Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 17

Hvatningarverðlaun UMFÍ


Ungmennafélag Grindavíkur, útivist fyrir karla á Ísafirði og skíðafélag Strandamanna hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024. Verðlaunin voru afhent á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór um liðna helgi.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti fulltrúum sambandsaðila UMFÍ verðlaunin. 

Ungmennafélagið Grindavík
Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS) hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024 fyrir óeigingjarnt starf Ungmennafélags Grindavíkur í þágu samfélagsins í tengslum við eldsumbrot og starfsemi félagsins. Félagið hefur frá því eldsumbrot hófust í bænum staðið í ströngu við að halda starfsemi félagsins gangandi. Félagið vinnur enn að því að koma iðkendum í önnur félög og ýmis önnur verkefni sem seint geta talist hefðbundin kjarnastarfsemi félags. 

Karlahreysti 
Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlýtur Hvatningarverðlaunin fyrir verkefni félagsmanna Íþróttafélagsins Vestra um karlahreysti,  eftirtektarvert og óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Frá árinu 2018 hafa Júlíus Ólafsson og Óðinn Gestsson verið í forsvari fyrir og leitt hóp karla sem stundar reglulega útvist og hreyfingu undir heitinu Karlahreysti. Snemma fengu þeir til liðs við sig Árna Heiðar Ívarsson íþróttafræðing sem skipuleggur æfingar hópsins sem hittist þrisvar í viku yfir veturinn. Karlahreystin á Ísafirði þjónar sama tilgangi en þar er áherslan á líkamlega hreyfingu.

Skíðadeild Strandamanna
Héraðssamband Strandamanna hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir eftirtektarvert og óeigingjarnt starf Skíðafélags Strandamanna og uppbyggingu aðstöðu þess. Skíðafélagið Strandamanna var stofnað í lok árs 1999 og hefur verið í sérstaklega örum vexti undanfarin ár. Eftir byggingu nýs skíðaskála árið 2015 hefur félagið unnið ötullega að því að vera með eitt fremsta skíðagöngusvæði landsins. Stjórn félagsins og skíðaþjálfarar, iðkendur á öllum aldri, foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar eiga heiður skilið fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Öll þjálfun á vegum félagsins er unnin í sjálfboðavinnu. 

Tómstundafulltrúi í Strandabyggð

Gengið hefur verið frá ráðningu Andra Freys Arnarssonar sem Tómstundafulltrúi Strandabyggðar til eins árs. Hann mun einnig sjá um húsvörslu Félagsheimilisins og mun bjóða upp á tónlistarnámskeið. Hann mun hefja störf nú þegar. 

Andri Freyr hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum og unglingum, sem leiðbeinandi í leikskóla og á frístundaheimilum, hann hefur hlotið réttindi frá Knattspyrnuþjálfaraskóla KSÍ og þjálfað börn, unglinga og ungmenna í knattspyrnu.

Einnig hefur hann unnið ýmis fjölbreytt verkefni á sviði tónlistar, kvikmynda og viðburðahalds. 

Engar loðnuveiðar

Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar fiskveiðiárið 2024/2025.

Þessi ráðgjöf er samhljóma fyrirliggjandi upphafsráðgjöf sem byggði á mælingum á ungloðnu haustið 2023. Ráðgjöfin verður endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2025.

Ráðgjöfin byggir á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Tarajoq og veiðiskipinu Polar Ammassak á tímabilinu 21. ágúst til 1. október.

Leiðangurinn er talinn hafa náð yfir útbreiðslusvæði stofnsins. Loðnan var nokkuð jafndreifð á svæðinu og mælingin hennar hafði fremur lágan breytistuðul.

Heildarmagn loðnu mældist tæp 610 þúsund tonn og þar af var stærð veiðistofns metin 307 þúsund tonn. Þegar tekið hefur verið tillit til metins afráns fram að hrygningu í mars er metið að hrygningarstofninn verði 193 þúsund tonn.

