Laugardagur 14. september 2024
Síða 170

Fjölmenni á þorrablótum um helgina

Árni Brynjólfsson á Vöðlum lék og söng nefndavísurnar.

Vestfirðingar sóttu vel þorrablót um helgina. Á laugardaginn voru þrjú blót sem Bæjarins besta er kunnugt um. Á Flateyri var Stútungur haldinn í íþróttahúsinu og var blótið að venju mjög vel sótt. Á þriðja hundrað manns skemmtu sér saman. Eru það mun fleiri gestir en nemur íbúum á eyrinni. Sjá mátti marga brottflutta Flateyringa svo sem Eirík Finn Greipsson, fyrrverandi Sparisjóðsstjóra, Brynhildi Einarsdóttur frá Sólbakka og Bryndísi Sigurðardóttur, sem árabil átti og rak Bæjarins besta. Þá voru á blótinu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra og Ásthildur Sturludóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð og núverandi bæjarstjóri á Akureyri svo fáein séu nefnd.

Í Hnífsdal voru um 170 manns á sameiginlegu blóti Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og fór vel á með blótsgestum. Þar komu líka margir brottfluttir til að skemmta sér með heimamönnum, meðal annarra var Þorsteinn Jóhannesson læknir og fyrrverandi frammámaður í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Þriðja blótið var í Bolungavík hjá félagi eldri borgara í bænum. Um 40 – 50 manns voru þar og áttu góða stund saman.

Á þessum þremur þorrablótum lætur nærri að á fimmta hundrað manns hafi skemmt sér saman á laugardaginn.

Bryndís Sigurðardóttir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjármálaráðherra gerir kröfu um að Borgarey og Grímsey verði þjóðlenda

Grímsey á Steingrímsfirði er skammt undan Drangsnesi.

Fjármálaráðherra hefur sett fram fyrir Óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Í kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins er svæði 12 skipt í átta hluta. Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja.

Á Vestfjörðum eru þessar eyjar undanskildar þjóðlendukröfu ríkisins:

Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna: Æðey og Vigur.

Breiðafjörður: Meginland/heimaeyjur eftirfarandi eyja : 1) Flatey. 2) Svefney. 3) Hvallátur. 4) Skáley. 5) Sviðnur. 6) Bjarneyjar. 7) Sauðeyjar. 8) Hergilsey. 9) Skáley. 10) Purkey. 11) Hrappsey. 12) Arney. 13) Rauðseyjar. 14) Rúfseyjar. 15) Akureyjar. 16) Höskuldsey. 17) Saurlátur. 18) Þormóðsey. 19) Elliðaey. 20) Fagurey. 21) Bíldsey. 22) Gvendarey. 23) Ólafsey. 24) Rifgirðingar. 25) Brokey. 26) Öxney.

Samkvæmt þessu gerir ríkið kröfu til þess að eyjarnar Borgarey í Ísafjarðardjúpi og Grímsey á Steingrímsfirði verði þjóðlenda og séu ekki eignarland.

Hjá Óbyggðanefnd fékkst þetta staðfest en þar minnt á að þetta væri krafa ríkisins og Óbyggðanefnd ætti eftir að rannsaka málið.

Menntaskólinn á Ísafirði: 20 nemendur frá Vesturbyggð og Tálknafirði

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Alls voru 20 nemendur frá Vesturbyggð og Tálknafirði við nám í Menntaskólanum á Ísafirði í janúar 2024. Hefur þeim fjölgað frá janúar 2023 þegar þeir voru 16 og fjöldinn liðlega þrefaldast frá janúar 2022 þegar þeir voru 6.

Þetta kemur fram í upplýsingum um nemendur við M.Í sem Bæjarins besta hefur fengið hjá Heiðrúnu Tryggvadóttur, skólameistara Menntaskólans.

Við skólann voru í janúar skráðir 444 nemendur og þar af eru 252 búsettir á Vestfjörðum. Mismunurinn eru 192 nemendur sem eru í fjarnámi í bóknámi og segir Heiðrún fjarnámið hafa vaxið mikið „en með styttingu náms til stúdentsprófs varð fjarnámið mjög mikilvægt viðbragð við fækkun nemenda í dagskóla m.a. til að ekki þyrfti að fara í fækkun starfsfólks. Með fjarnáminu höfum við getað bætt hópanýtingu í bóknámi sem er nú mjög góð sem og haldið úti áföngum sem eru mögulega með fáa dagskólanemendur. Allir bóknámsáfangar eru í boði í fjarnámi. Fjarnámið er okkur því mjög mikilvægt.

