Sunnudagur 15. september 2024
Síða 183

Ísafjörður: Tónlistarhátíðin við Djúp í júní

Tónlistarhátíðin Við Djúpið 2024 er nú óðum að taka á sig mynd og byrjað er að kynna dagskrána. Hátíðin fer fram dagana 17.–22. júní í sumar þegar sól er hæst á lofti og Vestfirðir eru að komast í sumarbúning.

Föstudagskvöldið 21. júní verður tileinkað nýrri tónlist fyrir strengi. Kvartett úr Cauda Collective treður upp með fimm verk; þrjú glæný strengjatríó og tvo strengjakvartetta. Öll verkin eru eftir meðlimi tónskáldahópsins Errata.

Halldór Smárason, Haukur Þór Harðarson, Petter Ekman fá frumflutt ný tró fyrir strengi, samin fyrir tilefnið og Bára Gísladóttir og Finnur Karlsson bera fram nýlega kvartetta á tónleikunum.

Halldór, Petter og Finnur eiga það sameiginlegt að hafa sótt tónskáldasmiðju hátíðarinnar, „ný tónsláld“, þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref sem tónskáld eftir útskrift úr námi. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá verk þeirra flutt á hátíðinni nú segir í kynningu hátíðarinnar á dagskránni.

Um vetrarsólstöður á nýliðnu ári kynnti hátíðin nýjan lagalista sem sem ber heitið Winter Music. Listinn passar vel við myrkrið og kuldann, undir teppi heima eða þegar þarf einbeitingu og innblástur við vinnuna. Tónlistin kemur úr ýmsum áttum en ef vel er að gáð eru margar skemmtilegar skírskotanir til hátíðarinnar og Ísafjarðar.

Dagskrá hátíðarinnar verður nánar kynnt á næstu vikum.

49.870 Íslendingar búsettir erlendis

Kaupmannahöfn.

Þann 1. desember 2023 voru 49.870 Íslendingar með lögheimili erlendis.

Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 11.982 einstaklingar. Næst flestir eða 9.250 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 9.046 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili.

61,9% íslenskra ríkisborgara sem eru með skráð lögheimili erlendis eru á Norðurlöndunum.

Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 104 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu Þjóðanna þann 1. desember 2023.

Til gamans má geta að í 15 löndum er aðeins einn íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili samkvæmt gögnum Þjóðskrár. 

Á töflunni að neðan má sjá þau 10 lönd sem flestir Íslendingar búa í og þróun fjöldans frá 2004.

Alls voru 74.654 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. janúar sl. Það eru nærri 25 þúsund fleiri en Íslendingarnir sem eru búsettir erlendis. Fyrir rúmum 4 árum, 1.desember 2019 voru erlendu ríkisborgararnir 49.347. Fjölgunin er 25.307 á þessum tíma.

Bíldudalur: fjöldahjálparstöð verði í Baldurshaga

Baldurshagi. Mynd frá Vestfjarðavíkingnum.

Vesturbyggð og Rauði krossinn hafa gert samkomulag um afnot af félagsheimilinu Baldurshaga sem fjöldahjálparstöð á Bíldudal. Það var mat ofanflóðadeildar Veðurstofunnar að Baldurshagi myndi henta betur til fjöldahjálpastöðvar vegna varnargarða sem þegar hafi risið en íþróttahúsið Bylta kom einnig til greina.

Það getur komið til þess að opna þurfi fjöldahjálparstöð á hættutímum vegna náttúruhamfara eða annarra alvarlegra atvika og liggur þá fyrir hvar hún verður.

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti samninginn á fundi sínum á mánudaginn. Í samningnum kemur fram að kostnaður vegna opnunar og reksturs fjöldahjálparstöðvar greiðist af Rauða krossinum og/eða
ríkissjóði.

Rauði krossinn leggur til allan búnað, veitir fræðslu til starfsfólks þegar þörf er á, heldur námskeið í starfrækslu fjöldahjálparstöðva fyrir sjálfboðaliða og aðra áhugasama. Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu.

