Mánudagur 16. september 2024
Síða 186

Ísafjörður: mygla í slökkvistöðinni

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Við úttekt Eflu verkfræðistofu á stöðinni á Ísafirði, sem fram fór á sumarmánuðum kom í ljós mygla á nokkrum stöðum í húsnæðinu. Margra ára leki og raki er að skila sér í myglu í veggjum og þaki og er víða um stöðina.

Þetta kemur fram í ársskýrslu slökkviliðsins fyrir 2023 sem lögð var fyrir bæjarráð í gær.

Ekkert er minnst á mygluna í afgreiðslu bæjarráðs en þar segir að árskýrslunni sé vísað til kynningar í skipulags- og mannvirkjanefnd.

Þegar mygla kom upp í Grunnskóla Ísafjarðar nýlega var brugðist skjótt við, sýktu svæðin voru lokuð og hafist handa við viðgerðir.

Riða: 577 m.kr. í bætur á tveimur árum

Teitur Björn Einarsson.

Ríkið greiddi 577 m.kr. í bætur til bænda vegna niðurskurðar fjár vegna riðu á árunum 2021 og 2022. Fyrra árið var fjárhæðin 407 m.kr. og 170 m.kr. seinna árið. Ekki liggja fyrir upplýsingar í Matvælaráðuneytinu um bótafjárhæðir frá 2002 til 2020.

Þetta kemur fram á Alþingi í svörum Matvælaráðherra við fyrirspurn Teits Björns Einarssonar alþm.

Um 10 þúsund fjár á 20 bæjum hefur verið skorið niður frá 2014.

Fram kemur í svörum ráðherra að sérfræðingahópur á vegum ráðuneytisins hefur lagt til  breytta nálgun þegar upp kemur riða á bæjum, sbr. það sem að framan greinir. Er þannig lagt til að endurskoðuð verði markmið um upprætingu smitefnis á riðubæjum og að kannaðar verði vægari kröfur um hreinsun og fjárleysi. Í kjölfar skýrslunnar er ráðuneytið að skoða og greina hvort/hvaða breytingar þurfi að gera á regluverkinu til þess að innleiða tillögur hópsins.

Á næsta ári er gert ráð fyrir 110 millj. kr. framlagi til þess að hraða innleiðingu verndandi arfgerða. Þá hefur einnig verið ákveðið að niðurgreiða að öllu leyti notkun á sæðingarhrútum sem bera verndandi arfgerð í vetur. Vonir standa til að notkun þeirra verði með mesta móti því að þannig megi flýta fyrir því að lokasigur vinnist gegn riðuveiki á Íslandi. Miðað við stöðuna 19. desember eru líkur til að þær vonir rætist, en sæðingar hafa verið með mesta móti hingað til. Samtals verður varið 58 millj. kr. á yfirstandandi ári til niðurgreiðslu á notkun sæðis úr sæðingarhrútum sem bera verndandi og mögulega verndandi arfgerðir og til að koma til móts við kostnað bænda af arfgerðargreiningum.

Markaðssetja hafnir Ísafjarðarbæjar fyrir skemmtiferðaskip

Skemmtiferðaskipið Elizabeth. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í drögum að stefnu Ísafjarðarbæjar sem unnin hafa verið í hafnarstjórn um móttöku skemmtiferðaskipa fyrir árin 2024 – 26 segir að áfram verði allar hafnir í Ísafjarðarbæ markaðssettar sem áfangastaðir fyrir skemmtiferðaskip.

Skemmtiferðaskipunum hafi fylgt miklar tekjur fyrir hafnarsjóð, ferðaþjóna, verslanir og þjónustu. Mörg fyrirtæki sem starfa á ársgrundvelli og þjóna heimamönnum hefðu ekki rekstrargrundvöll án skemmtiferðaskipanna. Stefnt er að því að móttaka skemmtiferðaskipa verði mikilvægur atvinnuvegur svo sem sést á því að undanfarin misseri hafa farið fram umfangsmiklar framkvæmdir við lengingu hafnarbakka, dýpkun og stækkun lands sem ekki er fyllilega lokið en stefnt að því að því ljúki á þessu ári.

