Síða 19

Íbúðum úthlutað á Reykhólum

Á Reykhólum var í fyrra hafin smíði á þremur raðhúsum

Nú auglýsir Reykhólahreppur til úthlutunar 4 íbúðir að Hellisbraut 66a – 68b á Reykhólum. Um er að ræða 4 tveggja herbergja íbúðir  54 – 55 m2 að stærð.

Íbúðum verður úthlutað á fundi húsnæðisnefndar í mars. Umsækjendur sæki um á vefsíðu sveitarfélagsins. Þeir sem eiga inni umsókn hjá sveitarfélaginu eru beðnir um að staðfesta þær vegna úthlutunarinnar.

Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar í byrjun apríl.

Ísafjörður: ekki ánægja með seinkun skóladags í Grunnskóla Ísafjarðar

Grunnskólinn á Ísafirði.

Veturinn 2024-2025 ákvað fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar að seinka skóladegi hjá unglingastigi um 40
mínútur, þetta átti að vera tilraunaverkefni til eins árs. Skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði kynnti fyrir fræðslunefnd niðurstöður könnunar sem gerð var í desember um afstöðu kennara, nemenda og foreldra til tilraunarinnar.

starfsfólk : 71% ekki ánægð

Meðal starfsfólks svöruðu 63% könnuninni og reyndust 71% þeirra ekki vera ánægð með tilraunina og aðeins 29% ánægð. Einnig var spurt hvort viðkomandi vildi að tilraunaverkefninu yrði haldið áfram. 75% svöruðu því neitandi.

Nemendur í 10. bekk voru heldur ekki ánægðir. Meirihluti þeirra eða 57% voru ekki ánægð en 43% voru þó ánægð. Þar var svarhlutfallið 63%.

Nemendur í 8. og 9. bekk voru jákvæðari. Þar voru 60% ánægðir með tilraunina og 59% vildu halda tilrauninni áfram. Svarhlutfall var 67%.

Af foreldrum var aðeins 41% ánægð með tilraunina en 59% voru ekki ánægð. Tæp 60% vildu ekki halda áfram með þessa tilraun. Svarhlutfallið var lágt, aðeins 38%.

Málið verður áfram til umræðu innan fræðslunefndar.

Arnarlax: mótvægisaðgerðir lagðar til vegna eldissvæðis á Óshlíð

Fyrirhugaðar breytingar á ljósgeisla.

Arnarlax hefur sent erindi til hafnarstjórnar í Bolungavík og kynna þar tillögur fyrirtækisins um mótvægisaðgerðir til þess að uppfylla kröfur um siglingaöryggi við fyrirhugað eldissvæði við Óshlíð.

Arnarlax ehf. fékk útgefið rekstrar- og starfsleyfi fyrir 10.000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi á þremur eldissvæðum, Óshlíð, Eyjahlíð og Drangsvík í Ísafjarðardjúpi, í maí 2024. Rekstrarleyfið var síðan fellt niður í meðferð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál meðal annars með tilvísun í siglingaöryggi við eldissvæðið við Óshlíð. Vinnur fyrirtækið að því að gera breytingar sem mæta athugasemdum sem gerðar voru.

Niðurstaða áhættumats vegna siglingaöryggis unnið af Vegagerðinni, Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands var að ekki sé ásættanlegt með tilliti til siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á eldissvæðinu við Óshlíð, þar sem það liggur alfarið innan hvítra ljósgeira frá Óshólavita, Arnarnesvita og Æðeyjarvita.

Arnarlax telur ýmsar mótvægisaðgerðir mögulegar sem leitt geta til ásættanlegs siglingaöryggis við eldissvæðið við Óshlíð. Fékk það alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Ramboll til að skoða siglingaöryggi við Óshlíð og voru tillögur þess eftirfarandi:
· Þrengja mögulega hvíta ljósgeira við Arnarnesvita, Æðeyjarvita og Óshólavita.
· Skoða möguleika á nýjum vita t.d. Ögurnes.
· Setja upp blikkljós á baujur
· Notast við sjálfvirkt auðkenniskerfi (AIS) á sjókvíar sem sýnir sjófarendum staðsetningu kvía
· Setja upp radarspegla við eldissvæðið.

