Mánudagur 16. september 2024
Síða 184

Taflfélag Bolungarvíkur er 123 ára í dag

Skákæfing Bolvíkinga í desember 2023: Daði Guðmundsson, Guðmundur Halldórsson og Stefán Arnalds hérna megin borðsins og hinu megin Magnús Pálmi Örnólfsson, Halldór Grétar Einarsson og Guðmundur Magnús Daðason. Á myndina vantar Egil Steinar Ágústsson sem tók myndina og Sæbjörn Guðfinnsson.

Á þorranum árið 1901 (25.janúar) var stofnað taflfélag í Bolungarvík. Síðan þá hefur taflfélag verið starfrækt á staðnum undir mismunandi nöfnum. Í dag heitir félagið Taflfélag Bolungarvíkur og hittast bolvískir skákmenn fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og tefla.

Í tilefni dagsins ætla þeir að hittast í heimahúsi og heiðra söguna með því að tefla og njóta góðra veitinga eins og þeirra er siður.

Að undanförnu höfum við skannað inn söguleg gögn um bolvíska skákmenningu og er það fjársjóður fyrir grúskara. Þarna eru t.d. úrslit hraðskákæfinga allt frá árinu 1957. Gaman t.d. að sjá að í kringum áramótin 1968-1969 voru tefld c.a. 13 umferða hraðskákmót nær daglega. Fyrsta mótið fór fram 26.desember og síðan voru tefld tíu mót í viðbót fram til 17.janúar.

Hérna er hlekkur fyrir grúskarana til að sjá gögn úr skáksögu Bolungarvíkur:

https://drive.google.com/drive/folders/1O_eISciT8O7FMmvH-9-CkmqMLEvHPa0x?usp=sharing

Bol-1933:  Fjallað um elstu varðveittu skákskriftareyðublöð á Íslandi. Árið er 1933 og bolvískir alþýðumenn hittust, tefldu aðallega Kóngsbragð og skrifuðu bara sína leiki en ekki leiki andstæðingsins.

Ágrip af skáksögu Bolungarvíkur 1988 – Magnús Sigurjónsson:

Magnús Sigurjónsson rekur skáksögu Bolungarvíkur frá stofnun taflfélags á þorranum árið 1901 til ársins 1988

Ytri keppnir Bolvíkinga 1977-1996: Ýmsar keppnir bolvískra skákmanna á árunum 1977-1996

Vestfirskt_skaksafn:

Vestfirskar skákir sem Matthías Kristinsson safnaði saman í bókarheftinu “Vestfirskir víkingar að tafli”. Í lok heftisins eru mörg óborganleg gullkorn sem ratað hafa úr munnum vestfirskra skákmanna og loks saga Taflfélags Ísafjarðar sem var stofnað veturinn 1901-1902.

Stofnun_skaksambands_vestfjarda: Uppskrifuð fundargerð frá stofnun Skáksambands Vestfjarða 28.mai 1976

Skakthing_vestfjarda_1965: Hefti sem Taflfélag Ísafjarðar gaf út um Vestfjarðamótið í skák árið 1965. 

Skakthing_vestfjarda_1959: Hefti sem Taflfélag Ísafjarðar gaf út um Vestfjarðamótið í skák árið 1959. 

Eittlitidped:

Glæsilegt blað sem Magnús Sigurjónsson gaf út árið 1986 og fjallar um skák í Bolungarvík frá fornu til nútímans.

Saga Skákdeildar UMFB 1977-1983:

Ýmsar heimildir af starfi Skákdeildar UMFB á árunum 1977-1983. Alls 142bls af ómetanlegum heimildum og flest það sem gerðist í bolvísku skáklífi á þessum bómatíma þess.

Hraðskák – IX Alþjóðamótið við Djúp 1988:

Mótsblað alþjóðlega mótsins við Djúp árið 1988 sem gefið var út á vegum Jóhanns Þóris í Tímaritinu Skák. Borið út í öll hús á norðanverðum Vestfjörðum á meðan á mótinu stóð.

Fréttablað Skáksambands Vestfjarða 1979: Efnismikið og vandað blað sem Sigurður Ólafsson á Suðureyri sá um útgáfu á.