Í stefnudrögunum er sett markmið um fjölda ferðamanna og miðað er við að hámarksfjöldi farþega verði 8.000 á dag, en sé útlit fyrir að gestir verði umfram 6.000 að því skipi sem er að bóka sig meðtöldu, verði skipafélög hvött til að endurbóka. (Miðað er við skráðan hámarksfjölda hvers skips, en farþegar eru jafnan um 20–40% færri um borð í raun).

Um þolmörk við móttöku ferðamanna segir að þau taki meðal annars mið af því hvaða tekjur sveitarfélagið og samfélagið hefur af móttöku skipanna, hvaða þjónusta og innviðir eru tiltæk og hvernig til tekst. Þolmörkin hækki því eftir því sem innviðir styrkjast, þjónustuframboð eykst, og jákvæð áhrif skipakomanna verði skýrari.

Meðal þess sem sérstaklega er tekið fram í stefnudrögunum eru þessi atriði:

Höfnin setji á stofn Skemmtiferðaskipasjóð. Sjóðurinn hafi tvíþætt hlutverk;
að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla höfnina sem áfangastað, svo sem með uppbyggingu innviða, uppsetningu skilta, eða bætt aðgengi, og styrkja menningu- og félagslíf í bænum á svipaðan hátt og samfélagssjóður Orkubúsins.

Klárað verði deiliskipulag fyrir Suðurtanga árið 2024 og uppbygging samkvæmt því hefjist strax í
kjölfarið.

Almennt skulu skemmtiferðaskip ekki taka land utan hafna. Þar sem Ísafjarðarbær er landeigandi
er það því bannað nema með leyfi bæjarstjóra eða hafnarstjóra.

Skipstjórum verði bannað að þeyta skipsflautur nema þegar þess er krafist af öryggisástæðum.

Hannað verði hús fyrir farþegamóttöku árið 2024 svo framkvæmdir geti hafist 2025.

Hafnarstjóri vinni að varanlegri lausn á salernismálum í bænum öllum og samhæfi vinnu þeirra
sem koma þurfa að málum.

Shiran til Háafells

Shiran Þórisson fjármálastjóri Háafells.

Shiran Þórisson hefur hafið störf sem fjármálastjóri hjá Háafelli, en hann var áður fjármálastjóri Arctic Fish.

Shiran sagði í samtali við Bæjarins besta að Háafell væri fiskeldisfyrirtæki í örri uppbyggingu og svipaði að mörgu leyti til Arctic Fish þegar hann réðist þangað. Það væri spennandi verkefni og hann hlakkaði til þess að taka þátt í uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi.

Úthlutað úr Íþróttasjóði 2024

Á Patreksfirði var stofnaður golfklúbbur 14. desember árið 1992. Vorið 1993 var hafist handa við uppbyggingu Vesturbotnsvallar

Íþróttanefnd hefur ákveðið að úthluta 27,9 milljónum til 74 verkefna fyrir árið 2024.

Nefndinni bárust alls 179 umsóknir að upphæð rúmlega 250 m.kr. um styrki úr Íþróttasjóði vegna ársins 2024.

Alls voru 114 umsóknir um styrki til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana að upphæð rúmlega 157 m.kr. Styrkumsóknir um fræðslu- og útbreiðsluverkefni voru 54 að upphæð um 62,8 m.kr. og umsóknir vegna íþróttarannsókna voru 11 að upphæð rúmlega 30,5 m.kr.

Á vef Rannís má sjá úthlutun styrkjanna.