Arnarlax hefur auk annarra mögulegra mótvægisaðgerða ákveðið að minnka eldisvæðið við Óshlíð þannig að allt eldissvæðið við Óshlíð verði utan við 5 km. fjarlægð frá eldissvæði Hábrúnar ehf. í Skutulsfirði. Þannig verða fjarlægðarreglur reglugerðar vegna smitvarna uppfylltar gagnvart Hábrún ehf. Myndin sýnir fyrirhugað smækkað eldissvæði.

Minna eldissvæði þýðir betri og rýmri aðstæður til siglinga við Óshlíð miðað við fyrri stærð og
staðsetningu segir í erindi Arnarlax. Við breytinguna mun „suðaustur horn“ svæðisins ekki lengur skaga inn í siglingaleiðina inn Skutulsfjörð og sérstaklega var tilgreint í áhættumati um siglingaöryggi og vísað var til hér að framan.

hafnarstjórn: skynsamlegar mótvægisaðgerðir

Hafnarstjórnin tók erindið fyrir í gær og bókað var:

„Hafnarstjórn Bolungarvíkurhafnar tekur vel í erindi Arnarlax um mótvægisaðgerðir vegna siglingaöryggis við eldissvæði Arnarlax við Óshlíð í Ísafjarðardjúpi.

Hafnarstjórn telur að mótvægisaðgerðirnar séu skynsamlegar og ógni ekki öryggi sjófarenda í Ísafjarðardjúpi.

Mótvægisaðgerðirnar gætu leitt til einhvers óhagræðis í siglingum milli Bolungarvíkurhafnar og Ísafjarðar. Slíkt óhagræði er óverulegt að mati Hafnarstjórnar og mun ekki skerða hagsmuni notanda hafnarinnar til lengri tíma litið.

Uppbygging fiskeldis í Ísafjarðardjúpi er mikilvægt hagsmunamál fyrir Bolungarvíkurhöfn og styður hafnarstjórn þá uppbyggingu. Hafnarstjórn leggur áherslu á að áhættumat siglinga í Ísafjarðardjúpi verði endurskoðað og tekið verði tillit til þeirra mótvægisaðgerða sem fram koma í minnisblaði Arnarlax.“

Ljóðabókin Hvammur eftir Ásmund Magnús Hagalínsson

Ásm. Magnús Hagalínsson.

Út er komin ljóðabókin Hvammur eftir Ásm. Magnús Hagalínsson.
Ásmundur Magnús Hagalínsson fæddist 14. febrúar árið 1931 í Dýrafirði. Frá unga aldri tók hann þátt í bústörfum og sjómennsku og á unglingsárum starfaði hann í vegavinnu, á snurvoðarbát og við síldveiðar. Hann lærði málmiðn í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri og útskrifaðist sem vélstjóri frá Vélskóla Íslands árið 1957. Eftir útskrift vann hann sem vélstjóri á togurum og fraktskipum og sigldi með fisk til New York. Hann tók einnig þátt í að sækja skip til Noregs og Hollands til að fylgjast með niðursetningu og frágangi á vélbúnaði. Árið 1969 hóf hann störf hjá ÍSAL í Straumsvík, þar sem hann starfaði við viðhald og eftirlit í meira en 30 ár.
Hvammur er fyrsta ljóðabók Magnúsar og byrjaði hann ungur að setja saman kvæði og vísur. Kveðskapurinn fjalla um líf hans og tilveru, vonina og þrá, ástina og trúna, fjölskylduna, samferðamenn hans á lífsleiðinni og atburði líðandi stundar og liðinna tíma. Hugur Magnúsar leitaði oft til Vestfjarða og orti hann mörg ljóð um æskustöðvarnar í Hvammi sem honum var annt um, Dýrafjörðinn og Vestfirði og myndir úr íslenskri náttúru.

Þeir sem hafa áhuga á að eignast ljóðabókina Hvammur geta sent póst á netfangið adalheidur101@gmail.com eða hringt í 📞 896 3021. Bókin er 157 bls. og kostar 5000 kr.

