Síða 18

Værum hluti af svari ESB innan þess

„Ég held að það sem við þurf­um að passa mest núna er að við lend­um ekki í svari Evr­ópu gagn­vart Banda­ríkj­un­um. Toll­arn­ir, eins og staðan er núna, eru ekki eins mik­il hætta frá Banda­ríkj­un­um eins og maður kannski upp­haf­lega hélt en auðvitað sér maður að það breyt­ist dag frá degi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is í morgun. Vísar hún þar til þeirra viðbragða Evrópusambandsins við hótun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, um að hækka tolla á vörur frá ríkjum sambandsins, að hóta því að svara einnig með tollahækkunum á bandarískar vörur.

Væri Ísland innan Evrópusambandsins beindust hótanir Trumps að okkur Íslendingum eins og öðrum ríkjum þess. Eins væru hótanir sambandsins settar fram í okkar nafni. Vegna þess að við erum utan Evrópusambandsins getum við hins vegar tekið sjálfstæðar ákvarðanir i þessum efnum í samræmi við hagsmuni okkar og þetta mál er auðvitað ekkert einsdæmi í þeim efnum. Valdið til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir skiptir vitanlega sköpum þegar kemur að því að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Bæði í stórum málum, eins og til dæmis Icesave-málinu á sínum tíma, sem og minni.

Með inngöngu í Evrópusambandið myndum við Íslendingar ekki hafa þetta vald lengur nema í mjög takmörkuðum og sífellt minnkandi mæli. Flestir málaflokkar ríkja sambandsins heyra undir valdsvið þess og vægi ríkjanna við ákvarðanatökur innan þess fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Innan Evrópusambandsins yrði Ísland fámennasta ríkið og með vægi eftir því. Hlutdeild okkar á þingi sambandsins yrði á við það að hafa hálfan þingmann á Alþingi og innan ráðherraráðs þess, valdamestu stofnunarinnar, allajafna á við einungis 5% af alþingismanni. Þetta yrði „sætið við borðið.“

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum)

Jens Garðar í framboð til varafomanns Sjálfstæðisflokksins

Jens Garðar Helgason, þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér til embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemu fram í fréttatilkynningu sem hann hefur sent frá sér.

Jens Garðar er nýkjörinn þingmaður en var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og sveitarstjórnarmaður í 12 ár. Hann hefur einnig gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum innan flokksins. Jens Garðar hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, var varaformaður Samtaka atvinnulífsins í fjögur ár og í framkvæmdastjórn samtakanna í sex ár.

„Framundan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar.
Kraftinn má ekki tjóðra niður með vantrú, óþarfa hindrunum, þunglamalegu regluverki eða með því að líta á atvinnulífið sem mjólkurkú fyrir hið opinbera.“ segir Jens í yfirlýsingu sem hann birti í dag.

Oddi styrkir kaup á nýju björgunarskipi fyrir sunnanverða Vestfirði um 30 m.kr.

Ólafur Haraldsson og Smári Gestsson stjórnarmenn Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandasýslu ásamt Skildi Pálmasyni framkvæmdastjóra Odda hf. Mynd:aðsend.

Útgerð Odda hf. á Patreksfirði hefur ákveðið að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um 30 milljónir til endurnýjunar á björgunarskipi fyrir svæðið. Hjá Odda hf. starfa 15 sjómenn og er því um að ræða upphæð sem samsvarar 2 milljónum á hvern sjómann.

,,Sjávarútvegsfélag eins og Oddi hf. byggir alla sína starfsemi á sjósókn þar sem sjómenn og skip félagsins eru í aðstæðum sem oft geta verið erfiðar. Það er okkur því gríðarlega mikilvægt að á svæðinu sé öflugt björgunarskip sem eykur öryggi sjómanna og hægt er að fá til aðstoðar þegar óhöpp eiga sér stað.