Þar kemur meðal annars fram að Klifurfélag Vestfjarða fékk 250,000 kr, Íþróttafélagið Höfrungur 300,000 kr, Skíðafélag Strandamanna 400,000 kr, Golfklúbbur Patreksfjarðar 200,000 kr,

Mikilvægi sögustaða í ferðaþjónustu á Íslandi

Ráðherra segir að markmiðið sé að Ísland verði áfangastaður á heimsmælikvarða.

Vægi sögustaða og menningararfs í ferðaþjónustu á Íslandi var rætt á sérstöku málþingi í Ferðaþjónustuvikunni 2024. Málþingið fór fram í Eddu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir sagði þar mikilvægi menningar fyrir ferðaþjónustu vera óumdeilt, en ráðuneyti menningar- og viðskipta er einnig ráðuneyti ferðamála.

Ráðherra sagði að mörg tækifæri væru enn vannýtt á sviði menningar- og söguferðaþjónustu. Hyggst hún á vorþingi leggja fram þingsályktun þingsályktun um uppbyggingu sögustaða hér á landi.

Markmið þingsályktunartillögunnar er að styðja enn frekar við uppbyggingu menningarferðaþjónustu á slíkum stöðum og móta slíkum áherslustöðum viðeigandi umgjörð.

Með uppbyggingu sögustaða er markmiðið að standa vörð um staðinn sjálfan og þá sögu sem hann hefur að segja og miðla henni til komandi kynslóða.

Úrræði stjórnvalda, á borð við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða hafa varið um einum og hálfum milljarði króna á ári undanfarin ár í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum m.a. á fjölmörgum sögu- og minjastöðum um landið.

Velheppnað Mannamót

Markaðsstofur landshlutanna (MAS) eru sjö talsins, auk Vestfjarða eru þær á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi, Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Þær leggja sig fram um að eiga í góðu samstarfi við fyrirtæki í greininni, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila.

Um liðna helgi var efnt ferðakaupstefnunnar Mannamót Markaðsstofanna i Kórnum í Kópavogi.

Markaðsstofa Vestfjarða var eðli málsins samkvæmt á staðnum og með henni 15 samstarfsaðilar hennar víðsvegar af Vestfjörðum sem notuðu tímann vel við að kynna vörur sínar og þjónustu. Það voru: ATV Ísafjörður, Borea Adventures, Cycling Westfjords, Galdur Brugghús, Galdrasýning á Ströndum. Gamli bærinn Brjánslæk/Brjánslækjarbúið, Hótel Ísafjörður, Ísafjörður Guide, Kertahúsið/Fantastic Fjords, Kómedíuleikhúsið, Sauðfjársetur á Ströndum, Strandferðir, Vesturbyggð, Vesturferðir og Westfjords Adventures.

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar átti fund með norska forsætisráðherranum

Arna Lára og Kristrún Frostadóttir með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.

Í síðustu viku voru þær Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar og Arna Lára Jónsdóttir ritari flokksins í Osló.

Í Osló var fundað með norska verkamannaflokknum sem er systurflokkur Samfylkingarinnar og skipulögð var dagskrá sem snerist að mestu leyti um orku, samgöngur og atvinnumál.

Um ferðina segir Arna Lára: „Við funduðum með fjölbreyttum hópi fólks og fengum sýn þeirra á málin, auk þess að heimsækja mjólkurvinnsluna Tine (sem framleiðir meðal annars brúna Guðbrandsostinn sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér) og Sporvejen sem reka sporvagnakerfið í Osló.

Verkamannaflokkurinn er í ríkisstjórn með Senterpartiet og fengum við tækifæri til að funda með Jonasi Gahr Støre forsætisráðherra, Jon-Ivari Nygård samgönguráherra og Terje Aasland orkumálaráherra. Við funduðum einnig með Norska ASÍ (LO)og Norska SA (NHO), auk þess að hitta nokkra ráðgjafa. Allt saman mjög góðir fundir og við komum vel nestuð heim. Fólk var líka áhugasamt að heyra um ástandið á Íslandi og þá sérstaklega Grindavík, sem er skiljanlegt.“

Arna Lára: ódýrt hjá Vegagerðinni að skella skuldinni á Ísafjarðarbæ

Sundahöfn. Dýpkunarskipið siglir framhjá skemmtiferðaskipi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að henni þyki það vera ódýrt hjá Vegagerðinni að skella skuldinni á Ísafjarðarbæ aðspurð um viðbrögð hennar við skýringar Vegagerðarinnar í bb.is á laugardaginn á töfum á dýpkun Sundahafnar.