Vikuviðtalið: Þorbjörn H. Jóhannesson

Hér erum við nafnarnir í Kaldalóninu.

Hér er ég, hér vil ég vera.

Ísfirðingar hafa löngum verið þekktir fyrir að gefa bæjarbúum hin ýmsu viðurnefni, og er ég þar engin undantekning. Skírnarnafn mitt er Þorbjörn Halldór, en flestir kalla mig Dodda. Það fer þó eftir því hvort þú talar við núverandi íbúa sveitarfélagsins eða brottflutta, hvort viðskeytið sé „Doddi bæjó“ eða „Doddi á Esso.“

„Doddi á Esso“ er til komið vegna þess að foreldrar mínir ráku Esso-Nesti bensínstöðina á 7. og 8. áratugnum, sem þá var staðsett þar sem Fjórðungssjúkrahúsið er nú. Þessi bensínstöð átti síðar eftir að vera frekari áhrifavaldur inn í mína framtíð þar sem þar kynntist ég eiginkonu minni, Pálínu Jensdóttur, sem vann þar við afgreiðslu. Hún kemur frá Bæjum á Snæfjallaströnd og Kaldalóni. Í Kaldalóni höfum við reist okkur sumarhús, en ég veit fátt betra en að vera þar, þar er lítið sem ekkert símasamband, kyrrð og friður og náttúrufegurðin gífurleg, enda Drangajökull við byrjun lónsins og Ísafjarðardjúp við hinn endann. Við giftum okkur árið 1983 í gömlu Ísafjarðarkirkjunni, en hún brann fjórum árum síðar. Við eignuðumst þrjú börn, Hemma, Hilmar og Gullu, sem nú búa öll í sitthvorum landshlutanum, auk þess sem við eigum tíu barnabörn, en gaman að segja frá því að nafni minn sem sjá má á meðfylgjandi mynd, starfar nú á N1 sem áður var Esso og því má segja að Doddi á Esso hafi gengið endurnýjun lífdaga.

Foreldrar mínir keyptu rauða húsið í Túngötunni nr. 11 og áttu þar heimili þar til pabbi fluttist að Hlíf. Þannig varð ég Túngötupúki. Áður hafði ég lengi vel átt heima í Hrannargötu sem og í Eyrargötublokkinni. Þetta er á árunum þegar Hverfisstríðin voru í hámarki, og á þessum tíma voru ófá prakkarastrikin framin. Mér er minnistætt þegar ég og Steini heitinn Geirs vinur minn áttum þríhjól og við smíðuðum á það segl og í miklu austanroki létum við vindinn ýta okkur áfram á hjólinu út Sólgötuna. Í eitt sinn náði ég svo mikilli ferð, en þá kom bíll sem snarhemlaði og ég rétt náði að beygja frá en rann undir bílinn, og keðjurnar á bílnum staðnæmdust við hálsinn á mér og er ég enn með far á hálsinum eftir þetta. Bílstjórinn var hann Óli í Þór og urðum við miklir vinir eftir þetta. Í annað sinn þegar ég var púki eyddi ég heillöngum tíma í að smíða mér bát og tjarga hann og endaði með að sigla á honum út í Arnardal. Þar var fólk ekki paránægt með þetta uppátæki mitt og var báturinn eyðilagður. Enda verið stórhættulegt, en ég sá alltaf eftir bátnum.  Einnig þótti okkur Steina gaman að stríða einum íbúa í Hrannargötunni, en þar sem hann bjó var hægt að fara inn í húsið að aftan og hlaupa út að framan. Við vorum eitt sinn búnir að fara marga hringi í gegnum húsið þar sem karlanginn var að leggja sig í stofunni. Að endingu fauk nú í minn mann sem elti okkur út, en við eldsnöggir og létum okkur flakka yfir girðinguna og inn í sundið sem var á milli húsanna, karlinn beint á eftir en það fór nú ekki betur en svo að hann festist í veggnum og steinlá í kartöflugarðinum. Það voru ýmis uppátækin sem fengju aldrei að líðast nú í dag. Ég var alltaf vel virkur krakki, og mamma sagði oft að hún þyrfti sko ekki að fara í megrun eftir að hún eignaðist mig — hún hefði nóg að gera við að elta soninn.

Foreldrar mínir voru Guðríður Jóhanna Matthíasdóttir frá Arnardal, oftast kölluð Gulla Matt, sem var Kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Ísfirðinga í mörg ár, og Jóhannes Guðni Jónsson, sem var forstjóri Íshúsfélags Ísfirðinga þar til hann fór á eftirlaun. Ég er yngstur fjögurra systkina, elstur var Guðni Geir hálfbróðir minn sem lést fyrir um ári síðan, en hann var hér virkur í bæjarpólitíkinni um árabil. Þar næst var systir mín Halldóra Matthildur, síðan Jón Sigurður og ég. Pabbi kom 18 ára vestur úr Skagafirði til að vinna hjá bróður sínum, Agnari á Kúabúinu, og keyrði einnig mjólkurbílinn. Í einni slíkri ferð festi hann bílinn í skurði í heimreiðinni út í Arnardal, við mikið bölv og ragn bræðra mömmu. Móðuramma mín sagði þá: „Þessi á nú eftir að festast lengur en þetta hér“ og reyndist hún sannspá þar sem eftir þetta fóru foreldrar mínir að stinga saman nefjum.

Ég er Arndælingur mikill og var oft í Fremrihúsum hjá ömmu minni og móðurbræðrum mínum í æsku. Búskap fjölskyldunnar í Arnardal má rekja langt aftur í ættir. Núna búum við konan mín þar og erum með búfénað. Rollubúskapurinn er mitt aðaláhugamál, og í því starfi er maður að allan sólarhringinn, sífellt að dytta að hinu og þessu. En nú er svo komið að þegar að kemur að því að við konan mín munum bregða búi í Arnardal að þá mögulega verð ég síðasti ættliðurinn til að stunda þar búskap, en það eitt mun tíminn leiða í ljós.

Nýlega hef ég tekið sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn fyrir Í-listann, og hlakka ég til komandi tíma í því hlutverki en ég tel mig vera réttsýnan og þekki jú málefni sveitarfélagsins frá hinum ýmsu hliðum mjög vel, en þá komum við einmitt að seinna gælunafni mínu sem er Doddi bæjó. En það gælunafn fékk ég eftir að hafa unnið hjá sveitarfélaginu, bænum, í 46 ár. Ég hóf störf mín fyrir bæinn árið 1974 sem verka- og tækjamaður. Þá unnu þar menn eins og Torfi Bjarna, Maggi Dan, Siggi Jónasar, Gústi Valda og Fúsi í Salem, en maður lærði mikið af þessum öðlingum. Þetta voru skemmtilegir og góðir menn sem kunnu ættfræði gömlu Ísfirðinganna langt aftur í ættir. Árið 1984 tók ég við stöðu Bæjarverkstjóra, sem ég sinnti í um þrjátíu ár og síðar færðist starf mitt yfir á Bæjarskrifstofuna, þar sem ég var yfirmaður Eignasjóðs til ársins 2020. Eitt það skemmtilegasta við störf mín eru samskipti við íbúana og maður þekkti orðið alla, vítt og breitt um sveitarfélagið. Eitt sinn einn mikinn snjóavetur í kringum árið 1990 hringdi í mig blaðamaður frá Morgunblaðinu og endaði viðtalið á að spyrja hvort það væri nú ekki erfitt að eiga heima þarna á Ísafirði í öllum þessum snjó. Þá svaraði ég eitthvað á þá leið – að það væri nú svo merkilegt með Ísafjörð, það hefur aldrei fennt það mikið að það færi ekki aftur.

Þannig hefur líf mitt verið, fullt af minningum frá þessum stað. Þetta var góður tími sem ég minnist með góðu en einn stærsti kosturinn við að búa í slíku samfélagi sem Ísafjörður og nærsveitir eru, er náungakærleikurinn og hér þekkja allir alla. Það er hlýlegt til þess að hugsa að til dæmis í tengslum við veikindi föður míns sem var þá farinn að tapa áttum, að þegar hann átti það til að fara í göngutúr illa áttaður, tóku kannski bæjarbúar hann upp í og buðu á rúntinn og hringdu svo bara og létu mig vita og skutluðu honum aftur á Eyri. Þetta myndirðu ekki upplifa í höfuðborginni, og tel ég vera mikinn kost fyrir okkar samfélag; samhugurinn, samkenndin og náungakærleikurinn.