Af fjarnemum er nokkur fjöldi sjúkraliðanema en við bjóðum upp á slíkt nám með FNV á Sauðárkróki og VA á Neskaupstað. Einnig vorum við að fara af stað með iðnmeistaranám með VA.“

12,6% þeirra sem eru í verknámi

Í janúar 2024 voru 16 nemendur frá Vesturbyggð og 4 nemendur frá Tálknafirði. Langflestir nemendanna eru í verklegu námi eða sextán og fjórir eru í bóknámi.

Alls eru 8% nemenda skólans frá þessum tveimur sveitarfélögum en þar búa 19% þeirra sem eiga lögheimili á Vestfjörðum. Hlutfall þeirra er enn hærra þegar skoðað er sérstaklega verknámið. Nemendurnir 16 frá Vesturbyggð og Tálknafirði eru 12,6% af þeim 127 nemendum sem eru skráðir í verknámið.

Fyrir ári voru 14 nemendur frá V-Barðastrandarsýslu, þar af voru 9 í verknámi og fyrir tveimur árum, í janúar 2022, voru 6 nemendur frá þessu svæði og allir í verknámi. Á tveimur árum fjölgaði nemendunum úr 6 í 20 eða um 233%.

ekki hagsmunir íbúa Vesturbyggðar

Í síðustu viku ræddi bæjarráð Vesturbyggðar um þátttöku sveitarfélagsins í nýbyggingu verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði og sá sér ekki fært að taka þátt í verkefninu eins og það væri sett upp. Bókað var að bæjarráðið telur að „hagsmunir íbúa Vesturbyggðar af þátttöku í byggingu verknámshús þurfi að vera skýrir svo að bæjarráð geti rökstutt þátttöku í verkefninu. Huga þarf að aðgengi nemenda á öllum Vestfjörðum og hvernig skuli að því staðið.“

Oddviti Tálknafjarðarhrepps hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sveitarstjórnar til þátttöku í verknámshúsinu.

4 nemendur frá Strandasýslu

Frá Strandasýslu eru nú 4 nemendur við skólann, þrír frá Drangsnesi og einn frá Hólmavík. Þrír eru í bóknámi og einn í verknámi. Í fyrra voru þrír nemendur frá þessum sveitarfélögum og einn í janúar 2022.

Peter Weiss kynnti áform um fiskeldisnám fyrir ráðherra

Það var létt yfir Áslaug Örnu og Peter Weiss á skrifstofu ráðherra í Bolungavík í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- ,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var í gær með opna skrifstofu í Ráðhúsinu í Bolungavík og tók á móti fólki sem vildi ræða við hana um margvísleg málefni. Mikill straumur fólks var og hafði ráðherrann meira en nóg að gera þegar Bæjarins besta koma við í Ráðhúsinu.

Meðal þeirra sem ræddi við ráðherrann var Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Hann kynnti fyrir ráðherra háskóla-,iðnaðar og nýsköpunar áætlun Háskólasetursins um nám tengt fiskeldi, sem reyndar snertir öll svið ráðuneytis, enda virðiskeðja fiskeldis nátengd menntun, rannsóknum, iðnaði og ekki síðst nýsköpun.

Peter sagði í samtali við Bæjarins besta að það hafi í nokkurn tíma verið í pípunum hjá Háskólasetrinu að breyta núverandi námsleið í sjávartengdri nýsköpun og beina henni sterkar inn á atvinnugreinina sem er í mestum vexti á Vestfjörðum, fiskeldinu. „Námið á að vera þverfaglegt og með miklu praktísku ívafi enda nánd við atvinnulífið, þarfir þess og þau rannsóknar- og kennslutækifæri sem liggja hér í fyrirtækjunum sjálfsagt helsta ástæða og hvatning fyrir Háskólasetur Vestfjarða að bjóða upp á gott og nýstárlegt nám í góðu og nýstárlegu fiskeldi.“

