Sunnudagur 15. september 2024
Síða 176

Útkall við afar krefjandi aðstæður út af Ísafjarðardjúpi

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist krefjandi útkall á haf út í slæmu veðri á föstudagskvöld.

Óskað var eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna veikinda sem upp komu í togara sem var á veiðum um 20 sjómílur út af Ísafjarðardjúpi. Vegna veðurs þurfti áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, að beita töluverðri útsjónarsemi í fluginu.

Tekið var á loft frá Reykjavíkurflugvelli og varð að fljúga með fram ströndu til móts við skipið en þangað var áhöfn þyrlunnar komin um klukkan 21:00. Þar voru aðstæður erfiðar sökum vinds og éljagangs en þrátt fyrir það gekk vel gekk að hífa skipverjann um borð í þyrluna.

Áhöfnin fór að því búnu inn á Ísafjörð til eldsneytistöku og þaðan var maðurinn fluttur til Reykjavíkur þar sem hann komst undir læknishendur.

Birnir og Emilía vinsælust

Birnir var vinsælasta fyrsta eiginnafn meðal nýfæddra drengja á síðasta ári en 30 drengjum var gefið nafnið Birnir, næst vinsælustu nöfnin voru Emil, Elmar og Jón.


Emilía var vinsælasta nafnið meðal nýfæddra stúlkna sem fyrsta eiginnafn, en 23 stúlkum var gefið nafnið Emilía, þar á eftir voru nöfnin Sara, Sóley, Embla og Aþena.

Ef horft er á samanburð á milli ára má sjá að drengjanafnið Birnir tekur fyrsta sætið af Emil. Elmar tekur stökk úr 27. sæti í þriðja og Jón hækkar. Hvað stúlkurnar varðar má sjá að Emilía tekur stökk úr 21. sæti í fyrsta. Sara og Sóley hækka líka verulega frá fyrra ári. Hástökkið á topp 10 listanum er nafnið Una, fer úr 58. sæti í það níunda.

Ísafjarðarbær: hafnar ósk Vestra um að annast þjónustu á Torfnesvelli

Samúel Samúelsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í morgun erindi frá knattspyrnudeild Vestra þar sem farið er fram á að deildin annist í sumar umsjá knattspyrnusvæðisins á Torfnesi.

Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs kemur fram að kostnaður við ósk Vestra yrði kr.607.638 á mánuði eða kr.4.253.466 fyrir alla 7 mánuðina sem um ræðir. Verði það samþykkt þarf að gera viðauka upp að kr.2.505.198. þar sem í fjárhagsáætlun 2024 er kostnaður við umsjón svæðisins þessu lægri. Miðað er við að þjónusta svæðisins verði unnin af starfsfólki íþróttahússins á Torfnesi á dagvinnutíma.

Fulltrúar Í-lista í bæjarráði bókuðu að þeir telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja skuli sjá um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og Vallarhús. Bæjarstjóra var falið að taka málið aftur upp á fundi bæjarráðs 8. apríl 2024. Áréttað var að gerðar verði ítarlegar verklagsreglur.

Mjög óánægður

Samúel S. Samúelsson formaður meistaraflokksráðs Vestra sagðist verða afar óánægður með þessa afgreiðslu. Hann sagði að reynsla Vestra af þessu fyrirkomulagi væri afleit. Það væri 150 – 200 iðkendur á hverjum degi á svæðinu og algerlega óviðunandi að ekki væri starfsmaður í Vallarhúsinu. Yrði þetta niðurstaðan væri um mikla afturför að ræða.

Samúel sagði að þjónustan væri ekki viðunandi eins og nú er og að Vestri væri eina liðið á landinu sem gæti ekki æft á sínum velli þar sem völlurinn væri ekki mokaður og saltaður. Framundan væri Lengjudeildin og fyrsti leikurinn á að fara fram á nýja gervigrasvellinum á Torfnesi þann 17. febrúar. Völlurinn væri ekki leikfær þar sem ekki væri búið að merkja línur á völlinn og koma upp mörkum. Ef liðið gæti ekki spilað sína heimaleiki á Torfnesi færast leikirnir annað og kostnaður Vestra við hvern leik gæti verið um hálf milljón króna.

