Sunnudagur 15. september 2024
Síða 181

Vatnsdalsvirkjun: Ísafjarðarbær vill breyta friðunarskilmálum

Vatnsdalur. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar afgreiddi í gær umsögn um Vatnsdalsvirkjun. Er það niðurstaða bæjarráðs að beina því til „ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

Er þessi afstaða verulega frábrugðin afstöðu bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem samþykkti í desember sl. með atkvæðum meirihlutans N-lista að leggjast gegn ósk Orkubús Vestfjarða um breytingu á friðunarskilmálum svæðisins svo vinna megi umhverfismat fyrir áformaða Vatnsdalsvirkjun. Vísað Vesturbyggð til þess að tvöfalda fyrst vesturlínu og að ráðast í virkjunarkostina Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun áður en ákvörðun verði tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Minnihluti D lista vildi fallast á erindi Orkubúsins.

Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni segir í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að Vestfjarðakjálkinn sé ekki sjálfbær um raforku í dag, jarðhitaleit gefi ekki fyrirheit um jarðvarma í nægjanlegu magni, virkjun á svæðinu auki raforkuöryggi um 90%, umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar séu lítil, jarðhræringar á Reykjanesi kalli á virkjun utan eldvirks svæðis, þeir kostir sem Vesturbyggð vísi til séu ekki í hendi og að breyting á friðunarskilmálum sé ekki endanlegt leyfi til virkjunar heldur gefi kost á að skoða málið.

Bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í heild:

„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hefur borist erindi frá Orkubúi Vestfjarða þar sem óskað er eftir því að friðun Vatnsfjarðar verði breytt og mögulegri virkjun þar verði hleypt í umhverfismat og umfjöllun rammaáætlunar. Ráðuneytið sendi erindið áfram til umsagnar nokkurra aðila, en ekki Ísafjarðarbæjar. Eftir að álit Vesturbyggðar var birt telur bæjarráð Ísafjarðarbæjar þó tilefni til að árétta afstöðu sína til málsins, því þó Ísafjarðarbær hafi ekki formlega lögsögu um svæðið snertir málið ríka hagsmuni sveitarfélagsins og Vestfjarða allra.
 Umræða þessar vikurnar um orkuskort á landinu öllu á að einhverju leyti við á Vestfjörðum, einkum með tilliti til skerðingar á ótryggri orku sem hefur talsverð áhrif á Vestfjörðum. Við bætist þó sá flöskuháls sem er til staðar í flutningskerfinu inn á Vestfirði, þar sem Vestfjarðakjálkinn er ekki sjálfbær um raforku í dag. Nýjustu fréttir af olíubruna Orkubús Vestfjarða undirstrika þetta. Fréttir af yfirstandandi jarðhitaleit á norðanverðum Vestfjörðum gefa ekki fyrirheit um varma í því magni að hann breyti þessari mynd að mun. Afhendingaröryggi orku er ósættanlegt og mun að óbreyttu versna.
 Fyrir liggja nokkrar skýrslur um raforkumál á Vestfjörðum, sú síðasta sem kynnt var í júní í fyrra. Skýrsluhöfundar, sem bæði höfðu fulltrúa Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar og könnuðu málið einnig vel með viðtölum við fjölmarga aðila, töldu mikilvægt að skoða virkjunarkostinn í Vatnsfirði áfram með mögulegum breytingum á friðlýsingarskilmálum eftir þörfum.