Háskólasetur Vestfjarða hefur að sögn Peters unnið mjög náið við HA í mörg ár og þó þar væri ekki að finna nám sem heiti beinlínis fiskeldi, er þar innan um annað nám fullt af námsefni og námskeiðum sem nýtast vel í slíkt nám. Svo er Háskólasetur Vestfjarða í samstarfsverkefni sem Háskólinn á Hólum leiðir og kannar fýsileika nýs náms í lagareldi og þá sérstaklega í samstarfi við annað námsframboð á landinu. „Einhver námskeið í núverandi námsframboði Háskólaseturs Vestfjarða tengjast nú þegar lagareldinu, t.d. námskeið í sjálfbæru eldi eða viðskiptahraðall, enda mikilvægur þáttur strandsvæðastjórnunnar annars vegar og byggðafræði hins vegar, stoðunum tveim sem Háskólasetur hefur sérhæft sig í.“

Peter sagði að ráðherra hefði sýnt humyndinni áhuga. „Ekki undarlegt að ráðherra háskóla, vísinda, iðnaðar og nýsköpunar hlustaði spenntur á þessi áform, ekki síðst þar sem Áslaug Arna ráðherra er hlynnt mjög öllu samstarfi milli skóla. Hjá Háskólasetri Vestfjarða treysta menn hins vegar áfram á að þar sem er vilji þar er vegur og þar sem eru góð áform þar verður líka stuðningur til lengdar. Háskólasetrið hefur áður komið með nýstárlegar tillögur, lotunám, sumarönn o.fl., og það er tíl í að leita nýrra lausna í kennslu á háskólastigi, sem gagnast bæði Vestfirðingum og vestfirðsku atvinnulífi sem og landinu öllu.“

Áhugi á sameiginlegri umsókn í Fiskeldissjóð

Bæjarráð Bolungavíkur setti fram þá hugmynd að vestfirsku sveitarfélögin sendu inn
sameiginlega umsókn í Fiskeldissjóð vegna nýs verknámshúss Menntaskólans á Ísafirði. Fengist styrkur myndi hann ganga til þess að stranda straum af 40% kostnaðarhlut sveitarfélaganna, en ríkið mun greiða 60% kostnaðar.

Það eru sex sveitarfélög á Vestfjörðum sem teljast fiskeldissveitarfélög og geta sótt um styrk úr sjóðnum til verkefna í sveitarfélaginu, Ísafjarðarbær, Bolungavíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur, Strandabyggð, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að þessi hugmynd hafi verið rædd óformlega á vettvangi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og segir hún að ekki sé annað að heyra en fulltrúar séu jákvæðir gagnvart þeirri hugmynd. Arna Lára segir að umsókn í fiskeldissjóð vegna verknámshússins styðji vel við markmið sjóðsins en honum er einmitt ætlað að horfa til sterkari samfélagsgerðar (menntun, menning og íbúaþróun).

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að Súðavíkurhreppur styðji það heilshugar og hvetji um leið önnur sveitarfélög á Vestfjörðum til þess að standa að þessu verkefni með þeim hætti.

Á 19. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps föstudaginn 9. febrúar var bókað um þetta undir 8. lið dagskrár: „Súðavíkurhreppur leggur til að sótt verði um með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum í Fiskeldissjóð fyrir uppbyggingu verknámshúss við MÍ ásamt þeim verkefnum sem sveitarfélagið vill fara í.

Bragi Þór segir að sveitarstjórn líti svo á, ef samstaða náist um þetta, að það trompi önnur verkefni sem áhugi er á að sækja um í Fiskeldissjóð eða þörf er á í viðkomandi sveitarfélögum.

Beðið er svara frá öðrum sveitarfélögum sem geta staðið að umsókninni. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir málið verða á dagskrá fundar sveitarstjórnar seinna í dag.

Andlát: Karl Sigurbjörnsson biskup

Sr. Karl Sigurbjörnsson biskup. Mynd: RAX.

Karl Sigurbjörnsson, biskup, lést í morgun á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík, 77 ára að aldri.

Sr. Karl fæddist 5. febrúar 1947 í Reykjavík. Hann var sonur dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups og Magneu Þorkelsdóttur.

