Sunnudagur 15. september 2024
Síða 180

Ísafjarðarbær: þrjár umsóknir um styrk vegna þorrablóts

Félagsheimilið í Hnífsdal.

Þrjú erindi um styrk vegna þorrablótshalds voru lögð fyrir bæjarráð á mánudaginn.

Kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal óskaði eftir styrk vegna leigu á stólum sem nota á á þorrablóti Hnífsdælinga. Stólarnir eru í eigu Ísafjarðarbæjar og skv. gjaldskrá kostar kr. 26.240 að leigja allt að 100 stóla. Jafnframt er óskað eftir að fá aðstoð frá áhaldahúsinu við að flytja stólana á milli en áætlaður kostnaður við það er kr.29.960 en þá er gert ráð fyrir að tveir starfsmenn vinni í 2 klst. við að flytja stólana á milli. Samtals yrði þetta styrkur upp á kr.56.200.

Segir í erindi Hvatar að kvenfélagið sé líknarfélag, sem er eingöngu rekið í því skyni að safna fé til að styðja og styrkja við fólk og málefni sem þarf á því að halda. Því er óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til að mæta þessum kostnaði.

Vísað er í styrkveitingu bæjarráðs til Stútungs, þorrablóts á Flateyri og segir svo: „Viðburðirnir eru sambærilegir, haldnir í sama sveitarfélagi með sama megintilgang, opin skemmtun fyrir fólk á svæðinu þar sem allir eru velkomnir. Þorrablót Hnífsdælinga er eini fasti viðburðurinn sem haldinn er í Hnífsdal árlega og því er ekki mikið um tækifæri til að styrkja menningarlíf í Hnífsdal utan þessa Þorrablóts.“

Þorrablótsnefnd Súgfirðinga sækir um 200.000 kr. styrk fyrir leigu á Félagsheimili Súgfirðinga.

Þriðja erindið er frá þorrablótsnefnd Önundarfjarðar við Holtsblót 2024 og er sótt um styrk að upphæð 150.000 kr fyrir leigu á aðstöðu í Holt-inn.

Bæjarráðið afgreiddi öll þrjú erindin á sama veg og bókaði að bæjarstjóra væri „falið að ræða við umsækjendur um málið með hliðsjón af umræðum á fundinum og jafnframt að endurskoða aðkomu bæjarins að þorrablótshaldi og öðrum fullorðinsskemmtunum í sveitarfélaginu, og leggja drög að reglum fyrir bæjarráð til samþykktar.“

Ekki er nánari upplýsingar veittar um hvað felst í þessari afgreiðslu.

Í síðustu viku samþykkti bæjarráðið að styrkja Stútung, þorrablótið á Flateyri um 284.010 kr. auk kostnaðar við flutning á búnaði sem metinn er 50 – 60 þúsund kr.

Verknámshús M.Í. : Súðavík og Ísafjarðarbær verða með

Menntaskólinn á Ísafirði.

Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær hafa ákveðið að taka þátt í byggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Kaldrananeshreppur verður ekki aðili að samningi sveitarfélaganna á Vestfjörðum við ríkið.

Önnur sveitarfélög hafa ekki afgreitt erindi Vestfjarðastofu, sem annast milligöngu í málinu.

Bæjaráð Ísafjarðarbæjar bókaði 15. janúar sl. að það fagnaði því að umræða um nýtt verkmenntahús væri komin á skrið og fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Vestfjarðastofu og Samband íslenskra sveitarfélaga vegna málsins. Á mánudaginn var málið aftur á dagskrá og voru lagðar fram upplýsingar frá mennta- og barnamálaráðuneyti um lauslega kostnaðardreifingu sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Bæjarráðið bókaði samhljóða að vonast væri til samstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði enda um ríkt hagsmunamál svæðisins að ræða.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær verði með í byggingunni.

