Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 19

Íbúar í Reykhólahreppi völdu heitið Fjársjóður fjalla og fjarða

Verkefnisstjórn Aðalsteinn Óskarsson, Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir, Hrefna Jónsdóttir, Embla Dögg Bachmann, Vésteinn Tryggvason, Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir

Nýliðna helgi var íbúaþing á Reykhólum. Það var upphaf þáttöku Reykhólahrepps í verkefninu Brothættar byggðir, sem er leitt af Byggðastofnun með aðstoð Vestfjarðastofu.

Verkefnisstjóri er Embla Dögg Bachmann á Reykhólum en stjórn verkefnisins skipa fulltrúar Byggðastofnunar, Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, frá Vestfjarðastofu Aðalsteinn Óskarsson, fulltrúi sveitarstjórnar Reykhólahrepps er Hrefna Jónsdóttir og fulltrúar íbúa Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir og Vésteinn Tryggvason.

Fjölmörg mál voru tekin til umræðu á íbúaþinginu, í samtals 17 málefnahópum og mun verða horft til allra málefnanna í mótun verkefnisáætlunar. Sérstaklega var ánægjulegt að fulltrúar yngri kynslóðarinnar tóku virkan þátt á íbúaþinginu.

Undir lok þingsins var kosið heiti á verkefnið úr 6 tillögum sem komu fram.

Fjársjóður fjalla og fjarða  var valið og þegar niðurstaða var ljós kvaddi Erla Reynisdóttir í Mýrartungu sér hljóðs og mælti fram þessa vísu:

Fjársjóður fjalla og fjarða,

hér finnur þú fegurð og frið.

Auðlegð afls og jarðar,

hver nýtir það nema við?

Auglýsing
Auglýsing

Alþýðusambandið vill að ríkisstjórn dragi til baka meingallað frumvarp um raforkuöryggi

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp um breytingu á raforkulögum ófullnægjandi með öllu og  hvetur ríkisstjórnina til að draga það til baka.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn Alþýðusambandsins um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuöryggi), mál nr. 130/2025 sem birt hefur verið á vef alþingis.

Í umsögninni kveðst Alþýðusambandið fagna sýndum vilja stjórnvalda til að tryggja forgang heimila og almennra notenda að raforku sem birtist í samstarfsyfirlýsingu stjórnvalda og framlagningu þessa frumvarps. Á hinn bóginn er það mat ASÍ að frumvarpið nægi ekki til að tryggja raforkuöryggi þessara notenda.

Í umsögninni segir:

„Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við að frumvarpið feli ekki í sér neina vernd fyrir heimili og smærri fyrirtæki gegn verðhækkunum á raforku. Lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi er að tryggja að raforka sé á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að frumvarpið tryggi íslenskum heimilum örugga afhendingu á raforku er ekkert í frumvarpinu sem tryggir að sú raforka verði á viðráðanlegu verði og sem kemur í veg fyrir að almenningur og smærri fyrirtæki lendi í verðsamkeppni við stórnotendur raforku.“

Þá er vikið að sérstöðu raforkumarkaðarins sem sé gjörólíkur þeim sem tíðkist á meginlandi Evrópu:

 „Hér á landi eru stórnotendur ráðandi á raforkumarkaði og nota 80% raforkunnar en almenningur og smærri fyrirtæki samanlagt 20%. Þessu er öfugt farið í löndunum í kringum okkur. Þá er nær öll raforka sem framleidd er á Íslandi endurnýjanleg auk þess sem íslenskur raforkumarkaður er lokaður og tíma tekur að setja á fót nýjar virkjanir. Þetta þýðir að ekki er hægt að bregðast við framboðsskorti með skömmum fyrirvara og að hærra orkuverð hefur ekki sömu áhrif á framboð og eftirspurn eftir raforku hér og á meginlandi Evrópu.“

Fram kemur sú afstaða Alþýðusambandsins að framganga íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki sé með öllu óskiljanleg og beinir að lokum þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að málið verði tekið til baka:

Auglýsing
Auglýsing

Eyþór Bjarnason ráðinn forstöðumaður stuðningsþjónustu hjá Ísafjarðarbæ

Eyþór Bjarnason hefur verið ráðinn forstöðumaður í stuðningsþjónustu á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar.