Þar sagði að losunarstaður og heimild til losunar hefði ekki verið frágengin í tæka tíð og „m.a. af þeim sökum var ekki hægt að ljúka verkinu. Bryggjan, þekja og rafmagn var ekki tilbúið síðasta sumar.“ 

dýpkunarskipið kom tveimur mánuðum eftir að dýpkun átti að vera lokið

Arna Lára segir staðreyndina vera þá „að dýpkunarskipið kom til Ísafjarðar 28. desember 2022 tveimur mánuðum eftir að dýpkun átti að vera lokið!

Frá því að dýpkun hófst hefur það ítrekað gerst að Vegagerðin hefur kallað dýpkunarskipið í önnur verkefni  eins og að hreinsa Landeyjarhöfn. Dýpkunarskipið hefur ekki sést nema í mýflugugmynd frá því í maí á síðasta ári.

Vegagerðin sækir um staði til losunar f.h. hafnarinnar, þannig þar eru hæg heimatökin.

Tekjumissir hafnarinnar á síðasta ári var 154. mkr og þar af má rekja 110. mkr. til að Norwegian Prima gat ekki að lagst að nýja kantinum þar sem ekki var nægjanlegt dýpi. Önnur skip fóru á akkeri eða létu það ekki hafa áhrif á sig að kanturinn væri ekki fullbúinn.  Þannig ekki er hægt að skella skuldinni á Ísafjarðarbæ hvað þetta varðar.

Mestu máli skiptir þó að dýpkunarskipið komið sem allra fyrst svo allt verði klárt fyrir vertíðina.“

Kraftur – selur armbönd til styrktar ungi fólki með krabbamein

Frá samkomunni í Hörpu í gær. Mynd: aðsend.

Í gær stóð Kraftur, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, fyrir fjáröflunar- og vitundarvakningu í Hörpunni í Reykjavík. Á annað þúsund  manns komu saman og perluðu ný armbönd sem nefnast Lífið er núna.

„Öll Lífið er núna armböndin eru perluð af sjálfboðaliðum og það tókst frábærlega vel til í Hörpu það var algjörlega metþátttaka og samkenndin á svæðinu var einstök. Við náðum að perla 3581 armbönd en við verðum einnig með viðburði á Akureyri, Neskaupstað, Höfn og víðar á meðan á átakinu okkar stendur en því lýkur 12. febrúar. Hægt verður að nálgast upplýsingar um aðra perluviðburði inn á vefnum okkar www.lifidernuna.is og auðvitað kaupa armbandið sem er ein helsta fjáröflun Krafts,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts eftir viðburðinn.

Arnar Sveinn Geirsson, varaformaður Krafts, gaf líka Hildi og Ágústu HIlmarsdætrum einum af stofnendum Krafts sérstakt viðhafnararmband í tilefni þess að Kraftur fagnar í ár 25 ára afmæli. Móðir Arnar Sveins var ein af þeim sem kom að stofnun Krafts ásamt systrunum og því var þetta alveg einstakt augnablik en hún lést úr krabbameini þegar Arnar var einungis 11 ára. 

þegar Arnar var einungis 11 ára.  Yfirskrift fjáröflunarátaks og vitundarvakningu Krafts í ár er Vertu perla – Berðu Lífið er núna armbandið og vísar það til þess að með því að bera armbandið sé fólk að sýna stuðning með ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á ári hverju.

Nýjustu fréttir