Sr. Karl var kjörinn biskup Íslands árið 1997 og tók við 1. janúar árið 1998 og gegndi því embætti í 14 ár. Hann þjónaði eftir það um tíma í Dómkirkjuprestakalli. Sr. Karl var skipaður heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

Hann gegndi ýmsum trúnarðarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna, sat í stjórn Prestafélags Íslands, var kirkjuþingsmaður og í kirkjuráði áður en hann var kjörinn biskup Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og rit, frumsamin og þýdd.

Eftirlifandi eiginkona hans er frú Kristín Þórdís Guðjónsdóttir.

Karls er minnst á síðu Vestfjarðaprófastdæmis og þar segir að Karl Sigurbjörnsson hafi verið einn af betri predikurum, sem kirkjan hefur átt. Karl var einlægur trúmaður, hæfileikaríkur og vandvirkur.

Íbúar á Íslandi umtalsvert færri en áður var talið

Hagstofa Íslands hefur unnið að endurbættri aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi í kjölfar manntals Hagstofunnar frá 1.janúar 2021 sem sýndi að fjöldi landsmanna var ofmetinn um 10 þúsund manns. Hagstofan stefnir á að gefa út leiðréttar upplýsingar um mannfjölda 1. janúar 2024, þann 21. mars næstkomandi, og uppfæra samhliða tölur allt frá árinu 2011.

Hingað til hafa tölur um íbúafjölda á landinu verið byggðar á skráningu lögheimils í þjóðskrá. Þær tölur benda ranglega til þess að íbúar landsins verði að líkindum 400 þúsund talsins í febrúar 2024.

Endurbætt aðferð Hagstofu við mat á íbúafjölda byggist á því að búseta einstaklinga sé metin út frá breiðari grunni opinberra skráa. Þannig má ætla að í nýju mati Hagstofunnar verði íbúafjöldinn talsvert lægri en nú er talið.

Ástæða ofmats Þjóðskrár á íbúafjölda má rekja til þess að einstaklingar upplýsa stofnunina síður um það þegar þeir flytja úr landi en þegar þeir flytja til landsins. Einstaklingar hafa ríkan hvata til að skrá sig inn í landið, fá kennitölu og þar með ýmsa þjónustu, eins og að opna bankareikning og skrá lögheimili. Slíkir hvatar eru ekki til staðar þegar einstaklingar flytja úr landi. Af því leiðir að skráður íbúafjöldi er hærri en íbúafjöldi landsins.

Ef gert er ráð fyrir að skekkjan hafi vaxið samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara má áætla að ofmat íbúafjöldans hér á landi sé nú um 14 þúsund. 

Aldrei fór ég suður um páskana

Um páskana verður tónlistarhátíðin ALDREI FÓR ÉG SUÐUR haldin í á Ísafirði.

Það er ekki úr vegi að vita um tilurð hátíðarinnar. Þeim segist svo frá feðgunum Mugison og Papamug.

Við feðgar vorum að drekka bjór í útlöndum sumarið 2003 og fórum þá að ímynda okkur stórhátíð á Ísafirði þar sem venjulegt fólk væri stjörnurnar og pop-stjörnurnar væru í algeru aukasæti.

Okkur fannst svo frábært að sjá fyrir okkur plakat þar sem stærstu stafirnir væru „Dóri Hermans syngur swinging the blues away“ og svo væru helstu meik stjörnur landsins í pínku litlu letri. Við feðgar sátum þarna í nokkra klukkutíma og viti menn við vorum búnir að hanna stærsta og flottasta festival í heimi.

Þegar rann af okkur feðgum héldum við samt áfram að spjalla um þessa hátíð og var það til marks um að hugmyndin væri kannski góð. Okkur langaði að bjóða nokkrum vinum úr bransanum vestur og jafnframt langaði okkur að sýna þeim af hverju við feðgar búum á mörkum hins byggilega heims, ástæðan er náttúrulega augljós, fólkið hérna fyrir vestan.