Markmið aflareglu er að miða heildarafla við að meira en 95% líkur séu á að hrygningarstofn verði yfir viðmiðunarmörkum upp á 114 þúsund tonn á hrygningartíma. Það mun ekki nást samkvæmt niðurstöðum stofnmatsins og því er gefin ráðgjöf um engar veiðar á þessu fiskveiðiári. Magn ókynþroska í fjölda var um 57 milljarðar en samkvæmt samþykktri aflareglu þarf yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fyrir næsta fiskveiðiár (2025/2026) en Alþjóðahafrannsóknaráðið mun gefa ráðgjöf þar að lútandi í júní á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að farið verði til hefðbundna mælinga á loðnustofninum í janúar 2025 og ráðgjöfin endurmetin að þeim loknum.

Mesta umferð í einum mánuði frá upphafi mælinga

Umferðin jókst um 1,7% milli september mánaða árin 2023 og 2024. Mest jókst umferðin í mælisniði á Reykjanesbraut, eða um 2%, en minnst um mælisnið á Vesturlandsvegi eða um 1,4%. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Aldrei áður hefur umferð mælst meiri í nokkrum mánuði frá því að þessi samantekt hófst, árið 2005.

Í fyrsta sinn fór samanlögð meðalumferð á sólarhring yfir 190 þúsund ökutæki. Eldra met var frá því í júní 2023 en þá fóru rétt rúmlega 187 þúsund ökutæki á sólarhring um mælisniðin þrjú.


Uppsöfnuð umferð hefur aukist um 3,3%, frá áramótum, borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning er talsvert undir þeirri stöðu, sem lá fyrir á sama tíma á síðasta ári, en þá var uppsöfnuð umferð 4,7%.

Í nýliðnum mánuði var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum. Þó minnst haf verið ekið á sunnudögum jókst umferðin, hlutfallslega mest á þeim vikudögum en minnst á mánudögum.

Ísafjörður: gáfu teikningar af Fjarðarstræti 27

Frændurnir Einar S. Einarsson, Einar Kárason og Einar Karl Kristjánsson gáfu Byggðasafni Vestfjarða ekki aðeins meira en aldargamla muni, kúfisksting gamlan og sjóferðabók frá Ísafjarðardjúpi heldur komu þeir einnig með teikningar af Fjarðarstræti 27,æskuheimili Einars S.

Hann segir að viss eftirsjón sé af þessu húsi því hærra risið mun hafa verið gamli Eyrarbærinn, sem síðar var byggt við á báðar hliðar.

Tússteikning Svölu Sóleygar frá1967.

Einar Kárason við minnismerki afa síns í föðurætt Gunnars Andrew Jôhannessonar skátaforingja, sem stendur við Dyngju, í Dagverðardal, sem hann heimsótti í ferðinni í síðustu viku. 

Ísafjarðarbær: 241 m.kr. auknar tekjur af skemmtiferðaskipum

Hafnarstarfsmenn við síðasta skipið í sumar. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Fram kemur í minnisblaði fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar að samkvæmt útkomuspá fyrir árið verði rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins jákvæð um 680 m.kr. sem er 201 m.kr. betri afkoma en samvæmt fjárhagsáætlun að teknu tilliti til viðauka.

Skýrist afkomubatinn einvörðungu af auknum tekjum af komu skemmtiferðaskipa en þær eru 241 m.kr. Þá er hagnaður af sölu eigna 24 m.kr. meiri en áætlunin gerðir ráð fyrir.

Á móti kemur að rekstrargjöld eru 57 m.kr. hærri og munar þar mest um að launakostnaður er 40 m.kr. umfram áætlun.

Laun og tengd gjöld eru langstærsti útgjaldaliðurinn, 3,5 milljarðar króna af 6,2 milljarða kr. heildarútgjöldum.

