Sunnudagur 15. september 2024
Síða 179

Suðurtangi: Þrymur fær lóð

Samkomulag hefur náðst milli Þryms hf vélsmiðju og Ísafjarðarbæjar um að vélsmiðjan fái 7.000 fermetra lóð á Suðurtanga fyrir hafnsækna starfsemi sem snýr að rekstri bátalyftu, þjónustu við báta þ.m.t geymslu þeirra og viðgerðarþjónustu. Á svæði á Suðurtanga, sem nú er skilgreint í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar sem K-1, á þéttbýlisuppdrætti.

Hefur bæjarráðið samþykkt viljayfirlýsingu og fer hún fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Lóðarhafinn Þrymur hf hefur afnot af upptökumannvirkjum á Sundabakka sem eru í eigu Hafna Ísafjarðarbæjar og greiðir fyrir þau afnot samkvæmt gjaldskrá. Svæðið er í eigu Hafna Ísafjarðarbæjar sem ber ábyrgð á rekstri þess og viðhaldi.

Heimilt verður að reisa mannvirki á fyrirhugaðri lóð, vegna aðstöðu fyrir rekstur bátalyftu, viðgerðarþjónustu báta og tengda starfsemi, enda hafi verið veitt byggingarleyfi, sem lóðarhafi skal sækja um.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist sumarið 2024 og að mannvirki verði fokheld eigi síðar en 36 mánuðum síðar. Miðað er við að öllum framkvæmdum á svæðinu verði lokið árið 2029.

Umhverfis- og eignasvið Ísafjarðarbæjar sér um gerð tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og leggur hana fram til samþykktar bæjarstjórnar eins og reglur gera ráð fyrir. Lóðarhafi mun kosta að gera lóð klára til
byggingarframkvæmda, s.s. jarðvegsskipti og/eða ferging.
Ísafjarðarbær skal annast lagningu vatnsheimtaugar að mannvirki, og tengingu við frárennsliskerfi við lóðamörk, skv. gjaldskrá vatnsveitu og fráveitu.
Lóðarhafi mun ekki greiða neina lóðarleigu vegna lóðar fyrr en við útgáfu lóðarleigusamnings. Við gerð
lóðarleigusamninga skal tekið mið af viðmiðunum og reglum Ísafjarðarbæjar um lóðarleigu.

Lóðarhafi fær lóð afhenta við gildistöku deiliskipulags fyrir svæðið. Lóðarleigusamningar sem gerðir verða á grundvelli þessa samnings skulu vera til 50 ára til að byrja með.

Súðavíkurhlíð lokað í kvöld

Vegagerðin lokaði veginum um Súðavíkurhlíð kl 19:30 í kvöld vegna snjóflóðahættu og verður hann lokaður í nótt.

Þá er Dynjandisheiði lokuð vegna ófærðar svo og einnig Kleifaheiði. Þungfært er norður í Árneshrepp.

Fálki

Fálki eða valur er stór og tígulegur ránfugl, með langa, breiða, odddregna vængi og langt stél, stærsti fugl fálkaættarinnar.

Hann er breytilegur að lit, fullorðinn fálki er venjulega grár eða grábrúnn að ofan með hvítum doppum og rákum, ljósari að neðan, oftast hvítur eða ljósgulleitur með dökkum rákum og dílum. Höfuðið er meira eða minna rákótt, stundum með greinilegum skeggrákum. Stélið er þverrákótt. Karlfuglinn er venjulega ljósari, en kvenfuglinn stærri. Ungfugl er dekkri, stundum aldökkur með hreisturmynstri að ofan og rákóttur að neðan. Fullorðnir hvítfálkar eru alhvítir með dökka vængbrodda og rákir að ofan. Þeir eru árvissir gestir frá Grænlandi. Íslenskir fuglar geta þó verið mjög ljósir, þeir ljósustu eru nær hvítir á höfði og að neðan.

Fálkinn flýgur með hröðum, kraftmiklum vængjatökum, grípur oft til renniflugs, er hraðfleygur og mjög fimur á flugi. Fálkinn gefur frá sér hvellt væl á varpstöðvum en gargar reiðilega þegar hann er í árásarhug, er þó oftast þögull.