Málið var rætt i bæjarráði í Bolungavík í síðustu viku og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagðist eiga von á því að ákvörðun yrði tekin í næstu viku.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð sagðist gera ráð fyrir að beiðni Vestfjarðastofu verði tekin fyrir á næsta fundi bæjarráðs sem er í næstu viku. Erindið var lagt fram á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps í síðustu viku, en ekkert bókað um afstöðu til þess.

Árneshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur hafa ekki enn tekið málið fyrir.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna
samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Uppfært kl 10:17: Gylfi Ólafsson,formaður bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær verði með í byggingunni og hefur fréttinni og fyrirsögn hennar verið breytt til samræmis við það.

Súðavíkurhlíð verður lokað í kvöld

Lögreglan á Vestfjörðum hefur tilkynnt að af öryggisástæðum hafi lögregla og Vegagerð ákveðið að loka veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur kl.23:00 í kvöld. Gert er ráð fyrir því að opnað verði fyrir umferð um veginn snemma í fyrramálið, ef allt fer að óskum. Snjóflóðahætta hefur verið að aukast ofan vegarins.

Nánari upplýsingar um opnun má finna á vefsíðunni umferðin.is eða í upplýsimgasímann 1777.

Verði einhver vegfarandi innlyksa í Súðavík er honum boðið að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í gegnum Neyðarlínuna (112).

Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar

Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, (1930) var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna í 140 ár. 

Dagurinn hefur fest sig í sessi undanfarin ár og er hans nú getið á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum. Kvenfélagasamband Íslands í samstarfi við RÚV og sveitarfélögin í landinu minnir á og vekur athygli á deginum í fjölmiðlum.

Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.
Ekki er ætlast til þess af kvenfélagskonum að þær standi sjálfar að hátíðahöldum þennan hátíðisdag.
Mörg kvenfélög minnast dagsins þó með ýmsum hætti og er það auglýst innan kvenfélaganna og héraðssambanda þeirra.

Og þannig er það í Reykhólahreppi þar býður stjórn Kvenfélagsins Kötlu kvenfélagskonum og öðrum íbúum Reykhólahrepps í kaffi í Reykhólabúðinni, fimmtudaginn 1. febrúar á milli kl. 17 – 19.

Rafbílastyrkur Orkusjóðs

Um áramótin voru felldar úr gildi skattaívilnanir vegna rafbíla. Í staðinn var tekið upp kerfi þar sem veittur er 900.000 kr. styrkur úr Orkusjóði þegar keyptur er rafbíll sem kostar 10 milljónir eða minna.

Styrkurinn er í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hann er greiddur til eiganda bílsins samkvæmt ökutækjaskrá.

Styrkurinn nær til:

  • fólksbíla sem taka að hámarki 8 farþega (flokkur M1)
  • sendibíla að hámarki 3.5 tonn að þyngd (flokkur N1)

Bílarnir þurfa að:

  • vera nýskráðir á Íslandi eftir 1. janúar 2024
  • kosta minna en 10 milljónir
  • vera losunarfrí ökutæki með engan útblástur

Undir það falla:

  • rafmagnsbílar sem eru 100% knúnir rafmagni
  • vetnisbílar með efnarafal


Kaup á ökutækjum í öðrum flokkum verða styrkt í gegnum sérstaka umsóknarferla og úthlutanir úr samkeppnissjóði á vegum Orkusjóðs.

Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna.

Vetrarólympíuleikar ungmenna í Gangwon

Í morgun, 30. janúar,  kepptu þau Hjalti Böðvarsson og María Kristín Ólafsdóttir í 7,5 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð (Classic) á Vetrarólympíuleikum ungmenna í Gangwon, Suður-Kóreu. Aðstæður til keppni voru frábærar, heiðskírt, stilla og hiti við frostmark.

Okkar fólk stóð sig vel í göngunni. María Kristín náði 54. sæti af 76 keppendum sem luku keppni og Hjalti náði 44. sæti af 78 keppendum. Þau luku þar með keppni á leikunum og var þetta síðata keppnisgrein íslenska hópsins, sem leggur af stað heim á leið á morgun.

