Sunnudagur 15. september 2024
Síða 182

Braut Matvælastofnun gegn stjórnsýslulögum?

Upphaflega fréttin á Stundinni.

Í stjórnsýslukæru Arnarlax til Matvælaráðuneytis, þar sem kærð er 120 m.kr. sektarákvörðun Matvælastofnunar frá 25.11. 2022 segir að stofnunin hafi brotið gegn andmælareglunni , sem lögfest er í stjórnsýslulögum. Þar segir að aðili máls skuli eiga rétt á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun. Rakin er gangur málsins, sem var þannig að Matvælastofnun tilkynnti 7. nóv. 2022 um fyrirhugaða sekt og gaf Arnarlax frest til 23. nóvember til andsvara. Svörum var skilað þann dag kl 11:44 og fylgiskjöl send síðar sama dag.

Fyrr um morguninn eða nákvæmlega kl 10:50 birtist á Stundinni frétt með fyrirsögninni: „Lagði sögulega sekt á laxeldisfyrirtækið Arnarlax fyrir ranga upplýsingagjöf“. Vitnað er í deildarstjóra fiskeldis hjá Mast. Segir í kæru Arnarlax að þetta bendi til þess að Matvælastofnun hafi þá þegar verið búin að ákveða að beita stjórnvaldssektun áður en andmælin voru komin og þá án þess að kynna sér efni þeirra. Spurt er hvort andmælarétturinn hafi aðeins verið til málamynda og meðferð málsins í andstöðu við stjórnsýslulög.

Rakið er í kærunni að vegna fréttarinnar hafi Arnarlax sent athugasemd til forstjóra Matvælastofnunar, Hrannar Ólínu Jörundsdóttur. Hún hafi svarað því til að ekki væri rétt haft eftir starfsmanni Mast og að beiðni hafi verið send til Stundarinnar um leiðréttingu á fréttinni, málið væri enn í rannsókn og engin ákvörðun lægi fyrir.

Matvælastofnun tilkynnti um ákvörðun sína tveimur dögum síðar 25.11. 2022 og þykir Arnarlaxi þetta afar skjót málsmeðferð sem bendi til þess að ákvörðunin hafi legið fyrir áður en andmælafresturinn rann út, „rétt eins og áðurnefnd frétt Stundarinnar er til vitnis um.“

Kæra Arnarlax var sent til Matvælaráðuneytisins 22. febrúar 2023 og samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er stefnt að því að afgreiða hana í næsta mánuði en þá verður ár liðið frá því að hún var send.

Fréttin á Stundinni eftir að henni var breytt.

Dýpkun Ísafjarðarhafnar: viðræður við hollenskt fyrirtæki

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Viðræður standa yfir af hálfu Vegagerðarinnar og Ísafjarðarhafnavið hollenskt fyrirtæki um að það taki að sér að dýpkun á Ísafirði. Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri sagðist í samtali við Bæjarins besta vonast til að samningar takist og að dýpkun Sundahafnarinnar yrði lokið fyrir vorið.

Vegagerðin hefur samið við Björgun um dýpkunina en skip þess Álfsnesið hefur ítrekað verið kallað suður úr dýpkun á Ísafirði til þess að þjónusta Landeyjarhöfn. Verkið hefur dregist von úr viti og í fyrra varð það til þess að Ísafjarðarhöfn varð af um 150 m.kr. tekjum þar sem nýr viðlegukantur í Sundahöfn var ekki tilbúinn. Að óbreyttu gæti það leit til þess að Ísafjarðarhöfn yrði af svipuðum tekjum á þessu ári.

Hilmar segir að enn sé eftir um fjórðungur til þriðjungur af heildarverkinu, um 150 þúsund rúmmetrum, þar af eftir eigi að dýpka í Sundahöfninni og fjarlægja um 50 þúsund rúmmetra. Þá verða Sundin bæði dýpkuð og breikkuð og þar er talið að fjárlægja þurfi þar um 100 þúsund rúmmetra af sandi.

Hilmar Lyngmó sagðist vonast til þess að hollenska fyrirtækið yrði fengið til þess a.m.k. að ljúka Sundahöfninni og það gæti verið um 10 daga vinna, en tók þó fram að nokkur óvissa væri í því mati. Því verki yrði lokið fyrir vorið áður en skemmtiferðaskipin fara að koma.

Riða: ARR genasætan finnst í sauðfé í Dölum

Lambhrúturinn heitir Vörður 23-459, faðir hans er Tónn 18-855 frá Melum. Móðir hrútsins, ær nr. 16-189, er dóttir kaupahrúts, Bagga 12-441 frá Heydalsá og undan á af heimakyni. Mynd: rml.

