Mánudagur 2. september 2024
Síða 17

Bjargdúfa

Bjargdúfa er gráblá, með gljáandi grænar og purpuralitar hálshliðar. Hún er með hvítan yfirgump, dökka rák á jaðri stéls og tvær svartar vængrákir. Ungfugl er brúnni, án gljáa á hálshliðum. Dökkar bjargdúfur eru líka til. Húsdúfan er afkomandi bjargdúfunnar. Hún er til í mörgum litum, t.d. hvít, alsvört og brún, og til eru ýmis ræktuð afbrigði. Dökkar bjargdúfur eru líka til.

Dúfur svífa oft með vængina uppsveigða. Gefa frá sér malandi kurr.

Aðallega frææta, fer gjarnan í kornakra, en tekur einnig arfafræ, sprota, ber og smáskordýr á jörðu niðri. Kemur einnig í fóður, þar sem fuglum er gefið kornmeti.

Bjargdúfan er staðfugl. Til skamms tíma urpu bjargdúfur í klettum á nokkrum stöðum á Austurlandi, frá Berufirði norður í Norðfjörð. Uppruni þeirra er óviss, þær gætu verið afkomendur húsdúfna sem hafa lagst út og/eða bjargdúfna sem hafa flækst hingað, en þær verpa m.a. í Færeyjum og á Skotlandi. Á undanförnum árum hefur útbreiðsla þeirra færst suður til Hornafjarðar og til vesturs á sunnaverðu landinu og nær hún nú alla leið í Mýrdal, undir Eyjafjöll, til Vestmannaeyja og í Ölfus. Þessi útbreiðsluaukning er talin fylgja aukinni kornrækt.

Húsdúfa verpur á helstu þéttbýlisstöðum landsins og dreift á sveitabæjum. Töluvert hefur verið herjað á hana á síðustu árum og hefur henni fækkað mikið í Reykjavík.

Af fuglavefur.is

COVID-19 bóluefnin björguðu mannslífum 

Frá því að bóluefni gegn COVID-19 voru fyrst tekin í notkun í desember 2020 og þangað til í mars 2023 fækkuðu bóluefnin dauðsföllum vegna heimsfaraldursins um 59% og björguðu þannig rúmlega 1,6 milljónum mannslífum á Evrópusvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Frá þessu er sagt á vef Landlæknis og þar segir að þetta séu niðurstöður nýrrar rannsóknar WHO í Evrópu sem birtar hafa verið í tímaritinu The Lancet .

Rannsóknin leiddi í ljós að þau 2,2 milljón COVID-19 dauðsföll, sem vitað er um á svæðinu, hefðu orðið allt að 4 milljónir án bólusetninganna.

Flest mannslífanna sem var bjargað voru meðal 60 ára eða eldri en það er sá hópur sem er í mestri hættu á alvarlegum veikindum og dauða af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem veldur COVID-19.

Samkvæmt rannsókn WHO, komu bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili á Íslandi og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára.

Bólusetningar kom því í veg fyrir 70% þeirra COVID-19 dauðsfalla sem annars hefði mátt búast við án bólusetningar hérlendis.

Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.

Trékyllisheiðin 2024

Vinningshafar 2021

Trékyllisheiðin er utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í fjórða sinn laugardaginn 17. ágúst 2024. Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands.

Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðan við Hólmavík. Þar enda öll hlaupin.

Öll hlaupin eru viðurkennd af ITRA (Alþjóða utanvegahlaupasambandinu) og eru hluti af Landskeppni ITRA á Íslandi

Lengsta hlaupið sem er 48 km. hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík, næstlengsta hlaupið 25;7 km hefst við Hótel Djúpavík í Reykjarfirði og það þriðja á Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar en það hlaup er 16.5 km. Ungmennahlaupið sem er 3.7 km hefst svo við eyðibýlið Bólstað í Selárdal.