 Virkjun á svæðinu eykur raforkuöryggi um 90%. Með auknum kerfisstyrk eykst einnig flutningsgeta núverandi Vesturlínu verulega. Með aukinni vatnsmiðlun eykst geta orkukerfisins til að taka við öðrum orkugjöfum, svo sem vindafli og ómiðluðum rennslisvirkjunum.
 Auk þess má benda á umsagnir og umfjöllun í tengslum við þingsályktunartillögur um hringtengingu Vestfjarða, til dæmis 197. mál á löggjafarþingi númer 153.
 Þeir kostir sem Vesturbyggð vísar til (Austurgilsvirkjun, Hvalárvirkjun, tvöföldun flutningslínu inn á svæðið) eru ekki í hendi. Austurgilsvirkjun er ekki nógu stór til að bera tengivirki og flutningslínur sem til þarf. Undirbúningur Hvalárvirkjunar hefur ekki gengið ýkja hratt og hefur mætt talsverðri mótstöðu. Áætlanir um tvöföldun Vesturlínu eru langt inn í framtíðinni, sá kostur framleiðir ekki nýja orku, skipulagslegar forsendur liggja ekki fyrir og fjöldi þeirra aðila sem geta stoppað eða tafið málið er slíkur að hægt er slá því föstu að núverandi tímalínur muni ekki ganga upp. Nærtækt er að líta bæði til lagningar vega um Gufudalssveit auk Suðurnesjalínu 2 sem dæmi um spor sem hræða. Engar þessara lausna eru heldur án neikvæðra umhverfisáhrifa.
 Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru fremur lítil miðað við raforkuframleiðslu hennar. Umhverfisáhrif þess að virkja ekki í Vatnsfirði geta orðið töluverð, bæði staðbundið í annarri uppbyggingu sem koma þarf í staðinn, en einnig í hægari orkuskiptum. Þá eru ótalin samfélagsleg og hagræn áhrif þess að tryggja raforkuöryggi.
 Hamfarirnar á Reykjanesi undirstrika mikilvægi þess að Ísland búi yfir dreifðri framleiðslu á orku, sérstaklega utan svæða með eldvirkni eða hættu á jarðhræringum.
 Fjórðungssamband Vestfjarða hefur ákveðið að hefja gerð svæðisskipulags með sérstaka áherslu á orkumál.
 Kjósi ráðherra að breyta friðun á Vatnsfirði er það ekki endanlegt leyfi til að virkja í Vatnsdal, heldur gefur kost á að valmöguleikinn verði skoðaður áfram af fagfólki og í stærra samhengi. Með því opnast einnig leið til að skilgreina skilmála þjóðgarðs sem koma þarf á fót á svæðinu og almennur stuðningur er fyrir. Allir þeir sem þegar hafa veitt umsögn munu hafa umsagnarheimild (og skipulagsvald í tilviki Vesturbyggðar) þegar málinu vindur fram.
 Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þau sjónarmið Vesturbyggðar að áhersla verði lögð á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, einkum virkjanir í Austurgili, Hvalá og tvöföldun Vesturlínu.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar beinir því til ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

Dýpkun Sundahafnar: sandi verði losað við Fjarðarstræti

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að leyfi sé fyrir hendi til að losa efni við Fjarðarstræti, og að þar ætti að vera hægt setja ca. 30-40 þúsund rúmmetra af sandi eins og staðan er núna.

Bæjarins besta innti hana eftir því hvað gert verði við sandinn sem fyrirhugað er að dælt verði upp úr Sundahöfn og Sundunum. Eftir á að dæla upp um 150 þúsund rúmmetra af sandi til þess að ljúka við dýpkunina.

Viðræður standa yfir við hollenska fyrirtækinu Van der Kamp um dýpkun á tveimur svæðum við Sundabakka auk dýpkunar á sundum og grynningu og er miðað við að verkinu ljúki í vor.

Arna Lára segir að á fjárhagsáætlun 2024 sé gert ráð fyrir „að lengja garðinn við Norðurtanga enn frekar og þá hægt verði að losa þá 50. þúsund  rúmmetra sem ætti að nægja í þennan áfanga. Þessu til viðbótar verður sótt um heimild til vara að losa efni í Djúpinu.“

Súðavíkurhlíð lokuð

Vegurinn milli Ísafjarðar og Súðavíkur lokaður.

Nú fyrir skömmu féll allstórt snjóflóð úr Súðavikurhlíð og yfir veginn. Ekki verður hugað að opnum vegarins fyrr en í fyrramálið.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum sem birt er á facebook fyrir nokkrum mínútum.

Þar segir að verði einhver vegfarandi innlyksa í Súðavík er honum boðið að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í gegnum Neyðarlínuna (112).

