Sunnudagur 15. september 2024
Síða 172

Aparólumálið: tíma og fjármunum sóað að nauðsynjalausu

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók aftur fyrir í vikunni aparólumálið á Eyrartúni á Ísafirði. Gerð var athugasemd við staðsetningu rólunnar og vildu íbúar að Túngötu 12 færa róluna fjær húsinu. Fyrir nefndina var lagt erindi frá eiganda að Túngötu 5 sem vildi að aparólan verði færð á viðeigandi stað í
fjarlægð frá íbúabyggð. Vísaði bréfritari til þess að staðsetningar á svona aparólum eins og um ræðir annars staðar eru „yfirleitt settar á skipulögð leiksvæði fjarri íbúabyggð, t.d í Kjarnaskógi á Akureyri og í Garðalundi á Akranesi og víðar. Það eru mörg svæði sem koma til greina á Ísafirði sem eru ekki svona nálægt byggð og þar sem svona tæki hefði ekki áhrif á ásýnd, götumynd bæjarins og innsýn inn í hús íbúa og ófrið í byggð.“

Fyrir nefndina var lögð hugmynd um að færa róluna sunnar eftir Túngötunni, nær sjúkrahúsinu. Skipulags- og mannvirkjanefndin fagnaði að tekist hafi að sætta sjónarmið við íbúa og samþykkti framlagða tillögu. Var því erindi eiganda Túngötu 5 ekki samþykkt.

Fulltrúi Framsóknarflokksins í skipulags- og mannvirkjanefndinni Anton Helgi Guðjónsson bókaði vegna þessa máls:

„Nefndarmaður Framsóknar telur það jákvætt að fundin sé lausn með nærliggjandi lóðum og nágrönnum. Aftur á móti er það umhugsunarvert fyrir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar hvernig málið hefur þróast og ljóst að skoða þarf vel ferlið til þess að sóa ekki tíma og fjármunum að nauðsynjalausu eins og raunin er í þessu máli.“

Handbolti : fyrsti heimaleikur Harðar á þessu ári

Fyrsti heimaleikur ársins hjá meistaraflokk Harðar á Ísafirði er næsta laugardag, þann 10. febrúar, kl 16.00 þar sem Hörður mætir Fjölnir í Grilldeild karla.

Við eigum von á spennandi leik og vonumst til að sjá sem flesta!
Öll velkomin og frítt inn.

Sólgeislar og skuggabrekkur

Nú nýlega kom út bókin Sólgeislar og skuggabrekkur sem er ævisaga Margrétar Ákadóttur leikkonu.

Í bókinni segir hún frá viðburðaríku lífshlaupi sínu þar sem skipst hafa á skin og skúrir, eins og titill bókarinnar ber með sér.

Margrét ræðir æskuárin í austurbæ Reykjavíkur en þau mörkuðust meðal annars af því að hún var dóttir eins umdeildasta stjórnmálamanns þjóðarinnar og að margir í móðurfjölskyldu hennar voru gallharðir kommúnistar á Siglufirði.

Í bókinni fer Margrét yfir viðburðarík mótunarár sín, ástarsambönd, ferðalög, búsetu í útlöndum, leiklistarferil sinn og athafnasemi ýmiss konar. Hún er mikill frumkvöðull í listmeðferð og er einn fyrsti Íslendingurinn sem lauk slíku námi.

Hún segir frá starfi sínu með geðfötluðum og frábærum árangri breskra listmeðferðarfræðinga ì vinnu sinni með föngum. Hún lýsir baráttu sinni fyrir betra lífi fyrir fatlaðan son sinn Áka.

Halla Signý átti fund með franska sendiherranum

Halla Signý Kristjánsdóttir alþingismaður átti góðan fund með sendiherra Frakklands hér á landi, Guillaume Bazard , en hann óskaði eftir að hitta hana til að fjalla um og fræðast um málefni Vestfjarða.

Hann er á leið til Ísafjarðar í tilefni af frönsku kvikmyndahátiðinni sem fer fram þar um næstu helgi.

Hann var áhugasamur um málefni fjórðungsins og áttum við gott spjall saman sagði Halla Signý.

Hann hafði meðal annars komið í Djúpuvík og kynnt sér þar verkefnið um Baskasetrið í Djúpuvík sem mun fjalla um veru Baska hér á landi.