Sætaferðir verða frá skíðaskálanum að rásmörkum hlaupanna og sem fyrr segir enda öll hlaupin við skíðaskálann.

Í markinu er boðið upp á kökur og kjötsúpu

Eyjar og fjölbreytileiki – Ráðstefna í Háskólasetri

Eitt af einkennum eyja og afskekktra samfélaga er seigla, líffræðilegur fjölbreytileiki og menningarleg auðlegð. Ráðstefnan um eyjar og afskekkt samfélög verður haldin í Háskólasetri Vestfjarða í samstarfi við Háskóla Íslands og Árnastofnun, dagana 3.-5. október 2024. 

Markmiðið með ráðstefnunni er að beina athygli að mikilvægi eyja og afskekktra samfélaga sem eru í sífelldri þróun og er mikilvægt að rannsaka. Eyjar eru með sérstakt vistkerfi og samfélagsgerð og standa frammi fyrir einstökum áskorunum eins og áhrif loftslagsbreytinga og viðkvæmt jafnvægi sjálfbærrar þróunar. Eyjar og afskekkt samfélög gegna mikilvægu hlutverki í tengslum við alþjóðlega, vistfræðilega og menningarlega arfleið. Með þetta hlutverk í huga miðar þessi ráðstefna að því að kanna eyjasamfélög út frá þremur yfirgripsmiklum þemum: menningu, tungumáli og menntun. 

Ráðstefnan mun leiða saman þátttakendur með ólíkan bakgrunn og hvetja til þverfaglegrar umræðu til að koma auga á vannýtta möguleika eyja sem „rannsóknarstofur“ fyrir nýstárlegar rannsóknir, stefnumótun og eflingu samfélagsins. Á ráðstefnunni verða hringborðsumræður, málþing, vinnustofur og skapandi kynningar.

Aðalfyrirlesarar verða:

Dr. Laurie Brinklow lektor og umsjónamaður meistaranáms í eyjafræðum og formaður „Institute of Island Studies“ við Prince Edward Islands háskólann í Charlottetown, Canada. 

Ástráður Eysteinsson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands um árabil, fyrst sem stundakennari í almennri bókmenntafræði og ensku, síðan sem lektor og dósent í almennri bókmenntafræði og frá 1994 sem prófessor.

Gísli Pálsson prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans síðastliðna fjóra áratugi hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði.

Ísafjarðarbær: selur 20 íbúðir til Brákar íbúðafélags

Íbúðir við Túngötu á Suðureyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað í morgun að selja 20 íbúðir úr Fasteignum Ísafjarðarbæjar til Brákar íbúðafélags hses. Um er að ræða 11 íbúðir við Túngötu á Suðureyri og 9 íbúðir við Fjarðargötu 30 á Þingeyri.

Stofnvirði íbúðanna á Þingeyri er kr. 126.880.000 og á Suðureyri er stofnvirðið kr. 200.300.000. Samtals er það 327 m.kr. Staða lána á Fjarðargötu 30 á Þingeyri kr. 101.041.602 og á Suðureyri 166.999.194 kr., samtals 267 m.kr.

Stofnframlag sveitarfélaga er 12% af stofnvirði íbúðanna. Hlutur Ísafjarðarbæjar í verkefninu á Þingeyri er því 15.225.600 kr. og vegna verkefnisins á Suðureyri 24.036.000 kr. Samtals er stofnframlag Ísafjarðarbæjar vegna kaupa Brákar íbúðafélags á íbúðunum 20 um 39 m.kr.

Í minnisblaði Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra til bæjarráðs segir að það hafi verið stefna sveitarfélagsins að minnka umfangs eignasafnsins og sé þessi aðgerð liður í þeirri vegferð. Brák íbúðarfélag er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Þá segir að Brák sé rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Vindáttinni snúið í móttöku skemmtiferðaskipa

Stefna og aðgerðaráætlun um móttöku skemmtiferðaskipa, sem Í-listinn hafði forgöngu um að skrifa, var samþykkt í apríl. Fjölmargt í stefnunni er markvert, sumt er er komið til framkvæmda en annað er í undirbúningi. Síðan hafa íslenskir og erlendir fjölmiðlar talsvert sagt frá málinu.