Aðalfæða fálkans er rjúpa, sem hann slær með klónum á flugi eða grípur á jörðu niðri. Veiðir flestar tegundir fugla, en það fer talsvert eftir veiðilendum hvaða bráð verður fyrir valinu, allt frá fullorðnum heiðagæsum niður í þúfutittlinga og auðnutittlinga, einnig hagamýs.

Af fuglavefur.is

Hættulegar skýjaluktir

Fyrir tveimur árum kannaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hvort skýjaluktir væru markaðssettar hérlendis. Mörg ríki hafa bannað notkun skýjalukta og er Ísland á meðal þeirra vegna hættunnar sem þær geta skapað. Vegna ábendinga um að þær væru mögulega til sölu á Íslandi var gerð athugun á því.

Skýjaluktir eru gerðar úr pappír og innhalda vaxkubb eða annað eldfimt efni sem kveikt er í. Við það fyllist luktin af heitu lofti, sem veldur því að skýjaluktin hefst á loft. Skýjaluktin helst á lofti eins lengi og loginn logar en það getur verið í 5 til 20 mínútur. Sumar þeirra eru þannig gerðar að þær eiga að brenna upp svo ekkert efni skilar sér til jarðar. En vandamálið við luktina er að það er ekki hægt að hafa stjórn á því hvert hún fer eða hvar hún lendir. Og það er ekki öruggt að eldurinn í luktinni verði alveg slökknaður þegar luktin lendir. Smá vindkviða getur orsakað það að luktin lendi í þurrum gróðri eða komist í snertingu við annað eldfimt efni.

Mörg dæmi er um alvarleg tilvik og tjón af völdum skýjalukta í nágrannalöndum okkar. Svífandi skýjaluktir hafa einnig reynst hættulegar flugvélum, þar sem þær geta farið í hreyflana á vélunum og útbrunnar luktir hafa fallið á flugvelli með tilheyrandi hættu og truflunum á flugumferð.

Athugun HMS leiddi í ljós að luktirnar voru þá auglýstar hérlendis í vefverslun

Við því viljum minna á og ítreka að notkun skýjalukta er bönnuð.

Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2023

Líkt og undanfarin ár hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á flestum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

Á heimasíðu Byggðastofnunar er hægt að skoða orkukostnað í byggðakjörnum á Íslandskorti, skoða raforku- og húshitunarkostnað sér og bæta við útreikningi fyrir varmadælu fyrir staði með beina rafhitun.

Lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 87 þ.kr. Hæsta gjald í skilgreindu þéttbýli er um 107 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru hærri í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 116-120 þ.kr. á ári fyrir viðmiðunareign. Lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareign var töluvert hærra í dreifbýli en í þéttbýli fram til ársins 2021, þegar bilið þar á milli minnkaði mikið vegna aukins dreifbýlisframlags til jöfnunar dreifikostnaðar raforku í dreifbýli.

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn á milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem hún er ódýrust. Húshitunarkostnaður hefur undanfarin ár verið hæstur á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun en verð fyrir húshitun með rafmagni hefur þó lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði og aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði. Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru kyntar hitaveitur eða dýrar hitaveitur.

Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er í Brautarholti á Skeiðum og á Seltjarnarnesi um 75 þ.kr. og þar næst á Flúðum 77 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaðurinn er í Grímsey um 246 þ.kr., þar sem er olíukynding. Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur 232 þ.kr. á Höfn og í Nesjahverfi í Hornafirði og á Grenivík 231 þ.kr.


Heildarorkukostnaður, þ.e.a.s. raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, er hæstur í Grímsey 374 þ.kr. þar sem rafmagn er framleitt með díselrafstöð og húsin kynt með olíu. Þar fyrir utan er heildarkostnaður hæstur í Hornafirði, í Nesjahverfi 352 þ.kr. og á Höfn 333 þ.kr. Á Grenivík er heildarorkukostnaður viðmiðunareignar 332 þ.kr. og í Vestmannaeyjum er hann 325 þ.kr. Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Seltjarnarnesi 163 þ.kr. en þar næst á Flúðum 178 þ.kr.