Hópurinn er ánægður með dvölina í Kóreu enda allur aðbúnaður og aðstæður eins og best verður á kosið, bæði í þorpunum þar sem hópurinn dvaldi og á keppnissvæðunum.

Brynja Guðjónsdóttir, aðalfararstjóri: „Við erum stolt af íslensku keppendunum og þeirra föruneyti á leikunum. Þau hafa staðið sig vel í keppni og ekki síður verið virkir þátttakendur í því sem leikarnir hafa upp á að bjóða en á Vetrarólympíuleikum ungmenna er einnig lögð áhersla á þau jákvæðu áhrif sem þátttaka í íþróttum hefur á samfélög, mikilvægi hreyfingar í lífi fólks og félagslegu hliðina. Það er ótrúleg reynsla að taka þátt í viðburði af þessari stærð og máta sig inn í bestu aðstæður í keppni, með jafnöldrum frá öllum heimshornum. Það hefur verið hugsað vel um okkur hér í Suður-Kóreu og við komum öll heim reynslunni ríkari, með skemmtilegar minningar í farteskinu.“

Hver verður Landstólpinn 2024

Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, er viðurkenning sem Byggðastofnun veitir árlega á ársfundi sínum. Um er að ræða hvatningarverðlaun til einstaklinga, fyrirtækja, hópa eða verkefna sem vakið hafa athygli á byggðamálum, styrkt samfélög í landsbyggðunum eða stuðlað að framgangi málefna landsbyggðanna, ýmist í heild eða innan tiltekins byggðarlags, s.s. innan nýsköpunar, byggðaþróunar, atvinnuþróunar, sjálfbærni eða menningar.

Byggðastofnun óskar eftirtilnefningu um handhafa Landstólpans 2024. Dómnefnd velur úr þeim tillögum sem berast.

Hafa má í huga hvort viðkomandi einstaklingur, hópur, fyrirtæki eða verkefni hafi:

  • Stuðlað að jákvæðri og sterkri ímynd landsbyggðanna eða tiltekins svæðis
  • Vakið athygli og aukið umfjöllun um ákveðið svæði eða málefni innan landsbyggðanna
  • Styrkt nærumhverfið, ýmist með aukinni samstöðu íbúa, atvinnutækifærum, aukinni afþreyingu, menningu, þjónustu, verðmætasköpun eða tækifærum af öðru tagi
  • Aukið virkni íbúa og fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
  • Stuðlað að jákvæðum áhrifum efnahags-, samfélags- og/eða umhverfislegra þátta

Ekki er nauðsynlegt að öllum þessum atriðum sé fylgt eftir, heldur séu þau höfð til hliðsjónar. Nauðsynlegt er að rökstuðningur fylgi tilnefningunni.

Viðurkenningunni fylgir listmunur hannaður af íslenskum listamanni.

Verðlaunafé að upphæð kr. 1.000.000.- fylgir einnig viðurkenningunni.

Bolungavík: endurreisn gamallar byggðar

Anastasia með líkanið. Myndir:aðsendar.

Í undirbúningi er í Bolungavík endurreisn horfinnar byggðar á Hafnargötu í smækkaðri mynd. unnið er að stofnun félags sem mun heita; Vinir Þuríðar í Vatnsnesi, og mun það væntanlega halda utan um verkefnið og aðra menningartengda uppbyggingu. Það eru Björgvin Bjarnason og Ómar Dagbjartsson sem eru í forsvari fyrir hópnum. Ætlunin er að safna fé í sjóð sem standi straum af kostnaði. Bolungarvíkurkaupstaður mun alfarið halda utan um þann sjóð sem safnast í til að vinna þetta verk. 

Þrennt ýtir verkefninu af stað. Í Bolungavík býr listakonan og hönnuðurinn Anastasija Voloschenko sem er með meistaragráðu í 3D-tækni. Þá er verið að hanna sjóminjasafn sem til stendur að reisa við hliðina á Ósvör. Það er rétti staðurinn fyrir slíkt líkan og þyrfti að hanna safnið með tilliti til þess. Loks má nefna að á þessu ári á Bolungarvík 50 ára kaupstaðarafmæli.