Erlendir fjölmiðlar mæra stefnu Ísafjarðarbæjar um móttöku skemmtiferðaskipa

Af erlendum miðlum má fyrstan telja fagtímaritið Cruise Hive sem fjallar um stefnuna. Blaðið segir í lokaorðum sínum í lauslegri þýðingu minni: „Stefnan sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur sett sýnir skynsamlega og sjálfbæra stjórnun á stækkandi iðnaði. Þetta er líkan sem margar hafnir sem misst hafa tökin hefðu gjarnan viljað taka upp fyrr.“

Hið breska Express og Yahoo News fjölluðu einnig um stefnuna í vor. Þá fjallaði bloggarinn Gary Bembridge kersknisfulla grein um að Ísafjörður væri ein af fjölmörgum höfnum í kringum heiminn sem væri að „eyðileggja ferðaáætlanir skemmtiskipafarþega“.

Nú síðast skrifaði Politiken grein um stefnuna og byggði á nýju viðtali við mig. Politiken setur málið í stærra samhengi við Ísland sem ferðamannaland. Meðal annars sagði ég þar að þessari stefnu „hafi verið mætt með afar jákvæðum viðbrögðum innan bæjar og utan.“

Vindur blæs nú í bakið

Þetta er talsverður viðsnúningur frá þeirri umfjöllun sem var í fyrra, en þá var Ísafjörður talsvert settur í neikvætt ljós stjórn- og stefnuleysis. Við höfum snúið vindáttinni.

Framkvæmdir hafnarinnar hafa haldið áfram á Ísafirði og undirbúningur undir frekari framkvæmdir, til dæmis móttökuhús fyrir gesti. Skipulagsvinna er tímafrek og ósýnileg en er nú að nálgast endamark. Klósettum hefur verið fjölgað og sumarviðburðasjóður hafnarinnar lífgað bæjarlífið. Þá hefur Hafnarstrætið verið göngugata nokkra daga í sumar. Einnig hefur upplýsingagjöf verið stórefld með gamansömum upplýsingapistlum á Facebook.

Þá hafa tekjur hafnarinnar verið enn meiri en áætlað var, og orðaði BB það svo að hún mali gull. Þrátt fyrir mikil umsvif í fiskveiðum, fiskeldi og þungaflutningum, eru tveir þriðjuhlutar af tekjum hafnarinnar af móttöku skemmtiferðaskipa.

Athygli vekur að verulega hefur dregið saman með höfnunum þremur á toppi farþegalistans, og samkvæmt nýjustu tölum á mælaborði ferðaþjónustunnar, er sáralítill munur á Akureyri, Ísafirði og Reykjavík miðað við farþegafjölda í þúsundum.

Stefnan og aðgerðaráætlunin verður áfram leiðarljós við forgangsröðun verkefna næstu árin og er enn af nógu að taka.

Gylfi Ólafsson er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann.

Góðar samgöngur milli Ísafjarðar og Bolungavíkur

Ekki verður annað sagt en að góðar áætlunarsamgöngur séur milli Ísafjarðar og Bolungavíkur. Alla virka daga eru níu ferðir milli staðanna og eru um að ræða gjaldfrjásar almenningssamgöngur sem eru í boði fyrir alla íbúa. Hefur svo verið frá janúar 2023.

Á Ísafirði er stoppistöð á Torfnesi og Króknum en í Bolungarvík er það við Íþróttamiðstöðina og Hvíta húsið.

Auk þessar ferða er flugrúta sem fer í öll flug á Ísafjarðarfugvöll með farþega til og frá Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafirði, en nauðsynlegt er að panta far með rútunni í síma 893 8355 og borga fargjald.

