Sunnudagur 15. september 2024
Síða 177

Þorrablót Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga verður í Hnífsdal eftir viku

Frá þorrablóti Sléttuhreppinga. Mynd: Bæjarins besta.

Laugardaginn 10. febrúar verður sameiginlegt þorrablót Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga haldið í Félagsheimilinu í Hnífsdal.

 Átthagafélög Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga héldu þorrablót um langt árabil hvort um sig og hafa þau verið vettvangur fyrir brottflutta Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og afkomendur þeirra til að hittast og skemmta sér saman. Frá 2017 hafa félögin staðið sameiginlega að þorrablótinu.

Blótið verður með hefðbundnu sniði, gestir koma með sín eigin trog full af kræsingum.

Heimatilbúin skemmtiatriði, veglegt happdrætti, gleði, söngur og gaman.

Hljómsveitin Fagranes leikur fyrir dansi. Einnig verður boðið uppá upprifjun í gömlu dönsunum í vikunni fyrir blótið.

Miðaverð kr. 4.500.-
miðapantanir í símum:
848-2068, Andrea
863-3830 Dagný
borgað við innganginn, posi á staðnum.

Allar upplýsingar má sjá á Facebook:  https://www.facebook.com/events/1729928544155792

Fiðlarinn á þakinu: uppselt á fyrstu sýningar

Litli leikklúbburinn frumsýndi á fimmtudaginn söngleikinn Fiðlarinn á þakinu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fyrir fullu húsi og glimrandi undirtektir. Sýningin er tvímælalaust einn stærsti menningarviðburðurinn á Vestfjörðum þetta árið. Önnur sýning var í gærkvöldi og var einnig uppselt á hana. Þriðja sýning verður í dag kl 14. Alls verða 10 sýningar , sú síðasta 16. febrúar.

Sýningin er sett upp í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarskólans á Ísafirði og standa skólinn og Litli Leikklúbburinn að henni.

Ísfirðingurinn Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir og Bergþór Pálsson skólastjóri Tónlistarskólans fer með aðalhlutverkið. Bea Joó er hljómsveitarstjóri og hljómsveitin er skipuð kennurum, nemendum og fyrrum nemendum skólans. Alls koma um þrjátíu manns að sýningunni.

Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, fyndinn og hjartnæmur söngleikur eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein, sem var fyrst frumsýndur á Broadway 1964. 1971 kom út vinsæl söngvamynd byggð á söngleiknum.

Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje, sem leikinn er af Bergþóri Pálssyni. Verkið gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir en foreldrarnir, miðlarinn og samfélagið.

Miðasala er r og einnig á vef Litla leikklúbbsins.

Sögulegar gönguferðir í Haukadal í sumar.

Í sumar býður Kómedíuleikhúsið upp á gönguferðir fyrir hópa um Haukadal í Dýrafirði.

Annars vegar er það Gísla Súrssonar ganga og hins vegar Fransí Biskví sögur af frönskum sjómönnum

Í um tvær aldir voru mennsku vorboðarnir í Haukadal hinir frönsku sjómenn. Komu þeir hingað árlega til að fiska þann gula og þeirra trausta akkeri var hér í Dýrafirði nánar tiltekið sjálf Haukadalsbótin. Hvar skipin gátu legið örugg einsog í kommóðuskúffu. Vitanlega urðu samskipti Haukdæla við þá frönsku all mikil og um leið hagstæð á báða bóga. Var einkum um að ræða skiptiverslun hvar heimamenn gáfu prjónlesið og þáðu í staðinn konjak sem hið fræga Fransí Biskví. Gengið verður um slóðir Fransmanna sem Haukdæla í þessari sögulegu göngu.

Þó margar sögurnar hafi orðið til í Haukadalnum okkar þá toppar ekkert Gísla sögu Súrssonar. Þessi vinsæla söguganga verður að vanda partur af sumardagskrá okkar í Haukadal. Enda fátt sem toppar það að ganga bókstaflega í spor sögunnar.

Sögugöngunar eru í boði fyrir hópa tímabilið júní – október.