Forseti Íslands: ræðir við formenn allra flokka

Forseti Íslands segir í yfirlýsingu að í morgun hafi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gengið á hennar fund og lagt fram tillögu um þingrof og í kjölfarið almennar kosningar til Alþingis í lok nóvember. Samkvæmt tillögu ráðherra situr ríkisstjórnin fram til kosninga.

„Ég hef átt samtöl við forsætisráðherra síðustu daga og í gærkvöldi ræddi ég við formenn hinna stjórnmálaflokkanna sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn. Ég hyggst nú gefa mér tíma til að ræða einnig við formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Að þeim fundum loknum mun ég leggja mat á stöðu mála áður en ég tek afstöðu til tillögunnar. Ég mun svo gera grein fyrir ákvörðun minni síðar í vikunni.“

Halla Signý: stjórnarslitin vonbrigði

Halla Signý Kristjánsdóttir alþm.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. (B) segir það staðreynd að stjórnarsamsamstarfið hafi ekki gengið vel síðustu mánuði og ekki gengið eins vel að brúa ágreiningsmál eins og á fyrra kjörtímabili. „En það eru vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki treyst sér fylgjast að lengra inn í bataferli í efnahagsmálum og slíta samstarfinu. Forsætisráðherrann nefndi sérstaklega efnahagsmál, orkumál og útlendingamál. Það eru þau málefni sem sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið síðustu 10 ár. En ekki skal gráta Bjarna bónda heldur safna liði og Framsókn göngum tilbúin til kosninga til að endurnýja umboðið.“

Um hvað verður kosið?

„Sem fyrr horfir Framsókn til þess að ná niður verðbólgu. Það hefur verið uppbygging og fólksfjölgun í öllum landshlutum nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að byggðamálum til að fylgja því eftir.“

Hvað er mikilvægt fyrir Vestfirðinga?

„Ná niður verðbólgu og vaxtastigi er mikilvægt fyrir alla landsmenn. Vestfirðir eru í uppbyggingafasa, samgöngubætur hafa verið miklar á síðustu tveimur kjörtímabilum en það eru næg verkefni eftir það er áfram mikilvægt að vinna að þeim, bæta afhendingaröryggi raforku og bæta umgjörð um fiskeldið. þá er ég að horfa á stöðugra umgjörð um leyfisveitingamál og umhverfismál og að samfélögin njóti sanngjarnari ávinnings af gjaldtökunni.“

Ísafjörður: 470 m.kr. í framkvæmdir vegna móttöku skemmtiferðaskipa

Birt hefur verið minnisblað Verkís um hönnun innviða vegna móttöku skemmtiferðaksipa á Ísafirði.

Um er að ræða hönnun og mat á kostnaði fyrir aðkomusvæði farþega skemmtiferðaskipa, rútubílastæði og gönguleiðir að Neðstakaupstað og Sundstræti.

Gert er ráð fyrir svæði sem er sérstaklega ætlað fyrir móttöku og gönguleiðir farþega af skemmtiferðaskipum. Svæðið liggur þvert yfir tangann milli móttökuhúss við Sundabakka og Neðstakaupstaðar. Á milli Æðartanga 3 og 5 skal byggt upp torg og þaðan skulu gönguleiðir liggja;
annars vegar að Neðstakaupstað og hins vegar að aðstöðu ferðabáta í Sundahöfn. Þessum gönguleiðum er ætlað að beina farþegum um örugga leið að Neðstakaupstað og þaðan í átt að miðbæ um Suðurgötu eða að ferðaþjónustu í Sundahöfn. Næst svæðunum er gert ráð fyrir bíla- og rútustæðum fyrir móttöku farþega, sbr. kafla um lóðir fyrir athafnastarfsemi.

Á torginu er heimilt að setja upp salerni, sölubúðir, dvalarsvæði og afþreyingu fyrir gesti og starfsmenn.
Sérstök áhersla er lögð á þarfir farþega og skýrar sjónlínur að næsta áfangastað farþega, sem og öryggi gangandi vegfarenda við rútustæði.

