við að Ólafur á ættir að rekja til Vestfjarða. Hörður Einarsson föðurafi hans var margrómaður skipstjóri frá Barðaströnd og Rauðasandi,og Steinunn Finnbogadóttir föðuramma hans var ljósmóðir frá Bolungavík (Finnbogi sem stofnaði fyrsta sjómannafélag Íslands) og Hróbergi í Steingrímsfirði. Og Pabbi Einar Harðarson var kaupfélagsstjóri á Flateyri áður en fjölskyldan flutti til Úganda í Afríku á 10. áratugnum, þar sem Ólafur eyddi sínum fyrstu árum.


Arctic Fish: 40 tonn af laxi í þotu til Bandaríkjanna

Þota frá Iceland Cargo.

Vestfirska laxeldifyrirtækið Arctic Fish sendi í gær 40 tonn af eldislaxi sem slátrað var þann dag af stað suður í flug í dag til Bandaríkjanna. Þotan flýgur full af laxi beint inn á JFK flugvöll í New York.

Þannig verða 40 tonn af laxi sem slátrað var í Bolungarvík í gær komin í búðir, jafnvel á Manhattan, um helgina segir í frétt á vef fyrirtækisins.

Kynningarefni um laxavinnsluna Drimlu í Bolungavík á ráðstefnu Lagarlífs í Hörpu í vikunni.

Metmæting á opnun PIFF

Fjöldi fólks sótti opnun PIFF kvikmyndahátíðarinnar í Ísafjarðarbíói í gær. Pigeon International Film Festival er nú haldin í fjórða sinn og fara sýningar fram bæði á Ísafirði og í Súðavík. Óhætt er að segja að hátíðin sé búin að festa sig í sessi miðað við fjölda gesta en metmæting var á opnuna. Fyrsta sýning hátíðarinnar var heimildarmyndin Afsakið meðan ég æli eftir ísfirska ljósmyndarann Spessa sem sagði frá myndinni bæði fyrir og eftir sýninguna.

Dagskránni verður haldið áfram kl. 16 í dag en þá verða sýndar stuttmyndir. Að þeim loknum munu nokkrir kvikmyndagerðarmenn sitja fyrir svörum úr sal en tveir þeirra hafa lagt leið sína frá Íran til þess að sækja hátíðina. Þá verður einnig sagt frá myndinni Huldufólk sem gerð er af íslenskum leikstjórum en í skóla í Þýskalandi.

kl. 18 verður sýnd pólska heimildarmyndin Pianoforte sem veitir innsýn í metnaðarfullan heim píanóleikara sem keppa í margrómaðri alþjóðlegri Chopin píanó-keppni sem haldin er á fimm ára fresti í Varsjá.

Kl. 20.  Verður íslenski ógnartryllirinn Eftirleikar sýndur í Ísafjarðarbíó sýnd og mun leikstjóri hennar Ólafur Árheim svara spurningum að sýningu lokinni. Á sama tíma verður sýnd kaupfélaginu Súðavík pólska gamanmyndin Horror Story eða hryllingssaga sem fjallar um ungan mann í starfsleit eftir útskrift sem uppgötvar að það er ekki eins auðvelt að fóta sig eftir útskrift og hann hélt. Leikstjóri myndarinnar Adrian Apanel svarar spurningum þar eftir sýninguna.

Lokasýning kvöldsins er svo mexíkóska framtíðardramað Itu Ninu sem hefst kl. 22. Allar nánari upplýsingar um dagskrá kvöldsins er að finna á piff.is.

Frá opuninni.

Myndir: Ómar Smári Kristinsson.