Hér er ég fæddur, hér ólst ég upp, hér hef ég alltaf búið og hér ætla ég mér að vera.

Slysavarnardeildin Unnur Patreksfirði: fjölmennasta deildin á landinu

Frá aðalfundinum á miðvikudaginn. Eins og sjá má var vel mætt. Myndir: aðsendar.

Slysavarnadeildin Unnur sem starfar innan Landsbjargar hélt sinn árlega aðalfund á miðvikudaginn, þann 19. febrúar í félagsheimili Patreksfjarðar. Mjög vel var mætt á fundinn og gengu 11 nýjar konur í deildina. Nú eru 102 félagskona í Slysavarnsdeildinni Unni á Patreksfirði og er þá orðin fjölmennasta deildin á landinu að sögn Sólrúnar Ólafsdóttur, fráfarandi formanns deildarinnar.

Íbúar á Patreksfirði eru um 700 manns svo mjög  stórt hlutfall kvenna  á Patreksfirði  er í  slysavarnadeildinni Unni. Markmið deildarinnar er að vinna að slysavörnum með öflugum forvörnum og styrkja kaup á björgunar og öryggisbúnaði bæði til sjós og lands. Sólrún segir að mjög góð samvinna og félagsandi sé í deildinni og standi konur mjög þétt saman í þeim efnum.

„Síðastliðið ár unnum við t.d að 13 slysavarnaverkefnum í nærumhverfi okkar. Einnig erum við duglegar að fjölmenna á landsmót slysavarnadeilda sem er haldið vítt og breytt um landið. Síðastliðið  haust mættu 31 Unnar konur á slíkt landsmót sem var haldið á Ólafsfirði. Þar eru fyrirlestrar,námskeið og mikill fróðleikur fyrir okkur og deilirnar miðla verkefnum sinna deilda til annara. Síðan er uppskeruhátíð á laugardagskvöldinu með góðum mat og skemmtiatriðum sem deildirnar æfa og flytja sjálfar sér og öðrum til skemmtunar. Í öllum félagsskap þarf að blanda saman vinnu og gelði svo hann þrífist og dafni. Maður er manns gaman. Konurnar koma alltaf endurnærðar heim af þessum landsmótum og eru þá tilbúnar í verkefni framtíðarinnar. Ég hef verið í stjórn svd Unnar i 18 ár með hléum og það hefur gefið mér mikið að starfa að slysavörnum. Það hafa allir gott af því að gefa af sér til samfélagsins.í gær afhenti ég Fanney Ingu Halldórsdóttur  formennskuna í slysavarandeildinni Unni og óska ég henni velfarnaðar í starfi.“

Hér hafa félagskonur í svd. Unni brugðið á leik á Patreksfirði.

HS orka bauð lægst í orkusölu til Ísafjarðarbæjar

Horft eftir Hafnarstræti. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fimm tilboð bárust Ísafjarðarbæ í raforku fyrir Ísafjarðarbæ og undirstofnanir árið 2024. Um er að ræða kaup á raforku fyrir Ísafjarðarbæ,fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf., Byggðasafn Vestfjarða og Hafnir Ísafjarðarbæjar.

Lægstbjóðandi var HS orka sem bauð hverja kwstund á 10,39 kr.

Bæjarstjórn samþykkti á þriðjudaginn að taka tilboði HS orku.

Samningurinn gildir í 1 ár og er uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara, í fyrsta lagi 9 mánuðum eftir undirritun. Heimilt er að framlengja samning tvisvar sinnum um 1 ár í senn, séu báðir aðilar því samþykkir. Þar af leiðandi er heildarlengd samnings mest 3 ár.

Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1

Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2025

Dragnótabáturinn Haförn ÞH 26  kemur hér að landi á Húsavík.

