Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 18

Teitur Björn: hárrétt að kjósa

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm. (D) segir það hárrétta ákvörðun hjá forsætisráðherra að leggja til þingrof og þar með að boðað verði til kosninga.

„Ég hef frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári haft áhyggjur af afstöðu VG til atvinnu fólks og grundvallarréttinda og nú er það ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki sætta sig við kyrrstöðu í mikilvægum efnahagsmálum, sem varða störf fólks og kjör þess til framtíðar litið, gríðarlega miklu. Til að mynda er ekki boðlegt að ríkisstjórn geti ekki náð saman um frekari orkuöflun í landinu eða náð saman um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis eða mikilvægi sjávarútvegsins. Lengra var því ekki komist og því er það eina rétta í stöðunni að leggja þessi mikilvægu mál í dóm kjósenda.“

Um hvað verður kosið?

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur verk sín stoltur í dóm kjósenda enda hefur náðst verulegur árangur í efnahags- og atvinnumálum síðustu ár þrátt fyrir margvísleg ytri áföll og áskoranir. En nú er verkefnið annað og kosningarnar munu fyrst og fremst snúast um framtíðina og hvernig kjör fólks geta haldið áfram að batna, hvernig við nýtum sem best tækifærin til að skapa góð og verðmæt störf, til að mynda í fiskeldi og ferðaþjónustu. En til þess þarf græna orku og samkeppnishæft skattaumhverfi og regluverk.“

Hvað fyrir Vestfirðinga?

„Fyrir Vestfirðinga skiptir mestu máli að í landinu séu stjórnvöld sem skilji bæði mikilvægi þess að fjórðungurinn fái að vaxa og dafna áfram á sínum forsendum og leggi uppbyggingunni beint lið með því að setja alvöru kraft í samgönguframkvæmdir og orkuöflun í fjórðungnum og fyrir því mun ég áfram berjast.

Ég hef ekki legið á þeim skoðunum mínum að tafir og frestun á mikilvægum samgöngubótum á Vestfjörðum eru með öllu óboðlegar og hef gagnrýnt innviðaráðherra fyrir að ekki hafi verið staðið við margítrekuð loforð um fjármögnun og áætlanir um verklok eins og til dæmis í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði.

Ég hef eins verið þeirrar skoðunar að Vestfirðingar verði að nýta alla þá kosti sem eru á borðinu til orkuöflunar og styrkingar á raforkukerfinu. Hvalárvirkjun og efling flutningskerfisins frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun eru afar mikilvægar framkvæmdir en ég tel að Vatnsdalsvirkjun verði líka að verða að veruleika til þess að Vestfirðingar geti nýtt öll tækifærin sem til eru til að efla byggðirnar og bæta lífskjör fólks. Tækifærin eru sannarlega til staðar og til framtíðar litið mun gott aðgengi að raforku skipta lykilmáli hvernig til tekst.“          

Metmæting á opnun PIFF

Fjöldi fólks sótti opnun PIFF kvikmyndahátíðarinnar í Ísafjarðarbíói í gær. Pigeon International Film Festival er nú haldin í fjórða sinn og stendur yfir í fjóra daga. Fara sýningar fram bæði á Ísafirði og í Súðavík. Óhætt er að segja að hátíðin sé búin að festa sig í sessi miðað við fjölda gesta en metmæting var á opnunina. Fyrsta sýning hátíðarinnar var heimildarmyndin Afsakið meðan ég æli eftir Ísfirðinginn Spessa sem sagði frá myndinni bæði fyrir og eftir sýninguna í spjalli við rithöfundinn Eirík Örn Norðdahl.

Hátt í 40 myndir verða sýndar í ár. Þar af tólf stuttmyndir, fimm heimildarmyndir, sex teiknimyndir, fimm nemendamyndir og tíu kvikmyndir í fullri lengd. Sýningar fara svo fram á Ísafirði og í Súðavík frá fimmtudegi til sunnudags – og ættu allir kvikmyndaunnendur að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allt frá íslensku morðgátunni Eftirleikir og sannsögulega pólska njósnadramanu Doppelganger til indversku barnamyndarinnar Return of the Jungle.

