Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 189

Leiðbeiningar um vegi í náttúru Íslands

Vegagerðin og Skipulagsstofnun hafa gefið út leiðbeiningar um vegi í náttúru Íslands, til að hafa til hliðsjónar við kortlagningu og skráningu vegakerfis í náttúru Íslands.

Um er að ræða aðra útgáfu leiðbeininganna sem nú hafa verið endurskoðaðar, m.a. með áherslu um að skýra ferli við gerð skrár um vegi í náttúru Íslands og tengja gerð aðalskipulags, en gerð skrárinnar fer fram samhliða skipulagsferlinu.

Í skrá yfir vegi í náttúru Íslands á að flokka vegi í fjórar mismunandi vegtegundir eftir því hversu greiðfær viðkomandi vegur er, þ.e. í vegtegund F0 (greiðfær vegur), F1 (seinfær vegur), F2 (lakfær vegur) og F3 (torfær vegur). Um er að ræða sambærilega flokkun og Vegagerðin notar við flokkun landsvega samkvæmt vegalögum en á slíkum vegum er almennt gert ráð fyrir árstíðabundinni umferð auk þess sem gera má ráð fyrir minna eftirliti og þjónustu en á öðrum þjóðvegum.
Við flokkun vega skal einnig tiltaka sérstaklega á hvað tíma árs heimilt er að nota veginn eða hvort umferð um hann er takmörkuð við ákveðna tegund ökutækja eða tilgang umferðar, svo sem vegna smalamennsku, veiði, eftirlits og viðhalds orku- og veitumannvirkja eða rannsókna.

Óánægja með frumvarpsdrög matvælaráðherra

Landssambands smábátaeigenda segir að ekkert í frumvarpsdrögum matvælaráðherra til laga um sjávarútveg styrki útgerð smábáta.

Í umsögn sambandsins við frumvarpsdrög ráðherra segir meðal annars:

„Við lestur frumvarpsdraganna er það mat LS að þar sé ekkert að finna sem styrki útgerð smábáta.  Að eftir allt það starf sem unnið hefur verið sé það niðurstaðan að sniðganga mikilvægi smábáta og minni skipa við vistvæna nýtingu auðlindarinnar.  Jafnframt að loka öllum leiðum til að bæta við veiðiheimildir sínar með umgjörð þar sem samkeppni verður ekki háð á jafnréttisgrundvelli.  Aðgengi að fé til kvótakaupa er gjörólíkt, einstaklingsútgerðir háðar lánum frá bönkum, en útgerðir á markaði fá fé frá almenningi án þess að þurfa að greiða af því vexti.   

Auk þessa er lagt til í frumvarpsdrögunum að skerða og afnema í áföngum línuívilnun sem hefur verið bjargræði margra útgerða, samhliða sem byggðafestu hinna dreifðu byggða er ógnað.“

Þá er því einnig mótmælt harðlega að fallið verði frá að skylt verði að halda eftir 5,3% af leyfilegum heildarafla til að tryggja strandveiðar, línuívilnun og aðrar byggðatengdar aðgerðir.  Með þeirri samþykkt verði þeir hundruð aðila sem byggja atvinnu sína á þessum veiðiheimildum að reiða sig á geðþótta ráðherra hverju sinni.

Þá segir einnig í umsögninni að þrátt fyrir að 750 bátum hafi verið róið til strandveiða á sl. sumri og veiðiheimildir hafi aðeins dugað í 57% þess tíma sem strandveiðileyfið náði til, sé það afar gagnrýnisvert að ekki sé lagt til í frumvarpsdrögunum að verða við vilja þjóðarinnar og leggja til auknar heimildir til strandveiða.

Ísafjarðarbær: Fasteignagjöld 967 m.kr

Fasteignamat sem framkvæmt er af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkaði um 14,2% í Ísafjarðarbæ frá árinu 2023.

Ef fasteignamat íbúðarhúsnæðis er skoðað eftir byggðakjörnum þá hækkaði fasteignamatið mest í sérbýli á Þingeyri um 41% og á Flateyri um 34%.

Hlutfall fasteignaskatts lækkar á íbúðarhúsnæði árið 2024 og verður 0,54% af hús- og lóðarmati. 

Hlutfall fasteignaskatts af öðrum fasteignum verður áfram 1,65% af hús- og lóðarmati.