Eyþór lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2008. Hann stundaði kennaranám á árunum 2010 til 2012 við Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar og sem stendur stundar hann nám á hug- og félagsvísindasviði við Háskólann á Akureyri í fjölmiðlafræði. Hann lauk Leiðtogaþjálfun – Forysta til framtíðar í Háskólanum á Bifröst 2022 og þá hefur hann setið ýmis leiðtoga-, stjórnunar- og öryggisnámskeið.

Eyþór hefur meðal annars starfað sem svæðisstjóri hjá Ikea 2013 til 2018 þar sem hann gekk jafnframt verslunarstjóravaktir, sem afgreiðslustjóri lyfjalagers hjá Distica á árunum 2018 til 2021 og sem verslunarstjóri Nettó árin 2021 til 2022.

Auglýsing
Auglýsing

Vesturferðir: fóru ekki að samþykktum við sölu hlutabréfa

Vesturferðir eru til húsa í Edinborgarhúsinu.

Í bréfi eins hluthafa í Vesturferðum ehf frá 6. mars sl. sem sent var stjórn og framkvæmdastjóra og varð til þess að aðalfundi var frestað, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við starfshætti stjórnar og segir að hlutir hafi gengið kaupum og sölum án þess að stjórn hafi upplýst hluthafa um það og gætt að ákvæði í samþykktum félagsins sem kveður á um að stjórn hafi forkaupsrétt á öllum fölum hlutum og að félaginu frágengnu hafi hver hluthafi forkaupsrétt í samræmi við eignarhlut sinn.

Segir í bréfinu að stjórn hafi ekki virt þetta ákvæði og hafi m.a. selt hluti sem stjórnin nýtti kauprétt á til annarra en hluthafa án þess að bjóða hluthöfum forkaupsrétt. Því sé hluthafaskrá félagsins ekki rétt og lögum samkvæmt. Eigendaskipti að hlutum hafi verið ólögmæt og ábyrgð stjórnar sé mikil.

Útgefið hlutafé í Vesturferðum ehf er 12.399.000 kr. og fyrir aðalfundinum sem halda átti í þessum mánuði er lagt til að greiða 45 m.kr. í arð sem nærri fjórfalt meira en hlutafénu nemur.

Á árinu 2022 var ákveðið á fundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða, sem var langstærsti hluthafi í Vesturferðum að selja hlutaféð til Sjóferða og Vestfirskra ævintýraferða. Samkvæmt samþykktum félagsins bar að bjóða stjórn Vesturferða hlutaféð til sölu og ef stjórnin vildi ekki kaupa að bjóða þá öðrum hluthöfum hlutina til kaups áður en nýjum aðilum var selt.

Hvetjandi var næststærsti eigandi að Vesturferðum með 2.166.434 kr. hlutafé. Það var selt í október sl. og keypti stjórnin fyrir hönd félagsins. Verðið var sama og nafnverð hlutanna. Hluthöfum var ekki boðið að kaupa hlutaféð, en selt af því til nýrra hluthafa m.a. til starfsmanna. Stærstu hluthafar samkvæmt framlögðum ársreikningi eru Sjóferðir og Vestfirskar ævintýraferðir með samtals 43% eignarhlut.

Góð afkoma hefur verið síðustu tvö ár af rekstri félagsins og tillaga um arðgreiðslu upp á 45 m.kr. gerir kaup á hlutum síðustu ár að arðbærri fjárfestingu.

Jón Auðunsson, framkvæmdastjóri félagsins hefur ekki svarað fyrirspurnum Bæjarins besta um framhald aðalfundarins sem frestað var.

Auglýsing
Auglýsing

Sambandslaust á Dynjandisheiðinni

Nýr vegur á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Á mánudaginn lenti vegfarandi í því á Dynjandisheiðinni , við gömlu sýslumörkin, að óhapp varð og bíllinn óökufær. Hugðist hann þá hringja eftir aðstoð en þá kom í ljós að ekkert samband var. Hann fékk far með næsta bíl og voru þeir komnir niður að Dynjandisvogi þegar símasamband náðist og hægt var að kalla eftir aðstoð.

