Sunnudagur 15. september 2024
Síða 178

Ísafjarðarbær: sviðsstjóri velferðarsviðs víkur sem starfsmaður öldungaráðs

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að gerðar verði breytingar á samþykkt bæjarins um öldungaráð. Er breytingin gerð að ósk sviðsstjóra velferðarsviðs.

Lagt er til að færa hlutverk sviðsstjóra til starfsmanns félagsþjónustu velferðarsviðs en sviðsstjórinn hefur haft það hlutverk að ákveða dagskrá ráðsins, að sitja fundi með ráðinu og rita fundargerð.

Hlutverk öldungaráðsins er að vera vettvangur samráðs bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun um málefni eldri borgara. Öldungaráð er ráðgefandi fyrir starfsemi Ísafjarðarbæjar í málefnum eldri borgara og á að stuðla að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu stofnana bæjarins til bæjarbúa sem eru 67 ára og eldri.

Öldungaráð er skipað 7 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Þrír eru tilefndir af bæjarstjórn, einn kemur frá heilsugæslunni og þrír eru tilnefndir sameiginlega af félögum eldri borgara í Ísafjarðarbæ.

Síðasti skráði fundur öldungaráðs var 16. febrúar 2023.

Spjaraðu þig er fatasala listakvenna í Netagerðinni á Ísafirði

Listakonunum í Netagerðinni er umhugað um endurnýtingu, náttúruna og hringrásina.

Þess vegna hafa þær ákveðið að koma nokkrum úrvals flíkum í notkun sem eiga svo sannarlega skilið að njóta sín annarsstaðar en á herðatré inn í skáp!

Á fataslám má finna allskyns fallegan fatnað héðan og þaðan úr heiminum. Íslenska og erlenda hönnun og merkjavöru í bland. Í öllum stærðum, gerðum og litum!

Fatasalan er opin sem hér segir:

Fimmtudaginn 1. Feb 16-19
Föstudaginn 2. Feb 16-19
Laugardaginn 3. Feb 13-16
Á neðri hæð Netagerðarinnar Grænagarði 5
Gengið inn að ofanverðu

Fjölgun íbúða fer að mestu til lögaðila og stærri íbúðaeigenda

Íbúðum í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð fjölgaði um 2.000 á síðasta ári og hefur fjölgunin ekki verið jafnmikil frá árinu 2010. Þetta kemur fram í upplýsingum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar sem stofnunin hefur unnið úr fasteignaskrá..

Samkvæmt tölunum hefur verulega dregið úr fjölgun íbúða í eigu einstaklinga sem eiga aðeins eina íbúð, en þeim fjölgaði um rúmlega 1.000 í fyrra. Til samanburðar fjölgaði íbúðum með sams konar eignarhald um 1.300 árið 2022, um 2.400 árið 2021 og um 2.800 árið 2020.

Fjölgun íbúða í eigu lögaðila og einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð hefur hins vegar aukist töluvert á síðustu tveimur árum, en slíkum íbúðum fjölgaði um 2.300 í fyrra, miðað við 1.600 íbúða fjölgun árið 2022 og 800 íbúða fjölgun árið 2021.

Myndin hér að neðan sýnir fjölgun íbúða eftir eignarhaldi, en samkvæmt henni fór fjölgun íbúða að mestu leyti til einstaklinga sem áttu eina íbúð tímabilinu 2016-2021. Fjölgunin gefur góða mynd af innkomu fyrstu kaupenda á húsnæðismarkað, sem var umfangsmikil á því tímabili. Á síðustu tveimur árum hefur fyrstu kaupendum hins vegar fækkað auk þess sem fleiri fullbúnar íbúðir hafa verið óseldar og í eigu fyrirtækja í mannvirkjagerð.

Aukning í fjölda íbúða eftir eignarhaldi 2003-2023

Meðalhiti í Litlu-Ávík árið 2023 sá sami og 2022

Mælar á Veðurstöðinni í Litlu-Ávík

Meðalhiti á veðurstöðinni í Litlu-Ávík fyrir árið 2023 eftir mánuðum. Meðalhitinn er reiknaður út af Veðurstofu Íslands og eru tölurnar úr Gagnabrunni Veðurstofu Íslands. Innan sviga er meðalhitinn frá 2022:

Janúar:-0,7 stig.  (-0,2 stig.)

Febrúar:+1,5 stig.  (-1,3 stig.)

Mars:-2,5 stig. (+0,5 stig.)