Tímataflan fyrir rútuferðirnar.

Messað á Eyri í Seyðisfirði

Frá messu í Eyrarkirkju á síðasta ári. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær var messað í bændakirkjunni á Eyri í Seyðisfirði í Ísafjarðarkirkju. Barði Ingibjartsson í Súðavík sagði að góð mæting hafi verð, alls mættu 33 messugestir og var boðið upp á kaffi og veitingar utandyra eftir messuna. Barði sagðist hafa verið undirbúinn fyrir að hafa kaffið í kirkjunni ef veðrið hefði verið óhagstætt. Sr Fjölnir Ásbjörnsson messaði. Marta Kristín Pálmadóttir, sem ættuð er frá Uppsölum í Seyðisfirði, lék á harmóniku í kirkjukaffinu.

Eyrarkirkja var byggð 1866 og er því 158 ára gömul og heyrir undir ákvæði húsafriðunatlaga. Endurbætur og viðgerðir eru því háðar samþykkti Minjastofnunar og sagði Rannveig Ólafsdóttir að stofnunin gerði kröfu um að viðurkenndir iðnaðarmenn sæu um framkvæmdir.

Móðir Rannveigar er eigandi að Eyri sem er ábyrgðarmaður kirkjunnar. Að sögn Rannveigar varð kirkjan fyrir töluverðum skemmdum í óvirði í febrúar 1991 , þegar hún skekktist á grunni. Töluverðu hefur verið kostað til í viðgeðir utanhúss og fengist til þess, að hluta til, styrkir úr húsafriðunarsjóði. Fyrirhugaðar eru viðgerðir á kirkjunni innanhúss.

Uppfært 12.8. kl 23:02. Fellt var út orðið ekki í kröfum Minjastofnunar til hæfni iðnaðarmanna sem var ofaukið í upphaflegri frétt. Krafist er að þeir séu viðurkenndir til viðgerðanna.

Act alone: um tvö þúsund áhorfendur á 23 viðburðum

Elfar Logi Hannesson, forsvarsmaður Act alone hátíðarinnar, sem haldin var í 20. sinn um helgina á Suðureyri sagði í samtali við Bæjarins besta að hátíðin hefði gengið einstaklega vel, það hefði verið góð stemming frá byrjun hátíðarinnar á miðvikudaginn. Þá var smekkfullt í Staðarkirkju á tónleikum Mugison og staðið utandyra.

Þá var metmæting í fiskiveisluna á föstudaginn. Ekki var aðeins 20 ára afmæli hátíðarinnar heldur var líka Tjöruhúsið, sem sá um veitingarnar, 20 ára og Fiskvinnslan Íslandssaga, sem lagði til hráefnið, á 25 ára starfsafmæli.

Aðeins 40 lifandi fengu að mæta

Elfar Logi segir að alls hafi verið 23 viðburðir á hátíðinni og um tvö þúsund manns hafi komið á þá. Yngri kynslóðin sótti vel trúðanámskeið og loftbelgjanámskeið. Þá var gríðarleg aðsókn á miðilsfundinn. „Aðeins var hægt hleypa 40 lifandi á fundinn en löng biðröð var eftir miðum“ segir Elfar Logi og var brugðið á það ráð fá Celebs til að slá upp heimatónleikum fyrir þá sem ekki komust á miðilsfundinn. „Ég lagði ekki í að mæta því líklega hefðu verið fullmörg skilaboð að handan til mín.“ Vegna mikils áhuga hélt miðillinn Anna Birta sérstakan miðilsfund á laugardaginn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Elfar Logi nefndi einnig velheppnaða lokatónleika á laugardagskvöldið. Þá hélt Gugusar, tvitug stúlka ættuð frá Þingeyri fyrir fullu húsi og hreif hún gesti í dans sem leik sínum.