Heildarhækkun tekna vegna fasteignagjalda árið 2023 er 8,54% miðað við tekjur ársins 2022. Fasteignagjöld 2024 eru áætluð 967 m.kr.

Elli- og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignaskatti og holræsagjaldi vegna íbúða þeirra til eigin nota. Afslátturinn er að hámarki 100.000 kr. og er tekjutengdur. Forsendur eru sóttar í gegnum vefþjónustu RSK og byggist á tekjum þar síðasta árs. Ekki þarf að sækja um afsláttinn sérstaklega enda er hann tilgreindur á álagningarseðli hjá þeim sem falla undir reglurnar.

Súðavíkursnjóflóðin: samstaða á Alþingi um skipun rannsóknarnefndar

Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Samstaða er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um að leggja til að skipuð verði rannsóknarnefnd um snjóflóðin í Súðavík í janúar 1995. Ágúst Bjarni Garðarsson alþm og nefndarmaður staðfesti það við Bæjarins besta. Til rannsóknar verða viðbrögð stjórnvalda fyrir og eftir slysin.

Forsætisráðherra sendi nefndinni bréf 6. júní 2023 í kjölfar þess að hópur aðstandenda þeirra sem fórust höfðu óskað eftir opinberri rannsókn. Málið hefur síðan verið tekið fyrir í nefndinni á einum 12 fundum og lauk nefndin umfjöllun sinni í gær.

Í bréfinu segir forsætisráðherra að í erindi aðstandendanna komi fram alvarlegar athugasemdir við tilhögun skipulagsmála sveitarfélagsins og atburðarrásina í aðdraganda snjóflóðanna auk verklags almannavarna. Þar er fullyrt að alvarlegir annmarkar hafi verið á snjóflóðahættumati og hvernig staðið var að rýmingu húseigna.

Þingnefndin sendir niðurstöðu sína til forseta Alþingis sem leggur það svo fyrir Alþingi. Samþykki Alþingi ályktun um að skipuð verði rannsóknarnefnd til þess að rannsaka málsatvik skipar forseti Alþingis nefndina. Meginhlutverk rannsóknarnefndar er að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum. Rannsóknarnefnd er í störfum sínum óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi. Skulu nefndarmenn jafnframt vera óhlutdrægir og óvilhallir gagnvart þeim stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum sem nefndin hefur til athugunar. Sama á við um starfsmenn og aðstoðarmenn rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti.

Tillaga stjórnskipuar- og eftirlitsnefndar að ályktunartexta hefur ekki verið birtur og mun vera unnið að lokafrágangi.

Listasafn Ísafjarðar: Birting – safneignarsýning

20.01 – 17.02 2024

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun sýningarinnar BIRTING. Opnun verður 20. janúar nk. kl. 14.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annarri hæð í Safnahúsinu Eyrartúni.

Brátt klifrar sólin yfir fjallsbrúnir og verkin á sýningunni birtast okkur í nýju ljósi. Sum rísa úr dimmri geymslu, önnur koma frá stofnum innan bæjarins og eitt verkanna fær nýjan stað í sama húsi. Verkið Pönnukökuveislan eftir Karolínu Lárusdóttur skapar tilhlökkun með sólarkaffið handan við hornið og því tilvalið að njóta sýningarinnar með hækkandi sól.

Birting er fyrsta sýning ársins 2024 hjá Listasafni Ísafjarðar og verða sett upp verk úr safneign, verkin eru ólík sín á milli en eiga það sameiginlegt að höfundar þeirra eru konur. Þetta eru þær Guðbjörg Lind, Karolína Lárusdóttir, Jean Larson, Nína Gautadóttir, Nína Tryggvadóttir, Ragnheiður Jónsdóttir og Sara J. Vilbergsdóttir.

Aðgangur ókeypis
Listasafn Ísafjarðar nýtur stuðnings Ísafjarðarbæjar

Nærmynd úr verki Karolínu Lárusdóttur Pönnukökuveislan.
 

Ísafjarðarbær: launakostnaður 2023 var 3.475 m.kr.

Launakostaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 nam 3.475 millj. kr. samanborið við áætlun upp á 3.445 millj.
kr. Launakostnaðurinn varð 30 millj.kr. yfir áætlun eða 0,9% samkvæmt yfirliti deildarstjóra launadeildar.

