Sunnudagur 15. september 2024
Síða 175

Bolungarvíkurkaupstaður með húsnæðisáætlun

Bolungarvíkurkaupstaður hefur staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024.

Samkvæmt miðspá um mannfjöldaþróun þá áætlar sveitarfélagið að mannfjöldi aukist um 48% næstu 10 árin. Frá árinu 2021 hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 60 manns sem er rúmlega 6% aukning.

This image has an empty alt attribute; its file name is Mannfjoldaspa-1.png

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er áætlað að þörf verði fyrir um 18 íbúðir á ári, 88 íbúðir næstu 5 ár og 205 íbúðir á næstu 10 árum.

Til samanburðar þá hefur fullbúnum íbúðum fjölgað að meðaltali um 5 íbúðir á ári síðustu 5 ár.

Í talningu HMS var aðeins 1 íbúð í byggingu í september 2023 og einnig í mars talningunni sama ár. Fjöldi íbúða í byggingu er langt frá því að mæta áætlaðri íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar sveitarfélagsins og veruleg þörf fyrir að fjölga íbúðum í byggingu.

Markmið sveitarfélagsins í lóðamálum er að halda áfram að þróa fyrirliggjandi lóðakosti í sveitarfélaginu og bjóða uppá fjölbreyttar lóðir fyrir allar tegundir fasteigna. Bolungarvíkurkaupstaður hefur nú skipulagt lóðir fyrir 157 íbúðir sem stefnt er að gera byggingarhæfar og úthluta á næstu 4 árum svo lóðaframboð mæti vel áætlaðri íbúðaþörf.

Hörmungardagar á Hólmavík

Hörmungardagar verða haldnir helgina 9.-11. febrúar næstkomandi. Fyrirvarinn er vissulega stuttur, en ógæfan gerir sjaldan boð á undan sér.

Dagskrá: (með fyrirvara um breytingar og að allt muni fara úr skorðum)

Föstudagur:

18:00 Pöbbarölt sem hefst á Galdri Brugghúsi.

Galdrasafnið:
20:00 Siggi Atla – Minningardagskrá – Kaffi Galdur.
Sigga Atla skrall verður haldið á Galdrasýningu á Ströndum föstudagskvöldið 9. febrúar næstkomandi, milli kl. 20-23. Þar verður óformleg dagskrá, gleðilæti, gamansögur og bjórdrykkja í hávegum höfð. Öll eru velkomin. Bent er á að tala þarf við Galdra-Jón Jónsson ef fólk vill troða upp, en hann hefur þó sennilega bæði litla og takmarkaða stjórn á viðburðinum, ef að líkum lætur.
Fyrr um daginn verður boðið upp á dýrindis kræklingarétt á Kaffi Galdri að hætti Sigga Atla, í tengslum við skrallið.

Laugardagur:

Galdrasafnið:
11:00 Slökunarjóga með Esther
13:00 Miðgarðsorma vinnustofa á Kaffi Galdri
14:00 Hörmungarleikar
16:00 Krakkakviss um hörmungar á Kaffi Galdri

Galdur Brugghús:
20:00 – Fyrir utan Galdur Brugghús – Minnsti varðeldur í heimi með keðjusöng ásamt flugeldasýningu
20:15 – Open mic, 5 aura brandarakeppni, komum okkur í tuðgír, fyrsta heims vandamál rædd.
21:00 – Galdur Brugghús: Ögurstund (reverse happy hour) á Galdri Brugghúsi – Allir bjórar á tvöföldu verði, en ágóðinn fer til Björgunarsveitarinnar.
21:20 – Drengurinn Fengurinn með tónleika
22:00 – Svavar Knútur með hörmulegt DJ-Set

Sunnudagur:

Rósubúð
12:00 – Björgunarsveitin heldur upp á 112 daginn.
Opið hús og allur búnaður og tæki verða til sýnis.
Kaffiveitingar í boði.