Heildarkostnaður er áætlaður verða 470 m.kr. Þar af við torgið og gönguleiðir frá því 326 m.kr. Kostnaður við aðrar gönguleiðir og svæði 144 m.kr.

Mestur er kostnaðurinn talinn vera við torgið og göngusvæði við Sundabakka 194 m.kr.

Gönguleið meðfram Sundahöfn að Mávagarði er talin kosta 90 m.kr. Gönguleið frá torgi að Ásgeirsgötu kostar 70 m.kr. og gönguleið frá torgi að Neðstakaupstað 62 m.kr.

Langstærsti kostnaðurinn við torgið eru 2.900 fermetrar af hellum sem kota 72,5 m.kr. og 500 lengdarmetrar af beðkanti sem kosta 35 m.kr.

Skipulags- og mannvirkjanefnd fól sviðsstjóra að uppfæra áætlun miðað við umræður á fundinum og vísaði henni uppfærðri til samþykktar í bæjarstjórn.

Teitur Björn: hárrétt að kjósa

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm. (D) segir það hárrétta ákvörðun hjá forsætisráðherra að leggja til þingrof og þar með að boðað verði til kosninga.

„Ég hef frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári haft áhyggjur af afstöðu VG til atvinnu fólks og grundvallarréttinda og nú er það ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki sætta sig við kyrrstöðu í mikilvægum efnahagsmálum, sem varða störf fólks og kjör þess til framtíðar litið, gríðarlega miklu. Til að mynda er ekki boðlegt að ríkisstjórn geti ekki náð saman um frekari orkuöflun í landinu eða náð saman um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis eða mikilvægi sjávarútvegsins. Lengra var því ekki komist og því er það eina rétta í stöðunni að leggja þessi mikilvægu mál í dóm kjósenda.“

Um hvað verður kosið?

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur verk sín stoltur í dóm kjósenda enda hefur náðst verulegur árangur í efnahags- og atvinnumálum síðustu ár þrátt fyrir margvísleg ytri áföll og áskoranir. En nú er verkefnið annað og kosningarnar munu fyrst og fremst snúast um framtíðina og hvernig kjör fólks geta haldið áfram að batna, hvernig við nýtum sem best tækifærin til að skapa góð og verðmæt störf, til að mynda í fiskeldi og ferðaþjónustu. En til þess þarf græna orku og samkeppnishæft skattaumhverfi og regluverk.“

Hvað fyrir Vestfirðinga?

„Fyrir Vestfirðinga skiptir mestu máli að í landinu séu stjórnvöld sem skilji bæði mikilvægi þess að fjórðungurinn fái að vaxa og dafna áfram á sínum forsendum og leggi uppbyggingunni beint lið með því að setja alvöru kraft í samgönguframkvæmdir og orkuöflun í fjórðungnum og fyrir því mun ég áfram berjast.

Ég hef ekki legið á þeim skoðunum mínum að tafir og frestun á mikilvægum samgöngubótum á Vestfjörðum eru með öllu óboðlegar og hef gagnrýnt innviðaráðherra fyrir að ekki hafi verið staðið við margítrekuð loforð um fjármögnun og áætlanir um verklok eins og til dæmis í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði.

Ég hef eins verið þeirrar skoðunar að Vestfirðingar verði að nýta alla þá kosti sem eru á borðinu til orkuöflunar og styrkingar á raforkukerfinu. Hvalárvirkjun og efling flutningskerfisins frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun eru afar mikilvægar framkvæmdir en ég tel að Vatnsdalsvirkjun verði líka að verða að veruleika til þess að Vestfirðingar geti nýtt öll tækifærin sem til eru til að efla byggðirnar og bæta lífskjör fólks. Tækifærin eru sannarlega til staðar og til framtíðar litið mun gott aðgengi að raforku skipta lykilmáli hvernig til tekst.“          

Nýjustu fréttir