Alls voru stöðugildi út frá mánaðarlaunum 274. Helstu frávikin voru í velferðarmálum,í fræðslumálum og hjá hafnarsjóði.

Á velferðarsviði var launakostnaður 5,7% undir áætlun eða 41 m.kr. Í fræðslumálum var launakostnaður hins vegar 3% hærri en áætlunin gerði ráð fyrir eða um 47 m.kr. og hjá hafnarsjóði var kostnaðurin 12 m.kr. yfir áætlun eða 5,3%.

Innan velferðarsviðsins varð launakostnaður við búsetu Pollgötu 31 m.kr. undir áætlun eða um 21% og skammtímavistun varð 33% undir áætlun eða 3 m.kr. Kostnaðurinn við yfirstjórnin varð heldur hærri eða 6% yfir áætlun eða tæplega 3 m.kr.

Í fræðslumálum voru helstu frávikin að launakostnaðurinn við Grunnskólann á Ísafirði varð 570 m.kr. sem er 16 m.kr. yfir áætlun og 92 m.kr. við Grunnskólann á Þingeyri sem var tæplega 11 m.kr. umfram áætlaðan launakostnað. Tjarnarbær á Suðureyri varð hins vegar 12% undir áætlun með 54 m.kr. Í heildina varð launakostnaðurinn 1.446 m.kr. sem er 23 m.kr. yfir áætlun.

Bæjarins besta: setur mál á dagskrá

Seint í gær birtist frétt á Ríkisútvarpinu um olíubrennslu Orkubús Vestfjarða sem er áætluð verða 3,4 milljónir lítra í orkuskorti Landsvirkjunar þetta kastið og kostar OV um 520 m.kr.

Á Bæjarins besta var einmitt í gærmorgun frétt sem minnti á þessa staðreynd, að orkuskömmtunin hæfist í dag. Fréttin á RÚV var að öllu leyti sögð á Bæjarins besta í byrjun ársins .

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bersýnilegt er að RÚV sækir fréttir til Bæjarins besta og í raun endurflytur þær á sínum miðli.

Í sjálfu sér er ekkert að því að Reykjavíkurfréttamiðlar lesi Bæjarins besta og sæki sér þangað efni til umfjöllunar. Það er hlutverk héraðsfréttamiðla að vekja athygli á málum ekki bara heima í héraði heldur einnig utan þess.

Ríkisútvarpið hefur um nokkurra ára skeið sparað sér að hafa fréttamann á Vestfjörðum og lætur fréttamenn á Vesturlandi eða Reykjavík sinna fjórðungnum. Það er gagnrýnivert og fréttaflutningur RÚV hefur að mörgu leyti borist þess merki. Hann hefur verið afar neikvæður og villandi í helstu málum, svo sem laxeldi og komum erlendra skemmtiferðaskipa. Meira jafnvægi hefur verið í umfjöllun í sumum öðrum málum. Þessi frétt um afleiðingar orkuskortsins á Vestfjörðum er ágæt og kemur málinu vel á framfæri á landsvísu.

Það hins vegar stingur dáldið í augu að þess er hvergi getið í RÚV fréttinni hvaðan hún er komin. Það er líka ekki í fyrsta sinn sem látið hjá líða að benda á hver vekur fréttina upp. Reykjavíkurmiðlarnir, og þar með talið RÚV, geta þess rækilega þegar þeir sækja fréttaefni hver til annars, hvar fréttin birtist fyrst.

Landsbyggðarfréttamiðlar eru alveg þess verðir að njóta sannmælis líka.

-k

Menntaskólinn á Ísafirði: setur upp sólarsellur við verkmenntahús

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í.

Menntaskólinn á Ísafirði fékk nýlega 4,9 m.kr. styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til  þverfaglegs skólaverkefnis með samstarfsaðilum um orkuframleiðslu og felst verkefnið í nýtingu mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í. segir að verkefninu í heild sé ætlað að auka skilning kennara og nemenda á orkuframleiðslu og hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma og Orkubús Vestfjarða. Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu.

Með þverfaglegri nálgun innan skólans mun skapast vettvangur til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum.

