Laugardagur 14. september 2024
Síða 171

Bolludagur í dag – Maskadagur

Bolludagurinn er í dag og eflaust margir sem kaupa sér bakaðar og tilbúnar bollur. Strax á föstudaginn voru bollur til sölu í sumum búðum.

Þessi girnilega bolla var keypt í Krambúðinni í Búðardal, en hún var ekki aveg ókeypis, kostaði 949 kr.

Í gær mátti fá bollur á Ísafirði í bakaríinu fyrir um 660 kr stykkið.

Bolludagurinn er talinn hafa borist til landsins frá Danmörku á síðari hluta 19. aldar. Upphaflega var siðurinn að slá köttinn úr tunninni og síðar að flengja með bolluvendi og fá bollur í staðinn.

Á Ísafirði, Bolungarvík og nágrenni hélst sá siður að strákar klæddu sig upp og gengu í hús með leik, söng og betli líkt og krakkar gera á öskudaginn. Þar heitir þessi dagur Maskadagur. 

Ísafjörður: fræðimenn dvelja í Grímshúsi

Túngata 3 Ísafirði.

Nú hafa þær Dina Brode-Roger frá Bandaríkjunum og Seira Duncan frá Bretlandi dvalið í Grímshúsi á Ísafirði og von er á fjórum fræðimönnunum á þessu ári og tveimur til viðbótar í byrjun árs 2025. Alls voru 251 umsækjendur frá um 60 löndum þegarfræðadvölin var fyrst auglýst.

Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar kynnti í nóvember 2022 verkefnið „Fræðadvöl í Grímshúsi” á Ísafirði og opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir seinni hluta 2025 og fyrir 2026. Umsóknarfrestur er til 1. maí næstkomandi. Umsóknarferlið fer fram á heimasíðu Grímsson Fellows.

Fræðadvölin er í samvinnu við Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle, Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og líftæknifyrirtækið Kerecis. Valnefndin er skipuð af Matthildi Maríu Rafnsdóttur, fyrir hönd Hringborðs Norðurslóða, Dr. Peter Weiss fyrir hönd Háskólaseturs Vestfjarða og Dr. Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur fyrir hönd Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og
Háskólans á Akureyri.
Áformað er að sérhver fræðimaður haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum; ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík eða Akureyri.

Fræðadvölinni er ætlað að skapa erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum, fræðimönnum, rithöfundum og fleirum kost á því að dvelja í 2-6 vikur í Grímshúsi, Túngötu 3 á Ísafirði þar sem fjölskylda Ólafs Ragnars bjó á sínum tíma. Ólafur Ragnar Grímsson eignaðist helming hússins fyrir nokkrum árum og býður æskuheimili sitt, tvær hæðir og ris, sem dvalarstað fræðimanna.
Vísindamenn og sérfræðingar á sviðum Norðurslóða, loftslagsmála, umhverfisfræða, náttúrufræða, félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, sjálfbærni, hreinnar orku, sagnfræða sem og rithöfundar geta sótt um að dvelja í húsinu á grundvelli alþjóðlegra auglýsinga.

Úlfsárvirkjun tvöfölduð

Skipulagsstofnun hefur til meðferðar erindi um stækkun Úlfsárvirkjunar í Dagverðardal í Skutulsfirði. Virkjunin var gangsett í maí 2019. Nú áformar framkvæmdaraðili að auka aflgetu virkjunarinnar úr 200kW í 460kW með breytingum á vélbúnaði virkjunarinnar. Vatnsnotkun fyrir aflaukningu er um 0,120 m3/sek. Hámarksvatnsnotkun eftir aflaukningu verður 0,280 m3/sek við full afköst.

Skipuagsstofnun tekur ákvörðun um það hvort breytingin þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Í lýsingu á framkvæmdum segir að engin meiriháttar veglagning verði vegna framkvæmda þar sem aflagður þjóðvegur um neðra Austmannsfall að Breiðadalsheiði verður nýttur. Fallpípa frá vatnsinntaki að stöðvarhúsi verður alfarið grafin í gamla þjóðveginn nema þar sem hún sveigir í átt að inntaki og stöðvarhúsi, því mun rask á landi meðfram Úlfsá ekki verða fyrir raski. Áhrifasvæði virkjunarinnar er á 2.5 km. kafla og athafnasvæði að mest öllu leiti á áður snortnu landi þar sem þjóðvegur Breiðadals og Botnsheiðar lá áður um Dagverðardal upp um Austmannsfall. Stöðvarhús verður staðsett um 260 m. ofan við efnisnámu í Dagverðardal.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni um málið að nefndin líti svo á að þar sem ekki er þörf á frekari framkvæmdum við þessa aflaukningu hafi þetta þar með lítil áhrif á umhverfi virkjunarinnar.

Handbolti: Hörður tapaði fyrir Fjölni

Margir áhorfendur voru á leiknum.

Á laugardaginn var fyrsti heimaleikur ársins Harðar í Grill deildinni í handbolta og var Fjölnir í heimsókn. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Staðan í hálfleik var 13:12 fyrir gestina og lokatölur urðu fjögurra marka sigur Fjölnis 27: 23.