Ísafjörður: aparólan verði færð

Komin er fram tillaga um að færa aparóluna fjær íbúðarhúsum við Túngötu sem Ísafjarðarbær hyggst reisa á Eyrartúninu. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól í morgun bæjarstjóra að vinna að formlegri samþykkt málsins og vísar erindinu til skipulags- og mannvirkjanefndar til lokaafgreiðslu. Jafnframt var bæjarstjóra falið að taka saman umframkostnað vegna þessara breytinga og leggja fyrir bæjarráð.

Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnaði því í október sl. að framkvæmdin væri leyfisskyld. Áformin voru kærð til úrskurðarnefndar um umhverfis og auðlindamál sem 22. desember 2023 vísaði kærunni frá þar sem ákörðun nefndarinnar væri ekki stjórnvaldsákvörðun tekin á grundvelli skipulagslaga og því ekki kæranleg.

Gat á kví í Dýrafirði

Kvíar Arctic Fish í Dýrafirði.

Á miðvikudaginn í síðustu viku var tilkynnt um 30 x 10 cm gat á kví nr 7 í Haukadalsbót í Dýrafirði. Fiskistofa segir að gatið hafi fundist þegar netpoki var skoðaður með neðansjávardróna. Gatið var á um það bil 2 metra dýpi. Viðbragðsáætlun fyrirtækisins var virkjuð, gert var við gatið og net lögð við kvínna. Ekki veiddust laxar í netin samkvæmt upplýsingum frá Arctic Fish.

Fiskistofa telur ekki miklar líkur á því að eldisfiskar hafi sloppið út um gatið, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Fiskistofa mun ekki aðhafast frekar vegna málsins nema fram komi upplýsingar um að vart verði við eldisfiska í nærliggjandi svæðum eða veiðivötnum. 

Upplýsingar um byggðakvóta ekki á lausu

Páll Pálsson ÍS fékk byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki hafa enn fengist upplýsingar frá Matvælaráðuneyti eftir 55 daga bið um byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs sundurliðaður á einstök byggðarlög. Óskað var eftir yfirlitinu þann 12. desember 2023 og fengust þá þau svör að reiknað væri með því að birta yfirlitið á næstu dögum á vefsíðu ráðuneytisins.

Rúmum þremur vikum síðar eða þann 5. janúar 2024 var erindið ítrekað og bárust þá þessi svör:

„Það er verið að vinna í því að birta tillögur að sérreglum vegna byggðakvóta. Geri ráð fyrir því að yfirlit um úthlutun til byggðarlaga verði birt samhliða. Þetta ætti að vera komið strax eftir helgi.“

Fyrir viku var enn óskað eftir þessu yfirliti, en það hefur ekki enn verið upplýst né hvers vegna svör hafa ekki verið veitt. Ekki hafa verið veitt svör við því hvers vegna úthlutunarreglur hvers sveitarfélags þurfa að liggja fyrir áður en upplýst er hve mikill byggðakvóti kemur í hlut hvers sveitarfélags.

Ráðuneytið sendi í byrjun desember bréf um úthutun á byggðakvóta til hvers sveitarfélags sundurliðað eftir byggðalögum. Vitað er að til Vesturbyggðar er ráðstafað 102 tonnum af byggðakvóta til þriggja byggðarlaga innan sveitarfélagsins og til Ísafjarðarbæjar fara 1.082 tonn vegna fjögurra byggðarlaga.

Bolungavíkurhöfn: 985 tonn í janúar

Það var kuldalegt um að litast í Bolungavíkurhöfn fyrir tveimur vikum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls bárust 985 tonn af bolfiski að landi í Bolungavíkurhöfn í janúar að frátöldum eldisfiski en tölur fyrir janúar liggja ekki fyrir.

Togarinn Sirrý var aflahæst með 440 tonn í átta veiðiferðum. Dragnótabáturinn Ásdís ÍS var með 36 tonn eftir 5 veiðiferðir.