Á vef Vegagerðinnar kemur fram að ófært er um Hálfdán, Mikladal og yfir á Rauðasand. Þá er ófært norður í Árneshrepp.

Hvað eru margar fisktegundir við Ísland?

Í „fiskatali“ sem Gunnar Jónsson fiskifræðingur tók 15. nóvember 2000 var vitað um 360 fisktegundir sem fundist hafa innan 200 sjómílna lögsögunnar við Ísland.

Af þessum 360 tegundum eru 39 tegundir brjóskfiska, þar af 19 háffiskar, 14 skötutegundir og 6 hámýs. Beinfiskategundirnar eru 319. Þar á meðal eru helstu nytjategundirnar eins og þorskur, ýsa, síld, loðna og lax svo eitthvað sé nefnt. Auk þess hafa fundist tvær tegundir svokallaðra vankjálka eða hringmunna (sæsteinsuga og slímáll).

Sumar þessara tegunda eru mjög sjaldgæfar á Íslandsmiðum og hafa aðeins veiðst einu sinni. Þá eru 40-50 tegundir greinilega flækingar hér frá öðrum hafsvæðum, komnir hingað í ævintýraleit eða villtir af leið.

Þegar hin merka bók Bjarna Sæmundssonar „Fiskarnir“ kom út árið 1926 voru aðeins þekktar 130 tegundir við landið og var þá miðað við 400m dýptarlínuna.

Næsta „fiskabókin“ kom út 1983. Það var bók Gunnars Jónssonar „Íslenskir fiskar“ og hafði þekktum tegundum við Ísland þá fjölgað í 231 en eru nú þegar þetta er skrifað árið 2000 orðnar 360 eins og áður sagði.

Segja má að þetta séu ekki margar tegundir fiska sem hér finnast ef haft er í huga að í heimshöfunum þekkjast 24-25 þúsund fisktegundir.

Af visindavefur.is

Meistaranám hjá Háskólasetri

Fagstjórar meistaranáms hjá Háskólasetri Vestfjarða þau Dr. Matthias Kokorsch og Dr. Brack Hale kynna námsleiðir í Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun og segja frá námsleiðunum tveimur þann 6 og 13 febrúar. Skráning á vefsíðu Háskólaseturs.

Sjávarbyggðafræði er eina sérhæfða byggðafræðinámið á Íslandi. Námið er þverfræðilegt meistaranám þar sem fengist er við þróun byggða í fortíð og framtíð. Námið byggir einkum á félagsfræði, hagfræði, mannvistarlandfræði og skipulagsfræði.

Haf- og strandsvæðastjórnun er þverfræðilegt meistaranám á sviði umhverfis- og auðlindastjórnunar með áherslu á hafið og ströndina. Í náminu kynnast nemendur ýmsum aðferðum við stjórnun haf- og strandsvæða út frá efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum forsendum.

Námsleiðirnar eru kenndar í staðnámi á Ísafirði í samstarfi við Háskólann á Akureyri og útskrifast nemendur með gráðu frá HA.

Nemenda- og kennarahópurinn er mjög fjölbreyttur en bæði kennarar og nemendur koma víða að úr heiminum og hafa margvíslegan bakgrunn. Inntökuskilyrði í báðar námsleiðir eru þau að umsækjandi hafi lokið grunnháskólagráðu BA, BSc eða BEd, óháð námsgrein.

Sorgarmiðstöðin fær 43 milljónur

Hólmfríður Anna Baldursdóttir stjórnarmeðlimur Sorgarmiðstöðvar, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Berglind Arnardóttir stjórnarformaður, Ína Ólöf Sigurðardóttir framkvæmdastjóri, Hulda Guðmundsdóttir stjórnarmeðlimur, Jóhanna María Eyjólfsdóttir fagstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra við undirritun samnings

Mennta- og barnamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa gert samning við Sorgarmiðstöðina um aukinn stuðning við þjónustu og rekstur samtakanna.

Miðstöðin sinnir stuðningi, fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda.