Um 30 erlendir gestir hafa komið víðs vegar að til að fylgja myndu sínum eftir. Einn þeirra er John Farelly, leikstjóri fyrstu hrollvekjunnar sem fer fram á gaelísku. „Við erum sérstaklega ánægð með að vera hluti af PIFF vegna hollustu hátíðarinnar við að sýna kvikmyndir sem þrýsta á mörk og kanna nýjar frásagnir. Einstök umgjörð Ísafjarðar og orðspor hátíðarinnar fyrir að hlúa að innilegu og grípandi andrúmslofti gera hana að fullkomnum stað til að sýna An Taibhse,“ segir hann.

Dagskránni lýkur svo með verðlaunahátíð á sunnudagskvöld sem streymt verður í beinni útsendingu út um allan heim. Nánari upplýsingar er að finna á piff.is

Landsbjörg: áframhald tryggt á smíði björgunarskipa

Við setningu Björgunar í gær var fjórða björgunarskip sem Slysavarnafélagið Landsbjörg lætur smíða í Finnlandi afhent formlega.

Forstjóri Kewatec, finnsku skipasmíðastöðvarinnar, afhenti Borghildi Fjólu Kristjánsdóttur formanni félagsins björgunarskipið Björg formlega. Við sama tilefni tilkynnti Jón Gunnarson, formaður ráðgjafarhóps  um endurnýjun björgunarskipa, að fjármögnun lægi fyrir sem tryggði að raðsmíðaverkefni félagsins heldur áfram. Í dag var svo skrifað undir samning um smíði fimmta skipsins, sem verður staðsett á Höfn í Hornafirði.

Það voru útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson sem lagði verkefninu til 50 milljónir og Hvalur hf með aðrar 50 milljónir, sem tryggðu um tíma, áframhald verkefnisins. Guðmundur og Kristján Loftsson voru báðir viðstaddir athöfnina ásamt Hermanni Björnssyni forstjóra Sjóva, sem hafði þegar styrkt félagið um 142 milljónir, og fulltrúum frá útgerðarfyrirtækinu Skinney Þinganes á Höfn, sem hefur stutt afar vel við starf Björgunarfélags Hornafjarðar í gegnum tíðina, og lagt fram rausnarlegt framlag til styrktar endurnýjunar björgunarskipsins Ingibjargar.

Auk þessara fyrirtækja hefur Ísfélagið í Vestmannaeyjum og Rammi hf á Siglufirði, stutt við endurnýjun skipa í þeirra heimabyggð.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu málið hafi verið rætt í ríkisstjórn í morgun og ríkur vilji væri til að þetta verkefni gengi snurðulaust áfram og fullvissaði viðstadda að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að ríkið stæði ekki við sinn hlut. Áður hefur komið fram að sökum verðlagsþróunar hefur verð skipanna hækkað.

Bjarni sagði ýmsar áskoranir væru til staðar, en leyst yrði úr þeim og að verkefnið nyti almenns stuðnings á Alþingi og hlaut mikið lófatak ráðstefnugesta fyrir.

Enn er þó nokkuð í land að verkefnið sé full fjármagnað og þar með smíði sjötta skipsins, en samtal er í gangi við meðal annars útgerðina á vettvangi SFS og fleiri stærri fyrirtækja í landinu um myndarlega aðkomu þeirra að fjármögnun þeirra skipa sem út af standa.

Björgunarskipið Björg mun verða gestum Björgunar til sýnis fram á sunnudag, en halda þá til heimahafnar á Rifi, þar sem heimamenn hafa blásið til hátíðar af því tilefni. Áætlað er að ný Björg muni renna inn í höfn á Rifi klukkan 18:00 á sunnudagskvöld.

Myndir: Landsbjörg.