Sundlaug Þingeyrar bráðlega opnuð eftir miklar endurbætur

Sundlaugin á Þingeyri.

Viðgerðarvinnu við sundlaugina á Þingeyri miðar vel áfram og er innan þess tímaramma sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Nýr sundlaugardúkur, stútar og önnur aðföng sem verkinu fylgja eru komin til landsins. Fjórir starfsmenn fyrirtækisins Á. Óskarssonar koma vestur um miðja næstu viku til þess að endurnýja laugarkarið og mun sú vinna taka um viku en sundlaugin hefur verið lokuð síðan í haust.

Píparar eru að vinna við lagnir og munu halda því áfram samhliða vinnu starfsmanna Á. Óskarssonar.

Sameina á Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólann á Akureyri

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda áform um að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði hluti af Háskólanum á Akureyri.

Hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar starfa um 10 sérfræðingar í um 6 stöðugildum og er stofnunin með aðalskrifstofur í Borgum á Akureyri auk þess að vera með aðstöðu á Ísafirði og Flateyri.

Með samruna háskólans og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gefst tækifæri til að skoða og endurmeta samstarfsmöguleika við aðra norðurslóðaaðila á Akureyri, einkum Norðurslóðanetið segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Hænur ekki lengur í búrum

Um mitt síðasta ár tók gildi bann við varphænsnahaldi í hefðbundnum búrum hér á landi.

Með gildistöku reglugerðar um velferð alifugla árið 2015 var eggjabændum gefinn sjö ára frestur, til loka árs 2021, til að breyta varphúsum með hefðbundnum búrum í varphús með innréttuðum búrum eða í lausagönguhús. Á þeim tíma voru um 72% varphænsna landsins haldin í hefðbundnum búrum. Frestur til að hætta notkun á þeim var tvívegis framlengdur en ákvæðið tók endanlega gildi þann 1. júlí 2023. 

Í úttektum Matvælastofnunar á eggjabúum í haust kom í ljós að varphænur voru enn í búrum á tveimur stöðum. Eigendur þessara fugla brugðust við kröfum Matvælastofnunar um að hætta notkun búranna og síðustu hænur voru fjarlægðar úr þeim í desember 2023.

Allar varphænur landsins hafa núna kost á að geta krafsað og sandbaðað sig í undirburði í lausagönguhúsum, þær geta orpið í varpkössum, hvílt sig á setprikum í öruggri hæð frá meintum rándýrum eins og þeim er eðlilegt og síðast en ekki síst hafa þær möguleika á að hreyfa sig um varphúsið. Með þessu skrefi hefur mikið áunnist í bættri velferð varphænsna.

Grunnskóli í 25 ár: starfsfólki fjölgar en kennurum fækkar hlutfallslega

Út er komin skýrsla HLH ráðgjafar sem unnin var fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið um þróun rekstrar grunnskóla frá því að þeir færðust frá ríki til sveitarfélaga frá 1996 fram til ársins 2022. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að efnið verði nýtt m.a. til hagnýtingar við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, menntastefnu til ársins 2030 og aðgerða í byggðaáætlun er lúta að menntun og fræðslu.

Fram kemur að nemendum hafi fjölgað um 11% á tímabilinu og voru í október 2022 samtals 47.115, en stöðugildum starfsfólks í grunnskólum fjölgaði um rúmlega 69% á árunum 1998-2022 og voru 8.361 í lok tímabilsins.

Fjölgunin var mjög misjöfn eftir störfum innan skólans.

Stöðugildum stjórnenda fjölgaði um 108% á tímabilinu.

Stöðugildum ófaglærðra sem sinna stuðningi hefur fjölgað mest eða um 518%.

Stöðugildum faglærðra sem sinna stuðningi hefur fjölgað um 478%.

Stöðugildum þeirra sem sinna kennslu hefur á sama tíma fjölgað um 49%

Hlutfall starfa sem sinna kennslu hefur dregist saman á tímabilinu 1998-2022.

Nemendum á hvert stöðugildi stjórnenda hefur fækkað úr rúmlega 133 árið 1998 í rúmlega 71 árið 2022 eða um 87%.