Nóa Kropp innkallað vegna hnetu­smits

Nói Síríus hef­ur ákveðið að innkalla pakkn­ing­ar af Nóa Kroppi í 200 gramma pok­um, vör­u­núm­er 11663 með best fyr­ir dag­setn­ing­unni 28.05.2025.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nóa Síríus en þar segir:„Komið hefur í ljós við framleiðslu á Nóa Kroppi 200g, að aðrar súkkulaðihúðaðar vörur hafa blandast saman við í pökkun. Það olli því að þessi framleiðslulota af Nóa Kroppi inniheldur heslihnetur, sem er þekktur ofnæmis- og óþolsvaldur. Neytendur með óþol eða ofnæmi fyrir heslihnetum eru varaðir við að neyta vörunnar en varan er fullkomlega örugg til neyslu fyrir þá sem þola heslihnetur.

Við hvetjum þá sem keypt hafa Nóa Kropp 200g að athuga dagsetninguna á umbúðunum og koma pokunum til okkar eða farga vörunni ef við á. Við biðjumst innilegrar velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að valda,“ 

Andlát: Jón Hallfreð Engilbertsson

Látinn er Jón Hallfreð Engilbertsson. Hann var fæddur á Ísafirði þann 22. nóvember 1955 og lést á Landspítalanum þann 30. janúar 2024. Hann ólst upp á Tirðilmýri á Snæfjallaströnd og gekk í Héraðsskólann í Reykjanesi. Jón Hallfreð nam útvarpsvirkjun við Iðnskóla Reykjavíkur og var með sveinspróf í pípulögnum, en auk þess nam hann prenthönnun. Árið 2008 lauk hann B.-Ed. grunnskólakennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri.

Jón Hallfreð var búsettur á Ísafirði og vann þar m.a. við kennslu, prenthönnun hjá H-prenti og Bæjarins besta á Ísafirði í mörg ár, tækniteiknun hjá Skaginn 3X, umbrot bóka, við verslunarstörf, við málm- og skipasmíðar og margskonar önnur iðnaðarstörf. Jón Hallfreð kenndi við Tónlistarskólann í Bolungarvík, á Þingeyri og á Ísafirði.  Síðustu árin vann hann fyrir Héraðsskjalasafnið á Ísafirði og við myndmenntakennslu í Grunnskólanum á Ísafirði.

Jón Hallfreð Engilbertsson fór ungur að spila á gítar. Hann spilaði á námsárunum í hljómsveitum í Reykjavík og sótti jafnframt námskeið hjá Róbert Abraham Ottóssyni í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Á Ísafirði hefur hann einnig spilað í hljómsveitum og á margskonar tónlistarviðburðum.  Jón Hallfreð lék á flest hljóðfæri og hafði einstakt tóneyra.

Jón Hallfreð fór að yrkja á fullorðinsárum, einkum tækifærisbragi, og árið 2021 kom út bókin Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson, sem var gefin út í minningu föðurbróður hans og nafna. Þar er að finna mörg kvæði eftir Jón Hallfreð. Einnig hefur hann sinnt tónsmíðum og er þekkt lag hans við eigin texta, „Snæfjallaströnd“, sem Karlakórinn Ernir hefur m.a. flutt og gefið út, en hann var félagi í kórnum hin síðustu ár.

Jón Hallfreð var kvæntur Helgu Sigfríði Snorradóttur aðstoðarskólastjóra. Börn þeirra eru Snorri Sigbjörn klippari á Stöð 2 og Kristín Harpa, lækna- og tónlistarnemi.

Bæjarins besta sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Súðavík: nokkrir strandaglópar í nótt

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi og varð það til þess að nokkrir bílar , þar á meðal 2 flutningabílar komust ekki til Ísafjarðar og voru strandaglópar í þorpinu í nótt. Heimamenn skutu skjólshúsi yfir þá en af hálfu ríkisins er enginn viðbúnaður í Súðavík.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að vegurinn hefði verið opnaður í morgun og væri ástandið orðið nokkuð stöðugt. Hann átti von á því að vegurinn héldist opinn í dag og nótt.

Bragi sagði að flóðið sem lokaði veginum í fyrradag hefði verið um tveggja metra þykkt í svonefndu Fjárgili, nokkuð breitt og hefði náð niður fyrir veg. Vegagerðin jók við vetrarþjónustu í haust og lengdi þjónustutímann um hálfa klukkustund að morgni og eins að kvöldi og segir Bragi það vera til bóta og að þjónustan væri heilt yfir viðunandi.

430 m.kr. ofanflóðvarnir fyrir atvinnuhúsnæði í Hnífsdal

Í skýrslu Veðurstofu Íslands frá október 2023 er lagt mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað
vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi. Meðal byggðarlaga sem tekin eru til mats er Hnífsdalur.

Í sunnanverður dalnum er, stórt séð, efsta húsaröðin á C-svæði. Þar er snjóflóðahætta ráðandi.

Ekki hafa verið reist varnarvirki fyrir byggðina í sunnanverðum dalnum en ráðgert er að ljúka frumhönnun varna fyrir árslok 2023 segir í skýrslunni. Þar er gert ráð fyrir að verja ytri hluta byggðar með upptakastoðvirkjum og innri hlutann með þvergarði. Innan C-svæðisins er, auk íbúðarhúsa, leikskóli (sem er ekki nýttur sem slíkur) og fiskvinnsluhús á Leiti. Þau hús verða varin með fyrirhuguðum vörnum.

Undir Búðarfjalli, í norðanverðum dalnum, er stærstur hluti byggðar á C-svæði. Snjóflóðahætta er ráðandi. Íbúðarhúsin sem þar voru hafa verið keypt upp að undanskildu íbúðarhúsi á Hrauni. Eftir standa sjö íbúðarhús sem ekki má nýta á vetrum. Innan C-svæðis í norðanverðum dalnum eru tvö atvinnuhús á C-svæði: Félagsheimili og hluti verkstæðis við Hólavallagötu. Sambyggt því er björgunarsveitarhús á B-svæði.

Tillaga að vörnum fyrir atvinnusvæði

Lagt er til í skýrslunni að verja félagsheimilið og verkstæði með fleyg ofan við félagsheimilið, með nokkuð
mildu leiðihorni. Líklega þarf einnig að reisa stuttan leiðigarð við verkstæðið til þess að tryggja fulla virkni. Auk þess að verja atvinnuhúsnæðið myndu þessar varnir verja fimm íbúðarhús og slökkvistöð á B-svæði. Kostnaður við varnirnar er meiri en brunabótamat eignanna á C-svæði en minna en samanlagt verðmæti eigna á B- og C-svæði.

Tafla 5. Samantekt á verðmæti atvinnuhúsa og kostnaði við tillögur að vörnum í Hnífsdal.
Brunabótamat húsa á C-svæði 290 m.kr.
Brunabótamat varinna húsa á C-svæði 290 m.kr.
Brunabótamat varinna húsa á B-svæði 340 m.kr.
Kostnaðarmat varna 430 m.kr.

Vestfirðir: 28 þúsund tonn af eldislaxi

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Í desember var landað 1.203 tonnum af eldislaxi í Bíldudalshöfn og 1.029 tonnum í Bolungavíkurhöfn eða samtals 2.232 tonnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vesturbyggð og Bolungavík var á síðasta ári slátrað 8.017 tonnum af eldislaxi í Bolungavík og 19.766 tonnum á Bíldudal. Samtals kom til slátrunar 27.783 tonn af eldislaxi í sláturhúsin tvö á Vestfjörðum.

Á Bíldudal starfaði sláturhúsið allt árið en sláturhúsið Drimla í Bolungavík var tekið í notkun um mitt árið.

Arnarlax á og rekur sláturhúsið á Bíldudal og Arctic Fish húsið í Bolungavík.

Nýjustu fréttir