Síða 18

Vesturbyggð: þörf á 189 íbúðum á næstu 10 árum

Horft yfir Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt endurskoðaða húsnæðisáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2025. Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði 23,4% fleiri að 10 árum liðnum samkvæmt miðspá, þ.e. fjölgun um 290 íbúa og er áætluð íbúðaþörf í samræmi við það 189 íbúðir. Vesturbyggð leggur því áherslu á að fjölga lóðum samkvæmt skipulagi í öllum byggðakjörnum og í dreifbýli.

Gert er ráð fyrir í spánni um íbúafjölgun að íbúum fjölgi mest á Bíldudal eða um 100 manns skv. miðspá og á Tálknafirði einnig um 100 manns, en á Patreksfirði verði fjölgunin 90 manns.

Þörfin fyrir nýjar íbúðir næstu 10 árin er talin vera 73 íbúðir á Bíldudal, 59 íbúðir á Tálknafirði og 57 íbúðir á Patreksfirði.

Grunnskóli: kostnaður aukist um 46% á 5 árum

Hagstofa Íslands birti í þessum mánuði upplýsingar um kostnað við rekstur grunnskóla. Áætlaður meðalrekstrarkostnaður á grunnskólanema í febrúar 2025 reyndist vera 2.912.041 kr. Í janúar 2020 var sami kostnaður 1.918.731 kr. Hækkunin á þessum 5 árum nemur liðlega 46%.

Samkvæmt talnagrunni Hagstofunnar var heildarkostnaður við rekstur grunnskóla landsins árið 2023 um 135 milljarðar krónur, sem skiptist þannig að sveitarfélögin greiða liðlega 133 milljarða króna og ríkið ríflega 1,5 milljarð króna.

Til viðbótar þá kostaði rekstur framhaldsskóla landsins sama ár, 2023, um 39 milljarða króna, þar sem ríkið greiddi um 37 milljarða og sveitarfélögin tæplega 2 milljarða króna.

Rekstur leikskóla kostaði 2023 um 33 milljarða króna sem fellur allur á sveitarfélögin.

Heildarútgjöld sveitarfélaganna til fræðslumála árið 2023 voru, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, 178 milljarðar króna.

Landsvirkjun: greiðir milljarð kr. fyrir staðsetninguna

Hin nýja staðsetning á höfuðstöðvum Landsvirkjunar í Reykjavík.

Landsvirkjun tilkynnti á föstudaginn var að fyrirtækið hafi tryggt sér lóðir við austurenda Bústaðavegar í Reykjavík , með það í huga að þar rísi næstu höfuðstöðvar orkufyrirtækis þjóðarinnar.

Þó var tekið fram að það kæmi þó í hlut næstu stjórnar fyrirtækisins, sem skipuð verður í apríl, að taka frekari ákvarðanir um hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verður.

Lóðirnar eru þrjár og eru við Bústaðaveg 143, 145 og 147 og liggja að Reykjanesbraut, norður af veitingastaðnum Sprengisandi og gömlu hesthúsum Fáks. Þær voru seldar í einu lagi á um 1,3 milljarða króna með áföllnum gjöldum en fyrstu áform Landsvirkjunar gera ráð fyrir að syðri lóðirnar tvær, 145 og 147, verði sameinaðar undir nýjar höfuðstöðvar.

Í svari upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að lóðirnar hafi ekki verið keyptar af Reykjavíkurborg heldur af tveimur félögum sem höfðu átt þær einhvern tíma.

Þau félög voru búin að greiða öll gjöld vegna lóðarinnar í samræmi við byggingarheimild, þar á meðal gatnagerðargjöld. Kaupverðið skiptist þannig að rúmur milljarður var eiginlegt kaupverð og þessi gjöld voru rúmar 250 milljónir, samtals um 1,3 milljarðar.

Af þessu er ljóst að kostar fyrirtækið 1 milljarð króna að hafa höfuðstöðvarnar í Reykjavík.