Sjö sóttu um starf fiski­stofu­stjóra

Sjö sóttu um starf fiski­stofu­stjóra sem aug­lýst var 12. janú­ar síðastliðinn og mun mat­vælaráðherra skipa í embættið að und­an­gengnu mati hæfn­is­nefnd­ar, að þvi er seg­ir í t­il­kynn­ingu Matvælaráðuneytisins .

Þann 11. janú­ar var til­kynnt að Ögmund­ur H. Knúts­son hafði beðist lausn­ar frá stöf­um sem fiski­stofu­stjóri frá og með 15. janú­ar og að Elín Björg Ragn­ars­dótt­ir, sviðstjóri veiðieft­ir­lits­sviðs myndi gegna starf­inu þar til ráðið yrði í starfið.

Eftirtalin sóttu um starf fiskistofustjóra:

  • Bergþór Bjarna­son, fjár­mála­stjóri
  • Elín Björg Ragn­ars­dótt­ir, sviðstjóri
  • Erna Jóns­dótt­ir, sviðstjóri
  • Fann­ar Karvel, fram­kvæmda­stjóri
  • Gísli Gísla­son, svæðis­stjóri
  • Ólaf­ur Unn­ar Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri
  • Robert Thor­steins­son, viðskipta­fræðing­ur

Hæfn­is­nefnd skipa:

  • Gylfi Dal­mann Aðal­steins­son, dós­ent í mannauðsstjórn­un við Há­skóla Íslands og formaður nefnd­ar­inn­ar.
  • Ragn­hild­ur Hjalta­dótt­ir fyrr­um ráðuneyt­is­stjóri innviðaráðuneyt­is­ins og fleiri ráðuneyta.
  • Eyþór Björns­son, for­stjóri Norður­orku og fyrr­um fiski­stofu­stjóri.

Hæfn­is­nefnd starfar í sam­ræmi við lög um rétt­indi og skyld­ur starfs­manna rík­is­ins og hef­ur til hliðsjón­ar regl­ur um ráðgef­andi nefnd­ir sem meta hæfni um­sækj­enda um embætti við Stjórn­ar­ráð Íslands.

Siggasvell — Vígsla og fjáröflun

Laugardaginn 10. febrúar klukkan 11:00 verður Siggasvell á Flateyri vígt með pompi og prakt!

Vígsla, diskó og léttar veitingar í boði!

Skautar og annar búnaður er á staðnum og fæst að láni að kostnaðarlausu.

Frítt er á viðburðinn en tekið er á móti frjálsum framlögum á staðnum. Allur ágóði Viðburðarins verður merktur í minningu Sigga Hafberg.

Sigurður Jóhann Hafberg var fæddur 5. janúar árið 1959 og lést þann 11. janúar 2023.

Sigurður bjó á Flateyri allt sitt líf. Hann hét úti gistiþjónustu, kaffihúsi, og kajakleigu auk annarar þjónustu við ferðafólk. Hann starfaði um árabil við sjómennsku og var lengi á togaranum Gylli ÍS.

Í minningargrein um hann sagði sr. Gunnar Björnsson : “ Sigurður var raunar einstakur maður.  Vinátta hans var svo traust við þá, sem hann tók tryggð, að kalla mátti öruggan skjólvegg.  Hann var aldrei bældur, heldur frjáls og óbundinn í framkomu og máli – og snöggur að taka við sér í ávarpi.  Gæddur var hann ríkulegri spauggreind, ávallt glaðhittinn og flínk hermikráka.“

Sjávarútvegur: skattspor 85 milljarðar króna 2022

Frá Ísafjarðarhöfn á sjómannadaginn. Mynd: verkvest.is.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa birt upplýsingar um skattspor sjávarútvegsins á tíu ára tímabili 2013 til 2022. Segir að skattspor sjávarútvegsins hafi eflaust aldrei verið stærra en á árinu 2022 á föstu verðlagi. Ekki er tekið með í þessari samantekt skattspor tengdra greina svo sem fiskeldis og þjónustu eð nýsköpunar– og tæknifyrirtæki sem nýta hliðarafurðir úr afla eða þróa hátæknibúnað sem snýr að meðferð á afla eða afurðavinnslu. ,

Veiðigjaldið var 7,9 milljarðar króna , en hæstu fjárhæðirnar eru staðgreiðsla, lífeyrissjóður og tekjuskattur.