Skáksveit Bolungarvíkur – íþróttamenn Bolungarvíkur 1993: Grein um afrekið.

Skákæfingar í Bolungarvík 1957-1991: Úrslit í hraðskákæfingum á þessum árum. Yfir sjötíu “mentur”.

Hólmavík: sundlaugin lokuð

Íþróttamiðstöðin á Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sundlaugin á Hólmavík er lokuð og verður það a næstunni. Ástæðan er skerðing á sölu raforku frá Landsvirkjun sem veldur því að ekki er lengur í boði að kynda laugina með orku á lægra verði.

Eins verður notkun á pottum takmörkuð, en þó ávallt einn pottur opinn. Og gufubaðið verður opið.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að verið sé að kynda sundlaugina með olíu núna, sem sé einfaldlega allt of dýrt.  „Hitinn var því keyrður niður og ekkert annað að gera en að loka.  Þetta er þjónustuskerðing sem er í raun algerlega óásættanleg á Íslandi árið 2024, þegar virkjanakostir eru í augsýn víða.“

Sexan stuttmyndakeppni 2024 er hafin!

Sexan er fræðsluverkefni á vegum Neyðarlínunnar. Þetta er stuttmyndakeppni fyrir nemendur í 7.bekk grunnskóla á landsvísu, til að fræða þau um stafrænt ofbeldi.

Viðfangsefni stuttmyndanna er tæling, nektarmynd, samþykki eða slagsmál ungmenna. Auk þess er opinn flokkur fyrir önnur mikilvæg málefni sem 12-13 ára krökkum þykja mikilvægt að lyfta upp.
Stuttmyndirnar mega mest vera 3 mínútur að lengd og hver skóli má mest senda þrjár stuttmyndir. Nemendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, kvikmyndatöku og eftirvinnslu. Nemendur af erlendum uppruna, hinsegin og fatlaðir nemendur eru sérstaklega hvattir til að taka þátt.


Opið er fyrir innsendingar milli 8-28.janúar á vef 112.is/sexan. Dómnefnd skipuð fulltrúum ungmennaráðs, RÚV, MMS og fulltrúa kvikmyndagerðar mun svo velja þrjár bestu myndirnar sem verða kynntar á vef UngRÚV. Formaður dómnefndar Sexunnar 2024 er kvikmyndaleikstjórinn Baldvin Z.


Kjarni verkefnisins er að ungt fólk fræði ungt fólk. Þau eru best til þess fallin að varpa ljósi á þeirra veruleika og hvar helstu áskoranirnar leynast í daglegu lífi ungmenna. Verðlaunamyndirnar verða svo sendar í alla grunnskóla landsins sem fræðsluefni um stafrænt ofbeldi og getur þannig nýst þeim skólum sem ekki taka þátt sem og komandi kynslóðum.

Sexan er nú haldin í annað sinn en í fyrra sendu 27 skólar yfir 50 stuttmyndir. Sigurvegari 2023 var Selásskóli með stuttmyndina Friend Request, Heiðarskóli í Reykjanesbæ var í 2.sæti en Suðurhlíðarskóli var í 3.sæti. Vinningshöfum var síðar boðið að koma fram á NFBO, norrænni ráðstefnu um Ofbeldi gegn börnum sem var haldin á Hilton Nordica í maí 2023.

M.Í.: Kaldrananeshreppur ekki með í verkmenntahúsi

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps afgreiddi 15. janúar erindi frá Vestfjarðastofu varðandi aðild sveitarfélaganna að nýju verkmenntahúsi við Menntaskólann á Ísafirði.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður kostnaður viðhúsið er 477 – 715 m.kr. og 40% hlutur sveitarfélaganna á Vestfjörðum því 191 – 286 m.kr. Hlutur Kaldrananeshrepps er 1,43% eða 2,7 – 4,1 m.kr.

Niðurstaða sveitarstjórnarinnar var að hún sér sér ekki fært um að taka þátt í umræddu verkefni að svo stöddu.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps mun taka erindið fyrir á morgun, föstudag. Hlutur Súðavíkur er 6 – 9 m.kr.