Lækkun gjalds fyrir brjóstaskimun

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að lækka almennt gjald fyrir brjóstaskimun úr 6.098 kr. í 500 kr. og tekur breytingin gildi 14. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að skimun er mikilvæg forsenda snemmgreiningar brjóstakrabbameina og hafi mikinn ávinning fyrir einstaklinga og samfélag. Snemmgreining þýði einfaldari meðferð, bættar lífslíkur og dregur úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Willum Þór kynnti ákvörðun sína á fréttamannafundi á Brjóstamiðstöð Landspítala í gær. Hann segir lækkun gjaldsins lið í því markmiði stjórnvalda að efla forvarnir, jafna aðgengi að þjónustu og bæta þannig lýðheilsu: „Með því að lækka komugjaldið, samfara góðri, markvissri fræðslu og með stuðningi og hvatningu atvinnulífsins fyrir þátttöku kvenna í skimunum, stuðlum við að því að konur sjái hvað þetta er mikilvægt og geti forgangsraðað heilsu sinni með því að mæta í skimun.“

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítala, segir ákvörðun ráðherra vera tímamót fyrir kvenheilsu. Kostnaðurinn hafi verið hindrun fyrir margar konur. Hún telji víst að lækkun gjaldsins muni auka þátttökuna sem er brýnt til að ná góðum árangri, draga úr dánartíðni brjóstakrabbameins og bæta lífsgæði þeirra sem greinast.

Viðmið fyrir góðum árangri af brjóstaskimunum er 75% þátttaka kvenna á skimunaraldri. Um 75.000 konur eru í þessum hópi hér á landi og var þátttakan 56% árið 2023.

Vikuviðtalið: Gunnar Davíðsson

Á Hestfjalli við Andakíl fyrir nokkrum dögum.

Gunnar Davíðsson er Þingeyringur sem fyrir rúmlega 40 árum flutti til Noregs til að stunda nám, en ílentist og hefur búið þar síðan. Gunnar er búsettur í Tromsö í norðurhluta Noregs og starfar við fylkesstjórn Troms fylkis, sem er fylki með um 170 þúsund íbúum.

Gunnar er sjávarútvegsfræðingur eða Master í fiskeri og havbruksvitenskap frá Háskólanum í Tromsö sem nú heitir Norges Arktiske Universitet.

Á menntaskólárunum í Menntaskólanum á Ísafirði, árin 1978-1982,  var Gunnar einn af stofnendum antisportistaklúbbs og lét lítið að sér kveða á vettfangi íþrótta. En honum snérist hugur þegar til Tromsö var komið og stundaði júdó af miklum móð, bæði sem keppandi og þjálfari í rúm 30 ár eða þar til hann ekki gat stundað þá íþrótt lengur vegna fingurkreppu (Dupuytrens). Hann kynntist þar stúlkunni, Marit Husmo, frá Náttlandi á Svartlandi sem er í norðurhluta Nordland fylkis, og sem seinna giftist honum og á með honum tvö börn, Lilju Marie og Björn Viljar. Börnin eru komin vel á legg og flutt að heiman, en stúlkan býr í Glasgow og hannar þar leikbúninga og saumar eftir nám í Queen Margret háskólanum í Musselburgh í Edinborg í Skotlandi. Drengurinn er hins vegar í iðnnámi í Kjöpsvík við Narvík, prosessindustri, framleiðslutækni í efnaiðnaði. 

Gunnar og Marit hafa verið tíðir gestir á Íslandi öll sín búskaparár, þó þau hafi verið búsett í Noregi, og koma til landsins tvisvar til þrisvar á ári. Þau eiga bústað í Borgarfirði þar sem þau dveljast á hverju sumri og stundum um jól og páska og ferðast þá gjarnan um landið með tjaldi, tjaldvagni eða hjólhýsi hin seinni ár.

Starf Gunnars við fylkesstjórn Troms felst í stjórnunarstörfum innan sjávarútvegsgreina, þar á meðal eldi. Fylkið sér meðal annars um meðferð á umsóknum um eldisleyfi í fylkinu, en um  250.000 tonn af laxi er framleidd í fylkinu árlega. Aðalstarf Gunnars er að hafa yfirumsjón með leyfisveitingum þessum og verkefnum sem styrkja og byggja upp þekkingu á þeim þáttum sem eldið bæði þarfnast og getur haft áhrif á, til að tryggja sjálfbærni framleiðslunnar eins og unnt er.