Staðfest hefur verið að ARR genasamsætan, sem hefur verndandi áhrif gegn riðuveiki, hefur nú fundist í gripum sem óskildir eru Þerununesfénu.

Á bænum Vífilsdal í Hörðudal í Dalasýslu, greindist ARR í hrútlambi í haust sem á ekki foreldra sem vitað var að bæru ARR. Í framhaldinu var greint sýni úr móðir hrútsins og reyndist hún bera ARR. Nú er búið að tvígreina bæði hrútinn og móður hans og því ljóst að fundin er ný ættarlína sem ber þennan verndandi breytileika. 

Frá þessu var greint í gær á vefsíðu ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Þar segir að þetta séu stórkostleg tíðindi fyrir ræktunarstarfið.

Nú eru rétt um tvö ár síðan ARR fannst í fyrsta skipti í íslenskir kind en það var á bænum Þernunesi við Reyðarfjörð. Að bætist loks við önnur upphafshjörð gensins mun auðvelda verulega verkefnið framundan sem er að innleið verndandi arfgerðir í stofninn í heild.

Á bænum Vifilsdal er rekið myndar fjárbú, en þar eru um 500 kindur á vetrarfóðrum og afurðir góðar. Næsta skref verður að kortleggja þessa hjörð nánar og freista þess að finna fleiri erfðafræðilega gullmola.

Ísafjörður: lagt til í þriðja sinn að gera lóðarleigusamning fyrir Suðurtanga 6

Á fimmtudaginn var gerð samþykkt í þriðja sinn í skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar að samþykkja útgáfu lóðarleigusamnings vegna Suðurtanga 6 á Ísafirði. Fer málið til næsta fundar bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Skipanaust er þinglýstur eigandi lóðarinnar og óskaði fyrirtækið eftir því 30. nóvember 2021 að lóðarleigusamningurinn verði endurnýjaður, en hann var gerður árið 1961 og var til 55 ára. Rann samningurinn út í ársbyrjun 2016.

Þær lóðir sem hér er fjallað um eru lóðirnar Suðurtangi 6 (naustið), Suðurtangi 8 (dráttarbraut), og Suðurtangi 7 og tilheyrðu lóðirnar og fasteignir á þeim Skipasmíðastöð Marzellíusar en eru nú í eigu þriggja lögaðila; Skipanaust ehf. á Suðurtanga 8 og Suðurtangi 7 er í jafnri eigu Rörás ehf. og Tanga ehf. Upprunalega voru allar lóðirnar ein og hin sama en með yfirlýsingu frá árinu 1983 var lóðunum skipt upp en að öðru leyti giltu áfram ákvæði lóðarleigusamnings frá árinu 1960.

Fyrst samþykkti skipulags- og mannvirkjanefndin 4.4. 2022 að heimila útgáfu lóðarleigusamnings. Bæjarstjórnin tók málið fyrir 7.4. 2022 og vísaði málinu aftur til nefndarinnar. Næst var málið afgreitt frá nefndinni 25.11. 2022 og þá var lagt til að gera lóðarleigusamning til 10 ára vegna óvissu með framtíð skipulagsmála á Suðurtanga. Bæjarstjórnin var ekki á því og samþykkti í desember 2022 að vísa málinu aftur til nefndarinnar og samþykkti að auki að „hafin verði vinna við endurskoðun deiliskipulags á Suðurtanga íbúðar og þjónustusvæði sem samþykkt var 5. nóv. 2015, m.t.t. þess hvort íbúðabyggð henti á Suðurtanga samhliða þeirri starfsemi sem fyrir er.“

Þriðja samþykkt nefndarinnar um málið var svo á fimmtudaginn, eins og fyrr segir og enn leggur nefndin til við bæjarstjórn að samþykkja útgáfu lóðarleigusamnings vegna Suðurtanga 6 á Ísafirði.

Að þesus sinni segir nefnin: Nefndin leggur áherslu á aðgengi að sjó, um upptökuramp, fyrir kajaka og minni báta, verði tryggt eins og fram kemur í gildandi deiliskipulagi.