Meðfylgjandi  mynd af líkani Anastasiju af Eyfirðingabúð gefur innsýn í útfærsluna. Hún hyggst gera slík líkön af öllum húsunum sem stóðu við Hafnargötu snemma á 20. öldinni (væntanlega 1920). Lengd strandlengju og stærð húsanna yrði valin samkvæmt því rými sem væntanlegt sjónminjasafn gæti veitt.  Módelið – húsin, strandlengjan og brimbrjóturinn – verður „snertanlegt“. Svæðið þar fyrir ofan, þar með talin fjallasýnin, verður sýnt í sýndarveruleika.

Líkan af Eyfirðingabúð.

Gömul mynd af Eyfirðingabúðum, sem voru rifnar fyrir allnokkru.

Eyfirðingarbúðir.








Vegagerðin um dýpkun : engir losunarstaðir klárir í upphafi

Dýpkunarskipið Álfsnes hét áður Gigante.

Dýpkunarframkvæmdir í Sundahöfn byggðu á því, þegar verkið var skipulagt, að losa alls 500 þús. m3 á þremur losunarstöðum. Verkið er styrkhæft í gegnum Hafnabótasjóð fyrir 60 prósentum af heildarkostnaði. Vegagerðin er með umsjón fyrir hönd ríkissjóðs. Í útboði var gert ráð fyrir að losunarstaðir væru klárir í maí 2022. Enginn þeirra var þá tilbúinn, en um haustið var hægt að losa á tveimur stöðum af þessum þremur.

Þetta kemur fram í svörum Vegagerðarinnar við viðbrögðum Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ sem sagði að dýpkunarskipið hefði fyrst komið þegar dúpkun átti að vera lokið

Þá segir Vegagerðin. „Útboðið hafði hins vegar miðast við að verktakinn gæti hafið dýpkun fyrr og þess vegna verið búinn að ljúka því verki nógu snemma til að gera farið í önnur verk. En Vegagerðin hafði einmitt samið við verktakann um dýpkun í Landeyjahöfn þetta haust og ekki annað mögulegt en að verktakinn færi til þess verks. Enda sá tími sem hann ætlaði að vinna í Sundahöfn samkvæmt útboðinu liðinn.

Verktakinn hefur síðan unnið að þessu verki frá vetrinum fyrri hluta árs 2023 með hléum. Í júní í fyrra var sótt um leyfi fyrir frekari urðun efnis en það erindi um losun er enn til afgreiðslu hjá Umhverfisstofnun.

Þannig að tafir í upphafi fyrirhugaðs verktíma hafa leitt til þeirrar keðjuverkunar að verkinu er ekki lokið. Rétt þó að minna á að samkvæmt samgönguáætlun á verkinu ekki að vera lokið fyrr en núna á nýbyrjuðu ári.

Dýpið hefur nægt fyrir skemmtiferðaskip með allt að 8 m djúpristu til að leggjast að bryggju en ekki þau stærstu sem rista 9,5 m. Ötullega er unnið að því að dýpka í Sundahöfn.“

Verknámshús M.Í : Súðavík stendur að byggingunni

Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Sveitarstjórn Súðavikurhrepps samþykkti á fundi sínum á föstudaginn að standa að uppbyggingu verknámshúss Menntaskólans á Ísafirði jafnvel þótt aðeins sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum standi að því.

Fyrir liggja drög að samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um byggingu 850 fermetra verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði 60% kostnaðar en sveitarfélögin 40%.

Áætlaður kostnaður viðhúsið er 477 – 715 m.kr. og 40% hlutur sveitarfélaganna á Vestfjörðum því 191 – 286 m.kr.

Hlutur Súðavíkur er 6 – 9 m.kr. miðað við að öll sveitarfélögin verði þátttakendur og skipti á milli sín 40% kostnaðarhlutnum. Verði aðeins sveitarfélögin við Djúp aðilar að samningnum má ætla að hlutur Súðavíkur verði á bilinu 9 – 13 m.kr.

Nýjustu fréttir