Eitt að aðaláhugamálum Gunnars er uppbygging eldis á Íslandi, og þá sérstaklega á æskuslóðum hans á Vestfjörðum. Hann er ötull talsmaður eldisins og vill gjarnan að sjá að sá hagvöxtur og uppbyggingu samfélags sem fylgir eldinu sem hann sjálfur hefur orðið vitni að í Norður-Noregi, geti átt sér stað fyrir vestan. Hefur Gunnar því tekið öllum boðum um að segja frá reynslu sinni og þekkingu, bæði fyrir vestan og eins á fundum og ráðtefnum um lagareldi á undanförum árum og áratugum. En síðastu tvö ár hefur hann setið i stjórn Lagarlífs, og hélt einmitt erindi um félagsleg áhrif fiskeldis í sveitarfélögum í Norður Noregi síðastliðinn miðvikudag á ráðstefnu um fiskeldi í Hörpu.

Þess má geta að Gunnar hefur um árabil reynt að komast yfir nokkrar spólur sem hann vantar í Megasarsafnið sitt.

Ekkert auðlindagjald af nýtingu á þjóðlendu

Fram kemur á vef ríkisútvarpsins fyrir skömmu að í drögum að greinargerð Vatnajökulsþjóðgarðs um stöðu og þróun íshellaferða og jöklagangna selji tugir fyrirtækja ferðir á jökullinn eins og íshellaferðir og jöklagöngur samkvæmt samningi við þjóðgarðinn.

Þá segir í fréttinni:

„Samtals fóru tæplega 287 þúsund manns í seldar ferðir á Vatnajökul, þar með talið í íshella, frá september í fyrra til ágúst síðast liðins. Þar af fóru 75 þúsund manns í ferðirnar frá maí til ágúst að því er fram kemur í greinargerð Vatnajökulsþjóðgarðs. Íshellaferðir eru langvinsælastar. Af 287 þúsund þeirra sem borguðu fyrir ferð keyptu 205 þúsund manns íshellaferð. Vatnajökulsþjóðgarður áætlar að hver gestur greiði 23 þúsund krónur fyrir ferðina eða samtals 6,6 milljarða króna.“

Jöklar eru þjóðlenda

Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir tæpum 10 árum að Vatnajökull væri þjóðlenda. Það má segja það sama um aðra jökla á landinu eins og til dæmis Drangajökul. Samkvæmt lögum frá 1998 um þjóðlendur er íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Það er því ótvírætt að aegja að íshellaferðir er nýting á þjóðlendu sem íslenska ríkið er eigandi að. Annað nafn á þjóðlendu er sameign þjóðarinnar, en það er einkum notað yfir fiskistofna og sjávarnytjar eins og til laxeldis. Á grundvelli þess að einkaaðilar nýta sameign þjóðarinnar er það talið sanngjarnt að greitt sé fyrir afnotin, auðlindagjald.

Það á til dæmis við um sjókvíaeldið. Sérstök lög voru sett árið 2019 um fiskeldisgjald. PGjaldtakan var röktudd í frumvarpinu sem lagt var fyrir Alþingi þannig: „Tilgangur þessa frumvarps er að tryggja ríkissjóði beint endurgjald vegna nýtingar hafsvæða í íslenskri lögsögu sem geti jafnframt staðið móti kostnaði ríkisins við stjórnsýslu.“ og  „Gjald samkvæmt frumvarpinu grundvallast á þeirri aðstöðu að handhafar rekstrarleyfa til sjókvíaeldis njóta takmarkaðra réttinda til hagnýtingar auðlinda. Það gefur færi til starfsemi sem hefur forsendur til að skila betri afkomu en í öðrum greinum íslensks atvinnulífs.“

Íshellaferðir og jöklaganga er sannarlega sameign þjóðarinnar. Þessi starfsemi er háð leyfum frá ríkinu og án nokkurs vafa takmörkuð auðlind.

tæpir sjö milljarðar króna

Frétt RUV sýnir að um er að ræða eftirsóttar ferðir og greiddar eru háar fjárhæðir fyrir ferðirnar. En það er ekkert auðlindagjald sem kalla mætti t.d. íshellagjald. Tekjurnar eru góðar , tæpir sjö milljarðar króna og hver ferðamaður greiðir um 23 þúsund krónur.