Í litlum sjávarplássum er mikilvægt að geta sýnt sterka samfélagslega ábyrgð og því er það með mikilli ánægju sem við í Odda hf. tökum þátt í þessu verkefni‘‘, segir Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf. sem vill hvetja önnur fyrirtæki sem byggja afkomu sína á starfi sjómanna, til að koma myndarlega að þessu mikilvæga verkefni.

Vesturbyggð: áhyggjur af ástandi vega

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um ástand vega. Samþykkt var eftirfarandi ályktun:

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi og viðhaldsleysi vega á Vestfjörðum og Vesturlandi. Nú er svo komið að þungatakmarkanir eru í gildi á vegum og hefur bæjarstjórn verulegar áhyggjur af því að þetta ástand verði viðvarandi. Það hefur alvarleg neikvæð áhrif á atvinnulíf og daglegt líf íbúa á svæðinu. Þessar takmarkanir hamla flutningi á vörum og þjónustu, sem leiðir til aukins kostnaðar fyrir fyrirtæki og skerðir samkeppnishæfni þeirra.

Samgöngur hafa löngum verið erfiðar á Vestfjörðum og sú staða sem nú er komin upp er með öllu óásættanleg. Slæmar samgöngur draga úr aðdráttarafli Vestfjarða fyrir ný fyrirtæki og fjárfestingu, en góðar samgöngur eru lykilatriði fyrir efnahagslega uppbyggingu og þróun atvinnulífs.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og fjármálaráðherra að forgangsraða endurbótum á vegakerfi Vestfjarða og Vesturlands. Nauðsynlegt er að tryggja viðeigandi fjármagn til reglubundins viðhalds og uppbyggingar samgöngumannvirkja.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur stjórnvöld til tafarlausra úrbóta.“

Fiskeldisgjald: ríflega tvöfaldaðist milli ára

Frá laxeldi í Patreksfirði. Sjókvíaeldið greiðir hæsta fiskeldisgjaldið.

Fiskeldisgjald, sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða í ríkissjóð, varð 1.471 m.kr. á síðasta ári. Það hækkaði um 129% frá árinu 2023, þegar það var 643 m.kr. Hækkunin milli ára er 828 m.kr.

Þetta kemur fram í yfirliti sem Fiskistofa hefur birt.

Fjögur eldisfyrirtæki á Vestfjörðum greiddu samtals 893 m.kr. eða nærri 61% alls gjaldsins. Það eru Arnarlax sem greiddi 442 m.kr., Arctic Fish með 197 m.kr., Háafell greiddi 251 m.kr. og Hábrún 3 m.kr.

Eitt fyrirtæki á Austfjörðum, Kaldvík, greiddi 578 m.kr.

2.760 m.kr. frá 2020

Fiskeldisgjaldið var fyrst innheimt fyrir framleiðslu ársins 2020 og greiddu fyrirtækin þá samtals 54 m.kr. Næsta ár þrefaldaðist innheimtan og varð 151 m.kr. Árið 2022 var greitt 441 m.kr. og 643 m.kr. árið 2023 og svo 1.471 m.kr. í fyrra eins og fyrr segir. Samtals hafa eldisfyrirtækin greitt 2.760 m.kr. á þessum fjórum árum.

Síðastliðin ára­mót hækkaði gjald á sjókvía­eldi um 19%. Fór gjald á lax úr 37,8 krón­um á kíló í 45,03 krón­ur og úr 18,9 krón­um á kíló fyr­ir regn­bogasil­ung og landeldislax í 22,52 krón­ur, en greitt er hálft gjald miðað við eldislax í sjókvíum.

Arnarlax og Aldan hefja þróunarsamstarf um nýsköpun í öryggisstjórnun fiskeldis í sjó

Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og nýsköpunarfyrirtækið Alda Öryggi hafa gengið til formlegs samstarfs um að innleiða Öldu öryggisstjórnunarkerfið um borð í alla þjónustubáta og fóðurpramma Arnarlax. Samstarfið markar tímamót í öryggismálum fiskeldisstarfsemi á sjó og er stórt skref í að efla öryggisstjórnun og öryggismenningu í greininni.