Frí menning í boði á PIFF

Fjórar kvikmyndir og tveir stuttmyndapakkar eru á dagskrá PIFF í dag og fara sýningar fram bæði í Súðavík og á Ísafirði. Kvikmyndaunnendur ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dobbleganger eftir leikstjórann Jan Holoubek sem byggir á sannri sögu njósnara í Þýskalandi. Jan ætti að vera PIFF-gestum kunnugur en mynd hans 25 years of Innocence vann þó nokkur verðlaun á PIFF árið 2022 þar á meðal fyrir bestu mynd hátíðarinnar. Einnig er að finna á dagskránni kanadískt fjölskyldudrama, pólska hryllingssögua af nútímamanni í starfsleit að loknu námi og íranska spennusögu sem fjallar um afleiðingar af óvæntu dauðsfalli um borð í rútu fullri af ókunnugum ferðalöngum.

Ýmissa grasa kennir í stuttmyndum dagsins eins og alíslenskan pakka af margs konar myndum  og  spænska mynd um Melrakkasetrið í Súðavík. Þá munu þó nokkrir kvikmyndagerðarmenn sitja fyrir svörum úr sal að sýningum loknum. Nánari upplýsingar um myndirnar, sýningartíma og –staði er að finna á piff.is.

Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar. „Þökk sé okkar frábæru styrktaraðilum þá er hátíðin algjörlega frí, “ segir Fjölnir Baldursson, hátíðarstjórnandi. Þetta er hægt með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvarinnar, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar og fjölda fyrirtækja í heimabyggð að ógleymdu Ísafjarðarbíói. Menningu er erfitt að byggja upp án fjárstuðnings fyrirtækja í heimabyggð – og án menningar væri erfitt að halda uppi byggð á Vestfjörðum. Við hjá PIFF erum því afar þakklát fyrir stuðninginn.“

Arðsemi vetrarþjónustu

Fyrsti vetrardagur er að nálgast, þótt haustið hafi verið milt þá eru veðurspárnar farnar að boða breytta tíma.

Okkur hefur auðnast að byggja upp, á köflum, ágætt vegakerfi um landið. Þjóðvegakerfið á Íslandi er um 13.000 km. Það er baráttumál íbúa allra landshluta að byggja upp traust og örugg samgöngumannvirki, en hvað þarf til að þau virki sem slík allt árið um kring? Jú, það er öflug vetrarþjónusta.

Breytt samfélag

Það er mikil umferð um vegi landsins allt árið um kring og vetrarþjónusta á vegum landsins er því alltaf að verða mikilvægari. Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru hér um aldamótin. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.

Snjómokstursreglur

Snjómokstursreglur Vegagerðarinnar eru frá árinu 2011. Það hefur margt gerst í lífi þjóðarinnar frá þeim tíma, ferðaþjónusta og fiskeldi, samfélög hafa sameinast og vegaumbætur hafa orðið víða. Þó að snjómokstursreglur hafi verið uppfærðar að hluta á sumum stöðum hefur heildarendurskoðun ekki farið fram.

Styttri opnunartími getur hamlað uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga og samkeppnishæfni sveitarfélaga veikist. Það munar nokkuð á milli landshluta þegar litið er til þjónustutíma. Ef við horfum til Vestfjarða þá hefur uppbygging stofnvega verið umtalsverð síðasta áratug, fiskeldi og ferðaþjónusta sívaxandi en þjónustutími vetrarþjónustu ekki fylgt sömu þróun. Þeir sem búa eða eiga erindi á sunnan- og norðanverða Vestfirði þurfa að sætta sig við töluvert skemmri þjónustutíma heldur en íbúar fyrir norðan og á austanverðu landinu.

Við tölum um kostnað á vetrarþjónustu og kostnaðurinn fari vaxandi, 5-6 milljarðar króna er há tala og vissulega erfitt að áætla þennan kostnað og á meðan við höfum sett okkur markmið og vetrarþjónustureglur þá getur sá kostnaður sveiflast.

Ávinningur vetrarþjónustu

Við getum litið á vegakerfið sem æðakerfi landsins, sem ber næringu og orku til og frá byggðarlögum landsins, þar sem samfélagið er undir. Helstu stoðir íslensks efnahagslífs renna líka eftir vegakerfi landsins, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og fiskeldi. Allar tafir á því rennsli er hreint tekjutap fyrir þjóðina og þau byggðarlög sem búa ekki við öruggar samgöngur allt árið um kring missa afl.