Það væri t.d. ekki úr vegi að byggja nýjar höfuðstöðvar á Selfossi, í því héraði þar sem stór hluti orkuöflunar fyrirtækisins er. Við það myndi þessi lóðakostnaður sparast og ef til vill væru byggingarleyfisgjöldin lægri en þær rúmar 250 m.kr. sem innheimtar eru í Reykjavík. Ef svo er væri sparnaðurinn enn meiri en milljarður króna.

-k

Slysavarnardeildin Unnur: styrkir kaup á nýju björgunarskipi um 10 m.kr.

Frá vinstri: Fanney Inga Halldórsdóttir formaður Svd Unnar, Ólafur Helgi Haraldsson stjórnarmaður í Björgunarbátasjóð V-Barðastrandarsýslu, Kolbrún Matthíasdóttir varaformaður Svd. Unnar og Sólrún Ólafsdóttir fráfarandi formaður Svd Unnar. Myndana tók Rebekka Hilmarsdottir Svd kona.

Slysavarnadeildin Unni ákvað á síðasta aðalfundi, sem haldinn var 19.febrúar síðastliðinn, að styrkja kaup á nýju björgunarskipi um 10 milljónir. Styrkurin var afhentur í gær og við honum tók Ólafur Helgi Haraldsson fyrir hönd björgunarbátasjóðs V-Barðastrandarsýslu.

Fanney Inga Halldórsdóttir er formaður slysavarnardeildarinnar Unnur: „Þegar deildin var stofnuð 1934 var það hennar aðaltilgangur að vinna að því, að hjálp sé fyrir hendi, þá er sjóslys ber að höndum. Sérstaklega vinnur deildin að fjársöfnun til björgunarskútu Vestfjarða ( Maríu Júlíu)  Hún vill efla öryggi sjófarenda með auknum björgunartækjum og styðja að öllu því, er verða má til þess að sporna við slysförum við strendur Íslands. Okkar helsta markið er að vinna að slysavörnum og forvörnum.“

Fanney Inga bætti því við að önnur félög á svæðinu væru hvött til þess að taka í þessu mikilvæga verkefni. 

Á laugardaginn var tilkynnt um 30 m.kr. framlag Odda hf til kaupa á nýju björgunarskipi til Patreksfjarðar.

Værum hluti af svari ESB innan þess

„Ég held að það sem við þurf­um að passa mest núna er að við lend­um ekki í svari Evr­ópu gagn­vart Banda­ríkj­un­um. Toll­arn­ir, eins og staðan er núna, eru ekki eins mik­il hætta frá Banda­ríkj­un­um eins og maður kannski upp­haf­lega hélt en auðvitað sér maður að það breyt­ist dag frá degi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is í morgun. Vísar hún þar til þeirra viðbragða Evrópusambandsins við hótun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, um að hækka tolla á vörur frá ríkjum sambandsins, að hóta því að svara einnig með tollahækkunum á bandarískar vörur.

Væri Ísland innan Evrópusambandsins beindust hótanir Trumps að okkur Íslendingum eins og öðrum ríkjum þess. Eins væru hótanir sambandsins settar fram í okkar nafni. Vegna þess að við erum utan Evrópusambandsins getum við hins vegar tekið sjálfstæðar ákvarðanir i þessum efnum í samræmi við hagsmuni okkar og þetta mál er auðvitað ekkert einsdæmi í þeim efnum. Valdið til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir skiptir vitanlega sköpum þegar kemur að því að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Bæði í stórum málum, eins og til dæmis Icesave-málinu á sínum tíma, sem og minni.

Með inngöngu í Evrópusambandið myndum við Íslendingar ekki hafa þetta vald lengur nema í mjög takmörkuðum og sífellt minnkandi mæli. Flestir málaflokkar ríkja sambandsins heyra undir valdsvið þess og vægi ríkjanna við ákvarðanatökur innan þess fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Innan Evrópusambandsins yrði Ísland fámennasta ríkið og með vægi eftir því. Hlutdeild okkar á þingi sambandsins yrði á við það að hafa hálfan þingmann á Alþingi og innan ráðherraráðs þess, valdamestu stofnunarinnar, allajafna á við einungis 5% af alþingismanni. Þetta yrði „sætið við borðið.“

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum)

Jens Garðar í framboð til varafomanns Sjálfstæðisflokksins

Jens Garðar Helgason, þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér til embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemu fram í fréttatilkynningu sem hann hefur sent frá sér.