Fram kemur að veiðigjaldið fyrstu 10 mánuði 2023 hafi verið 8,8 milljarðar króna og hafi hækkað verulega frá sama tímabili á árinu 2022 þegar veiðigjaldið var 6,6 milljarðar króna. Telja samtökin að veiðigjaldið fyrir allt árið 2023 stefni í 10 milljarða króna.

Fossvogsbrúin : 15 sinnum dýrari pr lengdarmetra en Dýrafjarðargöngin

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, verkfræðingur og forstjóri Kerecis fer yfir fréttirsem að undanförnu hafa birst um ætlaðan kostnað við byggingu brúar yfir Fossvog. Samkvæmt þeim mun 270 metra löng brúin kosta 8,8 milljarða króna, sem jafngildir 32,5 milljónum á lengdarmetrann.

Guðmundur segir í færslu á Facebook að til samanburðar hafi lengdarmetrinn í Dýrafjarðargöngunum kostað 2,2 milljónir króna árið 2021, „en þau styttu Vestfjarðarveg um rúma 27 kílómetra, auk þess að sneitt var hjá hættulegum vetrarvegi yfir Hrafnseyrarheiði sem er að jafnaði ófær að vetrarlagi og án vetrarþjónustu. Lengdarmetrinn í Fossvogsbrúnni verður sem sagt fimmtán sinnum dýrari en lengdarmetrinn í göngunum.“

Hann bætir því við að til viðbótar hafi verið, samhliða gangnagerðinni sjálfri, lagður tæplega 9 kílómetra vegur sitt hvoru megin ganganna.

Almennt séu jarðgöng dýrari en brýr en svo sé ekki í þessu tilviki.

Gefum íslensku séns í hamförum samfélagsbreytinga

Móðurmálið mitt, íslenskan, er í lífshættu. Hún hefur lent í hamförum hnattrænna samfélagsbreytinga sem raunar ná til allra sviða mannlífsins. Hér sjáum við hrun, sprungumyndanir og gliðnun af ólíkum sortum. Við erum stödd í miðjum atburði og vitum fátt eitt um framtíðina en  erum þó farin að átta okkur á að við munum ekki snúa aftur heim í fortíðina til að búa. Við erum misjafnlega langt komin í sorgarferlinu, afneitunar verður enn vart í undirmeðvitundinni en það er kominn tími til að skipuleggja framhaldið og m.a. átta okkur á hvað það er sem við viljum bjarga og varðveita. Fyrir mína parta eru þjóðtungurnar þar ofarlega á blaði og íslenskan dýrgripur sem mig langar að grípa með mér inn í framtíðarlandið.

En nú er það þannig að tungumál er sameign en ekki eitthvað sem ég sting bara í vasann. Og tungumálið er þar að auki lifandi. Helst þurfa allir að hjálpast að við að halda íslenskunni á lífi og gróskumikilli. Þetta þarf að gerast af alúð.

Því miður hafa stofnanir samfélagsins ekki komið nægilega vel að þessari ræktun og ég get endalaust verið skúffuð yfir því. En stofnanir bera ekki einar ábyrgð, hlutverkin eru mörg. Það var t.d. ekki ríkisvaldið sem stóð fyrir átakinu Römpum upp Ísland, það var einstaklingur, meira að segja maður í hjólastól og að einhverju leyti með skerta starfsgetu. Það er klárlega vísbending um að ekki sé alltaf best að bíða eftir öðrum. Og hvað varðar íslenskuna, þá held ég einmitt að átakið Gefum íslensku séns hafi hitt naglann á höfuðið með nálgun sinni og aðferðafræði, við getum öll verið almannakennarar.

Þetta er líklega lykillinn, að við erum leynivopnið, við almenningur, við sem tölum íslenskuna, njótum þess að leika okkur með hana, kitla annað fólk með orðum, en líka tjá vináttu, samstöðu eða huggun eftir því sem við á. Það er raunar mjög valdeflandi að átta sig á því að á þessu sviði geti að líkindum einmitt viðhorf og gerðir almennings skipt sköpum um þróunina, að það séum við sem skrifum framtíðina.