RÚV með rangfærslu um íslensk eldisfyrirtæki

Ríkisútvarpið lét sig hafa það í gær að draga tvö íslensk fiskeldisfyrirtæki inn í frétt um meiningar Evrópusambandsins um samráð norskra fyrirtækja á verði á eldislaxi og fyrirhugaða rannsókn á því.

Íslensku fyrirtækin eru málinu algerlega óviðkomandi.

Rangfærslan er sett fram þar sem helst verður tekið eftir henni, í fyrirsögn fréttarinnar. Þar segir: „Eigendur íslenskra laxeldisfyrirtækja sakaðir um verðsamráð“.

Fréttin er að Evrópusambandið hyggst hefja rannsókn á verðsamráði sex norskra fyrirtækja sem seldi eldislax á markað í Evrópu á árunum 2011 til 2019. Málið á sér aðdraganda og lét Evrópusambandið framkvæma húsleit á skrifstofum félaganna á árinu 2019. Meðal fyrirtækjanna eru Mowi sem nú er meirihlutaeigandi í Arctic Fish og og SalMar sem á meirihluta í Arnarlaxi.

Áform Evrópusambandsins eru í sjálfu sér fréttaefni enda víða á erlendum fréttavefjum sagt frá málinu. Ríkisútvarpið fer hins vegar yfir strikið þegar það slær því upp að um sé að ræða eigendur að vestfirsku eldisfyrirtækjunum. Þar eru tengd saman óskyld atriði.

Staðreyndin er sú að það eru norsk fyrirtæki sem liggja undir grun vegna sölu á norskum eldislaxi. Arnarlax og Arctic Fish eru málinu algerlega óviðkomandi. Það eru íslensk fyrirtæki og selja eigin framleiðslu. Stjórnendur þeirra fyrirtækja hafa ekki komið að málinu.

Eignatengslin eru heldur ekki eins augljós og ætla mætti af fréttinni. Mowi eignaðist ekki hlut í Arctic Fish fyrr en 2022, eða þremur árum eftir að því tímabili lauk sem er undir í væntanlegri rannsókn.

SalMar eignaðist hlut í Arnarlaxi árið 2015 og varð meirihlutaeigandi árið 2019. Þannig að fyrstu fjögur árin sem til stendur að rannsaka átti SalMar ekkert í Arnarlaxi og var minnihlutaeigandi seinni fjögur árin.

Svo það er óhjákvæmilegt að spurt sé: hvað gengur RÚV til með þessari rangfærslu. Hvaða tilgangi þjónar það að tengja tvö vestfirsk eldisfyrirtæki við hugsanlega ólöglegt athæfi norskra fyrirtækja í Noregi fyrir mörgum árum ?

-k

Mast kærði ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum til ríkissaksóknara

Helgi Jensson er lögreglustjóri á Vestfjörðum.

Matvælastofnun hefur kært til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að hætta rannsókn á slysasleppingu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði á síðasta ári.

Matvælastofnun kærði sleppinguna til lögreglustjórans á Vestfjörðum, sem rannsakaði málið, og tilkynnti í síðasta mánuði að hann hefði hætt rannsókn málsins og fellt það niður. Stofnunin hefur nú skotið málinu til ríkissaksóknara sem fer yfir ákvörðun lögreglustjórans. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála ber ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kæru á ákvörðunum lögreglustjóra innan þriggja mánaða frá móttöku hennar. Getur hann staðfest ákvörðun lögreglustjóra eða fellt hana úr gildi.

27 kærur

Alls bárust 27 kærur til ríkissaksóknara að meðtalinni kæru Matvælastofnunar. Embætti ríkissaksóknara vildi ekki upplýsa um hverjir það eru, en bæði landssamband veiðifélaga og íslenski náttúruverndarsjóðurinn, icelandic wildlife fund höfðu tilkynnt að þau myndu leggja fram kæru.

Aðeins málsaðilar geta kært og sagði Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar á Bæjarins besta fyrr í janúar að hún liti ekki á landssamband veiðifélaga sem málsaðila. Frá embætti ríkissaksóknara fengust þau svör í gær að það yrði skoðað hverjir teljist málsaðilar og hafi kærurétt.

Ofanflóðavarnir fyrir atvinnuhúsnæði

Mynd úr skýrslu Veðurstofunnar.

Í dag rennur út í samráðsgátt stjórnvalda umsagnarfrestur um áform til að útvíkka löggjöf um ofanflóðavarnir til atvinnuhúsnæðis. Verða þá reist varnarmannvirki eða farið í uppkaup. Einnig tiltekið að
eftirlit með hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum sé á ábyrgð rekstraraðila þeirra.

Fyrir liggur skýrsla Veðurstofu Íslands frá síðasta ári þar sem skoðuð voru atvinnusvæði á tíu þéttbýlisstöðum á landinu, þar af voru sex á Vestfjörðum. Brunabótamat atvinnuhúsnæðisins á þeim stöðum er um 10 milljarðar króna, þar af mest á Seyðisfirði 4,5 miljarðar króna.

Lagðar eru til varnir þar sem þær eru mögulegar og kostnaðarmat er minna eða á pari við brunabótamat þess sem er varið. Miðað er við að varnir fyrir atvinnusvæði færi þau af hættusvæðum C og a.m.k. á hættusvæði B. Lagðar eru til varnir fyrir eignir á C-svæðum með brunabótamat samtals 4,5 milljarða með þeim vörnum yrðu einnig varðar eignir á B-svæðum með brunabótamat upp á 1,2 milljarða. Kostnaðarmat við þessar varnir er rúmir 4 milljarðar.
Brunabótamat eigna sem ekki er mögulegt að verja er hinsvegar rúmir 5,5 milljarðar. Stærstur hluti verðmæti eigna sem ekki er hægt að verja er á Seyðisfirði.

Verja húsnæði að verðmæti 3,6 milljarðar króna – kostnaður 1,3 milljarðar kr.

Á Vestfjörðum er brunabótamat atvinnuhúsnæðis sem þarf að huga að um 3,6 milljarðar króna á fimm þéttbýlisstöðum. Kostnaður við varnir er 1,3 milljarðar króna.

Hæsta fjárhæðin er í Súðavík en þar er brunabótamatið 1,4 milljarðar króna. Kostnaður við varnir er 260 m.kr. Einkum er það frystihúsið sem þarf að verja. Lagt er til að það verði varið með þvergarði ofan við allt húsið.

Hæsti kostnaður við varnir er hins vegar í Hnífsdal 430 m.kr. Brunabótamat atvinnuhúsnæðis á B og C svæði er 630 m.kr.

Á Ísafirði eru mannvirki fyrir 790 m.kr. á C svæði og kostnaður við varnir er 280 m.kr. Á Patreksfirði eru á hafnarsvæðinu mannvirki að brunabótamati 760 m.kr. á hættusvæði og varnir eru metnar á 300 m.kr.

Áformin um lagasetninguna voru kynnt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar í gær en ekkert bókað um afstöðu nefndarinnar.

Leynir ÍS 16

Leynir ÍS 16 ex Leynir SH 120. Ljósmynd Magnús Jónsson 2024.

Leynir ÍS 16 við bryggju í Reykjavík 6. janúar s.l. en hann er gerður út af Tjaldtanga ehf. og er með heimahöfn á Flateyri við Önundafjörð.

Leynir hét upphaflega Reykjaborg RE 25 og var smíðaður í Skipasmíðastöðinni á Ísafirði árið 1998.

Reykjaborgin var lengd um fjóra metra í Ósey í Hafnarfirði árið 2001 en báturinn var síðan seldur til Keflavíkur árið 2005.