Sérstaklega er horft til þess að auka aðgengi að ráðgjafasamtölum, stuðningshópastarfi og jafningjastuðningi Sorgarmiðstöðvarinnar. Þá skal miðstöðin halda áfram að styðja við innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar í skólum og nærsamfélagi barna og efla kennara og umsjónaraðila barna í viðbrögðum við sorg og missi. Samkvæmt samningnum skal Sorgarmiðstöðin einnig bjóða upp á

  • fræðsluerindi um sorg og sorgarviðbrögð barna í forvarnaskyni sem miðar að því að styrkja skóla-, íþrótta- og tómstundastarf í vinnu sinni með börnum í sorg,
  • snemmtæka þjónustu þegar andlát hefur orðið í skólaumhverfinu, sem felst í því að fagaðilar veiti stjórnendum og starfsfólki í skólum stuðning, fræðslu og ráðgjöf innan 48 klukkustunda frá því að þjónustubeiðni berst,
  • námskeið fyrir börn í sorg á aldrinum 6-15 ára hjá Sorgarmiðstöð þar sem foreldrar taka þátt í upphafi námskeiðs, fá fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð og ýmis bjargráð,
  • stuðningshópastarf fyrir foreldra barna.

Áhersla er lögð á samvinnu við ríkið, sveitarfélög og fagfólk og að samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Samningurinn er liður í stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til 2030 um fjölbreytt snemmtæk inngrip og úrræði sem efla geðheilbrigði og draga úr áhrifum áfalla á lífsgæði.

Skíðaskotfimi og Strandagangan 2024

Strandagangan fer fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal á Steingrímsfirði, laugardaginn 9. mars 2024.

Strandagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna og er hluti af Íslandsgöngumótaröð SKÍ.
Þetta er 30. árið í röð sem gangan er haldin en fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995.

Sunnudaginn 10. mars heldur fjörið áfram með leikjadegi fyrir börn og unglinga, skíðaferð með Rósa og skíðaskotfimimóti.

Skíðaskotfimi er íþrótt sem blandar saman skíðagöngu og skotfimi og er sívaxandi áhugi á þessu nýja skíðasporti á Íslandi.

Gengnir eru 3 x 2,5 km hringir og skotið tvisvar á skotmörk með skíðaskotfimirifflum, fyrst liggjandi og síðan í standandi stöðu. Yngri þátttakendur munu þó ganga styttri vegalengd. Á skotsvæðunum er skotið fimm skotum í senn en fyrir hvert feilskot þarf að fara einn refsihring. Refsihringur er stuttur hringur til hliðar við brautina.

Sá keppandi sigrar sem lýkur keppni með stystan heildartíma.

Aldursflokkar í karla- og kvennaflokki:

  • 11-15 ára laser rifflar
  • 16-35 ára .22 kalibera rifflar
  • 36 ára og eldri .22 kalibera rifflar

Mótið er samstarfsverkefni Skíðasambands Íslands og Skíðafélags Strandamanna til kynningar á íþróttinni.

Ísafjörður:Fullt út úr dyrum hjá pólska félaginu í gær

Pólska félagið á Vestfjörðum stóð fyrir viðburði í Guðmundarbúð á Ísafirði í gær. Þrettán pólskar konur elduðu þar pólskan mat og seldu þeim sem vildu. Pólska samfélagið á Vestfjörðum er mjög fjölmennt og skiptir hundruðum.

Að sögn Vals Andersen á Ísafirði var fullt út úr dyrum, líklega á annað hundrað manns og seldist maturinn upp. Ekki aðeins voru Pólverjar fjölmennir heldur komu margir Íslendingar einnig.

Með þessu er verið að efla samkennd Pólverja og styrkja menningu þeirra í öðru landi.

Fyrir skömmu var haldið diskótek á Ísafirði fyrir unga fólkið sem tókst afar vel.

Veglegt matarborð og fjölbreyttir réttir.

Fjölmargir lögðu leið sína í Guðmundarbúð.

Myndir: Valur Andersen.