Jens Garðar er nýkjörinn þingmaður en var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og sveitarstjórnarmaður í 12 ár. Hann hefur einnig gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum innan flokksins. Jens Garðar hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, var varaformaður Samtaka atvinnulífsins í fjögur ár og í framkvæmdastjórn samtakanna í sex ár.

„Framundan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar.
Kraftinn má ekki tjóðra niður með vantrú, óþarfa hindrunum, þunglamalegu regluverki eða með því að líta á atvinnulífið sem mjólkurkú fyrir hið opinbera.“ segir Jens í yfirlýsingu sem hann birti í dag.

Oddi styrkir kaup á nýju björgunarskipi fyrir sunnanverða Vestfirði um 30 m.kr.

Ólafur Haraldsson og Smári Gestsson stjórnarmenn Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandasýslu ásamt Skildi Pálmasyni framkvæmdastjóra Odda hf. Mynd:aðsend.

Útgerð Odda hf. á Patreksfirði hefur ákveðið að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um 30 milljónir til endurnýjunar á björgunarskipi fyrir svæðið. Hjá Odda hf. starfa 15 sjómenn og er því um að ræða upphæð sem samsvarar 2 milljónum á hvern sjómann.

,,Sjávarútvegsfélag eins og Oddi hf. byggir alla sína starfsemi á sjósókn þar sem sjómenn og skip félagsins eru í aðstæðum sem oft geta verið erfiðar. Það er okkur því gríðarlega mikilvægt að á svæðinu sé öflugt björgunarskip sem eykur öryggi sjómanna og hægt er að fá til aðstoðar þegar óhöpp eiga sér stað.

Í litlum sjávarplássum er mikilvægt að geta sýnt sterka samfélagslega ábyrgð og því er það með mikilli ánægju sem við í Odda hf. tökum þátt í þessu verkefni‘‘, segir Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf. sem vill hvetja önnur fyrirtæki sem byggja afkomu sína á starfi sjómanna, til að koma myndarlega að þessu mikilvæga verkefni.

Vesturbyggð: áhyggjur af ástandi vega

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um ástand vega. Samþykkt var eftirfarandi ályktun:

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi og viðhaldsleysi vega á Vestfjörðum og Vesturlandi. Nú er svo komið að þungatakmarkanir eru í gildi á vegum og hefur bæjarstjórn verulegar áhyggjur af því að þetta ástand verði viðvarandi. Það hefur alvarleg neikvæð áhrif á atvinnulíf og daglegt líf íbúa á svæðinu. Þessar takmarkanir hamla flutningi á vörum og þjónustu, sem leiðir til aukins kostnaðar fyrir fyrirtæki og skerðir samkeppnishæfni þeirra.

Samgöngur hafa löngum verið erfiðar á Vestfjörðum og sú staða sem nú er komin upp er með öllu óásættanleg. Slæmar samgöngur draga úr aðdráttarafli Vestfjarða fyrir ný fyrirtæki og fjárfestingu, en góðar samgöngur eru lykilatriði fyrir efnahagslega uppbyggingu og þróun atvinnulífs.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og fjármálaráðherra að forgangsraða endurbótum á vegakerfi Vestfjarða og Vesturlands. Nauðsynlegt er að tryggja viðeigandi fjármagn til reglubundins viðhalds og uppbyggingar samgöngumannvirkja.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur stjórnvöld til tafarlausra úrbóta.“

Fiskeldisgjald: ríflega tvöfaldaðist milli ára

Frá laxeldi í Patreksfirði. Sjókvíaeldið greiðir hæsta fiskeldisgjaldið.

Fiskeldisgjald, sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða í ríkissjóð, varð 1.471 m.kr. á síðasta ári. Það hækkaði um 129% frá árinu 2023, þegar það var 643 m.kr. Hækkunin milli ára er 828 m.kr.

Þetta kemur fram í yfirliti sem Fiskistofa hefur birt.