Sálfræðin í því sem við gerum skiptir máli, við þurfum helst að skynja forsendurnar nánast í æðakerfinu, gamla góða brjóstvitið lætur okkur vita að okkur þykir vænt um íslenskuna og okkur þykir vænt um fólk. Við óskum þess af einlægni að nýkomið fólk á Íslandi geti orðið notendur málsins. Við nýtum hvert tækifæri til að gefa íslensku séns. Í krafti velvildarinnar reynum við að finna jafnvægið í því að styðja og leiða áfram án þess að þvinga eða ofgera. Þetta er auðvitað kúnst og á sína vísu lærdómur fyrir okkur að nálgast þetta nýja hversdagsverkefni en allir notendur málsins hafa hlutverki að gegna. Setjum okkur það markmið að gefa íslenskunni ævinlega séns þegar tækifæri er til. Samtal þarf ekki að vera annað hvort alveg á íslensku eða alveg á ensku, hvert nýtt orð eða setningarhluti skiptir máli í framförum og sjálfstrausti þess sem er að fikra sig áfram á nýju tungumáli. Einlæg hvatning skiptir meira máli en að leiðrétta beygingu.

Líkingin við að rampa upp Íslandi á eiginlega býsna vel við í þessu samhengi því að við þurfum að opna dyrnar, fjarlægja þröskulda og greiða leiðina fyrir aðkomufólk inn í íslenskt (mál)samfélag.

Inga Daníelsdóttir

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Ný eldisleyfi: beðið eftir Matvælastofnun

Matvælastofnun gefur ekki svör við því hvers vegna leyfi í Ísafjarðardjúpi eru ekki gefin út.

Umhverfisstofnun auglýsti 5. júní 2023 drög að starfsleyfi fyrir Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða breytingu á leyfi sem áður var gefið út fyrir allt að 5.300 tonna lífmassa af regnbogasilungi en eftir breytingu verður umfangið allt að 8.000 tonna lífmassi og þar af að hámarki 5.200 tonn af frjóum laxi. Frestur til að skila athugasemdum var til 3. júlí 2023.

Í leyfinu kemur fram að það eigi við eldissvæðin Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes. Endanlegt umhverfismat fyrir eldið er dagsett 9. júní 2020 og álit Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu er frá 28. jan. 2021. Telur stofnunin að að áhrif eldisins á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg.

Skúli Þórðarson, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun segir í svari fyrir fyrirspurn Bæjarins besta að starfsleyfið hafi ekki enn verið gefið út, núna hálfu ári síðar, þar sem Umhverfisstofnun beri að gefa út leyfi samhliða Matvælastofnun, sem gefur út rekstrarleyfi og beðið er eftir afgreiðslu þess þeim megin. Skúli segir að framkomnar athugasemdir verði birtar þegar leyfið verður gefið út.

Fleiri umsóknir um eldi í Djúpinu liggja fyrir, m.a. frá Arnarlaxi og Hábrún.

Síðla árs 2022 var stefnt að því að afgreiða fyrir áramótin leyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi, en þá kom upp athugasemdir um að skoða þyrfti hvort kvíastæði hefðu áhrif á siglingar skipa. Var þá útgáfu leyfanna frestað og ákveðið að vinna svonefnt áhættumat siglinga.

Vegagerðin hafði forystu um það mál og Bergþóra Kristinsdóttir hjá Vegagerðinni staðfestir að gerð áhættumatsins fyrir Ísafjarðardjúp væri lokið og vísar til auglýsingar Umhverfisstofnunar um starfsleyfi fyrir Arctic Fish. Strax í maí í fyrra var búið er að vinna áhættumat fyrir þrjú svæði sem hafa verið til skoðunar og eru það:  Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes.

Matvælastofnun var innt eftir því hvenær mætti vænta þess að leyfi verða gefin út til eldis í Djúpinu og hvað væri að tefja útgáfu þeirra. Erna Karen Óskarsdóttir svaraði því til að Matvælastofnun ynni að útgáfu rekstrarleyfa í Djúpinu en útgáfa leyfanna væri umfangsmikil og ekki er ljóst með tímasetningu á útgáfu þeirra.

Þegar hún var innt nánar eftir því hvað tefði afgreiðslu erindanna svaraði hún því til unnið væri að að útgáfu rekstrarleyfa í Djúpinu, ásamt öðrum leyfum, en nákvæm tímasetning liggi ekki fyrir.

Ekki fengust því svör við því hvers vegna leyfin hafa ekki verið gefin út þrátt fyrir að búið sé að leysa úr því atriði fyrir liðlega hálfu ári sem olli frestun á afgreiðslunni fyrir rúmu ári.

En fyrir liggur að Umhverfisstofnun er tilbúin fyrir sitt leyti.

Nýjustu fréttir