Um 13 nemendur voru á hvert stöðugildi kennara árið 1998 en tæplega 10 nemendur voru á hvert stöðugildi kennara árið 2022.

Raunaukning meðalgjalda á hvern nemanda er 130% frá árinu 1998 til 2022. Gjöldin fara úr því að vera 1,1 m.kr. árið 1998 í 2,4 m.kr. árið 2022 að jafnaði á hvern nemanda.

Strandabyggð: unnið að 60 herbergja hótelbyggingu

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í fyrra. Frá vinstri: Friðjón, Matthías og Þorgeir.

Unnið er að undirbúningi að 60 herbergja hótelbyggingu á Hólmavík. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að framundan sé frekari hönnunar og skipulagsvinna og samræming við endurskoðun á aðalskipulagi.  Hann segir að fyrstu tillögur að tímaramma, geri ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í haust.  Á vordögum munu fulltrúar fjárfesta koma til Hólmavíkur á opin fund og kynna verkefnið fyrir íbúum.

Skifað var undir viljayfirlýsingu í maí 2023 á Hólmavík.  Fyrir hönd Fasteignaumsýslunnar ehf var það Friðjón Sigurðarson sem skrifaði undir. Oddvitar beggja lista í sveitarstjórn Strandabyggðar, Þorgeir Pálsson og Matthías Sævar Lýðsson, skrifuðu undir fyrir hönd sveitarfélagsins.  Að auki voru þarna viðstaddir aðrir fulltrúar fjárfesta, arkitektar og sveitarstjórnar.

Hótelið verður staðsett á klettabrúninni fyrir neðan tjaldsvæðið við íþróttamiðstöðina.

Vísindaportið: púkinn í okkur öllum

Skúli Gautason.

Í Vísindaportinu 2. febrúar heldur Skúli Gautason erindi sem nefnist „Púkinn í okkur öllum“ þar sem hann segir frá barnamenningarhátíðinni Púkanum sem var haldin í september síðastliðinn og verður haldin aftur í apríl næstkomandi.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Skúli Gautason er menningarfulltrúi Vestfjarða og vinnur hjá Vestfjarðastofu. Hann hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, menningarfulltrúi Hörgársveitar og viðburðastjóri á Höfuðborgarstofu. Hann er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst en þar áður starfaði hann sem leikari, leikstjóri og tónlistarmaður.

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:

https://eu01web.zoom.us/j/6994747

Kaldrananeshreppur: framkvæmdir fyrir 187 m.kr.

Drangsnes að vetri. Mynd: Kaldrananeshreppur.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur gengið frá fjárhagsáætlun ársins. Afgangur frá rekstri verður 34 m.kr. og handbært fé frá rekstri 45 m.kr. og verður í lok ársins 12 m.kr. Áætlað er að taka 95 m.kr. í ný langtímalán. Framkvæmdir ársins verða 187 m.kr. og verða þær að öllu leyti fjármagnaðar frá rekstri og með lántökum. Ekkert framlag er frá ríkinu til framkvæmdanna.

Langstærsti framkvæmdaliðurinn er 90 m.kr. til bygginga smáhýsa við Vitastíg. Ráðgert er að reisa þau til að bæta úr brýnni þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Á skipulaginu er gert ráð fyrir fimm smáhýsum. Til skoðunar eru forsmíðuð timburhús 35 fermetrar og 70 fermetrar að stærð. Finnur Ólafsson, oddviti sagði húsnæðismálin vera afar brýn en mikill skortur er á húsnæði á Drangsnesi.

Þá eru 20 m.kr. settar í malbikun gatna í þorpinu.

Þriðja stóra framkvæmdin er stækkun hitaveitu Drangsness. Nýlega fékkst góður árangur af nýrri borholu fyrir hitaveituna og er nú á dagskránni að stækka heitaveituna og leggja að Bæ, sem er nokkuð fyrir norðan þorpið. Þar munu nokkur hús tengjast við veituna, bæði íbúðarhús og sumarhús. Í það fara 35 m.kr.

Nýjustu fréttir