Apríl:+2,6 stig. (+2,8stig.)

 Maí :+5,1 stig.  (+3,7 stig.)

 Júní:+9,1 stig.  (+7,0 stig.)

 Júlí:+6,6 stig.  (+8,7 stig.)

 Ágúst:+9,1 stig.  (+8,8 stig.)

September:+7,7 stig. (+7,3 stig.)

 Október:+4,0 stig. (+4,1 stig.)

 Nóvember:+2,1 stig. (+4,0 stig.)

 Desember:-1,2 stig.  (-1,7 stig.)

Meðalhiti ársins 2023 var +3,6 stig.  (árið 2022: +3,6 stig.)

Hitinn var hæstur í júní og í ágúst +9,1 stig. En í ágúst 2022 +8,8 stig. Kaldast var í mars -2,5 stig.. En 2022 var kaldast í desember -1,7 stig.

Þetta kemur fram í frétt á vefnum litlihjalli.it.is

Nýtt gjald á fyrir­tæki í Vesturbyggð

Hér má sjá ruslahaug af biluðum raftækjum.

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar hefur tekið ákvörðun um að leggja gjald á fast­eignir fyrir­tækja og stofn­anna í Vest­ur­byggð.

Gjaldið heitir Rekstur grenndar- og söfn­un­ar­stöðva – fyrir­tæki og er 55.726 fyrir árið 2024 og er gjaldið innheimt með fast­eigna­gjöldum.

 

Vesturbyggð stendur  undir ýmsum föstum kostnaði vegna fyrirtækja eins og rekstur á  gámasvæðum og öðrum föstum kostnaði sem ekki telst eðlilegt að heimilin standi ein undir.

Gjaldið er ekki ætlað til að standa undir sorphirðu hjá fyrirtækjum og stofnunum og ber þeim að gera samning við þjónustuaðila um hana.

Í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 kemur fram að rekstraraðilum sé skylt að flokka rekstrarúrgang, jafnframt segir í sömu lögum að innheimta skuli gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi  förgunarstaðar.  

Sveitarfélagi er heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu sem má vera 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. Janúar 2025 eftir það má fastur kostnaður ekki vera hærri en sem nemur 25% af heildarkostnaði.

Súðavíkurhlíð: Virtu ekki lokun

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því í tilkynningu á facebook rétt áðan að í gærkvöldi hafi tveir einstaklingar verið handteknir.

Höfðu mennirnir opnað lokunarhlið og ekið til Súðavíkur og opnað þar lokunarlið áður en þeir héldu aftur til Ísafjarðar og skildu hliðin eftir opin.

Þeim sem í bifreiðinni voru var kynnt að þeir yrðu kærðir vegna háttsemi sinnar. Alvarleiki hátternisins var ítrekaður fyrir þeim og kynnt að öll almenn umferð væri bönnuð um veginn til morguns að minnsta kosti, meðan lokunarhliðin væru fyrir veginum.

Hliðinu var lokað í framhaldinu og gengið úr skugga um að enginn væri á vegarkaflanum milli lokunarhliðanna.

„Nokkru síðar sáu lögreglumenn hvar bifreið var ekið innan lokunarsvæðisins í Skutulsfirði í átt að Súðavík og hélt lögregla á eftir bifreiðinni. Reyndust þar á ferð sömu einstaklingar og fyrr um nóttina. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslum enda háttsemi þeirra til þess fallinn að stuðla að hættu fyrir þá, aðra vegfarendur sem og viðbragsaðila.

Einstaklingunum tveimur hefur nú verið sleppt eftir yfirheyrslur.

Háttsemi sem þessi er litin alvarlegum augum enda lokun vegarins til komin af brýnni ástæðu. En ofanflóðaeftirlit Veðurstofu Íslands hafði metið að líkur á snjóflóð næði vegi væru yfir 40%.“

Hollvinafélag um fjöruna á Suðurtanga

Suðurtangi, fjaran.

Hollvinafélag um fjöruna á Suðurtanga hefur gert samning við Ísafjarðarbæ um fjöruna með það að markmiði að fegra og snyrta svæðið.

Í afnotasamningnum segir að Hollvinafélagið hafi afnot af svæðinu sem er 3.673 fermetrar að stærð og að svæðið sé eina náttúrulega fjaran á Eyrinni og sé á hverfisverndarsvæði og skuli varðveitt.