Patrekshöfn: ekki raunhæft að verja höfnina að fullu fyrir ofanflóðum

Fram kemur í skýrslu Veðurstofu Íslands frá nóvember 2023 um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi að stór hluti hafnarinnar, athafnasvæði og hluti atvinnuhúsnæðis er á hættusvæði C. Varnir sem reistar hafa verið fyrir íbúabyggðina, draga ekki úr hættu í og við höfnina nema að litlu leyti. Ekki eru raunhæfar leiðir til þess að verja hana að fullu segir í skýrslunni.

mælt með því að færa höfnna

Þá segir eftirfarandi: „Höfnin er ekki vel staðsett þannig að sveitarfélagið og siglingasvið Vegagerðarinnar ættu að kanna möguleika á því að byggja upp höfn á öðrum stað þegar til langs tíma er litið. Snjóflóðin 1906/1907 og 1921 og tíð snjóflóð á þessu svæði á síðustu árum sýna að mikil vá er fyrir dyrum ef stórt snjóflóð fellur úr farveginum ofan hafnarinnar.“

Skýrsluhöfundar segir að það sé sveitarfélagsins að skipuleggja hafnarsvæðið og þá taka ákvörðun um hvort að líta ætti til nýrrar staðsetningar hafnarinnar eða verja höfnina með keilum verði farið í að verja atvinnusvæði.

lagt til að reisa keilur

Skoðað voru nokkrar varnir fyrir hafnarsvæðið.

Þvergarður á milli varnargarðanna fyrir íbúðarbyggðina kemur ekki til greina, þar sem hann myndi draga úr virkni þeirra varna. Þá er flóðhraði mikill og garðurinn þyrfti að vera mjög hár.

Stoðvirki: Ofan hafnarinnar er snjódýpt talin of mikil fyrir upptakastoðvirki eins og nefnt var að framan og aðstæður til þess að reisa og viðhalda stoðvirkjum eru mjög erfiðar.

Snjósöfnunargrindur: Ekki er komin nógu mikil reynsla á snjósöfnunargrindurnar sem reistar voru á Brellum 2017 til þess að ákvörðun um uppsetningu og útfærslu á grindunum hafi verið tekin. Þær kunna að draga úr snjósöfnun í upptakasvæði neðan brúnarinnar og meðal annars ofan hafnarinnar. Grindurnar myndu því mögulega auka öryggi á hafnarsvæðinu en ekki hafa áhrif á hættumatslínur.

Keilur: Skoðað hefur verið að koma fyrir 6 x 9 m háum keilum rétt ofan hafnar en neðan varnargarðanna. Staðsetning var valin þannig að þær hefðu hvorki neikvæð áhrif á virkni leiðigarðanna, né beindu flóðum að íbúðarhúsum. Tilgangur keilna er að draga úr hraða snjóflóða út í höfn og þar með draga úr afleiðingum flóða á hafnarsvæði og fækka flóðum sem ná út í úthlaupslengd hönnunarflóðs en þau myndu samt sem áður ná út í höfnina. Keilurnar gætu stöðvað minni flóð sem næðu annars að eða rétt út í höfnina. Ef slíkar keilur yrðu reistar myndi C-lína færast ofar í höfnina en hluti hafnarinnar yrði áfram á C-svæði. Hér hefur verið reiknað með að keilurnar verði með þrjár brattar hliðar til að auka virkni þeirra. Tvær keiluraðir hafa meiri áhrif en ein keiluröð. Í kostnaðarmati er gert ráð fyrir að þessar keilur verði reistar. Keilurnar munu ekki draga úr hættu í skemmu, við Þórsgötu 14 og yrði hún áfram á C-svæði.

Vesturbyggð hefur sent inn umsögn í samráðgátt stjórvalda um áform um að breyta lögum og heimila Ofanflóðasjóði að verja atvinnumannvirki og kemur þar inn á stöðu hafnarinnar. Segir sveitarfélagið mikilvægt að farið verði í gerð varna sem lágmarka myndu áhættu innan hafnarinnar. Segir að „ef flóð félli í smábátahöfnina þá myndi það hafa umtalsverð áhrif innan allrar hafnarinnar og líkast til myndi fylgja flóðbylgja út höfnina. Þegar illa viðrar eða náttúruhamfarir ganga yfir hafa hafnir oft verið eina leiðin út úr bæjum og þorpum, eins og gerðist bæði í krapaflóðinu á Patreksfirði 1983 og snjóflóðinu á Flateyri 2020. Það er því mjög mikilvægt að hægt sé að treysta á hafnirnar fyrir neyðaraðstoð og flutning af svæðinu.“

Kostnaðarmat við varnirnar sem lagað eru til i skýrslunni er 300 m.kr.

Ráðning íþrótta- og æskulýðsfulltrúa: litið til reynslu,menntunar og hæfni

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri svarar því til að litið hafi verið til reynslu, menntunar og hæfni við val á milli fjögurra umsækjenda um starf íþrótta og æskulýðsfulltrúa. Hún var innt eftir því hvað réði því að Dagný Finnbjörnsdóttir stóð framar en aðrir umsækjendur og var ráðin.