Þar fékk hann nafnið Geir KE 6 og var í eigu Útgerðarfélgsins Óskar ehf. sem einnig gerði út Ósk KE 5. Árið 2008 fær báturinn nafnið Arnþór GK 20 eigandi hans var Nesfiskur hf. í Garði.

Águstson hf. í Stykkishólmi keypti bátinn árið 2017 og nefndi hann Leyni SH 120.

Það var svo um mitt síðasta ár að Leynir varð ÍS 16 en báturinn er 21,88 metrar að lengd og mælist 72 brl./107 BT að stærð. Hann er búinn 470 hestafla Cummins frá árinu 1998.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Vetrarólympíuleikar ungmenna í Gangwon

Keppni er hafin á Vetrarólympíuleikum ungmenna í Gangwon í Suður-Kóreu. Keppendur í alpagreinum mættu fyrst á svæðið, 18. janúar sl. Þau voru viðstödd setningarhátíð leikanna, 19. janúar, sem bauð upp á frábæra ljósasýningu, söng, dans í bland við hefðbundin dagskráratriði. Myndirnar sem hér fylgja með eru annars vegar af keppendum alpagreina, þeim Eyrúnu Erlu, Þórdísi Helgu og Degi Ými, ásamt Agli, þjálfara þeirra og hins vegar af fánaberum Íslands á setningarhátíð leikanna, þeim Eyrúnu Erlu og Degi Ými.

Æfinga- og keppnismannvirkið er nánast í þorpinu sem keppendur alpagreina dvelja í og tekur 5 mín. að ganga að kláfunum. Á hefðbundnum degi hjá þátttakendum alpagreina er dagskráin eitthvað á þessa leið: morgunverður, preppa skíðin, æfing, hádegismatur, preppa skíðin, æfing, kvöldmatur og síðan farið inn á herbergin í næði. Keppendur eru með námsefni með sér og þurfa að sinna því.

Þann 20. janúar fjölgaði á svæðinu. Júlíetta Iðunn, keppandi í snjóbrettum og föruneyti mættu á leikana. Þorpið sem snjóbrettakeppendur dvelja í er hýsir 1.700 keppendur og fylgdarlið til viðbótar. Það er um 80 mín. akstur frá því þorpi í fjallið þar sem keppt verður, Welli Hilli Park.

Brynja Guðjónsdóttir aðalfararstjóri hefur í nógu að snúast. Fæstir af sjálfboðaliðunum tala ensku og því nauðsynlegt að vera lausnamiðaður í samskiptum við aðstoðarfólk hópsins. Stundum hefur öruggasta aðferðin við að koma tímasetningum á framfæri við rútubílstjórana verið að skrifa tímann í snjóinn!

Auk Brynju eru með hópnum Brynja Þorsteinsdóttir flokksstjóri frá SKÍ, þrír þjálfarar og tveir sjúkraþjálfarar. Halda þau vel utan um íslenska hópinn. Fram að þessu hefur verið nokkuð milt veður, hitastig dansar kringum 0 gráður yfir daginn. Á laugardaginn var mikil snjókoma en lítil ofankoma hina dagana. Framundan er þó vaxandi kuldi og vindur. Keppendur hafa verið að aðlagast tímamismuninum á milli Íslands og Suður-Kóreu sem er níu klukkustundir.

Skíðagönguteymið kom til Gangwon 23. janúar.

Óvenju mikið um að auðnutittlingar séu að drepast

Óvenju margar ábendingar hafa að undanförnu borist Matvælastofnun um dauða auðnutittlinga, hvaðanæva af landinu frá fólki sem fóðrar smáfugla reglulega. Matvælastofnun mun á næstunni reyna að komast að því hvað veldur þessum dauða.

Auðnutittlingur er lítill finkufugl og er staðfugl á Íslandi. Auðnutittlingur er frææta og byggir tilveru sína á birkifræi og leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Kjörlendi auðnutittlinga er birkiskógar og kjarr, auk þess ræktað skóglendi og garðar. Þeir eru algengir á fóðurbrettum þar sem fræ eru gefin og eru sólblómafræ eitt besta fóðrið fyrir auðnutittlinga. Þeir eru þó ekki eins háðir fóðrun og margir aðrir smáfuglar og flytja sig oft á milli svæða eftir veðri og fæðisframboði.

