Mánudagur 16. september 2024
Síða 185

Sjálfsbjörg Bolungavík: bakar sólarpönnukökur

Mörg undanfarin ár (nema tvö covid árin) hefur Sjálfsbjörg í Bolungavík haft það sem sína aðalfjáröflun að baka og selja pönnukökur þá daga sem sólin sést aftur í Bolungavík.

Það eru félagsmenn og velunnarar félagsins sem baka pönnukökur og flestar nota til þess tvær pönnur í einu. Ein jók afköstin verulega en henni tókst að baka á fjórum pönnum samtímis. Enda eru það mörg þúsund pönnukökur sem eru bakaðar

Velunnarar Sjálfsbjargar gefa hráefni til bakstursins og umbúðir. Það eru fyrirtækin Jakob Valgeir , Mjólkurvinnslan Arna, Bónus og Kjörbúðin.

Í ár hófst baksturinn á mánudaginn og er næstu daga byrjað kl. 6 að morgni að setja á rjóma og sykra pönnukökurnar og var fengin til þess aðstaða í húsi Slysavarnafélagsins.

Fyrstu árin fór salan að mestu fram í Bolungavík en á seinni árum hefur verulegur hluti farið til Ísafjarðar.

Frá bakstri í morgun. Myndir: Sjálfsbjörg.

Fuglavernd: Garðfuglahelgin 2024

Silkitoppa.

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi. Venjulega er um að ræða síðustu helgina í janúar. Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Að þessu sinni verður Garðfuglahelgin 26-29 janúar. 

Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma yfir tiltekna helgi. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Við minnum á að fólk þarf ekki endilega að eiga garð til að gefa og telja fugla í heldur er hægt að koma sér fyrir í almenningsgarði en slíkir eru víða í sveitarfélögum landsins og þar er hægt að vera í fuglaskoðun og telja fugla.  

Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. Ekki má leggja saman. Þetta er til að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem 1 fugl ekki 4.
Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður t.d. rafrænt á vef Fuglaverndar www.fuglavernd.is

Hér er slóðin á viðburðinn á Fuglavernd.is og þar er að finna helstu upplýsingar.https://fuglavernd.is/vidburdur/gardfuglahelgin-26-28-januar-2024-allir-geta-tekid-thatt/

um Fulglavernd

Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að samtökunum BirdLife International sem vinna að verndun fugla og náttúrusvæða í 120 löndum

HRAÐÍSLENSKA Á DOKKUNNI 25. JANÚAR

Viltu tala íslensku? Hér er sénsinn! Íslenska lærist bara ef hún er notuð. Til að læra og æfa íslensku þarf að vera til tækifæri til þess. Hérna er tækifærið.

Do you want to speak Icelandic? Here is you chance! Icelandic can only be learned by using it. To learn and practice the language you have to have the opportunity to do so. Here you have the chance.

Dokkan brugghús og Gefum íslensku séns standa að Hraðíslensku 25. janúar. Við byrjum klukkan 18:30.

Speed-Icelandic takes place in Dokkan, 25.01. 18:30.

Til móðurmálshafa og þeirra sem kunna málið mjög vel:

Það er trú okkar að langflestir sem búa á Íslandi vilji læra íslensku. En umhverfið er ekki alltaf íslenskuvænt. Oft skortir hvata, oft skortir tækifæri til að læra og æfa málið. Við viljum gera umhverfið íslenskuvænt, við viljum skapa tækifæri, við viljum skapa hvata.

Vilt þú veita okkur liðsinni? Viltu kannski prófa að taka þátt? Allir geta nefnilega rétt hjálparhönd eða hjálparrödd í þessu tilfelli. Engin þörf er á málfræðikunnáttu. Mikilvægt er að búa að þolinmæði og að leitast við að tala hægt og skýrt, endurtaka, umorða, nota látbragð. Það er að segja að finna leið til að útskýra á íslensku. Það er nefnilega vel hægt af því íslenska er ekki það óvinnandi vígi sem margir halda. Nei, íslenska er nefnilegra auðveldari en margir halda.

Málið lærist allavega ekki, nema að mjög, mjög litlum hluta, í gegnum hjálparmál. Íslenska lærist með að nota og heyra íslensku. Íslenska lærist í samfélaginu og af samfélaginu. Svo ef við viljum hjálpa fólki að læra málið, ef við viljum að íslenska sé almennt töluð þá þurfum við kannski að leggja okkar að mörkum. Og það er fremur einfalt. Við þurfum bara að tala íslensku við fólk.

Hvað þetta er:

Það er unnið með sömu hugmyndafræði og lýtur að harðstefnumóti eða svokölluðu speed-dateing-i nema hvað markmiðið er að æfa sig í íslensku ekki að ná í framtíðarmaka.

Aðalatriðið er auðvitað að þetta sé gaman. Það er líka mikilvægt að það sé gaman að læra íslensku, gaman að verða betri í íslensku.

Okkur vantar bæði móðurmálshafa og nemendur.