Án þess að detta í einhvern þjóðernisrembing þá finnst okkur feðgum samt fólkið hérna með eindæmum skemmtilegt og opið, hér eru allir sérvitringar, allir hafa skoðanir á öllu og okkur fannst hreinlega kominn tími til að minna fólkið sjálft á þessa staðreynd og um leið sína vinum og kunningjum hversu skemmtilegt það getur verið hérna fyrir vestan.

Það geta allir rekið ættir sínar vestur og ættu því að fletta í símaskránni, bjalla í frænku og frænda, fá að gista, skella tannburstanum í brjóstvasann, pakka vonda skapinu í tösku og senda á Akureyri, klæða sig í góða skapið og bara kíla-á-ða.

Orkuskiptamálþing á Ísafirði

Í síðustu viku fór fram á Ísafirði málþingið Af hverju orkuskipti – loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga.

Góð mæting var og almenn ánægja með það sem þar fór fram meðal þátttakenda.

Flutt voru sex ólík erindi um loftslagsbreytingar og nauðsynleg viðbrögð við þeim.

Málþingið markaði upphafið að þeirri vinnu sem nú fer í hönd með sveitarfélögunum við gerð loftslags- og orkuskiptaáætlana. Hjörleifur Finnsson sem er verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu mun leiða þá vinnu.

Það sem knýr vinnuna áfram er annars vegar samþykkt Fjórðungssamband Vestfirðinga að hefja gerð loftslagsstefnu og hins vegar þátttaka í evrópuverkefninu RECET þar sem lokaafurðin á að vera orkuskiptaáætlun fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum.

Á vormánuðum verður haldið áfram með kynningar og samráð við almenning og hagsmunaaðila á opnum fundum um gerð Svæðisskipulag Vestfjarða og Sóknaraáætlun fjórðungsins.

Auglýst eftir eigendum að tveimur þurrkhjöllum og hestagerði á Tálknafirði

Tálknafjörður. Ein heimastjórnin er fyrir Tálknafjörð.

Unnið er að gerð deiliskipulags fyrir svæði á landi Tálknafjarðarhrepps í Hrafnadal ofan við þéttbýlið.

Á þessu svæði standa tveir þurrkhjallar, hestagerði og ýmsir lausamunir sem óljóst er hverjir eru eigendur að. Til að unnt sé að ganga frá deiliskipulaginu í samræmi við reglur þar um þarf að ganga frá eignarhaldi þessara eigna á formlegan hátt. Einnig er ljóst að hreinsa þarf svæðið af þeim hlutum sem þar liggja og ekki vitað hverjir eru eigendur þessara hluta.

Hér með er auglýst eftir eigendum að tveimur þurrkhjöllum og hestagerði sem standa á deiliskipulagssvæðinu þar sem þær eignir eru ekki skráðar með lóðaleigusamning eða með fasteignanúmer.

Þau sem gera tilkall til þessara eigna þurfa að gera lóðaleigusamning og samþykkja skráningu eignanna á fasteignaskrá til að tilkall þeirra til eignanna samræmist reglum um fasteignir. Þau sem telja sig eiga þessar eignir eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu Tálknafjarðarhrepps og ganga frá skráningu eignanna á fasteignaskrá og gera lóðaleigusamning um viðkomandi eign til að staðfesta eignarhaldið til framtíðar.

Einnig er um að ræða lausamuni svo sem gáma, bíla, vinnuvélar og ýmsan búnað sem liggur nokkuð víða um svæðið. Eigendur þessara lausamuna eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu Tálknafjarðarhrepps og tilkynna hvað þau telja sig eiga svo því verði ekki fargað þegar kemur að tiltekt á svæðinu í kjölfar þessarar auglýsingar.

Þau sem hafa leigt aðstöðu á geymslusvæði í Hrafnadal eru beðnir að staðfesta við skrifstofu Tálknafjarðarhrepps hvaða svæði þeir hafa leigt og hvort þeir vilji halda því áfram. Jafnframt eru viðkomandi aðilar beðnir um að taka til á sínu svæði og fara yfir hvort þar er eitthvað af munum sem þeir telja sig ekki eiga og vilja losna við. Gott væri að ábendingum um slíka muni verði einnig komið til skrifstofu Tálknafjarðarhrepps þannig að unnt sé að fara í tiltektir á svæðinu í heild sinni.

Nýjustu fréttir