„Við mat og yfirferð umsókna, sem bárust um starfið, var í upphafi litið til reynslu, menntunar og hæfni umsækjenda með tilliti til þeirra verkefna sem hlutaðeigandi er ætlað að sinna.  Við meðferð ráðningar og við val á milli umsækjenda fór fram athugun og skoðun á nokkrum grundvallarþáttum, svo sem starfsreynslu og fyrri störfum tengdum íþrótta- og æskulýðsmálum, menntun, faglegan metnað, frumkvæði, umsagnar o.fl.  Í ráðningarferlinu var ennfremur horft til frammistöðu í starfsviðtali. Við ákvörðun um ráðningu var tekið tillit til niðurstaðna úr samanlögðu mati á ofangreindum matsþáttum.  Niðurstaða þessa mats réði því að Dagný Finnbjörnsdóttir var ráðin til starfsins.“

Umsækjendur um starfið voru fjórir:

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir – Fyrrum deildarstjóri í félagsþjónustu

Atli Freyr Rúnarsson – Umsjónar- og íþróttakennari

Dagný Finnbjörnsdóttir – Framkvæmdastjóri HSV

Páll Janus Þórðarson – Lögregluvarðstjóri

Lóa bangsi tók þátt í eftirliti þyrlusveitar

Sex ára dóttir eins þyrluflugstjórans Landhelgisgæslunnar stóð frammi fyrir erfiðu vali í gær. 

Í skólanum var bangsastund og hún þurfti að velja á milli bangsanna Manna og Lóu um hvort þeirra fengi að fara með henni. Hún gat ómögulega gert upp á milli þeirra . 

Úr varð að Manni fór með henni í skólann og Lóa með pabba hennar í þyrluna. 

Lóa aðstoðaði við eftirlit um landið og miðin og fékk að fylgjast með ansi viðburðaríkum degi um borð í þyrlunni.

Lóa fylgist með. 

Veiðigjald 2024

Í Stjórnartíðindum er auglýst veiðigjald fyrir árið 2024.  Gjaldið miðast hvert kíló óslægðs afla sem landað er á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2024. 

Tegundum sem bera veiðigjald hefur fækkað um þrjár frá í fyrra, úr 21 í 18.  Þær tegundir sem hafa dottið út eru grálúða, gulllax og rækja.

Veiðigjald á þorski hækkar um tæp 40% en veiðigjal á makrí og loðnu lækkar verulega.

Veiðigjald fyrir hvern hval er: i) langreyður 70.174 kr., ii) hrefna 11.228 kr.

Veiðigjald á sjávargróður er : 702 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara (blautvigt).

Við álagningu veiðigjalds skal frítekjumark nema 40% af fyrstu 8,5 milljónum.6 millj. kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila.  

Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta veiðigjald og fer ríkisskattstjóri með samræmingar- og eftirlitshlutverk við innheimtu þess. Veiðigjald telst rekstrarkostnaður samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Rímspillisár – Þorri hefst 26 janúar

Þorri hefst ætíð á sama vikudegi, föstudegi í 13. viku vetrarmisseri Íslenska misseristals. Er hann fjórði mánuður þess og hans fyrsti dagur sem nefndur er Bóndadagur því Miður vetur þar sem í hvoru misseri eru 6 mánuðir.

Samkvæmt núverandi tímatali, þess Gregoríska eða Nýja stíl, hefst hann á bilinu 19. til 25. janúar. 

Undantekningin frá þessu er á Rímspillisárum en þá getur hann hafist 26. janúar.  í Gamla stíl, hins Júlíanska tímatals sem notað var fyrir tímatals breytinguna árið 1700 þegar 10 dagar voru feldir niður það árið og áttu sér því ekki stað ef svo má segja, hófst Þorri á bilinu 9. til 15. janúar.

Sá síðasti kallast aftur á móti Þorraþræll og til heimildir þótt fáar sé þess efnis að hann hafi verið tileinkaður meðal annars piparsveinum og þeim mönnum sem getið höfðu börn utan hjónabands.

Samningar framlengdir

Elfar Logi Hannessonog Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í byrjun árs við undirritun samnings um styrk við Act Alone.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt endurnýjun á þriggja ára styrksamningi við einleikjahátíðina Act Alone. Hátíðin, sem haldin er á Suðureyri í ágúst ár hvert, fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. 

Þá samþykkti bæjarstjórn einnig framlengingu samkomulags um afnot leiklistarmiðstöðvar Kómedíuleikhússins af húsnæði Ísafjarðarbæjar að Vallargötu 3 á Þingeyri, og að samkomulagið verði hluti af samstarfssamningi við Kómedíuleikhúsið, sem gildir út árið 2025.

Samningarnir voru undirritaðir af Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, og Elfari Loga Hannessyni, forsvarsmanni Act Alone og Kómedíuleikhússins, á Þingeyri miðvikudaginn 24. janúar.

Nýjustu fréttir