Bæjarráð Bolungavíkur tók erindið fyrir á þriðjudaginn en aðeins til kynningar.

Bæjarráð Vesturbyggðar hélt fund á þriðjudaginn en málið var ekki á dagskrá.

Ísafjörður: skrifstofur slökkviliðsins fluttar í dag

Slökkvistöð Ísafjarðar.

Sigurður A. Jónsson,slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar segir að skrifstofur slökkviliðsins verði fluttar úr húsnæðinu í slökkvistöðinni yfir í húsnæði Regus við Hafnarstræti, gamla Landsbankahúsið.

Flutningar hefjist strax í dag og er áætlaða að þeir taki nokkra daga. Fjórir starfsmenn starfa á skrifstofunum.

Að sögn Sigurðar er mygla á víð og dreif í slökkvistöðinni og þarf að fara í viðgerðir á því. Hins vegar er byggng nýrrar slökkvistöðvar á 10 ára framkvæmdaáætlun og líklega þarf að flýta því og umfang viðgerða nú mun þá ráðast af því hvenær ný stöð verður komin í gagnið.

Bæjarráðið er með málið til skoðunar þessa dagana.

Ísafjarðarbær: styrkja þorrablót á Flateyri

Frá Stútungi fyrir nokkrum árum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt styrkbeiðni frá Stútungsnefnd, dags. 17. janúar 2024, þar sem óskað er eftir styrk vegna þorrablótsins. Styrkupphæðin nemur kr. 284.010, sem er upphæð vegna leigu á íþróttahúsinu á Flateyri og leigu á sviði og stólum sem eru í eigu Ísafjarðarbæjar.

Auk þess samþykkti bæjarráð að veita styrk fyrir flutningi á búnaði eftir atvikum, en sá kostnaður er talinn vera 50 – 60 þúsund krónur.

Magnús E. Magnússon, bæjarfulltrúi , sem sótti um styrkinn fyrr hönd Stútungsnefndarinnar á Flateyri í fyrra sagði þá í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um það hvers vegna sótt var um styrk til Ísafjarðarbæjar, að „það er löng hefð að Ísafjarðarbær felli niður leiguna á íþróttahúsinu og búnað. Því sótti stútungsnefnd um þennan styrk.“

Minni sala í nýjum bílum í ár en í fyrra

Sala á nýjum bílum fer rólega af stað á þessu nýja ári. Fjöldi nýskráninga fólksbíla fyrstu þrjár vikur ársins er 31,5% minni samaborið við sama tímabil í fyrra.

Nýskráningar það sem af er árinu eru 367 bílar en voru á sama tíma í fyrra 536.Bílar til almennra notkunar er 71,1% en 28% til ökutækjaleikga að því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Hlutdeild nýskráninga eru rúmar 60% í nýokrubílum. Rafmagnsbílar eru með 25% hlutdeild, hybridbílar 20,7% og tengiltvinnbílar 15,3%. Nýskráningar jarðefnaeldsneytis bílar erum rúmar 22% í dísilbílum og 16,6% í bensínbílum.

Þegar rýnt er í einstakar bílategundir eru þær flestar í Toyota, alls 61, sem er um 16,6% hlutdeild á markaðnum. Næstflestar eru þær í Dacia, alls 48 bílar, í Land Rover 26 og 24 í Hyundai.

Á Hlíðargötu á Þingeyri eru 23 lausar lóðir

Á Þingeyri eru nú lausar til úthlutunar 23 lóðir við Hlíðargötu.

Í samræmi við reglur Ísafjarðarbæjar er 10 daga umsóknarfrestur um lóðirnar og berist fleiri en ein umsókn um sömu lóð ræður hlutkesti úthlutun.

Berist engar umsóknir um tiltekna lóð færast þær á lóðarlista Ísafjarðarbæjar og verður þá úthlutað til fyrsta umsækjanda sem eftir leitar, líkt og kveður á um í lóðarúthlutunarreglum.