Sauðfjársetrið:
14:00 – Bollukaffi á Sauðfjársetrinu.
16:00 – Dúllurnar flytja harmkvæði
16:30 – Keppni í að gera sorglegasta snjókarlinn á vegum Náttúrubarnaskólans

Tilboð frá VSÓ ráðgjöf í Svæðisskipulag Vestfjarða samþykkt

Horft yfir Grunnavík. Mynd: Romain Charrier
Horft yfir Grunnavík. Mynd: Romain Charrier.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur fyrir hönd sveitarfélaga á Vestfjörðum, tekið til­boði VSÓ ráðgjafar ehf, í gerð Svæðisskipulags Vestfjarða. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða ber ábyrgð á gerð skipulagsins en nefndina skipa tveir fulltrúar úr hverju eftirtalinna sveitarfélaga; Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður og Ísafjarðarbær

VSÓ ráðgjöf var lægst­bjóðandi en til­boð fyr­ir­tæk­is­ins hljóðaði upp á 79,3 mkr sem er 95,3% af kostnaðaráætlun er nam 83,2 mkr, samstarfsaðili með VSÓ ráðgjöf í verkefninu verður Urbana ehf. Alls bárust fjögur önnur tilboð, þar af tvö sem voru innan kostnaðaráætlunar. Aðrir bjóðendur voru EFLA hf, Yrki arkitektar, Verkís og Landmótun.

Fjórðungssamband Vestfirðinga þakkar þessum aðilum fyrir áhuga á gerð svæðisskipulagsins og þátttöku í útboðinu. Framkvæmd útboðsins var í umsjón Ríkiskaupa og þakkar Fjórðungssambandið fyrir gott samstarf um framkvæmd þess.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri, Vestfjarðastofu, seg­ir til­boðinu hafa verið tekið enda sé það metið hag­stæðast fyr­ir kaup­anda sam­kvæmt val­for­send­um útboðslýs­ing­ar. Því sé kom­inn á bind­andi samn­ing­ur milli aðila. Skipulagsgerðin hefst síðan nú í febrúar með fundi Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða og skipulagsráðgjafa.

Fleiri íbúar á Vestfjörðum en á Norðurlandi vestra

Brunnbáturinn Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þjóðskrá hefur birt íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum um síðustu mánaðamót.Í fyrsa sinn í langan tíma eru íbúar á Vestfjörðum orðnir fleiri en íbúar á Norðurlandi vestra, sem hefur þá tekið við sem fámennasta landssvæðið.

Á Vestfjörðum fjölgaði um 32 íbúa frá 1. desember 2023 og voru þeir 1. febrúar orðnir 7.509, en á Norðurlandi vestra voru á sama tíma 7.488 íbúar og fækkaði um 13 íbúa. Fyrir rúmum þremur árum, 1. desember 2020 voru íbúar á Norðurlandi vestra 7.412 en á Vestfjörðum voru þá 7.099 íbúar. Fjölgunin á Vestfjörðum hefur verið 410 manns á tímabilinu en aðeins fjölgun um 74 íbúa á Norður landi vestra.

Fjölgunin á Vestfjörðum síðustu tvo mánuði er öll í þremur sveitarfélögum, í tveimur er óbreytt íbúatala og í fjörum sveitarfélögum hefur fækkað.

Í Bolungavík fjölgaði síðustu tvö mánuði um 10 manns og voru íbúar orðnir 1.028 um síðustu mánaðamót. Nemur fjölguninni frá 1. des. 2020 rétt um 8% eða 76 manns. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 28 manns og voru íbúarnir 3.963 og nálgast óðfluga 4.000 manna markið. Þriðja sveitarfélagði sem hefur fjölgað í er Súðavík en þar voru íbúar um síðustu mánaðamót 240 og hefur fjölgað um 8 manns.

Óbreyttur fjöldi er í Árneshreppi og Tálknafirði en fækkun í Vesturbyggð, Reykhólahreppi, Kaldrananeshreppi og Strandabyggð.

Þó ber að geta þess að þrátt fyrir fækkunin síðustu tvo mánuði í Vesturbyggð hefur fjölgað í sveitarfélaginu frá 1. desember 2019 um 16,4% frá 1.020 manns í 1.187.

Vestri: margar ástæður fyrir óánægju

Samúel Samúelsson.