Hægt er að skrá sig gegnum islenska(hjá)uw.is eða boða komu sína á Facebook.

Með íslenskuvænum kveðjum.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Arnarlax: 120 m.kr. stjórnsýslusekt greidd, en með fyrirvara um lögmæti hennar

Mynd tekin af vef Arnarlax ehf.

Í nóvember 2022 lagði Matvælastofnun 120 m.kr. stjórnsýslusekt á Arnarlax með þeim rökum að fyrirtækið hefði ekki tilkynnt um strok eldislaxa og hefði ekki heldur brugðist við með því að setja út net til veiða á sleppifiski næstu 3 sólarhringa eftir strok.

Arnarlax hefur þegar greitt sektina en með fyrirvara um lögmæti hennar og kærði ákvörðun Mast með bréfi þann 22.2. 2023 til Matvælaráðráðherra, sem stefnir að því að kveða upp úrskurð í næsta mánuði. Verður það endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi, en unnt er að bera hana undir dómstóla.

Arnarlax mótmælir því að hafa brotið lög með því að vanrækja að tilkynna um strok. Krefst fyrirtækið þess að sektin verði felld niður og til vara að hún verði lækkuð verulega.

Segir í kæru Arnarlax að gat hafi uppgötvast á kví 11 við Haganes í Arnarfirði 29.8. 2021 og hafi það verið tilkynnt daginn eftir og sett út net í samræmi við fyrirmæli laganna. Veiddust 4 fiskar þar af 2 sjóbirtingar. Því hafi fyrirtækið farið að fyrirmælum laganna.

Matvælastofnun heldur því hins vegar fram að strok hafi hafist úr kvínni í snemma júní 2021 eða nærri 3 mánuðum áður en gatið uppgötvaðist. Um það er deilt milli Matvælastofnunar og Arnarlax. Lokið var að slátra upp úr kvínni 11. október 2022. Segir Mast að ekki hafi verið gerð grein fyrir 81.564 fiskum þegar bornar er saman tölur um útsetningu seiða í kvína, afföllum og slátruðum fiskum. Þá segir í sektarákvörðun Mast að veruleg minnkun hafi orðið snemma í júní í fóðrun „í kví 11 í kjölfar þess að skipt er um nótarpoka þann 7. júní 2021. Eina trúverðuga skýringin sem völ er á sem skýrir þessa breytingu í fóðrun er að fiskum í kvínni hafi fækkað verulega.“

Matvælastofnun telur aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar. Þá segir Mast að sumarið eftir 2022 hafi veiðst 24 laxar í Arnarfirði sem rekja mátti til kvíar 11 við Haganes. Með því að tilkynna ekki um strok í júní hafi allir möguleikar til að grípa til viðeigandi ráðstafana bæði sumarið 2021 og einnig sumarið 2022 þegar mátti vænta endurkomu strokfiska í Arnarfjörð verið því ónýttir.

Arnarlax segir í kæru sinni að ómögulegt sé að einhver tilkynningaskyldur atburður hafi átt sér stað í júní 2021 og að Matvælastofnun byggir ákvörðun sína um strok í júní á alfarið á getgátum. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji að eldislax hafi sloppið út í júní eða júli 2021. Ekki sé deilt um að gat fannst í ágúst og er það harmað en bent á að það hafi verið tilkynnt eins og vera ber.

Aðilar deila svo um þetta atriði og eru margvísleg gögn lögð fram og rök lögð fram á báða bóga en Matvælastofnun segir í sektarákvörðun sinni að Arnarlax hafi greiðlega veitt Matvælastofnun allar þær upplýsingar sem um hefur verið beðið. Ekki sé um nein önnur brot á tilkynningarskyldu stroki um að ræða og þá sé ekki að sjá að fyrirtækið hafi haft neinn ávinning af því að brotið hafi verið framið.

Vestri: vill 6 mán samning um umsjón knattspyrnusvæðis á Torfnesi

Íþróttavöllurinn á Torfnesi og stúkan til vinstri.

Knattspyrnudeild Vestra hefur óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að gerður verði samningur við deildina til 6 mánaða frá 1. apríl til 1. október um umsjón með knattspyrnusvæðinu á Torfnesi. Kostnaður er áætlaður vera 3,7 m.kr.

Verkefnin sem þarf að sinna á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi eru eftirfarandi:

  • Umsjón með 1. hæð í Vallarhúsi, annast regluleg þrif.
  • Vökva og bursta gervigrasvelli
  • Sjá til að svæðið í kringum knattspyrnuvelli og Vallarhús sé snyrtilegt
  • Sinna minniháttar viðhaldi á svæðinu.

Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir að þessi umsjón verði sinnt af Ísafjarðarbæ og er miðað við þriggja mánaða ráðningu á sumarstarfsmanni. Kostnaður er 1,7 m.kr.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs að ef beiðni knattspyrnudeildar Vestra verður samþykkt þýði það kostnaðarauka upp á 1,9 m.kr.