Það eina sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið er að innheimta þjónustugjöld af samningshöfum til að standa undir mögulegum kostnaði við samstarfshóp rekstraraðila og AIMG (Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi) sem framkvæmi daglegt stöðumat á öryggi ísmyndana. Annað er það nú ekki.

284 m.kr. skattaeftirgjöf

Ef þetta væri laxeldi en ekki íshellaskoðun þá væri innheimt 4,3% af tekjum. Af 6,6 milljörðum króna hefði gjaldið verið 284 m.kr.

Af hverju er þessi hagnýting einkaaðila á þjóðlendu ókeypis? Hvers vegna á annað að gilda um jökla en vestfirska firði?

Er það kannski vegna þess að jöklaskoðunarfyrirtækin eru á höfuðborgarsvæðinu en laxeldisfyrirtækin fyrir vestan og austan?

-k

Ný kröfugerð ríkisins um eyjar og sker

Kortasjá af kröfum ríkisins í Ísafjarðardjúpi. Blár hringur er utan um svæði sem ríkið gerir kröfu til.

Í gær lagði fjármála- og efnahagráðsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson f.h. íslenska ríkisins fram endurskoðaðar kröfur um hvað teljist þjóðlenda á svæði 12 sem eru eyjar og sker við landið. Óbyggðanefnd hefur auglýst kröfurnar og veitt landeigendum frest til 13. janúar 2025 til þess að lýsa sínum kröfum.

Áður hafði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra Þórdís Kolbrún Gylfadóttir sent kröfulýsingu ríkisins 2. febrúar 2024. Tveimur mánuðum síðar 5. apríl tilkynnti ráðherrann að kröfurnar hefðu verið teknar til endurskoðunar.

Við endurskoðunina var rannsakað sérstaklega stórstraumfjöruborð og hvar það liggur á hverjum stað. Lagt var grundvallar að allt landsvæði innan ystu marka stórstraumsfjöruborðs meginlandsins teljist
vera utan svæðis 12 og þar með utan kröfulýsingar íslenska ríkisins.

Sömu sjónarmið voru lögð til grundvallar varðandi stórstraumsfjöruborð eyja sem teljast til eignarlanda, þ.e. allt landsvæði innan ystu marka stórstraumsfjöruborðs heimaeyju telst hluti heimaeyjunnar.

Hvað varðar kröfusvæðið í heild sinni, hefur lýstum kröfum í landfræðilegar einingar ofan sjávar fækkað úr rétt tæplega 2000 í rétt rúmlega 1000 segir í samantekt lögmanna íslenska ríkisins.

Grímsey og Borgarey verði þjóðlenda

Við fyrstu sýn er ekki að sjá að miklar breytingar hafi orðið á kröfugerð ríkisins á Vestfjörðum. Áfram er gerð krafa um að Grímsey á Steingrímsfirði og Borgarey í Ísafjarðardjúpi verði þjóðlenda. Sama á við um Djúphólma við Æðey.

Eins er óbreytt að ríkið lítur á Æðey, Vigur og Ögurhólma í Ísafjarðardjúpi sem einkalönd. Hrútey og Djúphólmi er einnig utan kröfu ríkisins. Til dæmis eru Árnesey, Drangey, Landeyjar Rifsker og Selsker í Árneshreppi einnig uan kröfugerðar ríkisins.

Breytingar eru líklega helst kröfur í sker ríkisins við eyjar í Breiðafirði og þá í þá veru að þeim fækki.

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var haldinn í félagsheimilinu á Hólmavík þann 3.október. Fundurinn var vel sóttur en tæplega 40 manns sátu fundinn.