Markhæstir heimamanna voru Tugberk Catkin með fimm mörk og Axel Sveinsson, Jose Neto og Kenya Kasahara hver þeirra með þrjú mörk.

Hörður er í 5. sæti deildarinnar eftir 12 leiki með 12 stig en Fjölnir lyfti sér upp í 3. sæti og er með 17 stig.

Leikurinn var vel sóttur og voru um 300 manns sem hvöttu Harðarmenn til dáða.

Eitt marka Harðar i uppsiglingu.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjörður: Vel sóttur fundur ráðherra Sjálfstæðisflokksins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra.

Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hélt opinn fund á Ísafirði á laugardaginn ásamt Teiti Birni Einarssyni alþm frá Flateyri. Yfirskrift fundarins var að tækifæri og áskoranir til að efla atvinnulíf framtíðar ásamt því að ræða erindi Sjálfstæðisflokksins og taka við fyrirspurnum frá fundargestum.

Áslaug Arna lagði áherslu á þá stefnu að styrkja fjórar stoðir atvinnulífsins og bæta þannig lífskjör almennings og draga úr sveiflum í efnahagsbúskapnum. Hún sagði innflytjendur leggja sitt af mörkum og drífa áfram hagvöxtinn. Fiskeldi væri mikilvæg atvinnugrein en vanda þyrfti til verka.

Ráðherrann vék að vaxandi hraða í breytingum og þekkingu. Áður hefði tvöföldun tekið langan tíma en nú væri hraðinn slíkur að tvöföldun tæki stuttan tíma. Áslaug sagðist hafa ákveðið eftir að hún tók við ráðherraembætti að auglýsa öll störf án staðsetningar sem gerði fólki kleift að starfa fyrir ráðuneytið þótt það væri búsett utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá sagði Áslaug Arna frá glímu sinni við embættismannavaldið sem ætti það til að fara sínu fram þótt ráðherra vildi annað.

Margar fyrirspurnir voru lagðar fyrir ráðherrann og Teit Björn. Var þar m.a. komið inn á orkumál og virkjunarkosti á Vestfjörðum, jarðgöng frá Ísafirði til Súðavíkur og aðgengi að háskólamenntun í Reykjavík. Í svörum ráðherra kom fram að löggjöf sem heimilaði kærur á mörgum mismunandi tigum torveldaði framganga virkjanakosta og væri þörf á að breyta því.

Áslaug Arna verður í Bolungavík í dag og verður með opna skrifstofu þar í Ráðhúsinu frá kl 15.

Frá fundinum á laugardaginn.

Það var létt yfir fundargestum og þessir létu fara vel um sig í sófanum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Hvalveiðar: umsókn Hvals afgreidd svo fljótt sem unnt er

Hvalveiðibátur á siglingu.

Leyfi til hvalveiða rann út um áramót og hefur Hvalur hf lagt inn umsókn um endurnýjun þess.

Í svörum Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta segir að umsókn Hvals hf. um leyfi til veiða á langreyðum sé til meðferðar í ráðuneytinu og að umsóknin verði afgreidd svo fljótt sem unnt er, en ekki er hægt að segja til um hvenær ákvörðun liggur fyrir.

Starfandi Matvælaráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur skipað starfshóp starfshóps sem verður falið að rýna lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli. Í skýrslu starfshópsins muni koma fram valkostagreining um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Valkostir skulu bæði taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við veiðum til framtíðar. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.

Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, verður formaður starfshópsins. Aðrir í hópnum eru:

  • Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við Háskóla Íslands
  • Árni Kolbeinsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar
  • Dr. Snjólaug Árnadóttir, forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og dósent
  • Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands og dósent í stjórnsýslurétti

Í svörum ráðuneytisins kemur fram að skipun starfshóps um lagaumgjörð hvalveiða hafi ekki áhrif á afgreiðslu umsóknar Hvals hf.

Handbolti: toppslagur á Ísafirði í Grilldeildinni

Í dag, laugardaginn 10. febrúar, kl 16.00 taka Harðarmenn á móti Fjölni í toppbaráttuslag í Grill66 deildinni í handbolta. Fjölnismenn eru eins og sakir standa nú í 4 sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki en Hörður með 12 stig eftir 11 leiki. Þessi leikur skiptir því miklu máli fyrir framhaldið.

Spilaðir eru 18 leikir í deildinni. Það lið sem er í efsta sæti að loknum 18 leikjum fer beint upp í úrvalsdeild en lið í 2. – 5. sæti fer í úrslitakeppni um sæti í efstu deild en 2 lið fara í efstu deild að tímabilinu loknu, toppliðið og sigurvegari úrslitakeppninnar. 

Margir ungir og efnilegir leikmenn hafa tekið sín fyrstu spor í Harðarliðinu í vetur. Albert Marzelíus Hákonarson, markvörður, hefur spilað 6 leiki þrátt fyrir ungan aldur. Bróðir hans Hermann Hákonarson er jafnframt markvörður, 14 ára, kom jafnframt við sögu í einum leik fyrir áramót. Axel Vilji Bragason, 14 ára, hefur spilað 4 leiki í vetur og Pétur Þór Jónsson 4 leiki. Þeir eru báðir í unglingalandsliðum Íslands. Gunnar Hákonarson og Guðmundur Björgvinsson hafa báðir jafnframt verið að fá fleiri og fleiri mínútur þegar liðið hefur á tímabilið.