Í lok síðasta árs kom Neyðarlínan upp fjarskiptagámi á Dynjandisheiðinni, á SA verðri öxl Urðarfells, með tetra- og farsímasendum. Um er að ræða tilraunaverkefni og sagði framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar að vonast væri að með þessu tækist að tryggja öruggt fjarskiptasamband.

Auglýsing
Auglýsing

Lionsklúbbur Patreksfjarðar styrkir björgunarbátakaup um 7 m.kr.

Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu styrksins og undirritun samnings um framlagið. Frá vinstri Óskar Leifur Arnarsson, gjaldkeri LP, Stefán Jón Pétursson f.h. Björgunarbátasjóðsins og Gísli Már Gíslason formaður LP.

Á síðasta fundi Lionsklúbbs Patreksfjarðar var samþykkt að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um samtals 7 millljón króna til kaupa á nýju björgunarskipi fyrir svæðið.

Mikil samstaða hefur myndast á svæðinu um að afla fjár til þess að greiða hlut heimamanna í nýju björgunarskipi Landsbjargar sem mun koma á næsta ári. Það mun kosta um 340 m.kr. og er hlutur heimamanna fjórðungur þess eða 85 m.kr. Það er Björgunarbátasjóður V- Barðastrandarsýslu sem stendur að kaupunum fyrir hönd heimamanna.

Oddi hf hefur lagt fram 30 m.kr. og bæjarsjóður mun greiða 20 m.kr. Slysavarnadeildin Unnur veitti 10 m.kr. styrk. Strandveiðisjóðmenn söfnuðu 25 m.kr. Þá hafa ýmis fyrirtæki lagt fram myndarlegar upphæðir.

Auglýsing
Auglýsing

Hverfisráð Þingeyrar: innsiglingarviti virkar ekki

Frá framkvæmdum Ísafjarðarbæjar á Þingeyri á síðasta sumri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hverfisráð Þingeyrar hittist fyrr í mánuðinum og fór yfir ýmis mál sem varða íbúana. Þar eru nefnd allmörg mál sem ráðið bendir á að betur megi fara og kallar á Ísafjarðarbæ að bregðast við.

Eitt er að ekkert ljós er á innsiglingarvitanum á Þingeyri.

Í fundargerð stendur: „Innsiglingarvitinn virkar ekki og hefur ekki virkað frá því framkvæmdir hófust við hreinsivirki/dælustöð s.l. haust. Trúlega hefur rafmagnsstrengur verið rofinn að vitanum en á honum hefur ekki logað eftir að framkvæmdir hófust þarna niður á Oddanum, og er það mjög bagalegt þar sem þetta er innsiglingar viti við Þingeyri. Haft hefur verið samband nokkrum sinnum yfir á Ísafjörð en ekkert bólar enn á ljósi.“

Flýtur yfir hafnarkantinn

Annað er að á stórstreymi flýtur sjórinn yfir veginn út á bryggjuna þar sem bátar Arctic Fish og Egill IS 77 liggja venjulega við.

Íbúaráðið bókaði: „Algjörlega óásættanlegt að fá ekki fjármagn til að laga svona hluti, ekki síst þar sem við búum í firði sem gefur miljarða af sér og við fáum lítið sem ekkert af þeim peningum í hlutfalli við það, í innviði samfélagsins.“

Grenndargámar of dýrir

Rætt var um grenndargáma / grenndarstöð. Íbúaráðið segir að kostnaðurinn við grenndarstöðina sé alltof hár á hvert heimili hér í bæ og spyr: „Væri ekki hægt að nota bílinn sem kemur hér 2x – 3x í viku til að tæma grenndargámana ? Þessi rusla mál þarf virkilega að endurskoða… í Vesturbyggð fer allt í sama gáminn.“

Gangstéttir á slæmu ástandi

Um úttekt á ástandi gangstétta segir íbúaráðið: „Okkur finnst þetta ansi undarleg úttekt á gangstéttum hér í bæ. Gangstéttir sem sagðar eru í lagi eru í mjög slæmu ástandi. Gott væri að fá einhvern frá Ísafjarðarbæ til að koma og fara yfir ástand gangstéttana með t.d. Karli Bjarnasyni stjórnamanni í Hverfisráðinu en hann þekkir ástand gangstéttanna hér mjög vel.“

Auglýsing
Auglýsing

Ísafjörður: Skíðavikustjóri kallar eftir viðburðum

Ragnar Heiðar Sigtryggsson skíðavikustjóri er farinn að huga að skíðavikunni sem framundan er. Hann minnir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga sem hafa hug á því að halda viðburði í skíðavikunni á að gera vart við sig.