Nú er veturinn á næsta leiti og þegar áætlað fjármagn í vetrarþjónustu er reiknað út verðum við að taka inn þann ávinning sem sú þjónusta skilar í þjóðarbúið. Þá getum við verið sannfærð um að aftur komi vor í dal. 

Megi veturinn verða mildur og miskunnsamur

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar

Strandabyggð – Sveitarstjórn einhuga um niðurstöðu minnisblaðs KPMG

Áður hef ég fjallað um fyrsta dagskrárlið sveitarstjórnarfundar 1369 í Strandabyggð sem fram fór 8. október sl. Dagskrárliður númer fjögur var ekki síður áhugaverður.  Fjallað var um minnisblað KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdra stofnana/fyrirtækja.

Þorgeir Pálsson vék af fundi undir þessum lið og varamaður T lista, Grettir Örn Ásmundarson tók sæti á fundinum. Fulltrúar T lista lögðu fram bókun þar sem ekki er tekin afstaða til efnis minnsblaðs KPMG og ekki er talið tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu sveitarstjórnar. Sjá fundargerð hér.

Í kjölfarið leggja fulltrúar A lista fram eftirfarandi bókun:

„Við fögnum niðurstöðu í Minnisblaði KPMG um greiðslur til Jóns Jónssonar og tengdra stofnanna og fyrirtækja. Við hörmum að til þessarrar úttekar hafi þurft að koma. Í úttekinni er Jón hreinsaður af öllum ásökunum oddvita Strandabyggðar, Þorgeirs Pálssonar og eiginkonu hans, Hrafnhildar Skúladóttur. Þessi niðurstaða staðfestir það sem áður hafði komið fram m.a. í stjórnsýsluskoðun sem gerð er samhliða endurskoðun reikninga Strandabyggðar. Við sjáum ekki annað í stöðunni en að þau hjón biðjist afsökunar á röngum ásökunum á hendur Jóni Jónssyni og hvetjum þau eindregið til að gera það.“

Bókun A lista gengur alla leið í að staðfesta skilning sveitarstjórnar á niðurstöðu minnisblaðsins og jafnframt er staðfest álit sveitarstjórnar að Jón Jónsson sé hreinsaður af öllum ásökunum Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur. Auk þess eru þau hjón hvött til að  biðjast afsökunar á röngum ásökunum á hendur Jóni Jónssyni.

Það sem nú gerist er að allir fulltrúar T lista, Óskar Hafsteinn Halldórsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson taka heilshugar undir bókun A-lista og er þar með sveitarstjórn öll sammála í túlkun sinni á niðurstöðum minnisblaðs KPMG og hvað þurfi að aðhafast í kjölfarið.

Nú þykir mér tíra! Erum við að sjá hnökra í meirihlutasamstarfi T listans? Að minnsta kosti horfa málin þannig við þegar þessi atburðarrás er skoðuð. Sá grunur gæti læðst að manni að bókun T listans hafi verið runnin undan rifjum Þorgeirs sjálfs, enda orðalgið þannig að hún valdi honum sem minnstum óþægindum. Svo þegar Þorgeir er ekki til staðar (hann vék af fundi undir þessum lið) og aðrir fulltrúar tjá sig frjálst og óhindrað, þá kemur þeirra afstaða í ljós og þau eru sammála fulltrúum A listans.

Þessu ber að fagna. Kannski er viðsnúningur framundan og vonandii sjá fulltrúar T listans sem tóku þátt í þessari afgreiðslu, sér leik á borði að ræða nánar við fulltrúa A listans um frekara samstarf og samvinnu í stjórn sveitarfélagsins. Mig grunar líka að þau hafi ekki verið sátt við ósannindi og ásakanir sem Þorgeir og Hrafnhildur hafa borið á Jón Jónsson og ömurlegt að vera undir sömu sök seldur þegar það er ekki manns raunverulega afstaða.

Með von um bjartari daga,

Andrea K Jónsdóttir, athafnakona

Spilkoppur frá Þingeyri

Spilkoppur, grár á litinn, en á hann hefur verið skrifað með tússpenna: „Versl. Sig Fanndal Siglufirði“ og var hann til sölu í Veiðarfæraverzlun Sigurðar Fanndal.