Tyrkinn Tugberk Catkin hefur komið mjög sterkur inn í lið Harðar og markvörðurinn Jónas Maier, frá Þýskalandi, þykir afar góður leikmaður.

Fyrirliðarnir Óli Björn Vilhjálmsson og Axel Sveinsson hvetja alla til að koma á leikinn og lofa hörkuskemmtun en Harðverjar ætla sér sigur. 

Frítt er inn á leikinn, eins og ætíð hjá Herði, en vakin er sérstök athygli á að frítt er fyrir alla að iðka handknattleik hjá félaginu. 

Idol stjörnur ættaðar frá Ísafirði

Anna Fanney Kristinsdóttir. Mynd: visir.is/Hulda Margret.

Í gær lauk Idol keppninni á Stöð 2 þar sem þrír söngvarar kepptu til úrslita. Svo vill til eftir því sem ættfræðideild Bæjarins besta kemst næst að tveir af þremur keppendunum eru af ísfirskum ættum.

Sigurvegarinn Anna Fanney Kristinsdóttir Reykvíkingur á skammt að sækja tónlistahæfileikana. A.m.k. tveir föðurbræður hennar eru miklir tónlistarmenn, bræðurnir Hörður og Benedikt Torfasynir. Amma hennar og alnafna var fædd á Ísafirði fyrir réttri öld, 1924. Langamma hennar var Karólína Ágústína Jósepsdóttir, Ísfirðingur í húð og hár.

Jóna Margrét Guðmundsdóttir er Mosfellingur en faðir hennar er barnabarn Guðmundar Guðmundssonar útgerðarmanns á Ísafirði, kenndur við Hrönn. Amma Jónu Margrétar og alnafna er systir Ingibjargar Guðmundsdóttur, söngkonu, sem landsþekkt er.

Mynd: Mosfellingur.

Vesturbyggð: fimm styrkir menningar- og ferðamálaráðs

Patreksfjarðarhöfn í byrjun desember sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Menningar- og ferðamálaráð Vetsurbyggðar samþykkti á fimmtudaginn að veita fimm umsækjendum styrk en hafnaði tveimur umsóknum.

þeir fimm umsækjendur sem fengu styrk eru:

Slysavarnadeildin Gyða sótti um 150 þúsund króna styrk vegna kaupa á hljóðnemum og var það samþykkt.

Kvenfélagið Sif sótti um styrk vegna þorrablóts á Patreksfirði sem haldið var þann 27. janúar sl. Sótt er um styrk sem nemur niðurfellingu leigu á félagsheimili Patreksfjarðar. Ráðið samþykkti 150 þúsund króna styrk.

Slysavarnadeildin Unnur sótti um styrk vegna 90 ára afmælis deildarinnar sem haldið verður upp á þann 24. febrúar n.k. Sótt var um styrk sem nemur niðurfellingu leigu á félagsheimili Patreksfjarðar. Erindið var samþykkt en ekki er bókuð nein fjárhæð.

Kristín Mjöll Jakobsdóttir sótti um styrk vegna tónleikaferðar blásaraoktettsins Hnúkaþeys í Vesturbyggð. Sótt var um 200 þúsund króna styrk. Menningar- og ferðamálaráð samþykkti styrk að upphæð 150 þúsund krónur í samræmi við reglur sjóðsins.

Andrew J. Yang sótti um 150 þúsund króna styrk vegna Alþjóðlegu píanóhátíðarinnar á Vestfjörðum sem haldin verður í ágúst næstkomandi. Samþykkt.

Tveimur erindum var synjað. Annars vegar var það umsókn frá Fjólubláu húfunni ehf. sem sótti um 150 þús kr. styrk vegna útgáfu sófaborðsbókar um Vestfirði. Menningar- og ferðamálaráð taldir umsóknina ekki falla að áherslum nefndarinnar. Hins vegar var umsókn um  150 þús kr. styrk vegna árshátíðar fyrirtækjanna sem haldin verður þann 9. mars n.k. Því var hafnað með sömu rökum.

Skjár 1 í loftið

Sjónvarpsstöðin Skjár 1 hefur hafið útsendingar aftur og er um línulega dagskrá um að ræða sem dreift er um vefspilara hér: www.skjar1.is og er dagskráin opin og án endurgjalds.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni.

Í kynningu segir að Skjár 1 er íslensk sjónvarpsstöð sem fyrst fór í loftið þann 16 október árið 1998.  Dagskrárstefna Skjás 1 er að sýna kvikmyndir með íslenskum texta á föstum sýningartímum klukkan 5,7,9 & 11 alla daga vikunnar í línulegri útsendingu.

Stuttir dagskrárliðir á milli kvikmynda eru á dagskrá, en höfuðáhersla okkar eru kvikmyndir og sjónvarpsmyndir.

Nýjustu fréttir