Samúel S. Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs knattspyrnudeildar Vestra telur í færslu á facebook upp helstu ástæður fyrir því hvers vegna hann er ósáttur við Ísafjarðarbæ varðandi aðstöðu fyrir knattspyrnuaðstöðu í bænum.

Snjóhreinsun af Torfnesvellinum: „Það þarf bara að gera það töluvert fyrr, betur og oftar. Áhaldarhusið sem hefur séð um snjóhreinsun vinna ekki eftir hádegi á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.“

Æfingavöllurinn : „Það vantar mörk, linur og að klára frágang á honum svo að hann sé spil hæfur. Við fengum uthlutaða 3 heimaleiki í Lengjubikarmum í fyrsta skipti í mörg ár, ég hef endalaust vælt yfir ferðakostnaði félaga á landsbyggðinni. Ef völlurinn verður ekki klár þá þurfum við að leitast eftir því að spila þessa 3 leiki í öðru sveitarfélagi með tilheyrandi kostnaði.“

Vallarhusið : „það er ekki starfsmaður í því, það eru 150-200 iðkendur sem ganga um husið á degi hverjum, börn, unglingar og fullorðið fólk. Það þarf að þrífa og viðhalda þessu húsi eins og öðrum mannvirkjum bæjarins. Þrifum er mjög svo ábótavant. Viðhald er gott sem ekkert, það eru rakaskemmdir í veggjum, máling flögnuð af veggjum, ónýtar hurðir. Óþjettir gluggar og svo áfram má telja.“

Aðkoman „að svæðinu er algjörlega óboðleg yfir vetrartímann þar sem að það er ekki mokað. Báðir mfl flokkar félagsins eru að æfa þarna 17-19 + skotveiði strákarnir á æfingum og svæðið tekur ekki á móti þeim fjölda bila sem eru þarna á þessum tíma.“

„Svo ekki sé minst á hitalagnir undir völlinn, þó svo að þær verði ekki notaðar næstu árin, en það er mjög mikilvægt að leggja þær þar sem það verður ekki gert eftir að búið er að leggja grasið.“

„Svo er það þjónustusamningurinn sem við höfum verið með síðustu 2-3 árin. Vestri hefur fengið samning við bæinn, við höfum ráðið mann sem hefur séð um svæðið og unnið þá vinnu sem þarf að vinna eftir því hvernig okkur hentar. Það hefur gengið mjög vel. Við gerðumst svo djarfir að óska eftir auka mánuði við þenann samning, ástæðan fyrir því er að keppnistímabilið hjá mfl eru 7 mánuðir eða apríl – október. Þó svo að fótbolti sé nú orðið í dag bara heilsárssport. En fyrsti leikur var 20. janúar og síðasti leikur ársins verður 26. október.“

Færslunni lýkur Samúel með þessum orðum: „Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við erum ósatt við Ísafjarðarbæ. Ég hef komið á all flesta velli í kringum landið og farið inn í mörg íþróttamannvirki og á í daglegum samskiptum við við fólk sem sinnir sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélög. Á flestum ef ekki öllum stöðum eru bæjarfélög að styðja við og styrkja, auðvelda vinnu sjálfboðaliðana en hér fyrir Vestan er allt gert til að gera okkur ervitt fyrir. Það þykir mér ver og miður.“

Hafnað að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir grjótnámu í Reykhólahreppi

Gömul mynd frá Reykhólahöfn. Mynd: Sigling.is/visir

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu eiganda Miðjaness í Reykhólahreppi um að fella úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið veitt fyrir efnisnámu austan Karlseyjarvegar. Þar verður heimilað að taka allt að 22.000 rúmmetra af grjóti sem fara í hafnargerð á Reykhólum. Miklar hafnarframkvæmdir standa yfir og er kostnaður við þær liðlega 300 m.kr. Einkum er það endurnýjun stálþils á bryggjunni sem hleypir kostnaðinum upp.

Framkvæmdaleyfið var veitt í okóber 2023 og úrskurðarnefndin felldi sinn úrskurð í síðustu viku.

Kærandi  vísaði til þess að með vinnubrögðum sveitarstjórnar væri bæði brotið gegn meðalhófi og jafnræði. Stjórnsýsla við breytingu á aðalskipulagi hafi verið óvönduð. Hagsmunir kæranda felist fyrst og fremst í því að hinn almenni íbúi sitji við sama borð og stjórnvald, en hann hafi sjálfur þurft að ganga í gegnum tæplega tveggja ára ferli til að fá landnotkun á jörð sinni breytt.

Þá segir að hagsmunir kæranda séu einnig fjárhagslegir en í landi hans sé opin grjótnáma og sé kærandi eigandi einu löglegu grjótnámunnar á Reykjanesi í Reykhólahreppi.  ert hafi verið ráð fyrir námu hans í aðalskipulaginu og sveitarfélagið hefði getað keypt efni úr henni. Verðmæti þeirra 20.000 m3 sem sveitarfélaginu vanti í framkvæmdir sé sennilega á milli 300-400 kr. pr. m3 og því ljóst að hagsmunir hans séu ríkir.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að jörð kæranda sé í nokkurri fjarlægð frá hinni umdeildu námu austan við Karlseyjarveg. Verði því ekki séð að leyfi til námunnar geti varðað grenndarhagsmuni hans. Aftur á móti hafi kærandi fært fram sjónarmið um fjárhagslega eða samkeppnislega hagsmuni. Almennt leiði þeir óbeinu hagsmunir ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti og verður ekki séð að í skipulagslögum sé gert ráð fyrir því við töku ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. gr. laganna.

Þar sem ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi aðra þá lögvörðu hagsmuni sem veitt geta honum kæruaðild var kröfu hans vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Þá krafðist kærandi þess að úrskurðarnefndin láti sig breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022–2034  varða. Um það segir úrskurðarnefndin að  aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag.Þær ákvarðanir verða ekki bornar undir úrskurðarnefndina og var þeirri kröfu einnig vísað frá.

Ísafjarðarhöfn: 845 tonnum af bolfiski landað í janúarmánuði

Júlíus Geirmundsson ÍS í Ísafjarðarhöfn í janúar sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði 148 tonnum af afurðum í janúar í Ísafjarðarhöfn. Páll Pálsson ÍS ísfisktogari fór 10 veiðiferðir í mánuðinum og landaði samtals 671 tonnum. Loks landaði Pálína Þórunn GK einu sinni í janúar 26 tonnum en hún var á botntrolli.

Norska skipið Silver Bergen kom með frosna úthafsrækju og landaði 936 tonnum írækjuverksmiðjuna Kampa.

Fiskeldissjóður hefur 437 m.kr. til úthlutunar

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Fiskeldissjóður hefur auglýst eftir umsóknum í sjóðinn, en í ár hefur hann 437 m.kr. til úthlutunar. Fyrst var úthlutað 2021 og þá var upphæðin 105 m.kr. Síðan hefur fiskeldisgjaldið hækkað verulega. Fiskeldisgjaldið á þessu ári verður 37,80 kr/kg af slægðum eldislaxi og helmingur þess fyrir regnbogasilung. Gjaldið var í fyrra 18,33 kr/kg og er hækkunin hvorki meira né minna en 106%.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að sækja um styrk úr sjóðnum.

Fiskeldissjóður starfar á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð og greiða fiskeldisfyrirtæki ákveðna upphæð af hverju framleiddu kg af eldisfiski. Sjóðurinn veitir sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

Á Vestfjörðum eru það Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungavíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð sem geta sótt um styrk.

Við úthlutun styrkja úr sjóðnum er sérstaklega horft til verkefna sem snúa að:

a) Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun)

b) Uppbyggingu innviða (atvinnulíf, þjónusta)

c) Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita)

d) Tengingu við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi)

e) Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum

200,7 m.kr. í fyrra

Á síðasta ári var úthlutað 248 m.kr. og runnu þar af 200,7 m.kr. til sex vestfirskra sveitarfélaga. Hæsta fjárhæðin var til Vesturbyggðar 69,2 m.kr. og 46,3 m.kr. til Ísafjarðarbæjar. Bolungavík fékk 33,3 m.kr, Tálknafjarðarhreppur 24,8 m.kr., Strandabyggð 24,4, m.kr. og Súðavík 2,8 m.kr.

Loðnuleit framhaldið

Haldið verður aftur af stað til loðnumælinga í dag en síðustu loðnumælingaleit lauk þann 23. janúar sl.

Fyrirhugað var að rannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 200 færi til mælinga ásamt veiðiskipunum Ásgrími Halldórsyni og Polar Ammassak.

Við botnskoðun á Árna í slipp í Hafnarfirði nú í vikunni kom hins vegar fram olíuleki með driföxli sem gera þarf við, m.a. til að koma í veg fyrir mengun, og getur hann því ekki tekið þátt í verkefninu.

Við þessari stöðu var brugðist á skjótan hátt af útgerðaraðilum því nú er verið að gera loðnuskipið Heimaey VE klárt í verkefnið í stað Árna en Heimaey hafði verið á kolmunaveiðum. Útgerðir uppsjávarveiðiskipa munu bera kostnað af tveimur skipum og Hafrannsóknastofnun af einu. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar verða um borð í öllum skipunum og stjórna mælingunum.

Fyrirhugað rannsóknarsvæði nær frá Víkurál út af Vestfjörðum og þaðan til austurs að Héraðsdjúpi út af Austfjörðum en yfirferðina mun þurfa að aðlaga að útbreiðslu loðnunnar og aðgengi að hafsvæðum t.d. vegna hafíss.

Lífshlaupið

Allir geta tekið þátt í Lífshlaupinu sem hefst 7 febrúar.

Alla miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma.
Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10 – 15 mínútur í senn.

Ekki er heimilt að skrá þá hreyfingu sem fellst í starfi einstaklinga. Til dæmis ef einstaklingur vinnur við það að bera út póst 8 klukkustundir á dag er honum ekki heimilt að skrá 8 klukkustundur í göngu fyrir þann dag.

Skrá á þann starfsmannafjölda sem launadeild viðkomandi vinnustaðar hefur á launaskrá þegar keppni hefst, óháð starfshlutfalli. Ef einhverjir starfsmenn eru í orlofi eða námsleyfi á þeim tíma sem Lífshlaupið fer fram má draga þann fjölda frá. 

Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp með það að markmiði að framlag hvers og eins telur, ef starfsmaður skráir einn dag þá telur það. 

ÍSÍ og samstarfsaðilar standa fyrir skráningar- og myndaleik á meðan á keppninni stendur.
Með því að skrá þína hreyfingu undir vinnustaðinn, hreystihóp 67+ eða skólann, ert þú kominn í pott og gætir unnið glæsilega vinninga.

Fylgstu með, við drögum út alla virka daga í útvarpsþættinum Hjartagosar á Rás2. Nöfn vinningshafa verða einnig birt á heimasíðu Lífshlaupsins.

GRUNNSKÓLAKEPPNI – Skráningarleikur á Rás 2
Einn bekkur verður dreginn út á hverjum virkum degi í þættinum Hjartagosar á Rás 2 frá 7. febrúar til 20. febrúar. Um leið og bekkur hefur verið skráður í Lífshlaupið fer hann í pottinn. 

FRAMHALDSSKÓLAKEPPNI – Skráningarleikur á Rás 2
Frá 7. febrúar til 20. febrúar verður einn þátttakandi dreginn út á hverjum virkum degi í þættinum Hjartagosar á Rás 2 og getur hann unnið glæsilega vinninga. 

VINNUSTAÐAKEPPNI og HREYSTIHÓPAR 67+ – Skráningarleikur á Rás 2
Frá 7. febrúar til 27. febrúar verður einn þátttakandi dreginn út á hverjum virkum degi í þættinum Hjartagosar á Rás 2 og getur hann unnið glæsilega vinninga.

MYNDALEIKUR
Allir geta tekið þátt í myndaleiknum með því að senda okkur skemmtilegar myndir hér á heimasíðu hlaupsins.

Nýjustu fréttir