Málið var lagt fyrir bæjarráð á mánudaginn og varð ekki útrætt og var bæjarstjóra falið að leggja málið fyrir að nýju.

Verkefnasamningur við HSV

Knattspyrnudeild Vestra er með verkefnasamning við Héraðssamband Vestfirðinga, HSV, þar sem kveðið er á um að Vestri annist gæslu á leikjum bæði á velli og inn í Vallarhúsi, sjái um að opna og loka vallarhúsi fyrir og eftir leiki/æfingar sem fara fram utan venjulegs vinnutíma. Þá sjá þau um að ganga frá og þrífa svæðið eftir leiki og halda auglýsingarskiltum sínum í þannig ástandi að þau séu svæðinu til sóma. Þessi verkefni falla því ekki undir þau verkefni sem Ísafjarðarbær er að sinna.

Bjarkarhlíð býður upp á þjónustu á Vestfjörðum

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis.

Bjarkarhlíð býður áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum, 18 ára og eldri. 

Nú er vakin athygli á því að Bjarkarhlíð er að bjóða upp á þjónustu fyrir alla íbúa á Vestfjörðum.

Ráðgjafi Bjarkarhlíðar verður á Hólmavík 30. janúar Ísafirði 31. janúar og á Patreksfirði 1. febrúar.

Upplýsingar um lausa tíma er að finna á heimasíðu Bjarkarhlíðar, bjarkarhlid.is eða í NOONA appinu.

Garðfuglatalning um helgina

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi. Venjulega er um að ræða síðustu helgina í janúar. Að þessu sinni verður Garðfuglahelgin 26.-29. janúar.

Í tilkynningu frá Fuglavernd segir að gott sé að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla.

Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma yfir tiltekna helgi. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, Fuglavernd útbúið sérstakt hjálparblað sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Vesturíslenskt bókasafn Ragnars H. Ragnar fært Árnastofnun að gjöf

Ragnar H. Ragnar.

Þann 12. janúar barst Árnastofnun höfðingleg gjöf frá börnum Ragnars H. Ragnar, fyrrum skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Um er að ræða bókasafn hans á sviði vesturíslenskra bókmennta. Ragnar fór til Winnipeg um 1920, þá rúmlega tvítugur, til að hefja nám í píanóleik hjá Jónasi Pálssyni, tónskáldi og píanóleikara. Ragnar dvaldi einnig í Norður-Dakóta í nokkur ár fram að stríði og fluttist þangað aftur árið 1945 ásamt Sigríði eiginkonu sinni.

Ytra hóf hann að safna bókum markvisst og af ástríðu og hafði komið sér upp heildstæðu safni af bókum á íslensku sem prentaðar voru í Vesturheimi. Ragnar stýrði fjölmörgum kórum, þ. á m. karlakór Íslendinga í Winnipeg.

Við heimkomu árið 1948 tók hann við starfi skólastjóra við nýstofnaðan tónlistarskóla á Ísafirði þar sem hann starfaði alla tíð síðan. Ragnar hlaut fálkaorðuna og síðar stórriddarakross fyrir framlag sitt í þágu íslensks tónlistarlífs.

Dagný Finnbjörnsdóttir ráðin í starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Ísafjarðarbæjar

Dagný Finnbjörnsdóttir hefur verið ráðin í starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa hjá Ísafjarðarbæ.

Dagný útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði 2008, öðlaðist meistararéttindi í snyrtifræðum frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 2012 og lauk B.Ed. gráðu í kennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri 2020. Þá stundaði hún nýlega nám við Háskólann á Bifröst og hlaut þaðan MCM gráðu í menningarstjórnun árið 2023.

Dagný hefur starfað sem framkvæmdastjóri HSV frá árinu 2021. Áður starfaði hún m.a. sem umsjónarkennari/leiðbeinandi í Grunnskóla Bolungarvíkur, sem umsjónarmaður yngri flokka körfuknattleiksdeildar Vestra og sem körfuknattleiksþjálfari.

Frá árinu 2015 hefur hún verið annar eigandi fataverslunarinnar Jón og Gunna ehf og þá rak hún einnig fyrirtæki á eigin vegum á árunum 2010 til 2016.

Fiskbúð Sjávarfangs: með þorramat í fyrsta sinn

Glæsilegt hlaðborð í fiskbúð Sjávarfangs.
Glæsilegt hlaðborð í fiskbúð Sjávarfangs.

Fiskbúð Sjávarfangs býður í fyrsta sinn viðskiptavinum upp á þorramat og er mikið úrval.

Kári Þór Jóhannsson sagði í samtali við Bæjarins besta að mikið hefði verið óskað eftir því í fyrra að boðið yrði upp á þorramat þar sem viðskiptavinurinn gæti valið sjálfur en þá hefði ekki verið hægt að fá þorramatinn hjá framleiðendum.

Núna er hins vegar allt til reiðu og kjötborðið tilbúið hjá Sjávarfangi og segir Kári að það verði út þorrann eða meðan birgðir endast.

Nýjustu fréttir