Sölvi Sólbergsson framkvæmdarstjóri orkusviðs opnaði fundinn með kynningu á áhrifum virkjunarinnar á afhendingaröryggi á Ströndum.

Sigmar Steingrímsson frá Verkís, sem hefur unnið umhverfismatsskýrsluna fyrir Orkubúið, kynnti umhverfismatsskýrsluna fyrir fundargestum. Farið var yfir helstu kennistærðir virkjunarinnar, lýsingu framkvæmdarinnar, umhverfisáhrif (aðallega vatnalíf, landslag og ásýnd) og niðurstöður umhverfismatsins.

Gunnar Páll Eydal einnig frá Verkís kynnti vinnu við gerð deiliskipulags vegna Kvíslatunguvirkjunar. Hann fór yfir skipulagsferlið bæði á stigi aðal- og deiliskipulags. Vinna við aðalskipulag er á vegum Strandabyggðar.

Að loknum erindunum gafst fundargestum tækifæri á að spyrja spurninga og sköpuðust góðar umræður. Þá voru fundargestir hvattir til að kynna sér umhverfismatið og bent á að enn væri hægt að senda inn umsagnir vegna umhverfismatsins og deiliskipulagsins.

María Júlía komin til Húsavíkur

Þann 2. október lagði Örkin upp frá Akureyri með Maríu Júlíu BA 36 hið gamla  björgunarskip Vestfirðinga, áleiðis til Húsavíkur og komu bátarnir þangað í gærkveldi.

María Júlía fer í slipp á Húsavík til viðgerða en það hefur legið undir skemmdum við Ísafjarðarhöfn árum saman þrátt fyrir að vera friðað samkvæmt lögum.

María Júlía er smíðuð úr eik í Frederikssund í Danmörku árið 1950 og er 108 brl, 30,14 m mesta lengd, 6,62 m br og 3,32 m á dýpt. Skipið þjónaði lengi sem björgunarskip Vestfirðinga frá 1950-1969 auk þess að hafa verið bæði notað sem hafrannsóknaskip og landhelgisgæsluskip. Talið er að áhöfn skipsins hafi bjargað um tvö þúsund manns.

Flutningur skipsins í slipp fékk úthlutun úr ríkissjóði upp á 15 milljónir og gáfu einkaaðilar vilyrði um annað eins. Fyrst var skipið dregið í slipp á Akureyri og hefur verið þar síðasta eitt og hálfa árið. Þar var m.a. gerð frumathugun, hreinsun og lagfæring og húsið fjarlægt.

Á Húsavík fer María Júlía í slipp Norðursiglingar sem fóstrar það á meðan frekari skrokkviðgerð fer fram. Skipið mun liggja við bryggju á Húsavík þar til framkvæmdum í Slippnum við endurnýjun á dráttarbraut, sleða og hliðarfærslum lýkur en sú vinna er langt komin.

Það eru Hollvinasamtök Maríu Júlíu sem hafa unnið að því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki nokkur ár.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Farsældarráð í hverjum landshluta

Mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga um ráðningu verkefnisstjóra sem leiða mun undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs í hverjum landshluta fyrir sig.

Með samningunum hafa öll sveitarfélög landsins skuldbundið sig til þess að hefja vinnu við að hrinda 5. grein laga um þjónustu í þágu farsældar barna í framkvæmd.

Markmiðið er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.

Samningurinn er byggður á niðurstöðum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um samhæfða svæðaskipan í málefnum barna. Að mati starfshópsins voru mikil tækifæri fólgin í því að starfrækja farsældarráðin eftir gildandi landshlutaskiptingu sveitarfélaga enda þau vön að vinna á þeim grunni. Það er því einkar ánægjulegt að sveitarstjórnarfólk landsins hafi tekið undir þessa megintillögu hópsins.

Verkefnisstjórinn mun vinna í nánu samstarfi við forsvarsmenn innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögum landshlutans og leiða saman það fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að undirbúa svæðisbundið farsældarráð. Samningurinn er gerður til tveggja ára.

Nýjustu fréttir