Með innleiðingu Öldu mun kerfið halda utan um nýliðaþjálfun, björgunaræfingar og reglubundnar öryggisúttektir um borð í þjónustubátum og fóðurprömmum Arnarlax. Jafnframt verður atvikaskráning sjómanna stafræn í gegnum ATVIK-sjómenn sem tryggir skilvirka greiningu og eftirfylgni öryggisatvika.

Arnarlax mun gegna lykilhlutverki í þróuninni með því að aðlaga Ölduna að öryggisáskorunum í fiskeldisstarfsemi á sjó. Sjómenn fyrirtækisins verða virkir þátttakendur í að móta og þróa lausnir sem mæta raunverulegum aðstæðum og þörfum þeirra. Slík nálgun er lykillinn að árangri í þróunarsamstarfinu þar sem öryggismál verða ríkari hluti af störfum sjómanna og efla öryggismenningu fyrirtækisins.

„Við erum afar spennt fyrir því að taka þátt í þessu þróunarverkefni með Öldunni. Öryggismál eru forgangsatriði hjá okkur og með þessari nýsköpun tryggjum við betri vinnuaðstæður og aukið öryggi fyrir okkar sjómenn,“ segir Silja Baldvinsdóttir gæðastjóri Arnarlax.

Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar tekur undir mikilvægi samstarfsins: „Við erum afar þakklát fyrir mikinn áhuga og frumkvæði Arnarlax á að þróa Ölduna enn frekar fyrir fiskeldisstarfsemi. Með virkri þátttöku sjómanna Arnarlax tryggjum við að kerfið verði að fullu aðlagað að raunverulegum starfsaðstæðum þeirra og stuðli að aukinni öryggisvitund með markvissri nýliðaþjálfun, öryggiseftirliti, björgunaræfingum sem stuðla enn betri öryggismenningu í fiskeldi í sjó.“

Með þessu samstarfi stíga Arnarlax og Aldan stórt skref í átt að nýsköpun á stafrænum öryggislausnum sem efla öryggi í íslenskri fiskeldisstarfsemi og marka ný viðmið fyrir framtíð greinarinnar.

Rétt eða rangt

Er fólk nokkuð búið að gleyma út á hvað sjávarútvegsstefna þjóðarinnar gengur og hvaða breytingar hún hefur haft í för með sér síðan hún var innleidd ?

Það er kannski ekki úr vegi að fara í smá upprifjun á mannamáli þar sem nú er tekist á um hagkvæmni strandveiða.

Einu sinni var líf og fjör við hafnir landsins – menn reru til fiskjar og lönduðu afla til fullvinnslu í heimabyggð. Í sjávarbyggðum landsins voru menn ánægðir með að vera þátttakendur í að afla þjóðarbúinu tekna og skapa atvinnu heima fyrir.

En svo var farið að tala um ofveiði – línubátarnir og trillukarlarnir voru að ganga að fiskistofnunum dauðum að sagt var og til að vernda þá var komið á kvótakerfi og togaraútgerð stórefld – kvóta var síðan úthlutað eftir umdeildum reglum endurgjaldslaust en gegn hóflegu auðlindagjaldi. Sumir fengu en aðrir ekki.

Það var svo með þetta kerfi eins og mörg önnur að það tók breytingum – ákveðið var einn daginn í „æðsta ráði“ að heimila kvótahöfum að leigja frá sér kvóta til þeirra sem áður höfðu ekki hlotið náð fyrir augum úthlutunarráðs – þannig að þá gátu þeir sem í upphafi fengu nánast ókeypis aðgang að fiskimiðunum farið að selja öðrum aðgang að þeim. Svo kom að því að kvótahöfum var leyft að veðsetja kvótann – það er að segja óveiddann fiskinn sem enn synti í sjónum. Vandséð hvernig sú ráðstöfun hefur átt að vernda fiskistofnana – svo fróðlegt væri að fá færð fyrir því vitræn rök.

Þessar breytingar höfðu það í för með sér að fiskverð upp úr sjó hækkaði umtalsvert sem gerði fisvinnsluhúsum erfitt fyrir – þeim sem sköpuðu mestu verðmætin fyrir fullvinnslumarkaði erlendis – þar sem mest mátti fá fyrir afurðirnar. Frystihúsin eins og þau voru kölluð fóru því eitt af öðru í úreldingu – sem í framhaldinu bannaði að í þeim yrði unnið fiskmeti um ókomna tíð. Fiskvinnsla færðist þá að mestu út á sjó um borð í fyrstitogarana þar sem lítið sem ekkert eftirlit var haft með nýtingu – en frystihúsin höfðu áður verið undir ströngu eftirliti í þeim efnum. Afli minni báta var svo og er að mestu fluttur úr landi óunnin á ferskfiskmarkaði og verðmætir fullvinnslumarkaðir hafa glatast.

Við þessar breytingar misstu margir vinnu sína og mörg byggðarlög við sjávarsíðuna undirstöðurnar þar sem engir aðrir en þeir sem fengið höfðu kvóta frítt í upphafi höfðu bolmagn til að reka frystihús – þar sem þeir þurftu ekki að kaupa fiskinn af sjálfum sér né þá heldur að leigja aflaheimildir.

Sumir reyndu að hafa áhrif með því að benda á hversu arfavitlaust þetta væri og skaðlegt fyrir þjóðarbúið – en þeim var bara sendur fingurinn – kallað niðurrifsfólk og vísað út í skot hjá skrattanum.

Á sama tíma og fólkið við sjávarsíðuna var að sleikja sárin og reyna að átta sig á breyttum veruleika var góðærið mikla að hefja innreið sína á höfuðborgarsvæðinu – farið var að líta landsbyggðarfólk hornauga og jafnvel segja það dragbíta á þjóðfélaginu – enginn virtist leiða hugann að því hvaðan gullkálfurinn sem dansað var í kringum væri ættaður.

Það var framsalið í kvótakerfinu sem ól af sér gullkálfinn og veðsetningarréttur aflaheimilda belgdi hann út – hann útblásinn var síðan leiddur af handhöfum aflaheimildana inn á markaðstorg viðskipta – skotsilfrið sem startaði hinu íslenska góðæri var því komið úr sjávarútvegnum – það má því segja að höfuðborgarbúar hafi fengið landsbyggðina í aðalrétt í villtasta partíi síðari tíma.

Fyrirtæki gengu í kaupum og sölu og þeir sem höfðu úr mestu að moða kölluðust fjárfestar – síðar útrásarvíkingar – þeir keyptu allt sem falt var – banka, tryggingafélög, olíufélög, skipafélög, verslanakeðjur, lyfjaframleiðslur og hvaðeina það sem mátti með blessun stjórnvalda mjólka almenning í gegnum. Engin verðmætasköpun átti sér stað í þessum viðskiptum – miklir fjármunir voru bara sí og æ að skipta um hendur með hagnaði við hverja sölu þeim til handa sem í hlut áttu – sem sóttur var á endanum í vasa almennings með auknum álögum á vörur og þjónustu – í dag köllum við þetta hagnaðardrifið höfrungahlaup sem er orsök óstöðuleika og verðbólgu.

En svo hrundi spilaborgin og forsætisráðherra biður guð að blessa Ísland furðu lostin – já, alveg steinhissa – hagfræðingurinn sem hann var hafði ekki gert sér grein fyrir í hvað stefndi þó margir minni spámenn hafi verið búnir að gera sér grein fyrir því löngu áður en ráðherrann biðlaði til almættisins – þegar séð var fram á að elítan gæti ekki lengur grætt á daginn og grillað á kvöldin.

Almenningi er svo sendur reikningurinn fyrir veisluhöldunum og margir flúðu land slippir og snauðir og sárir yfir því að hafa verið blekktir. Sumir þeir sem sök áttu þurftu þó fyrir að gjalda á meðan aðrir gátu haldið sínu striki með trausta afkomu af auðlind þjóðarinnar til sjávar þó veðsett væri upp í rjáfur.

Í framhaldinu þjappaðist auður og eignir á enn færri hendur og í daga eiga sömu aðilar nánast allt hér á fróni.

Ráðamenn voru undanskyldir allri ábyrgð þó þeir hafi greitt götur þeirra sem voru í raun að ræna þjóð og þegna – þeir sem áttu að hafa þekkingu til að sjá að það að ræna almenning er hagfræði sem aldrei getur gengið upp.

Af hverju þurfa sumir endalaust að stagla á því sama kunna einhverjir að spyrja – því er auðsvarað – það er með mistökin eins og grýlu það þarf stöðugt að vera að minna á þau svo vitleysan verði ekki endurtekin. Það má ekki láta þá sem fremja glæpi gegn þjóðinni komast upp með að endurtaka þá eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Við erum pínulítil þjóð sem á stórar auðlindir samt er hér allt í ólestri.

30% þjóðarinnar býr við skert lífsgæði sökum fátæktar – við eigum heimsmet í gleðipilluáti og sjálfsvígum – við búum við heimsinsmesta vaxtaokur svo ungmenni hafa ekki ráð á að koma sér þaki yfir höfuðið – matarkarfan hér er með þeim dýrari í heiminum – heilbrigðiskerfið rústir einar sem og skólakerfi – gatnakerfinu er ekki hægt að viðhalda nema með auknum álögum á bifreiðaeigendur sem mun grafa enn frekar undan landsbyggðinni og það þarf að sækja um leikskólapláss helst fyrir getnað því biðlistar eftir plássi eru svo langir. – Já, biðlistarnir eru út um allt – það þykir orðið svo sjálfsagt að fólk setji líf sitt í bið þangað til að vanrækt kerfið hefur ráð á að veita lögbundna þjónustu.

Óleyst vandamál gefa sannarlega tilefni til endurtekninga og að benta sé á orsakir þeirra í þessu glundroða þjóðfélagi.

Hér var aðeins fátt eitt upp talið af því sem plagar þessa þjóð sem annars gæti lifa eins og blómi í eggi ef hún fengi að njóta arðsins af auðlindum sínum og ef ráðið væri í stöður eftir getu og hæfileikum en ekki frændsemi og flokkskírteinum.

Góðærið svokallaða lét aldrei sjá sig á landsbyggðinni – hún var í raun afgreidd með framsalinu og ætla má að það hafi verið fyrirséð svo augljóst sem það var. Landsbyggðinni verður ekki bjargað nema með því að byggðarsetja kvótann og afnema þar með framsalið.

Ég get ekki séð að þjóðin skuldi þeim neitt sem hafa verið að mylja undir sig gull í áratugi sem handhafar sjávarauðlindarinnar og sem margir vilja meina að víða sé geymt – svo fyrirstöðulaust ætti að vera hægt að afnema ólögin.

Það mun aldrei ríkja sátt um núverandi sjávarútvegsstefnu – þar sem handhafarnir setja leikreglurnar og veruleikafirrtir ráðamenn kvitta undir.

Ég tel það ganga landráði næst að verja þetta kerfi og viðhalda því – það er þjóðarmein. Það hvernig farið hefur verið með suma sem það hafa gagnrýnt undirstrikar þá staðreynd – það er eitthvað mikið að því sem ekki þolir gagnrýni. Og eitthvað mikið að því stjórnarfari sem líður það að fólk sé gert að olnbogabörnum vegna skoðanna sinna – stundum með aðstoð þeirra sem skilyrðislaust ættu að gæta hlutleysis við störf sín.

Sjávarútvegsstefna þjóðarinnar er meingölluð – hún hefur gert fáa ofurríka sem komist hafa upp með valdníðlsu í krafti auð sína – hún er aðför að landsbyggðinni og hún hefur gert þjóðina fátækari.

Það er eins og mannréttindarbrot séu orðin hefð hjá íslenskri elítu. Það er alla daga verið að vaða yfir menn og málefni – það er byggt verksmíðjugímald við rúmstokkinn hjá fólki svo dæmi sé tekið og verkafólk arðrænt af vinnuveitendum og til að kóróna skömmina þá eru opinberar stofnanir að kaupa þjónustu af arðræningjunum vitandi af framferðinu.

Það má velta fyrir sér hvort um metnaðarleysi sé að ræða eða uppgjöf – ég hallast af því síðarnefnda – þeir sem ábyrgðina bera í þjóðfélaginu eru fyrir löngu búnir að gefast upp fyrir auðvaldinu – þess vegna eru mannréttindarbrot daglegt brauð á Íslandi og það er miður þegar réttir og sléttir eru farnir að taka þátt á kostnað samborgaranna.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lifsreyndur eldri borgari.

Í sama strauminn: Stríð Pútíns gegn konum

Út er komin bókin Í sama strauminn: Stríð Pútíns gegn konum.

Með markvissu kvenhatri má veikja lýðræðið og styrkja stöðu einræðisstjórna. Hins vegar getur ekkert lýðræði verið án virkrar þátttöku kvenna. Málið varðar því framtíð alls mannkyns… Ekki vera skeytingarlaus, ekki líta undan.

Í bókinni fjallar eistnesk-finnski rithöfundurinn Sofi Oksanen um kynferðisofbeldi sem helsta vopn rússneskrar heimsvaldastefnu undir stjórn Pútíns. Hún vísar í sína eigin fjölskyldusögu þegar hún greinir frá og fordæmir það kerfisbundna ofbeldi sem rússneski herinn hefur áratugum saman beitt andstæðinga sína og nágrannaþjóðir. Ýmsar ógnir steðja að lýðræðinu víðs vegar um heiminn og þessi vægðarlausa bók er brýn og fræðandi áminning, skrifuð af miklu hugrekki.

Sofi Oksanen er ein mikilvægasta röddin í bókmenntaheiminum í dag. Hún hefur hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir verk sín og bækur hennar hafa verið þýddar á yfir fimmtíu tungumál.

Opnað fyrir framtalsskil einstaklinga 28. febrúar

Skattframtal einstaklinga verður aðgengilegt á þjónustuvef Skattsins frá og með 28. febrúar næstkomandi.

Öllum sem náð hafa 16 ára aldri í lok árs 2024 ber að skila skattframtali og telja fram, og er lokaskiladagur 14. mars 2025.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skattinum.

Þar segir einnig framtalsleiðbeiningar séu tilbúnar og komnar á vefinn ásamt bæklingi með einföldum framtalsleiðbeiningum. Í honum er stiklað er á stóru yfir það helsta sem einstaklingar þurfa að huga að við skil á skattframtali.

Ef þú hefur spurningar eða lendir í vandræðum með framtalið má velja ólíkar þjónustuleiðir:

  • Spjallmennið Askur getur svarað ýmsum spurningum um framtalið
  • Boðið verður upp á framtalsaðstoð í síma
  • Senda fyrirspurnir á netfangið framtal@skatturinn.is

Aðalúthlutun safnasjóðs 2025

Úthlutunarboð Safnaráðs fór fram í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands föstudaginn 14. febrúar við hátíðlega athöfn. Logi Einarsson menningar,- háskóla og nýsköpunarráðherra ávarpaði gesti og úthlutaði 129 styrkjum úr safnasjóði. Úthlutunarboð Safnaráðs fór fram í beinu framhaldi af ársfundi höfuðsafnanna þriggja; Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands, sem haldinn var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins sama dag.

Styrkir til eins árs voru 114 talsins til 47 styrkþega og öndvegisstyrkir 2025 – 2027 til viðurkenndra safna voru átta að þessu sinni. Úthlutanir fyrir árin 2026 og 2027 eru veittar með fyrirvara um fjármögnun safnasjóðs. 

Byggðasafn Vestfjarða fékk þrjá styrki:

Mynjasafn Egils Ólafssonar fé tvo styrki:

Sauðfjársetrið á Ströndum fék tvo styrki:

Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna fékk þrjá styrki:

Hlutverk og tilgangur safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum. Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn.

Nýjustu fréttir