Byggingarfrestur á lóð eða byggingarsvæði er 12 mánuðir frá úthlutun og skal þá miðað við þá dagsetningu þegar lóðaúthlutun er staðfest af bæjarstjórn. Byggingarfrestur er sá tími sem lóðarhafi hefur til að fá byggingarleyfi skv. byggingarreglugerð ásamt því́ að hefja framkvæmdir á lóðinni.

Hafi byggingarleyfi ekki verið veitt eða framkvæmdir ekki hafist á lóðinni að byggingarfresti liðnum er bæjarstjórn heimilt að undangenginni viðvörun að afturkalla byggingarleyfið og skal kveðið á um svo í úthlutunar- og byggingarskilmálum. Framkvæmdir teljast hafnar hafi sökklar undir byggingu verið steyptir eða eftir atvikum búið að ganga endanlega frá undirstöðum byggingarinnar.

Skapandi skrif og bætt sjálfsvitund í Vísindaporti

Greta Lietuvninkaité

Í Vísindaportinu föstudaginn 26. janúar kl. 12.10 heldur Greta Lietuvninkaité erindi í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða um skapandi skrif, áhrif þess á bætta sjálfsvitund og hvernig hægt er að víkka sálfræðilega þekkingu og æfa skapandi aðferðir í skrifum.

Greta Lietuvninkaitė er litháískur rithöfundur, búsett á Ísafirði.

Hún gaf nýverið út sína aðra bók, „Tvö Höf“, þar sem hún býður lesandanum að kanna ólíkar hliðar hins kvenlega, sem og að horfast í augu við persónulegar skuggahliðar sínar. Fyrsta bók hennar, „Feluleikur“ vakti mikla athygli í Litháen og er löngu uppseld. Hana gaf Greta út þegar hún var 25 ára gömul eftir að hafa útskrifast úr sálfræði og búið í Kanada í eitt ár. Næst ætlar Greta að skrifa um sjálfa sig og söguna af því hvernig hún flutti til Íslands í væntanlegu verki sem nefnist „Hennar rödd“ sem og í tímariti Ós Pressunnar.

Á Ísafirði er Greta þekkt fyrir að halda ritlistarsmiðjur undir heitinu „Write it out“ þar sem þátttakendum er kennt að beita ótal aðferðum til þess að vingast við vetrarblúsinn.

Lítið fannst af loðnu

Útbreiðsla loðnu í janúar samkvæmt bergmálsgildum. Árni Friðriksson rauður, Polar Ammassak grænn, Bjarni Sæmundsson blár og Ásgrímur Halldórsson bleikur.

Hafrannsóknastofnun mun ekki breyta fyrri ráðgjöf um engar loðnuveiðar á þessari vertíð eftir mælingar síðustu vikuna. Ástæða þess er að lítið mældist og sterkar líkur á því að loðna sé enn undir hafísnum norðvestur af Íslandi.

Þetta eru helstu niðurstöður mælinga sem gerðar voru af rannsóknarskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni ásamt loðnuveiðiskipunum Polar Ammassak og Ásgrími Halldórssyni á tímabilinu 16.-23. janúar. Út af Austfjörðum varð ekki vart við loðnu og einnig mældist lítið magn á norðaustur hluta svæðisins, en þetta eru þau svæði þar sem fremsta hluta loðnugöngunnar er jafnan að finna á þessum tíma.

Mesti þéttleiki fullorðinnar loðnu var í námunda við hafísröndina á svæðinu út af Horni og austur að Kolbeinseyjarhrygg. Vestan við það svæði var aðallega að finna ókynþroska loðnu. Miðað við þessa dreifingu má ætla að ís hafi komið í veg fyrir að náðst hafi að dekka allt útbreiðslusvæði loðnunnar. Það magn sem mældist nú af fullorðinni loðnu er aðeins um fjórðungur þess sem mældist í haust.

Af þessum ástæðum gerir Hafrannsóknastofnunin ráð fyrir því að fara aftur til mælinga í febrúar með von um að loðnan verði gengin undan ísnum eða ísinn hafi hopað. Nákvæmar dagsetningar um framhaldið hafa ekki verið ákveðnar.

Nýjustu fréttir