Sunnudagur 15. september 2024
Síða 174

„Átakanleg upplifun en þegar upp er staðið stöndum við sterkari“

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir lauk í júni síðastliðnum meistaranámi frá Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri. Lokaverkefni hennar var eitt af fjórum verkefnum meistaranema sem hlaut styrk Byggðastofnunar í desember 2022. Við vinnslu rannsóknarinnar var titli verkefnisins breytt í  „Átakanleg upplifun en þegar upp er staðið stöndum við sterkari“ en það er bein tilvitnun í lýsandi ummæli eins viðmælenda rannsóknarinnar.

Rannsóknin er eigindleg en tekin voru viðtöl við heilbrigðisstarfsmenn sem voru meðal þeirra sem báru hitann og þungann af líkamlegri og andlegri umönnun Súðvíkinga fyrstu dagana eftir flóðin vegna þeirra ófyrirséðu aðstæðna sem mögnuðust upp vegna lokaðra samgönguleiða og margra daga óveðurs eftir flóðin. Starfsfólk sinnti þar fjölbreyttari verkefnum en alla jafna og gekk í þau störf sem þurfti að sinna. Óveðrið sem stóð í þrjá sólahringa eftir flóðið hafði mikil áhrif.

Lífsreynsla þeirra sem að komu var erfið en viðmælendur telja sig ekki bera neikvæð sálræn eftirköst og eru sammála um að þeir hafi eflst bæði faglega og persónulega. Að mati höfundar ramma ummælin í titli rannsóknar inn helstu niðurstöður í þrjú yfirþemu sem eru vanmáttur, úrvinnsla og vöxtur. Samtöl og samvera samstarfsfólks eru sérstaklega dregin fram og talin mikilvæg fyrir úrvinnslu atburða. Góð samskipti hjá starfsfólki á vinnustað geti reynst hjálpleg til að vinna úr sálrænni streitu í kjölfar hamfara eða stórslysa. Bent er á að vert sé að huga að því í starfsumhverfi að fólki gefist kostur á að tengjast og tala saman til að vinna úr erfiðri reynslu.

Af vefsíðu Byggðastofnunar

Valda í Skjalda 2024

Þriðju­daginn 13. febrúar kl. 10 verður stutt­mynda­há­tíðin Valda í Skjalda haldin í Skjald­borg­ar­bíói

Hátíðin er nýsköpunarverkefni sem nemendur á unglingastigi í Vesturbyggð standa sjálfir að og innblásturinn er sóttur í stuttmyndahátíðina Skjaldborg sem haldin er á Patró ár hvert.

Þema hátíðarinnar er jafnrétti og hvað við getum gert til að stuðla að því. Hátíðin er orðin árleg og fer fram í febrúar á hverju ári.

Öllum er frjálst að koma og aðgangur er ókeypis

Starfshópur um hvalveiðar

Langreyðarkýr með kálfi

Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, verður formaður starfshóps sem verður falið að rýna lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli.

Katrín Jakobsdóttir, sem gegnir embætti matvælaráðherra um þessar mundir, hefur skipað starfshópinn sem er ætlað að skila skýrslu þar sem fram komi valkostagreining um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Valkostir skulu bæði taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við veiðum til framtíðar. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.

Starfshópinn skipa:

  • Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, formaður
  • Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við Háskóla Íslands
  • Árni Kolbeinsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar
  • Dr. Snjólaug Árnadóttir, forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og dósent
  • Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands og dósent í stjórnsýslurétti

Ísafjarðarbær auglýsir styrk til menningarmála

Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar auglýsir eftir umsóknum um styrki til menningarmála.

Menningarstyrkir ársins 2024 eru áætlaðir 3,0 m.kr. en styrkur til einstaks verkefnis getur almennt ekki verið hærri en 250.000 kr.

Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða. Horft skal til þess að úthlutun styrkja sé til fjölbreyttra viðburða og menningarmála sem séu almennt aðgengilegir öllum bæjarbúum. Ekki eru veittir styrkir til rekstrar‐, stofnkostnaðar‐ eða endurbóta eigna eða fyrirtækja, né náms eða ferða. Að jafnaði eru ekki veittir styrkir til útgáfu efnis.

Við úthlutun styrks fá styrkhafar sent greinargerðarform í þjónustugátt. Að verkefni loknu skal greinargerð berast sveitarfélaginu, fyrir árslok á úthlutunarári, og greiðist styrkur þegar greinargerð hefur 

Ráðherra með skrifstofu í Bolungavík

Á mánudaginn, þann 12. febrúar verður háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir með skrifstofu í Ráðhúsinu í Bolungavík frá kl 15.

Það er viðeigandi að skrifstofa verður í húsnæði nýsköpunarfyrirtækisins Bláma, sem er á 2. hæð hússinsog svo má bæta því við að eittt af níu rannsóknarsetrum Háskóla Íslands er í Bolungavík. Þar eru stundaðar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir á lífríki sjávar og strandsvæða og nýtingu sjávarafurða.

Frá því að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið tók til starfa í febrúar 2022 hefur ráðuneytið verið opið fyrir störfum óháð staðsetningu og eru störf ráðherra þar engin undantekning. Segir í kynningu á vef ráðuneytisins að í þessu felist að starfsemi ráðuneytisins er ekki bundin við aðalstarfsstöð þess í Reykjavík. Með því að staðsetja skrifstofu ráðherra víðs vegar um landið gefst mikilvægt tækifæri til aukinnar tengslamyndunar og samstarfs við háskóla, stofnanir, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga um land allt.

Í nóvember í fyrra var ráðherrann með skrifstofu sína í Vesturbyggð.

Nýr kjarasamningur sjómanna

Samningarnir handsalaðir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Valmundur Valmundsson.

Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Samningurinn er byggður kjarasamningi milli aðila sem sjómenn felldu í fyrra en á honum hafa verið gerðar nokkrar breytingar.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að samningurinn gildi fyrir félagsmenn Verkvest og einnig Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur.

Samningurinn er til 10 ára eins og samningurinn í fyrra en með þeirri breytingu að hægt verður að segja honum upp eftir 5 ár. Ef það verður ekki gert verður næst hægt að segja samningnum upp eftir 7 ár með 6 mánaða fyrirvara.

Verði kjarasamningurinn nú samþykktur fá félagsmenn 400 þúsund króna eingreiðslu.

Samið er um að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækki úr 12% í 15,5% gegn lækkun um 0,8% af skiptaverðinu eða sem samsvarar 1,14% af aflahlut.

Finnbogi segir þetta sambærilegt við það sem landverkafólk samdi um þegar samið var um hækkun lífeyrisframlags en þá var samið um lægri launahækkun á móti því.

Ekki er skylda sjómanna að taka hækkun lífeyrisframlagsins og gefa lækkun á skiptaverði heldur verður einnig mögulegt að velja áfram óbreytt lífeyrisframlag en fá þá kaupauka 0,5 % hækkun á skiptaverðinu eða 0,7% hækkun á aflahlut. Mótframlaginu frá atvinnurekanda, 3,5% af launum, getur launafólk ráðstafað í tilgreinda séreign, sé vilji fyrir því.

Loks verður áfram samkomulag um að samningaðilar geti gert sérstakan samning um mannafjölda og skiptaprósentu þegar breytingar verða á veiði- eða verkunaraðferðum eða ný skip eða verkunaraðferðir komi fram en þó er sú breyting gerð á samningnum sem felldur var í fyrra að í stað þess að ágreiningur verði leystur með gerðardómi skipi samningaðilar hlutlausa nefnd sem hafi þetta hlutverk.

Samningarnir verða kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur henni föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00.

Arna Lára: áskorun að standa í framkvæmdum yfir veturinn

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Bæjarins besta innti Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ eftir svörum við gagnrýni frá formanni meistaraflokksráðs Vestra sem sagði á bb.is í fyrradag að ekki væri hægt að æfa á gervigrasvellinum nýja þar sem völlurinn væri ekki mokaður og saltaður svo og að ekki væri búið að gera völlinn kláran fyrir leik.

„Æfingavöllurinn á Torfnesi er mokaður og það hafa verið stundaðar æfingar þar af miklu kappi, í alls konar veðrum. Það er alveg aðdáðunarvert að fylgjast með æfingum jafnvel í hríðarveðri.Við erum að græja vellina eftir því sem aðstæður leyfa, og það er talsvert mikið háð veðri.

Það er áskorun að standa í svona framkvæmdum yfir vetrartímann en við erum enn bjartsýn að hægt verði að spila leiki strax í vor.“

Vestfirðir: 61% fæðinga utan svæðis

Á síðasta ári sótti 41 kona mæðraskoðun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem er frá Vesturbyggð að Súðavíkurhreppi. Aðeins 16 þeirra eignuðust barn sitt á stofnuninni en 25 fæddu annars staðar. Síðustu 10 ár hafa tölurnar yfir meðgöngur verið frá 44 upp í 56 á ári og fæðingar verið frá 29 til 40 að undanskildum tveimur síðustu árum þegar þær eru verulega lægri.

Hildur Elísabet Pétursdóttir, settur forstjóri HVest segir að svo virðist vera að það hafi ekki bara veri’ færri fæðingar á Vestfjörðumheldur hafi verið dýfa á landsvísu.

Línurit um meðgöngur og fæðingar á Vestfjörðum síðustu 10 ár. Heimild: Hvest.

Hildur segir að fimm konur hafi þurft að fæða annars staðar vegna skurðstofulokunar og voru fjórar af þeim meðan framkvæmdir á skurðstofu stóðu yfir síðastliðið vor. Ein kona fæddi á meðan skurðstofa lokaði yfir áramótin.

„Við höfum ekki þurft að loka vegna skorts á skurðlæknum nema yfir áramótin síðustu og vonum að það komi ekki til þess heldur á þessu ári.“ segir Hildur.

Nú eru starfandi fjórar ljósmæður við stofnunina ásamt afleysingu þegar þarf. Einungis eru fæðingar á Ísafirði.

Hildur Elísabet tók saman ástæður þess að konur fæddu annars staðar í fyrra og algengasta skýringin voru áhættuþættir sem áttu við í 14 tilvikum. Þrjár konur óskuðu eftir því að fæða annar staðar og í jafnmörgum tilvikum er ástæðan ekki þekkt. Skurðstofulokun skýrir fimm tilvik eins og áður er komið fram.

„Ekki hefur hefð fyrir því að konur af suðurfjörðunum komi til Ísafjarðar til að fæða en með batnandi samgöngum þá vonum við að það breytist.“ sagði Hildur. Í fyrra voru 11 konur í mæðravernd á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þess má geta að næsta fræðsluerindi fyrir verðandi mæður, feður eða stuðningsaðila er 19. febrúar kl. 16:30.

Uppfært kl 11:41. Leiðrétting barst frá Hvest um fjölda kvenna sem óskuðu að fæða annars staðar. Þær voru þrjár en ekki 12 eins og áður sagði í fréttinni. Hefur grafið að ofan verið leiðrétt til samræmis og viðeiigandi texti.

Verknámshús M.Í. : Bolungavíkurkaupstaður fagnar áformum um nýtt hús

Menntaskólinn á Ísafirði.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi í gær erindi frá Vestfjarðastofu með drögum að samningi og minnisblaði um byggingu verknámshús við MÍ. Bæjarráðið bókaði að það fagnar áformum um byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.

„Það er mikilvægur þáttur í að efla alla Vestfirði og gera ungu fólki kleift að sækja iðnmenntun stutt frá heimahögunum. Í ljósi þess að við sjáum fram á mikla uppbyggingu á svæðinu er þetta þýðingarmikið fyrir framtíð Vestfjarða.“

Samningur og frekari gögn um fjármögnun og hlut Bolungarvíkurkaupstaðar verður lagður fram til samþykkis á síðari stigum.

Jafnframt var bæjarstjóra falið að kanna hug annarra sveitarfélaga um að senda inn sameiginlega umsókn um styrk úr Fiskeldissjóði vegna þessa verkefnis.

Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar án stofnbúnaðar er á bilinu 476,8 – 715,3 milljónir króna samkvæmt forathugun Framkvæmdasýslu ríkisins miðað við verðlag í október 2023.

Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt þessu á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélagið þar sem skólinn er leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Hlutur Bolungavíkurkaupstaðar er á bilinu 26 – 39 m.kr. miðað við að öll sveitarfélögin á Vestfjörðum taki þátt í byggingunni, en verður hærri ef færri sveitarfélög standa að henni.

KLETTADOPPA

Klettadoppa er lítill kuðungur, oftast 15 til 20 mm að lengd. Vindingarnir er fjórir til fimm, kúptir og ganga út í odd. Neðsti vindingurinn er miklu meira en helmingur af hæð kuðungsins. Skelin er ýmist slétt eða með smágerðum gárum langsum með vindingunum. Munnopið er nokkurn veginn hringlaga og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan sem lokar munnopinu þegar dýrið dregur sig inn í skelina, er hringlaga og brún á lit. Klettadoppa getur verið nokkuð breytileg að lögun. Klettadoppan andar með lungum.

Liturinn er mjög breytilegur, oftast er hún einlit grá, en getur verið hvít, grá, rauðleit, grænleit eða jafnvel gul. Hefur oft ljósar og dökkar litarrendur langsum eftir vindingunum. Munnurinn er mun dekkri en ytra borð kuðungsins.

Önnur tegund kuðunga, þangdoppa, sem einnig lifir í fjörum getur líkst klettadoppu fljótt á litið. Hún þekkist frá klettadoppunni á því að hana vantar trjónu. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Þangdoppan lifir neðar í fjörunni, innan um þang.

Klettadoppan lifir efst í fjörunni, ofan við þangið. Hún heldur sig gjarnan meðfram sprungum þar sem raki situr eftir um fjöruna. Klettadoppan þolir vel að vera á þurru þegar smástreymt er svo dögum eða jafnvel vikum skiptir.

Klettadoppan lifir á smáum þörungum sem mynda þunnt lag á steinum efst í fjörunni og virðist einnig geta étið skófir sem víða þekja steina efst í fjörunni. Hún skrapar þörungana af steinunum með svokallaðri skráptungu sem er alsett hörðum tönnum.

Eftir æxlun þroskast fóstur klettadoppunar í móðurinni þar til unginn fæðist sem fullskapaður kuðungur. Á vorin elur klettadoppan lifandi unga sem hafa skel frá fæðingu og eru eins í útliti og foreldrarnir. Þeir eru þó örsmáir þegar þeir fæðast.

Nýjustu fréttir