Fjögur eldisfyrirtæki á Vestfjörðum greiddu samtals 893 m.kr. eða nærri 61% alls gjaldsins. Það eru Arnarlax sem greiddi 442 m.kr., Arctic Fish með 197 m.kr., Háafell greiddi 251 m.kr. og Hábrún 3 m.kr.

Eitt fyrirtæki á Austfjörðum, Kaldvík, greiddi 578 m.kr.

2.760 m.kr. frá 2020

Fiskeldisgjaldið var fyrst innheimt fyrir framleiðslu ársins 2020 og greiddu fyrirtækin þá samtals 54 m.kr. Næsta ár þrefaldaðist innheimtan og varð 151 m.kr. Árið 2022 var greitt 441 m.kr. og 643 m.kr. árið 2023 og svo 1.471 m.kr. í fyrra eins og fyrr segir. Samtals hafa eldisfyrirtækin greitt 2.760 m.kr. á þessum fjórum árum.

Síðastliðin ára­mót hækkaði gjald á sjókvía­eldi um 19%. Fór gjald á lax úr 37,8 krón­um á kíló í 45,03 krón­ur og úr 18,9 krón­um á kíló fyr­ir regn­bogasil­ung og landeldislax í 22,52 krón­ur, en greitt er hálft gjald miðað við eldislax í sjókvíum.

Arnarlax og Aldan hefja þróunarsamstarf um nýsköpun í öryggisstjórnun fiskeldis í sjó

Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og nýsköpunarfyrirtækið Alda Öryggi hafa gengið til formlegs samstarfs um að innleiða Öldu öryggisstjórnunarkerfið um borð í alla þjónustubáta og fóðurpramma Arnarlax. Samstarfið markar tímamót í öryggismálum fiskeldisstarfsemi á sjó og er stórt skref í að efla öryggisstjórnun og öryggismenningu í greininni.

Með innleiðingu Öldu mun kerfið halda utan um nýliðaþjálfun, björgunaræfingar og reglubundnar öryggisúttektir um borð í þjónustubátum og fóðurprömmum Arnarlax. Jafnframt verður atvikaskráning sjómanna stafræn í gegnum ATVIK-sjómenn sem tryggir skilvirka greiningu og eftirfylgni öryggisatvika.

Arnarlax mun gegna lykilhlutverki í þróuninni með því að aðlaga Ölduna að öryggisáskorunum í fiskeldisstarfsemi á sjó. Sjómenn fyrirtækisins verða virkir þátttakendur í að móta og þróa lausnir sem mæta raunverulegum aðstæðum og þörfum þeirra. Slík nálgun er lykillinn að árangri í þróunarsamstarfinu þar sem öryggismál verða ríkari hluti af störfum sjómanna og efla öryggismenningu fyrirtækisins.

„Við erum afar spennt fyrir því að taka þátt í þessu þróunarverkefni með Öldunni. Öryggismál eru forgangsatriði hjá okkur og með þessari nýsköpun tryggjum við betri vinnuaðstæður og aukið öryggi fyrir okkar sjómenn,“ segir Silja Baldvinsdóttir gæðastjóri Arnarlax.

Gísli Níls Einarsson, framkvæmdastjóri Öldunnar tekur undir mikilvægi samstarfsins: „Við erum afar þakklát fyrir mikinn áhuga og frumkvæði Arnarlax á að þróa Ölduna enn frekar fyrir fiskeldisstarfsemi. Með virkri þátttöku sjómanna Arnarlax tryggjum við að kerfið verði að fullu aðlagað að raunverulegum starfsaðstæðum þeirra og stuðli að aukinni öryggisvitund með markvissri nýliðaþjálfun, öryggiseftirliti, björgunaræfingum sem stuðla enn betri öryggismenningu í fiskeldi í sjó.“

Með þessu samstarfi stíga Arnarlax og Aldan stórt skref í átt að nýsköpun á stafrænum öryggislausnum sem efla öryggi í íslenskri fiskeldisstarfsemi og marka ný viðmið fyrir framtíð greinarinnar.

Nýjustu fréttir