Afnot feli í sér afnot til uppgræðslu og /eða snyrtingar og fegrunar svæðisins. Samningurinn er til fimm ára og framlengist um fimm á í senn verði honum ekki sagt upp.

Undirritun samningsins fór fram 2. desember 2023 og er Sigurður Ólafsson forsvarsmaður Hollvinafélagsins.

Í viðauka við afnotasamninginn er vísað til aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008 – 2020 en þar er ákvæði um hverfisvernd fjörunnar og að tryggja aðgang almennings að henni. Segir að húsaþyrpingin og fjaran verði vernduð sem heildstæðeining. Það styrki heildarímynd ssafnasvæðisins og geti aukið sýningarmöguleika þess.

Teikning af fjörunni í Suðurtanga.

Óvissustig á Súðavíkurhlíð

Af Steingrímsfjarðaarheiði kl 11. Þar eru 15 m/sek. Mynd: Vegagerðin.

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn en óvissustig er vegna snjóflóðahættu. Að sögn Veggerðarinnar er engin úrkoma þar en mögulegt að skafi fram af fjallsbrúnum og því aðgát höfð. Hlýindi eru í lofti og ökumenn gæti að hálku. Í Ísafirði innst í Ísafjarðardjúpi gefur Vegagerðin nú upp að sé flughált.

Dynjandisheiði er lokuð og ekki verður mokað þar í dag. Þungfært er norður í Árneshrepp.

Töluverður vindur er á sunnanverðum Vestfjörðum, 20 m/sek á Hálfdán og 15 m/sek á Kleifaheiði.

Almennt má segja að það séu vetraraðstæður á færð á Vestfjörðum.

Ráðuneyti framlengir samninga við náttúrustofur um eitt ár

Samningar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis við sveitarfélög um rekstur átta náttúrustofa runnu út um síðustu áramót. Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaganna segir að ráðuneytið telji mikilvægt að staldra við og meta árangur af þeim samningum. Lagt er til að samningar verði framlengdir til eins árs eða til ársloka 2024 og mun ráðuneytið senda viðkomandi sveitarfélögum viðauka til rafrænnar undirritunar á allra næstu dögum.

Á Vestfjörðum er rekin Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungavík.

Settur verður á fót starfshópur sem mun hafa það hlutverk að:

  1. Meta árangur af núverandi starfsemi náttúrustofa.
  2. Greina og kortleggja núverandi stöðu náttúrustofa, s.s. varðandi verkefni, samstarf, rekstur,
    fjármál, mannauðsmál og húsnæðismál.
  3. Kortleggja þær áskoranir sem náttúrustofurnar standa frammi fyrir.
  4. Skoða mismunandi sviðsmyndir um rekstarform náttúrustofanna þ.á.m. sameiningu við
    Náttúrufræðistofnun Íslands.
  5. Greina áhættuþætti við framkvæmd á hverri sviðsmynd.

Við Náttúrustofu Vestfjarða, NAVE, starfa ellefu starfsmenn. Sigurður Halldór Árnason er forstöðumaður. Stjórn NAVE er þannig skipuð að formaður er Smári Haraldsson líffræðingur og meðstjórnendur þau Catherine Chambers, PhD., sjávarútvegsfræðingur og Lilja Magnúsdóttir, M.S., skógfræðingur. Varastjórn skipa, Matthías Lýðsson, Bragi Þór Thoroddsen og Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Er aðal- og varastjórn skipuð fulltrúum þeirra sex sveitarfélaga sem að stofunni standa.

Sveitarfélögin sex sem að stofunni standa eru Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Strandabyggð, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.

Ísafjörður: 15,9 m.kr. kostnaður vegna skíðasvæðis afskrifaður

Skíðasvæðið í Tungudal.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að afskrifa eignfærðan kostnaðar að fjárhæð kr. 15.872.436 m.v. árslok 2023 vegna kostnaðar við hönnun skíðasvæðisins á Ísafirði á árunum2019 og 2020.

Fram kemur í minnisblaði semlagt var fyrir bæjarráðið að samkvæmt upplýsingum forstöðumanns skíðasvæðisins, fjármálastjóra og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, er ljóst að ekki er tilefni til að ætla að farið verði í framkvæmdir á skíðasvæðinu í grundvelli umræddrar hönnunar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Upphaflegur kostnaður við framtíðarhönnunina varð alls kr. 18.036.864. Þykir ekki forsvaranlegt annað en að afskrá stofnkostnaðinn úr eignasafni Eignasjóðs.

Nýjustu fréttir