Menntaskólinn á Ísafirði hyggst setja upp sólarsellur við verkmenntahús skólans sem nota á til kennslu, þjálfunar og til að sinna hluta af orkunotkun skólans. Nemendur í húsasmíða-, málm- og vélstjórnargreinum munu smíða grind undir sólarsellurnar og nemendur í rafiðn- og vélstjórnargreinum munu koma þeim fyrir og tengja í samvinnu við sérfræðinga frá Orkubúi Vestfjarða og Bláma. Nemendur í ýmsum öðrum námsgreinum munu vinna ýmis verkefni í tengslum við sólarorkuverið. Þannig verður verkefnið bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem skólinn mun hanna en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum.

Verkefnið fer af stað á vordögum og verður komið á fulla ferð næsta haust.

Sjálfboðastarf í Brothættum byggðum

Jónína Einarsdóttir prófessor í mannfræði og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor í félagsfræði framkvæmdu rannsóknina

Rannsóknin „Sjálfboðastarf í Brothættum byggðum“ var eitt af fjórum verkefnum sem hlaut styrk árið 2022 úr Byggðarannsóknasjóði. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði framkvæmdi rannsóknina ásamt Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði. Báðar starfa hjá Háskóla Íslands.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða viðhorf íbúa á svæðum sem hafa tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir, til mögulegra áhrifa sjálfboðastarfa á atvinnumál og uppbyggingu svæða. Hvort sjálfboðaliðar, innlendir jafnt sem erlendir, styðji við jaðarbyggðir og taki þátt í verkefnum sem annars hefðu ekki verið framkvæmd eða taki störf frá fólki sem vildi búa þar ef atvinnutækifæri væru fyrir hendi.

Haustið 2022 og vorið 2023 voru tekin viðtöl við um 30 einstaklinga úr fjórum byggðarlögum sem hafa tekið þátt í verkefninu Brothættar byggðir auk þess sem auglýsingar, þar sem óskað var eftir sjálfboðaliðum, voru greindar.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa áréttað mikilvægi þess að sjáfboðaliðar gangi ekki í launuð störf. Ekki er ríkjandi samkomulag um hvað telst vera réttmætt sjálfboðastarf. Í ljós kom að það veldur þeim óöryggi sem eru áhugasamir um að fá til sín sjálfboðaliða. Ástæður þess að viðmælendur réðu til sín sjálfboðaliða eru ólíkar. Jafnframt fóru þeir mismunandi leiðir að því. Ein aðferðanna var í gegnum auglýsingar en einnig voru dæmi um að bankað hafi verið upp á eða að fólk miðlaði af reynslu sinni og tengslum í nethópum. Þá hefur hin svokallaða sjálfboðaferðamennska aukist þar sem oftast er um að ræða erlend ungmenni sem koma til landsins og sjá fyrir sér með vinnu gegn fríu fæði og húsnæði. En heimafólk sinnir einnig fjölbreyttri sjálfboðavinnu eins og til dæmis í björgunarsveitum, kvenfélögum og Rauða krossinum, ýmist sér til ánægju eða af skyldurækni, líkt og fram kom í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Almennt voru niðurstöður þær að viðmælendur eru sammála um að sjálfboðaliðar ættu ekki að ganga í störf launafólks.

Styrkir til varna gegn landbroti

Ágúst Sigurðsson er forstöðumaður Lands og skóga

Land og skógur, stofnun sem varð til um áramótin með sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, hefur það hlutverk samkvæmt lögum um varnir gegn landbroti að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með vörnum gegn landbroti af völdum fallvatna.

Aðgerðir til að hefta landbrot af völdum vatnsfalla geta verið fólgnar í:

  • bakkavörnum.
  • gerð varnargarða.
  • öðrum aðgerðum sem fela í sér lagfæringu á rennsli áa eða árfarvegum.

Með bakkavörnum er átt við að grjót- eða malarfylling er sett við árbakkann til þess að stöðva landbrot. Bakkavarnir hafa oft á tíðum minni áhrif á rennsli áa og eru minna áberandi í umhverfinu en varnargarðar. Varnargarðar geta á hinn bóginn verið nauðsynlegir þar sem ár bera undir sig framburð og flæmast út fyrir farvegi sína.

Við forgangsröðun umsókna er meðal annars höfð hliðsjón af verðmæti þess lands eða mannvirkja sem landbrotið ógnar. Hámarksfjárhæð styrks er fjórar milljónir króna.

Nýjustu fréttir