Ábendingarnar sem hafa borist Matvælastofnun snúa oftast að einstaka eða fáum fuglum sem sýna veikindaeinkenni og drepast að því virðist á 2-3 dögum. Ekki hefur verið sýnt fram á fjöldadauða auðnutittlinga en sumir sem fóðra smáfugla upplýsa að auðnutittlingar séu hættir að koma á fóðurstöðvar. Skýring á því getur auðvitað einnig verið að fuglarnir hafi flutt sig á milli svæða, en tilkynningar um veika og dauða fugla eru þó óvanalega margar. Matvælastofnun mun á næstunni fá hræ af fuglum af mismunandi landsvæðum og senda í sýnatökur og krufningu að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum til að komast nær mögulegum ástæðum þessara veikinda og dauða. Jafnframt verður reynt að komast að hvort sömu ástæður liggja að baki í öllum tilvikum. Samkvæmt upplýsingum dýrafræðinga við Háskóla Íslands hafa álíka tilvik komið upp hér á landi áður á síðustu árum, en þó ekki í þessu umfangi. Ekki hefur áður verið kannað sérstaklega hvað veldur þessum afföllum.

Margir fóðra smáfugla á veturna og talið er mögulegt að fugladauðinn kunni að tengjast sýkingum sem geta komið upp við fóðurstöðvar. Matvælastofnun hvetur því fólk sem fóðrar smáfugla, að gæta fyllsta hreinlætis og dreifa fóðri sem mest á fleiri staði. Það minnkar einnig streitu hjá fuglunum að hafa fóðurstöðvar dreifðar.

Úthlutað úr Safnasjóði

Menningar- og viðskiptaáðherra úthlutaði þann 23. janúar úr safnasjóðs alls 176.335.000 kr.

Úthlutun fór fram í Safnahúsinu við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni þar sem styrkþegar tóku á móti viðurkenningarskjölum.

Í aðalúthlutun safnasjóðs 2024 bárust sjóðnum alls 150 umsóknir frá 49 aðilum að heildarupphæð rúmar 312 milljónir króna fyrir árið 2024.
Veittir voru 107 styrkir til eins árs að heildarupphæð 166.335.000 kr. til 46 styrkþega og tvær öndvegisumsóknir fá auk þess styrk fyrir árið 2024.

Ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.

Úthlutunin úr safnasjóði var haldin í kjölfar Ársfundar höfuðsafnanna þriggja, Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands ásamt safnaráði í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Úthlutaðir styrkir til Vestfjarða eru eftirfarandi:

Öndvegisstyrkur 2023-2025Byggðasafn VestfjarðaEndurskoðun grunnsýningar2.500.000
Sauðfjársetur á Ströndum„Oní kassa og upp í hillu“ – varðveisla safnkostsinsc. Varðveisla1.800.000
Sauðfjársetur á StröndumViðburðadagskrá: Ull verður gulle. Miðlun – önnur1.200.000
Minjasafn Egils ÓlafssonarForvarsla textíla 2024c. Varðveisla1.200.000
Byggðasafn VestfjarðaEndurnýjun ljósa og öryggiskerfis í varðveislurýmii. Efling grunnstarfsemi (ath – reglur um rekstrarstyrki)1.000.000
Byggðasafn VestfjarðaSaga kaupstaðar – Neðstikaupstaður í fortíð og nútíðe. Miðlun – sýning1.000.000
Byggðasafn Húnvetninga og StrandamannaSkráning í Sarpb. Skráning – almenn2.500.000
Byggðasafn Húnvetninga og StrandamannaBarnaskólahúsið – Betri varðveisluaðstaðac. Varðveisla3.000.000

Nýjustu fréttir