Skv. viðtali við Sigurð Fanndal (02.10.1942) var þessi spilkoppur framleiddur á Þingeyri af Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar – en sú vélsmiðja hóf starfsemi undir nafni Guðmundar árið 1927.

Í dag (2023) er Vélsmiðjan varðveitt af Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði.

Spilkoppar voru notaðir til að draga inn net og annað skv. Sigurði.

Gripurinn kemur af lager Veiðarfæraverzlunar Sigurðar Fanndal sem var staðsett að Eyrargötu 2 á Siglufirði og stofnuð árið 1921, þá sem matvöruverslun. Stofnandi verslunarinnar var Sigurður Jóhann Sveinsson Fanndal (06.04.1876 – 14.10.1937). Georg Fanndal (13.07.1917 – 12.01.1970), sonur hans tók við búðinni við andlát föður síns, en um ári fyrir andlát hans hafði versluninni verið breytt úr matvöruverslun í veiðarfæraverslun. Sigurður Fanndal (02.10.1942), bróðursonur Georgs, tók við versluninni við andlát Georgs árið 1970, en þar hafði hann starfað sem sendill og aðstoðarmaður frá 12 ára aldri, og rak þar Veiðarfæraverzlun Sigurðar Fanndal allt til að henni var lokað árið 1997.

Af vefsíðunni sarpur.is

Verkfall í Tónlistarskóla Ísafjarðar

100% félagsmanna Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) sem starfa í Tónlistarskóla Ísafjarðar samþykktu verkfallsaðgerðir segir í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.

Kjörsókn var rúmlega 83%. Þar með hefur verið boðað til verkfalls í níu skólum aðildarfélaga KÍ 29. október. Aðgerðirnar taka til allra skólagerða og -stiga.

Verkfall félagsmanna FT sem starfar í Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst 29. október og lýkur 20. desember, hafi samningar ekki náðst.

Verkföll eru áformuð 29. október í níu skólum; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla, hafi samningar ekki náðst.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudag og mætir þá viðræðunefnd Kennarasambandsins sem er skipuð formönnum aðildarfélaganna sjö og formanni KÍ, til fundar með samninganefndum sveitarfélaga og ríkisins.

Óstaðbundin opinber störf á landsbyggðinni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til að fjölga óstaðbundnum opinberum störfum á landsbyggðinni.

Ríkisstofnanir geta sótt um styrki til að ráða í óstaðbundin störf á þeirra vegum utan höfuðborgarsvæðisins. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra kynnti áform um úthlutunina fyrr í haust en veittar verða allt að 150 milljónir kr. í þessum tilgangi af byggðaáætlun.

Ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrkina vegna starfa utan svæðisins eða verða færð frá höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. nóvember 2024. Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Ekki verða veittir styrkir vegna tímabundinnar fjarvinnu eða blendingsstarfs, þ.e. starfs sem unnið er bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins.

Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári. Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.

Tufa og Vladan þjálfa hjá knattspyrnudeild Vestra

Vladimir Tufegdzic eða Tufa eins og hann er jafnan kallaður og Vladan Djogatovic hafa tekið til starfa hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar Vestra. Tufa mun þjálfa 2. og 3. flokk karla og mun Vladan vera honum til aðstoðar.

Einnig mun Vladan vera markmannsþjálfari yngri flokka en hann hefur verið markmannsþjálfari meistaraflokks karla á þessu tímabili.

Tufa hefur leikið með meistaraflokki karla hjá Vestra frá árinu 2020 og sannarlega verið frá fyrsta degi mikill og góður félagsmaður og lykilmaður innan sem utan vallar.

Eins og allir vita þá er Tufa gríðarlega reynslumikill leikmaður en hann hefur leikið á Íslandi frá árinu 2015 og þar áður í heimalandinu Serbíu í fjölmörg ár. 

Vladan hefur sömuleiðis komið sterkur inn í félagið og staðið sig vel í sínu hlutverki.

Nýjustu fréttir