Salóme Katrín frá Ísafirði var með tónleika, Gunnar Smári Jóhannesson frá Tálknafirði sýndi einleikinn neð sjálfum mér og Vestfirski fornminjadagurinn var haldinn um laugardagsmorguninn við mikla aðsókn í tilgátuhúsinu sem reist hefur verið innst í Súgandafirði. Eiríkur Örn Norðdahl og Ólína Þorvarðardóttir komu einnig fram svo nokkur atriði séu nefnd og segir Elfar Logi að töluverð vestfirsk slagsíða hafi verið á hátíðinni.

„Við viljum þakka íbúum Vestfjarða fyrir að hafa stutt við bakið á hátíðinni í 20 ár og hafa sótt hana vel. Þá er fámennur en öflugur hópur sjálfboðaliða sem gerir þetta mögulegt að halda svona viðamikla hátíð.“ Elfar Logi sagði að undirbúnngur fyrir næstu hátíð væri þegar hafinn og komin væru nokkur boð um atriði á þá hátíð.

Frá loftbelgjanámskeiðinu.

Myndir: Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir.

Besta deildin: jafntefli við Íslandsmeistarana

Gunnar Jóhann Haulsson skorar mark Vestra. Skjáskot: visir.is

Karlalið Vestra í knattspyrnu gerði góða ferð til Reykjavíkur í gær og gerði jafntefli í Víkinni við Íslands- og bikarmeistara Víkings í Bestu deildinni.

Víkingar náðu forystu strax í upphafi leiks og Vestri jafnaði undir lok leiksins. Það var Gunnar Jónas Hauksson sem átti gott skot fyrir utan vítateig í markhornið.

Tarik Ibrahimagic skipti úr Vestra á dögunum yfir til Víkings og var í byrjunarliði Íslandsmeistaranna. Silas Songani átti góðan leik fyrir Vestra og skapaði usla í vörn Víkinga með hraða sínum.

Meiðsli hrjá leikmannahóp Vestra og vantaði bæði Pétur Bjarnason og Andra Rúnar Bjarnason. Vonast er til þess að Pétur verði leikfær í næsta leik en þá kemur lið KR í heimsókn á Kerecisvöllinn.

Eftir leikinn er Vestri í 10. sæti deildarinnar og lyfti sér úr fallsæti. Fjögur lið eru neðst í deildinni og nokkuð langt á eftir öðrum liðum. KR, Vestri, HK og Fylkir koma til með að berjast um að halda sæti sínu í deildinni en tvö af þessum fjórum liðum munu falla niður í Lengjudeildina.

KR er með 15 stig, Vestri og HK með 14 stig og Fylkir 13 stig. KR á leik á morgun gegn FH og svo var frestað um daginn leik KR og HK.

Vestir og Fylkir eiga 4 leiki eftir, HK á fimm leiki og KR á sex leiki eftir að meðtöldum leiknum á morgun.

Vestri fær KR í heimsókn á laugardaginn og síðasti heimaleikurinn á Kerecis vellinum verður 1. september gegn Fylki. Takist Vestra að vinna báða þessa leiki verður staða félagsins nokkuð vænleg í botnbaráttunni.

Vestri á eftir tvo leiki á útivelli fyrst á Hlíðarenda gegn Val og síðasti leikurinn verður í Garðabænum gegn Stjörnunni. Liðið hefur sýnt að það getur sótt stig á útivelli, unnið þar þrjá leiki og gert þrjú jafntefli af 9 leikjum. Á heimavelli hefur Vestri aðeins uppskorið tvö jafntefli. Þar liggur helsti vandi Vestra.

Jeppe Peder­sen er genginn til liðs við Vestra og vonast er til þess að hann verði gjaldgengur í næsta leik. Hann er bróðir Patrik Pedersen, leiksmanns Vals um árabil og mikils markaskorara. Jeppe hefur leikið fyrir öll ungmenna landslið Dana og á hann leiki í efstu og næst efstu deild Danmörku. Jeppe gerir samning við Vestra út 2025.

Nýjustu fréttir