21 m.kr. til Vestfjarða vegna farsældarlaga

Frá leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur úthlutað 1.078 m.kr. til sveitarfélaga til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna samþættingar á þjónustu í þágu farsældar barna á árinu 2024.

Úthlutunin byggir á fjórum forsendum sem allar hafa jafnt vægi:

  1. Fjöldi barna í hverju sveitarfélagi.
  2. Fjöldi barna með stuðning í leik- og grunnskóla.
  3. Fjöldi barna á lágtekjuheimilum.
  4. Fjöldi barna af erlendum uppruna.

Framlögin verða enduráætluð í mars 2024 þegar uppfærð gögn berast frá Hagstofu Íslands um fjölda barna á lágtekjuheimilum vegna tekna ársins 2022 og uppfærslu á fjölda barna með stuðning í leik- og grunnskólum.

Hæsta framlagið fær Reykjavíkurborg 405 m.kr., þá Kópavogur 103 m.kr. og Hafnarfjarðarkaupstaður 93 m.kr. Garðabær og Akureyri fá 45 m.kr. hvort sveitarfélag.

Til sveitarfélaga á Vestfjörðum er úthlutað 21,3 m.kr. sem skiptist þannig milli þeirra:

Lög um samþætting þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt í júní 2021 og segir í fyrstu grein laganna að lögum þessum er ætlað að stuðla að farsæld barna og að meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Um ábyrgð ráðherra segir að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þjónustu í þágu farsældar barna skulu vinna með virkum hætti að markmiðum laga þessara. Þá skuli sveitarfélög skipa svæðisbundin farsældarráð sem eru vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna.

Barna- og fjölskyldustofu er falin verkefni á þessu svo svo og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Ísafjörður: dregið verði úr notkun atvinnuhúsnæðis á Seljalandshlíð

Í skýrslu Veðurstofu Íslands frá október 2023 um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi er fjallað m.a.um svæðið frá Seljalandi í Skutulsfirði út að Gleiðarhjalla. Um það segir að fjórir megin snjóflóðafarvegir séu á svæðinu. Karlsárgil, Grænagarðsgil, Hrafnagil og Steiniðjugil. „Fjöldi snjóflóða hefur fallið úr giljunum og mörg þeirra valdið tjóni. Allt svæðið er á hættusvæði C og liggur C-línan langt út í sjó. Snjóflóðahætta er ráðandi á svæðinu.“

Neðan og utan við Grænagarð er atvinnusvæði. Þar eru þrjú hús, netaverkstæði, skrifstofuhúsnæði og sorpflokkunarstöð þar sem áður var steypustöð (Steiniðjan). Svæðið er allt á sama rýmingarreit og er hann meðal þeirra reita sem oftast eru rýmdir á Íslandi og mörg snjóflóð hafa fallið á eða að Steiniðjunni.

Til að vera það atvinnusvæði var skoðað að reisa tvo 450 m langa leiðigarða af gerð I. Vestari yrði 8–15 m hár en sá eystri 8–12 m. Kostnaður við þá er metinn 1–2 milljarðar , sem er umfram brunabótamat eignanna sem nemur 600 m.kr. segir í skýrslunni.

Varðandi Steiniðjuni var athugað að gera jarðvegsgarð upp við skemmuna í þyrpingunni og verja hana. „Garðurinn gæti varið húsið gegn hönnunarflóði en myndi ekki stöðva það. Athafnasvæðið við húsið væri því ekki varið. Kostnaður við slíkan garð er gróft metið 50—100 m.kr.“

Lokaorðin um þetta svæði eru: „Allt svæðið er á hættusvæði þar sem C-línan nær langt út í sjó. Rýmingar eru tíðar og snjóflóð úr farvegunum ofan við húsin eru einnig tíð. Erfitt og dýrt er að koma við vörnum fyrir húsin öll. En mögulegt er að verja Steiniðjuna með punktvörn en ekki atvinnusvæðið við húsið. Það
besta í stöðunni er að reyna að draga úr notkun annara húsa og svæðisins þegar til lengri tíma er litið.“

Nýjustu fréttir