Það er Uggi fiskverkun ehf. sem á Haförninn og gerir út en fyrirtækið keypti bátinn árið 2010.

Haförn ÞH 26 hét áður Þorsteinn BA 1 frá Patreksfirði og var smíðaður í Garðabær árið 1989. 

Báturinn, sem er búinn 450 hestafla aðalvél frá árinu 2001, var lengdur 1993 og mælist 71 brúttótonn (29,9 brúttórúmlestir) að stærð.

Af skipamyndir.com

Húsgagnagerð úr skógarefni

Endurmenntun græna geirans hjá Garðyrkjuskólanum – FSu heldur námskeið um húsgagnagerð úr skógarefni í samvinnu við Iðuna fræðslusetur laugardaginn 8. mars í starfstöð Skógræktarfélags Árnesinga að Snæfoksstöðum í Grímsnesi.

Námskeið sem hefur þróast upp úr námskeiðinu Lesið í skóginn tálgað í tré sem hefur verið kennt í frá árinu 2001 og hefur notið mikilla vinsælda.

Námskeiðið er öllum opið. Það hentar t.d smíðakennurum, almennum kennurum, sumarbústaðafólki, skógareigendum, skógræktarfólki, handverksfólki og öðrum er vilja læra hvernig hægt er að smíða úr því efni sem fellur til við grisjun.

Á námskeiðinu …

  • lærir þú að nýta grisjunarefni í húsgagnagerð og aðrar hagnýtar nytjar,
  • kynnist eiginleikum einstakra viðartegunda og nýtingu þeirra,
  • lærir að setja saman kolla og bekki úr greinaefni og bolviði eða skógarfjölum,
  • kynnist fersku og þurru efni og samsetningu þess,
  • lærir að afberkja, ydda, setja saman og fullvinna húsgögnin ásamt yfirborðsmeðferð og fúavörn.

Öll verkfæri og efni til staðar. Verið í vinnufatnaði á námskeiðinu. Allir fara heim með einn koll og fleira.

Tæp 10% úrgangs urðuð árið 2022

Tekið var á móti 1.581 þúsund tonnum af úrgangi af úrvinnsluaðilum árið 2022. Þar af voru 1.420 þúsund tonn endurheimt á einhvern hátt en 147 þúsund tonn urðuð á urðunarsvæðum. Hlutfall úrgangs sem fór í urðun árið 2022 var því 9,3% af heildarmagni sem kom til úrvinnslu.

Stærstur hluti efnis sem kemur til úrvinnslu eru jarðefni en sá úrgangsflokkur er að mestu notaður sem uppfyllingarefni sem telst vera endurnýting og því endurheimt efni. Hlutfall efnis sem fór í uppfyllingar hefur verið í kringum 50% af heildarmagni en var 60% árið 2022. Þá var önnur endurvinnsla 19% og önnur endurnotkun 9%.

Skráð magn efnis sem er urðað hefur verið í kringum 200 þúsund tonn árlega frá árinu 2014. Marktækur árangur hefur hins vegar náðst í að draga úr urðun frá árinu 2019, sérstaklega þegar kemur að blönduðum heimilisúrgangi. Þessi flokkur samanstendur af blönduðum úrgangi frá heimilum, gámasvæðum og frá smærri rekstraraðilum sem skila ekki sérstaklega flokkuðum úrgangi. Árið 2019 voru tæplega 219 þúsund tonn af úrgangi urðuð en þar af voru 140 þúsund tonn blandaður heimilisúrgangur. Árið 2022 hafði urðun á blönduðum heimilisúrgangi dregist saman um ríflega helming og var um 68 þúsund tonn.

Heildarmagn úrgangs sem fór til urðunar árið 2022 var ríflega 147 þúsund tonn sem er samdráttur um 35% miðað við árið 2019. Árið 2019 var nær allur blandaður heimilisúrgangur urðaður eða brenndur án orkunýtingar. Árið 2022 var hins vegar um 39% af blönduðum heimilisúrgangi sendur erlendis til orkuvinnslu sem telst til endurheimts efnis.

Nýjustu fréttir