Fjórir línubátur lönduðu afla í mánuðinum. Heimabátarnir Fríða Dagmar ÍS og Jónína Brynja ÍS fóru báðir 18 róðra og komu með 227 tonn og 223 tonn eða samtals 450 tonn. Gjafar ÍS frá Þingeyri landaði tvsivar samtals rúmum 6 tonnum. Þá fór Indriði Kristins BA frá Tálknafirði þrjá róðra og kom með 52 tonn.

Verknámshús M.Í: Ísafjarðarbær fagnar áformunum

Menntaskólinn á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tók fyrir á fundi sínum á fimmtudaginn byggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Fyrir liggja drög að samningi milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum og ríkisins en kostnaðarskiptingin er þannig að ríkið greiðir 60% og sveitarfélögin 40%.

Bæjarstjórnin samþykkti tillögu bæjarstjóra um að bæjarstjórn samþykki að taka þátt í verkefni um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði.

Jafnframt var bókað:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar áformum um byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði. Það er mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Í ljósi þess að við sjáum fram á mikla uppbyggingu á svæðinu er þetta þýðingarmikið fyrir framtíð Vestfjarða.“

Samningur og frekari gögn um fjármögnun og hlut Ísafjarðarbæjar verður lagður fram til samþykkis á síðari stigum.

Ísafjarðarbær: innviðaráðuneyti hafnaði breytingum á bæjarmálasamþykkt

Í bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn voru afgreiddar breytingar á bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins. Innviðaráðuneytið hafði hafnað þeim breytingum sem gerðar voru í desember sl. að fela bæjarráði að kjósa í stjórnir sem sveitarfélagið hefur aðild að.

Varð því að breyta bæjarmálasamþykktinni á þann veg að fellt var út að bæjarráð veitti umboð til að sækja aðalfundi Fasteigna Ísafjarðar ehf, Melrakkaseturs ehf, Kaplaskjóls ehf og Hvetjanda eignarhaldsfélags.

Er að skilja afgreiðsluna þannig að áfram verði það verkefni bæjarstjórnar að kjósa fulltrúa Ísafjarðarbæjar sem fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundum þessara félaga.

Bolungavíkurkaupstaður: markmiðið að auka lagareldi á Íslandi

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Bolungavíkurkaupstaður segir í umsögn sinni um frumvarpsdrög Matvælaráðherra að heildarlögum um lagareldi að mikilvægt sé að öll umræða og umfjöllun um frumvarpið og greinina almennt endurspegli það markmið að auka lagareldi á Íslandi og gera greinina betur í stakk búna til að styðja við samfélögin þar sem það er stundað.

Lagareldi er notað sem samheiti yfir fiskeldi til lands og sjávar og þörungaeldi en fyrst og fremst er frumvarpið um laxeldi í sjókvíuum.

Telur kaupstaðurinn að vandað sé til vinnu við frumvarpið. Gerðar eru þó nokkrar athugasemdir við frumvarpsdrögin. Í fyrsta lagi séu of víðtækar valdheimildir færðar til ráðherra og honum ætlað að setja leikreglurnar í reglugerð án þess að lagatextinn ákvarði þær.

Í öðru lagi er mótmæltskiptingu tekna af fiskeldisgjaldinu. Ráðherra vill að 30% teknanna renni í samfélagssjóð sem síðan úthluti til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er stundað. Vill kaupstaðurinn að það verði endurskoðaða og bent á að sveitarfélög á Vestfjörðum séu einhuga um að hlutfallið eigi að vera a.m.k.80%.

Í þriðja lagi sé of langt gengið í því að beita fyrirtækin refsingum og sektum. Mistök eigi sé alltaf stað og ekki sé hægt að banna þau með lögum. Refsingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að minnka framleiðsluheimildir fyrirtækjanna og það muni bitna helst á samfélögunum þar sem eldið er stundaðí formi færri starfa og minni framleiðslu. Viðurlög þurfi að vera við hæfi.

Nýjustu fréttir