„Nú styttist í þessa yndislegu viku okkar og til að gera Skíðavikuna sem allra glæsilegasta leitum við til ykkar eins og áður með að fá upplýsingar um þá viðburði sem þið hafið hug á að halda. Viðburðadagatalið verður aðgengilegt á skidavikan.is og ásamt því að við hvetjum alla til að setja upp facebook viðburði (þeir sem ekki treysta sér í það, mega hafa samband við Ragnar og fá aðstoð við það).“
Hægt er að senda inn upplýsingar á netfangið skidavikan@isafjordur.is og þarf þá að hafa nafn á viðburðinum, staðsetningu, stutta lýsingu, hlekk á facebook viðburð og mynd til að setja með viðburðinum, svo er dagsetning ekki af verri endanum.

Skíðafleyting.

Auglýsing
Auglýsing

Skólakynningar í Menntaskólanum á Ísafirði

Frá háskóladeginum í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn 28. mars verða skólakynningar í MÍ. Menntaskólinn á Ísafirði, Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólasetur Vestfjarða, Lýðskólinn á Flateyri og AFS munu þá kynna starfsemi sína í Gryfjunni. Kynningarnar standa yfir frá kl. 12:30-14:00.

Allir velkomnir.

Mikill fjöldi gesta kom í fyrra á háskóladeginum í M.Í. og höfðu skólarnir lagt metnað sinn í kynna sem best starfsemi sína og námsleiðir sem til boða standa.

Auglýsing
Auglýsing

TF-SIF komin heim

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, kom til landsins á dögunum eftir að hafa annast landamæragæslu á vegum Frontex við Miðjarðarhaf.

Vélin mun næstu mánuði vakta hafsvæðið umhverfis Ísland.

TF-SIF, eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands er af gerðinni Dash 8 Q 300 og er flugvélin sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs á Norður-Atlantshafi. Vélin er smíðuð af Bombardier en Field Aviation í Kanada annaðist hönnun og ísetningu tækjabúnaðar ásamt undirverktökum. Um eitt ár tók að útbúa vélina sérstaklega fyrir þau verkefni sem henni er ætlað að leysa af hendi. Við framleiðslu vélarinnar var áhersla lögð á draga úr hávaða og titringi jafnt innan sem utan flugvélarinnar. Vélar af tegundinni Dash 8 Q300 eru þekktar fyrir að geta athafnað sig á mjög stuttum flugbrautum, ennfremur þola þær talsverðan hliðarvind eða um 36 hnúta.

Flugdrægi vélarinnar er um 2100 sjómílur auk 45 mínútna varaeldsneytis. Með flugvélinni margfaldast eftirlitsgeta Landhelgisgæslu Íslands bæði með tilliti til mengunar, fiskveiða og hafíss. Möguleikar til leitar- og björgunar munu aukast gríðarlega, sérstaklega á hafi úti en einnig á landi.Um borð eru tvær vinnustöðvar sem útbúnar eru fullkomnu MMS (Mission Management System) sem m.a. aðstoðar við framkvæmd eftirlits, úrvinnslu og samhæfingar þeirra gagna sem safnað er, þ.e. í almennu fiskveiði-, ís- og mengunareftirliti. Um borð er hugbúnaður til að greina myndir og gagnagrunnur með skipum sem býður upp á þann möguleika að mæla lengdir skipa og flatarmál mengunar úr nokkurri fjarlægð. Hægt er að færa allar upplýsingar rafrænt á milli skjáa og vinnustöðva. Allar aðgerðir og upplýsingar úr eftirlitsbúnaði eru teknar upp og hægt er að framkvæma myndvinnslu samhliða upptöku.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir