Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 18

Byggðastofnun með styrki vegna starfa á landsbyggðinni

Með aðgerð sem nefnist B.7. byggðaáætlun er markmiðið að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni.

Ríkisstofnanir sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrkina vegna starfa utan svæðisins eða starfa sem hafa verið færð frá höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. nóvember 2024.

Styrkjum er ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum. Ekki verða veittir styrkir vegna tímabundinnar fjarvinnu eða blendingsstarfs, þ.e. starfs sem unnið er bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins.

Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári.

Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.

Auglýsing
Auglýsing

Púkinn fer fram dagana 31. mars-11. apríl

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, verður haldin í þriðja sinn dagana 31. mars-11.apríl.

Á hátíðinni verður fjöldi spennandi viðburða fyrir vestfirsk börn. Hryggjarstykki hátíðarinnar að þessu sinni eru valdeflandi leiklistarsmiðjur, þar sem unnið verður eftir aðferðum Theatre of the Opressed, undir handleiðslu Birgittu Birgisdóttur sem heimsækir krakka á miðstigi í grunnskólum á Vestfjörðum.

Hátíðin sem áður er í góðu samstarfi við List fyrir alla og munu hinir hæfileikaríku Frach bræður fara víða með tónleikadagskrána Árstíðir, en á þeim stöðum sem þeir verða ekki býður List fyrir alla upp á Eldblómið í maí. UngRIFF hefur þegar heimsótt bæði Reykhóla og unglingastigið á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.

12 verkefni fengu styrk úr Púkasjóðnum til að bjóða upp á vandaða barnamenningu.

Katerina Blahutova kemur með Sæskrímslabúrið inn í grunnskólana á Bíldudal og Ísafirði. Trumbur, tröll og jötnar fara fram í grunnskólanum á Drangsnesi og Emil Kohlmayer verður með vinnustofur í sviðslistum fyrir krakka í Vesturbyggð. Aðrir viðburðir sem hlutu styrk en verða haldnir utan skóla eru: Vestfirska þjóðsagnagerðin sem haldin verður á Galdrasýningunni á Hólmavík, Þjóðsögustofan sem haldin verður í Bókasafni Vesturbyggðar, Púkapodcast – hlaðvarpsgerð fyrir ungmenni, verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, Ævintýraheimur myndskreytinga, verður í Listasafni Ísafjarðar, Námskeið í frásagnarlist með Ragnheiði Þóru Grímsdóttur verður á Reykhólum, Langspilssmiðjur með Eyjólfi Eyjólfssyni á Hólmavík, Safnabingó Minjasafns Egils Ólafssonar, Furðuverur á flandri í Bókasafninu í Bolungarvík og Tröll segja sögur á Bókasafninu á Ísafirði.

Auglýsing
Auglýsing

32% lækkun á ráðlögðum grásleppuafla

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2024/2025 verði ekki meiri en 2760 tonn. Er það um 32% lækkun milli ára.

Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvísitölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2025 en einnig frá árinu á undan. Vísitala þessa árs var sú næst lægsta síðan að mælingar hófust 1985. Vísitala síðasta árs var einnig lág og vel undir langtíma meðaltali.

Stofnvísitölur hrognkelsa sveiflast milli ára, sem endurspegla að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla.

Að teknu tilliti til þess leggur Hafrannsóknastofnun jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2025/2026 verði 662 tonn.

Auglýsing
Auglýsing

Utanhúsviðgerðir á lögreglustöðinni á Patreksfirði

Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE), auglýsir í dag eftir tilboðum í utanhússviðgerðir að Aðalstræti 92 á Patreksfirði fyrir hönd Ríkiseigna. Húsið hýsir núna lögregluna og sýslumannsembætti Vestfjarða. Verk þetta felur í sér að niðurrif á klæðningu, sprunguþéttingar, endurnýjun glugga og lagfæringar á þaki. Byggja þarf viðbót við anddyri að byggingunni. Áætlað er að verktími verði um 7 mánuðir eða frá 1. maí 2025 þar til 15. október 2025. 

Útboð þetta er aðeins auglýst innanlands.  Tilboðum skal skilað fyrir 10. apríl n.k. kl 12.

Auglýsing
Auglýsing

Arctic Fish: ársskýrslan 2024 birt í gær – 390 m.kr. hagnaður

Arctic Fish birti ársskýrslu sína fyrir árið 2024 í gær.

Á árinu 2024 slátraði Arctic Fish 10.667 tonnum af laxi og seldi félagið afurðir fyrir um 12 milljarða. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 390 milljónum króna.

„Nú þegar við gerum upp árið 2024 er tími til að horfa til baka á tímabil vaxtar, lærdóms og árangurs. Félagið er enn í uppbyggingarfasa með öllu sem því fylgir. Á sama tíma er mikilvægt að tryggja arðbærann rekstur með kostnaðaraðhaldi og skilvirkni í rekstri.

Þær umbætur sem við náðum á árinu 2024 hefðu ekki verið mögulegar án eldmóðs og ástríðu starfsfólksins, sem knýr Arctic Fish áfram á degi hverjum. Saman náðum við ýmsum mikilvægum áföngum, þar á meðal metháum framleiðslutölum í seiðaeldinu okkar, frábærum árangri í baráttunni við laxalús og fyrsta heila rekstrarárinu í vinnslunni okkar í Bolungarvík.

Við stöndum því á sterkum grunni og stefnum á áframhaldandi sjálfbæran vöxt.” – Sagði Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish Holding.

Auglýsing
Auglýsing

Veiðigjald: hækkar í 13,1 milljarð kr. fyrir þorsk og ýsu

Páll Pálsson ÍS. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Veiðigjald fyrir þorsk og ýsu var á síðasta ári 7,5 milljarðar króna samkvæmt upplýsingum sem fram koma í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjald sem eru til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Miðað við ákvæði frumvarpsins hefði veiðigjaldið orðið 13,1 milljarður króna ef þau hefðu gilt á síðasta ári. Hækkunin er um 5,6 milljarðar króna.

Þá á eftir að taka tillit til nýrra ákvæða um frítekjumark fyrirtækja gagnvart veiðigjaldinu, sem ætlað er að lækka álagt veiðigjald á minni fyrirtæki. Frítekjumarkið var 555 milljónir króna í fyrra en hefðu verið 1.270 milljónir króna samkvæmt nýju reglunum.

Hækkunin er greind eftir kerfum. Hún lendir að mestu hjá aflamarksskipum. Veiðigjaldið hækkar þar úr 5,9 milljörðum króna í 10,4 milljarða króna fyrir 2024. Í krókaaflamarkskerfinu hækkar veiðigjaldið um 1 milljarð króna og um 166 m.kr. í strandveiðikerfinu. Í þessum tölum á eftir að taka tillit til hækkunar á afslætti vegna breyttra regla um frítekjumark.

Auglýsing
Auglýsing

Viðurkenndi skjalafals en samt sýknaður

Lárus G. Jónsson viðkenndi fyrir Héraðsdómi Vestfjarða að hafa falsað undirskrift Þorsteins Tómassonar við viðskipti við bílaleigu en það hafi verið samkvæmt samkomulagi og leyfi frá honum.

Lárus hafði samið um kaup á fyrirtækinu Mömmu Nínu af Þorsteini en samningar ekki frágengnir þegar samningurinn við bílaleiguna voru gerðir og sagðist Lárus því ekki hafa getað notast við eigin undirskrift.

Þorsteinn kærðu fölsunina til lögreglunnar og höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum mál á hendur Lárusi fyrir Héraðsdómi Vestfjarða fyrir skjalafals.

Þorsteinn bar vitni fyrir dómi og kvað ákærða aldrei hafa staðið við nema hluta af kaupsamningnum þar sem hann hafi ekki greitt skuldir sem hvíldu á félaginu. Þetta hafi leitt til þess að mannorð og lánstraust vitnisins og [D] hefðu hrunið í kjölfarið. Ákærði hafi safnað frekari skuldum og meðal annars ákveðið að taka bíla á langtímaleigu. Ákærði hafi falsað undirritun vitnisins til þess að bílaleigan gæti skoðað lánstraust félagsins. Vitnið hafi yfirhöfuð ekki gefið ákærða heimild til þess að nota nafn sitt í viðskiptum félagsins og hefði aldrei komið slíkt til hugar.

Í niðurstöðu dómara segir að skjalafals sé refsivert og fyrir liggi að Lárus ritaði undir skjöl við bílaleigu með nafni annars manns. En engu að síður var hann sýknaður með þeim rökum að Þorsteinn hafi ekki borið skaða af fölsuninni og að að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að ásetningur ákærða hafi verið annar en að koma á viðskiptum á milli B ehf. og C ehf., hann hafi formsins vegna talið nauðsynlegt að nota nafn fyrri eiganda fyrrnefnda félagsins í því skyni og álitið sig njóta til þess heimildar.

Helgi Jensson, lögrelgustjóri segir í svari til Bæjarins besta að hann hafi verið í samskiptum við ríkissaksóknara vegna málsins, en það liggi ekki enn fyrir ákvörðun frá þeim um hvort þessum dómi verður áfrýjað.

Auglýsing
Auglýsing

Háafell: sækja um 4.500 tonna stækkun á eldi í Djúpinu

Húsfyllir var í Bryggjusalnum í gær á kynningarfundinum.

Háafell stóð fyrir kynningu á nýju umhverfismati fyrir 4.500 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi í gær. Fundurinn var í Edinborgarhúsinu og mætti 70 -80 manns til þess að fylgjast með.

Háafell hefur þegar leyfi fyrir 6.800 tonna eldi í Djúpinu og sækir um leyfi til þess að auka það um 4.500 tonn. Miðað við gildandi burðarþolsmat og gildandi áhættumat vegna erfðablöndunar myndi viðbótin öll vera til eldis á ófrjóum laxi.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells segir að þetta sé lokaferlið í tveggja ára vinnu við hið nýja umhverfismat þar sem gerð er grein fyrir væntanlegum áhrifum viðbótareldisins á umhverfið. Hann segir að þetta sé reyndar þriðja umhverfismatið sem Háafell gerir í Djúpinu. Sótt er um að auka við eldið á þeim þremur stöðum sem fyrirtækið hefur þegar leyfi fyrir eldi og því er ekki farið fram á nýjar staðsetningar fyrir kvíar.

Næsta skref er að leggja fram skýrsluna um umhverfismat til Skipulagsstofnunar, sem hefur ákveðinn tíma til þess að skila sínu áliti á fyrirhugaðri stækkun. Gauti telur að það gæti legið fyrir í sumar eða haust.

Að því áliti fengnu er óvíst um næsta skref. Það er stjórnvalda að taka ákvörðun um að hrinda í framkvæmd ákvæðum gildandi laga sem mæla fyrir um að bjóða skuli út leyfi á nýjum svæðum. Það hefur ekki enn verið gert þar sem ný leyfi síðustu ár hafa verið umsóknir sem lagðar voru inn fyrir gildistöku laganna eða breytingar á þegar útgefnum leyfum.

Gauti kvaðst ekki kvíða neinu í þeim efnum heldur væri fyrirtækið að gera sig tilbúið til þess að auka starfsemi sína í Ísafjarðardjúpi hvort heldur það væri að taka þátt í útboði um heimildir eða auka við þegar útgefin leyfi.

Einar Valur Kristjánsson, framkvædastjóri HG í ræðustól á fundinum.

Myndir: Björn Davíðsson.

Auglýsing
Auglýsing

Værum öruggari utan Schengen

„Friðhelgi landamæra er samofin þjóðaröryggi landsins og því mikilvægt að tryggja öryggi þeirra og að borgaralegar löggæslustofnanir séu í stakk búnar til að takast á við nýjar og fjölbreyttar áskoranir. Á sama tíma er þörf á að styrkja viðbúnað okkar til takast á við ytri ógnir.“ Svo segir í grein sem Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn við embætti Ríkislögreglustjóra og fulltrúi Íslands í stjórnborði Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, og Íris Björg Kristjánsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og landamærasviðs hjá embættinu og varamaður hjá stjórnborðinu, rituðu á Vísi nýverið.

Full ástæða er til þess að taka undir þessi orð þeirra Jóns Péturs og Írisar Bjargar en ólíkt því sem fyrir þeim vakti geta orðin ekki talizt rök fyrir áframhaldandi aðild Íslands að Schengen-svæðinu. Þvert á móti. Við gerðumst þannig aðilar að svæðinu fyrir rúmum tuttugu árum síðan og felldum niður hefðbundið landamæraeftirlit gagnvart öðrum aðildarríkjum þess í trausti þess að við gætum stólað á eftirlit á ytri mörkunum. Sú hefur hins vegar aldrei verið raunin og hafa milljónir manna komizt inn á svæðið á þeim tíma samkvæmt gögnum frá Frontex, einkum á suður- og austurmörkum þess.

Vaxandi umræða hefur fyrir vikið átt sér stað í aðildarríkjum Schengen-svæðisins um öryggi á ytri mörkum þess allt frá því að það kom til sögunnar. Hans Leijtens, yfirmaður Frontex, lýsti því yfir í samtali við þýzka dagblaðið Welt í janúar á síðasta ári að ómögulegt væri að koma í veg fyrir það að hægt væri að komast með ólögmætum hætti inn á Schengen-svæðið. Hefur hann lýst andstöðu sinni við aðgerðir til þess að styrkja ytri mörkin samkvæmt fréttinni. „Ekkert getur komið í veg fyrir að fólk fari yfir landamæri, engir veggir, engin girðing, ekkert haf, ekkert fljót,“ hefur blaðið eftir honum.

Morgunblaðið hafði eftir Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, 24. janúar á síðasta ári að hending ein réði því hvort brotamenn væru stöðvaðir á landamærum Íslands að öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins þar sem hefðbundnu landamæraeftirliti væri ekki fyrir að fara gagnvart þeim eins og ríkjum utan svæðisins þar sem framvísa þyrfti vegabréfum. Þá sagði hann landamærin tiltölulega greiðfær fyrir brotamenn þaðan í blaðinu 11. janúar sama ár sem sæktust mjög eftir því að komast til landsins. Færa mætti gild rök fyrir því að Ísland ætti að standa utan svæðisins.

„Starf lögreglu og tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli er gríðarlega mikilvægt en eins og kunnugt er höfum við ekki fullkomna stjórn á því hverjir koma til landsins vegna fyrirkomulags á innri landamærum Íslands [gagnvart öðrum aðildarríkjum Schengen] þar sem heimilt er að fara yfir landamæri Schengen-svæðisins án þess að landamæraeftirlit fari fram, án tillits til ríkisfangs einstaklings,“ sagði Úlfar einnig í viðtalinu við Morgunblaðið. Fyrir vikið væru helztu áskoranirnar á innri landamærunum á meðan ytri mörkin væru miklu öruggari þar sem sinnt væri hefðbundnu landamæraeftirliti.

Hafa má í huga í þeim efnum að beinlínis er innbyggt Schengen-regluverkið að hefðbundið landamæraeftirlit sé öruggara enda er þar að finna heimild til þess að taka tímabundið upp slíkt eftirlit sé mikil hætta talin á ferðum sem ýmis ríki hafa nýtt sér. Með aðildinni að Schengen var þeirri vörn sem felst í náttúrulegum landamærum landsins einfaldlega fórnað. Fullkominn forsendubrestur hefur í raun átt sér stað í þessum efnum. Þannig er ekki nóg með að ekki hafi tekizt að tryggja ytri mörk svæðisins heldur hefur yfirmaður Frontex beinlínis lýst því yfir að sú verði aldrei raunin.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Auglýsing
Auglýsing

Tæplega 13 þúsund atvinnulausir í landinu

Atvinnuleysi jókst um 0,6 prósentustig á milli mánaða samkvæmt tölum Hagstofunnar og mældist 5,5 prósent í febrúar samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum.

Alls voru 12.900 atvinnulausir á landinu í febrúar, þar af 5.800 karlar og 7.100 konur.

Atvinnuþátttaka var 80,4 prósent og hlutfall starfandi var 76 prósent. Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi dróst saman um 1,4 prósentustig á milli mánaða og atvinnuþátttaka dróst saman um 1 prósentustig.

Áætlað er að 30.600 einstaklingar hafi óuppfyllta þörf fyrir atvinnu. Jafngildir það 12,8% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli.

Atvinnuleysi í febrúar.
Þróun atvinnuleysis 16-74 ára síðustu misseri.
Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir