Sunnudagur 15. september 2024
Síða 173

Byggðakvóti: 38% til Vestfjarða

Til Flateyrar er ráðstafað 285 tonnum af byggðakvóta.

Alls eru 4.829 tonn til úthlutunar í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Honum er skipt niður á sjö landssvæðiog kemur mest í hlut Vestfjarða 1.832 tonn eða 38% af byggðakvótanum.

Nætmestur byggðakvóti fer til Norðurlands eystra en þangað fara 1.308 tonn. Langt er í næsta svæði en það er Austurland með 613 tonn. Þá kemur Norðurland vestra sem fær 460 tonn, Vesturland 215 tonn, Suðurland 211 tonn og loks Suðurnes með 189 tonn.

Þetta kemur fram í svari Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Átta af níu sveitarfélögum á Vestfjörðum fá úthlutað byggðakvóta, aðeins Reykhólahreppur er undanskilinn. Kvótanum er úthlutað til byggðalaga innan sveitarfélagsins og í tveimur þeirra, Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð eru fleiri en eitt byggðarlag sem fær úthlutun.

Vestfirðir 1.832 tonn mælt í þorskígildum
Bolungarvíkurkaupstaður 65
Bolungarvík 65
Ísafjarðarbær 1.084
Flateyri 285
Hnífsdalur 137
Ísafjörður 195
Suðureyri 192
Þingeyri 275
Kaldrananeshreppur 76
Drangsnes 76
Strandabyggð 130
Hólmavík 130
Súðavíkurhreppur 60
Súðavík 60
Sveitarfélagið Árneshreppur 30
Norðurfjörður 30
Tálknafjörður 285
Tálknafjörður 285
Vesturbyggð 102
Bíldudalur 40
Brjánslækur 15
Patreksfjörður 47

Sveitarstjórnirnar eru að ganga frá úthlutunarreglum sem geta verið að nokkru leyti mismunandi eftir sveitarfélögum.

Að upplifa áfall – afleiðingar og úrræði

Dr. Sigrún Sigurðardóttir

Fimmtudagur 8. febrúar 2024 kl. 18:00-21:00 verður námskeiðinu í Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem Dr. Sigrún Sigurðardóttir prófessor við Háskólann á Akureyri er með fyrirlestur og svarar fyrirspurnum um áföll og ofbeldi, afleiðingar og úrræði.

Afleiðingar áfalla geta fylgt fólki í langan tíma, stundum út lífið, og komið fram á ýmsan hátt.  

Á þessu námskeiðinu er skoðað hvað gerist í lífi og líkama við áföll og hvaða leiða er hægt að leita til að ná bata og vellíðan.

Fjallað verður um:

  • Áföll og erfiða upplifun, skilgreiningar og einkenni.
  • Afleiðingar áfalla og erfiðra upplifana á heilsufar og líðan.
  • Kveikjur og endurminnignar áfalla sem trufla lífið í dag.
  • Mismunandi leiðir til bata, hefðbundnar og óhefðbundnar

Fundur á Ísafirði um tækifæri og áskoranir til að efla atvinnulíf

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra og Teitur Björn Einarsson þingmaður fjalla um tækifæri og áskoranir til að efla atvinnulíf framtíðar ásamt því að ræða erindi Sjálfstæðisflokksins og taka við fyrirspurnum á fundi í Sjallanum, húsnæði Sjálfstæðisflokksins Aðalstræti 20 á Ísafirði, laugardaginn 10. febrúar kl. 14:30.

Nýsköpun, háskólar, rannsóknir og hugmyndir einstaklinga hafa á síðustu mánuðum sýnt hvað þau geta gert fyrir samfélög eins og á Ísafirði. Kerecis er einstakt dæmi en má ekki verða eina dæmið. Tækifæri eru til að efla atvinnulíf framtíðar um land allt.

Það var í kringum þessa hugsun sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið var komið á fót til að stuðla að enn fleiri tækifærum fyrir samfélagið og styðja við frumkvæði einstaklinga, þannig eflum við samkeppnishæfni Íslands og náum auknum árangri fyrir Ísland.

Allir eru velkomnir á fundinn

Minni meðafli sjávarspendýra við grásleppuveiðar

Út er komin skýrsla Hafrannsóknastofnunar um meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum árin 2020-2023.

Helstu niðurstöður voru þær að meðafli sjávarspendýrategunda, sérstaklega útsels, var metinn töluvert lægri en á árunum þar á undan. Að sama skapi var meðafli fugla metinn aðeins lægri en áður sem skýrist að mestu leyti að minni sókn.

Erfitt er að fullyrða um ástæður minnkunar á meðafla á land- og útsel milli tímabila, en farið var í ýmsar aðgerðir til að minnka meðafla eftir 2020. Helstu aðgerðir snérust að svæðalokunum og auknu eftirliti, bæði með fjarstýrðum loftförum og með eftirlitsmönnum um borð í bátum, og gætu þær aðgerðir hafa minnkað meðaflann.

Líkt og áður voru algengustu sjávarspendýrin sem veiddust landselur, útselur og hnísa, á meðan algengustu fuglarnir voru æðarfugl, teista, langvía og skarfar. Á þessum fjórum árum var lítill munur á meðaflatíðni sjávarspendýra milli veiðisvæða, dýpis og mánaða, en nokkur munur var á meðaflatíðni fugla milli veiðisvæða.

Matið á meðaflanum byggir á gögnum úr alls 220 róðrum veiðieftirlits Fiskistofu. Meðaflatíðni var reiknuð út frá róðrum veiðieftirlits á hverju veiðisvæði og síðan uppreiknuð með sókn allra báta.

Gylfi í Vísindaporti Háskólaseturs

Föstudaginn 9. febrúar heldur Gylfi Ólafsson erindi í vísindaporti sem nefnist Ágrip af sögu heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisþjónustu Vestfjarða.

Í erindi sínu lýsir Gylfi ýmsum þáttum úr sögu heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum frá öndverðu til dagsins í dag, en hann undirbýr nú grein í ársrit Sögufélags Ísfirðinga um efnið. Fjallað verður um hús, sameiningu og áhugaverða atburði í þessari löngu sögu.

Gylfi er uppalinn á Ísafirði, er með doktorspróf í heilsuhagfræði og var forstjóri Heilbrigðisstofnun Vestfjarða frá 2018-2023.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12:10 til 13:00.

Franska kvikmyndahátíðin á Ísafirði 2024 um helgina

Franska kvikmyndahátíðin verður haldin á Ísafirði dagana 9. – 11. febrúar. Sýndar verða fjórar myndir að þessu sinni, þar af ein teiknimynd fyrir alla fjölskylduna sem hlotið hefur mikið lof. Seldir verða hátíðarpassar með góðum afslætti sem gilda á allar myndirnar á hátíðinni. Einnig verður hægt að kaupa miða á stakar sýningar.

Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Ísafjarðarbíó, Franska sendiráðið, Alliance Francaise og Bíó Paradís.

Franski sendiherrann á Íslandi Guillaume Bazard opnar hátíðina kl. 17 föstudaginn 9. febrúar og býður gestum upp á léttar veitingar.  

Nánar um myndirnar á facebook-síðu Ísafjarðarbíós: Ísafjarðar Bíó | Ísafjörður

Nú get ég

Halldór Jónsson.

Í litlu landi og strjálbýlu er ekki sjálfgefið að á hverju byggðu bóli njóti hver og einn alls hins besta er lífið hefur uppá að bjóða hverju sinni.

Samtakamátturinn verður því helsta, stundum eina og þar með síðasta vopn þeirra er búa fjarri fjölmenninu. Á slíkum slóðum eru það því stundum félagsmálatröllin sem snúa þróuninni við og um leið sögunni. Ástríða slíkra trölla verður á endanum áhugamál og gleðiefni fjöldans,  sem hrífst með. Nýtur afrakstursins.

Hefði almenningur sótt skíðandi til fjalla á vetrardögum ? Væri tónlistin blómstrandi í hverju húsi? Væru páskar skemmtilegt stefnumót að degi og nóttu? Væri sumarparadís umvafin trjágróðri til staðar með golfvöll innan seilingar? Firðir brúaðir? Fjöll boruð í gegn? Róið til fiskjar?

Þegar árangurinn kemur í ljós hrífst fjöldinn einatt með, eins og áður sagði. Ekki bara í næsta nágrenni heldur um víðan völl. Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli lýsti þessu manna besta í kvæði sínu af öðru tilefni:

„Nú gleðjumst vér öll þeirri gleði

sem geislar um Ísafjörð.“

Þrátt fyrir oft á tíðum daprar aðstæður fjarri fjölmenninu næst stundum framúrskarandi árangur. Þá er mikilvægt að samfélagið í gleði sinni hugsi til framtíðar og reyni af fremsta megni að haga málum þannig undirstöður verði treystar og aðstæður skapaðar til áframhaldandi velgengni.

Hvert samfélag hefur sína veikleika. Það skiptir öllu að brugðist verði við þeim. Annars fer illa. Öfundin og  baknagið eru alþekkt veikleikamerki. Oftar en ekki undirliggjandi hjá því fólki sem lítið hefur jafnan til málanna að leggja og leggur aldrei hönd á plóg. Sporgöngufólkið.  Stígur svo fram í dagsljósið að góðu verki annarra loknu og segir: Nú get ég. Hefur ráð undir rifi hverju. Finnur félagsmálatröllunum allt til foráttu og dregur uppúr farteskinu hvaðeina sem kastað getur rýrð á störf þeirra og árangur.

Engum framúrskarandi félagsmálamanni hef ég kynnst sem er eins og fólk er flest. Þar eru nefnilega einhverjir undirliggjandi hæfileikar sem leiða fólk saman og skapa árangur. Ekkert okkar er gallalaust og því síður verkin okkar. Því er svo áríðandi að horfa á björtu hliðarnar og góðu verkin. Þá farnast samfélögum best.

Áfram Vestri.

Halldór Jónsson

 Höfundur er áhugamaður um knattspyrnu.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi

Bjarni Jónsson, alþm.

Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi. Hér á landi höfum við búið við traust opinbert heilbrigðiskerfi þar sem öll eiga sama rétt til þjónustu óháð efnahag og stöðu. Um það er þjóðarsátt.

Traust búseta og fjölskylduvænt samfélag á landsbyggðinni felst í öruggu aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, menntun, heilnæmu umhverfi, traustum fjarskiptum, samgöngubótum og fjölbreyttum atvinnutækifærum við allra hæfi. Ein grundvallarforsenda búsetuöryggis er öruggt aðgengi að opinberri heilbrigðisþjónustu. Íbúar á öllu landinu verða að geta sótt heilbrigðisþjónustu nálægt sínum heimahögum. Því verður að halda áfram að byggja upp og efla opinbera heilbrigðisþjónustu um land allt og tryggja um leið að allir landsmenn eigi aðgang að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu.

Innviðir til að vernda líf og heilsu fólks eru götóttir

Við erum hinsvegar oft minnt á að grunninnviðir okkar til að vernda líf og heilsu fólks eru götóttir. Of margir staðir á landinu búa ekki við örugga læknisþjónustu og stöðuga viðveru lækna og hjúkrunarfræðinga til að geta brugðist strax við ef fyrirvaralítið koma upp alvarleg veikindi eða slys. Hér þarf að gera svo miklu betur og í samvinnu við viðkomandi byggðarlög. Á undanförnum árum hefur flóknari aðgerðum og sérfræðiþjónustu verið hagrætt í burtu af landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Á móti átti að fjölga komum sérfræðilækna út á heilsugæslustöðvarnar um landið til að geta sinnt hluta þeirrar þjónustu áfram í heimabyggð. Það hefur ekki gengið eftir. Fólk af landsbyggðinni þarf nú í síauknum mæli að sækja sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur með þeim kostnaði, fyrirhöfn og áhættu sem því fylgir. Landsbyggðin fær nú sérgreinalækna sjaldnar í heimabyggð og biðlistar lengjast.

Samfélagssáttmáli um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu

Það er mikið áhyggjuefni hve langir biðlistar eru eftir aðgerðum. Einnig að fólk standi frammi fyrir því að leggja út í mikinn kostnað til að komast í aðgerðir utan almenna heilbrigðiskerfisins til viðbótar við þá röskun og útgjöld sem fylgja því að sækja þjónustu fjarri heimahögum. Það eru fjárútlát sem sum okkar ráða einfaldlega ekki við, enda viljum við ekki samfélag þar sem samfélagssáttmáli um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu er rofinn.

Án aðkomu hins opinbera mun framboð á aðgerðum innan einkageirans því frekar nýtast efnafólki og verða þeim auðveldara sem styttra eiga að sækja þjónustuna, og ekki reynast sú blessun sem einhverjir horfa til. Margir óttast, ekki síst stjórn­end­ur rík­is­rek­inna sjúkra­húsa, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, að samhliða aukinni útvistun læknisaðgerða til einkaaðila muni Landspítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir missa frá sér starfsfólk. Okkar helstu stofnanir búa nú þegar við alvarlegan mönnunarvanda.

Ekki þjóðarvilji að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið

Í mínum huga er ótækt að ráðast í frekari útvistun verkefna úr almenna heilbrigðiskerfinu til einkaaðila án stefnumarkandi ákvarðana um framtíð þess og hvernig verði tryggt að allir landsmenn búi við þau mannréttindi að eiga sama aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð stöðu, búsetu og efnahag. Það er ekki þjóðarvilji fyrir því að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Sú vegferð sem ýmis stjórnmálaöfl sem nú fara mikinn tala fyrir, að útvista í ríkara mæli aðgerðum til einkaaðila mun aðeins auka kostnað sjúklinga, kostnað ríkisins af rekstri heilbrigðiskerfisins og mönnunarvandann á okkar helstu sjúkrastofnunun. Til lengri tíma verður að tryggja í hvívetna öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, um það er þjóðarsátt. Engum hugnast að hér verði til nýtt kerfi byggt á einkavæðingu heilbrigðisþjónustu. Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi sem við verðum að standa vörð um.

Bjarni Jónsson.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

Vatnsdalsvirkjun: umsögn Ísafjarðarbæjar hefur ekki borist

Vatnsdalur. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Samkvæmt upplýsingum upplýsingafulltrúa Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins í gær hefur umsögn Ísafjarðarbæjar um Vatnsdalsvirkjun ekki borist ráðuneytinu.

Umsögn bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er frá 29. janúar 2024 og þar er því beint til „ráðherra að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar að því marki sem þörf er á til þess að áfram verði hægt að vinna að rannsóknum og heildstæðri pólitískri umræðu um bætt raforkukerfi á Vestfjörðum og landinu öllu, uppbyggingu þjóðgarðs á svæðinu og stuðla þannig að umhverfisvernd og bættum þjóðarhag.“

Orkubú Vestfjarða fór þess á leit við ráðuneytið 22. febrúar 2023 að friðunarskilmálum Vatnsdals yrði breytt svo unnt yrði að láta kanna 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal.

Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfistofnun, Minjastofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Vesturbyggð. Þá var umsagnarbeiðni send til tengiliða ráðuneytisins við hóp náttúru- og umhverfisverndarsamtaka í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ráðuneytisins við náttúru- og umhverfisverndarsamtök, segir í svari ráðuneytisins.

Alls bárust 12 umsagnir auk umsagnar Vesturbyggðar. Voru þær frá ofangreindum fjórum stofnunum, Elvu Björg Einarsdóttur, Seftjörn, Flugu og net ehf á Barðaströnd, Fuglavernd, hið íslenska náttúruverndarfélag, Landvernd, landvarðafélagi Íslands, samtökunum Ófeig og ungum umhverfissinnum.

Hafrannsóknarstofnun telur áformin vera neikvæð og verndargildi svæðisins muni rýrna mikið. Minjastofnun telur sig ekki geta gefið umsögn þar sem fullnæjandi fornleifaskráning svæðisins liggi ekki fyrir. Náttúrufræðistofnun telur ekki við hæfi að litið sé til virkjunarkosta innan friðlands Vatnsfjarðar með tilheyrandi breytingum á reglum þess. Umhverfisstofnun leggst gegn breytingum á friðunarskilmálunum. Í öllum umsögnum umhverfis- og félagasamtakanna er lagst gegn áformunum. Vesturbyggð lagðist einnig gegn málinu og vísaði á aðra virkjunarkosti og endurnýjun byggðalínu.

Uppfært kl 11:45. Staðfesting hefur borist á því að umsögn Ísafjarðarbæjar var send í morgun.

Verknámshús M.Í. : ekki hagsmunir Vesturbyggðar

Patreksfjörður. MyndÞ Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi í gær erindi um þátttöku sveitarfélagsins í nýbyggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði. Bæjarráðið sá sér ekki fært að taka þátt í verkefninu eins og það er sett upp.

Bókað var til skýringar á afstöðu bæjarráðsins að það telur að hagsmunir íbúa Vesturbyggðar af þátttöku í byggingu verknámshús þurfi að vera skýrir svo að bæjarráð geti rökstutt þátttöku í verkefninu. Huga þurfi að aðgengi nemenda á öllum Vestfjörðum og hvernig skuli að því staðið.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lagði sama erindi fram á fundi sínum en ekkert var bókað um afstöðu til þess. Lilja Magnúsdóttir, oddviti hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um það hvort sveitarfélagið hyggist vera aðili að samningi við ríkið um byggingu verknámshúsið.

Þrjú sveitarfélög hafa samþykkt að standa að verkefninu, Ísafjarðarbær, Bolungavíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.

Tvö sveitarfélög hafa hafnað því, Vesturbyggð og Kaldrananeshreppur og fjögur sveitarfélög hafa ekki gefið upp afstöðu sína. Það eru Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur og Tálknafjarðarhreppur.

Ef aðeins þessi þrjú sveitarfélög standa að verknámshúsinu með ríkinu, sem greiðir 60%, munu þau skipta 40% hlut sveitarfélaganna milli sín í hlutfalli við íbúafjölda.

Nýjustu fréttir