Síða 17

Aðalvandamálið við máltileinkun innflytjenda!

Aðalvandamálið við máltileinkun innflytjenda er ekki að þeir nenni ekki að læra málið, þjóðargersemina, stolt vort og arfleifð. NEI! Aðalvandamálið er samfélag sem EKKI býður fólk velkomið í (mál)samfélagið með þeim kröfum og hvata sem þar þurfa, verða og eiga að fylgja. Það allt nefnilega í lagi að gera kröfu um íslensku á öllum sviðum íslensks samfélags og fólk á ekki að vera feimið við það. Það er engin, alls enginn, dónaskapur fólginn í því að vilja tala íslensku á Íslandi. En það er samt engin þörf á að sýna dónaskap þegar maður fer fram á það og ber og að hafa í huga að máske þurfi að einfalda mál sitt til að allt komist til skila. En alltént! Séu fáir sem kunna skil á íslensku er það vegna leti samfélagsins, yfirvaldsins, málhafa íslensku, móðurmálshafa og þeirra sem kunna góð skil á málinu við að miðla málinu, við að gera kröfur um íslensku, við að segja: „Hey, ég nenni ekki að tala við þig ensku, en ég skal mjög gjarnan tala við þig íslensku og gera allt sem ég get til að þú skiljir og ég skilji þig. Finnum leið saman.“ Eins og staðan er núna er viðhorfið: Farðu í skóla, lærðu þar en tölum svo bara ensku (meira að segja þeir sem eiga erlendan maka nenna ekki að leggja á sig að miðla málinu) þangað til þú masterar málið, því ég nenni ekki að leggja neitt á mig, ég vil bara geta kvartað undan fólki sem nennir ekki að læra málið og búa til aðgreiningu. Það er svo gaman að geta sagt: Þessir xxxxxxx útlendingar nenna ekki að læra þá víkingadásemd sem íslenskan er. Eitthvað sem er algjört bull. Við höfum málið í okkar höndum og það er okkar að miðla því, það er okkar að fara fram á að málið sé notað og hjálpa til við máltileinkun. En hey, kannski vilja Íslendingar bara hreinlega ekki að innflytjendur verði hluti samfélagsins. Það skyldi þó aldrei vera raunin að allur fagurgalinn um fjölmenningu nái bara til þess að borða fokking kebab og framandi mat borin fram af enskumælandi, oft varla það, láglaunafólki! Já, og svo má tala um það hjá Gísla Marteini löðrandi í skinhelgi og þvælu þess sem veit ekkert um málið en er góður að búa til grípandi frasa. Við búum í andlega lötu samfélagi með uppgerðargóðmennsku og hananú!

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, kennari íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands

Eigendaskipti að Massa þrifum ehf Ísafirði

Viðskiptin innsigluð við húsakynni fyrirtækisins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftir rúmlega 30 ár í rekstri á bílaþrifum, gólfbónun og teppaþrifum hafa hjónin Mimmo Ilvonen og Árni Þór Árnason selt fyrirtækið. Kaupandinn er Radislaw Gabriel Komarewicz, sem var áður starfsmaður þeirra um 14 ára skeið í Massa þrifum. Hann gerþekkir því til starfseminnar sem er til húsa í Suðurtanga 2.

Heimasíða fyrirtækisins er eftir sem áður massi.is en símanúmer er 846-6386 og netfang rado@massi.is.

Íslendingar búsettir erlendis 2024

Alls voru 50.923 íslenskir ríkisborgarar með skráð lögheimili erlendis þann 1. desember sl. samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár.

Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 12.449 einstaklingar. Næst flestir eða 9.357 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 9.111 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili. Í Bandaríkjunum voru 6.640 íslenskir ríkisborgarar og þeir voru 2.526 á Bretlandi.

Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 110 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu Þjóðanna þann 1. desember 2024.

Til gamans má geta að í 13 löndum er aðeins einn íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Þetta eru löndin Angóla, Belarús, Belís, Gana, Georgía, Gínea, Indland, Makedónía, Máritíus, Pakistan, Panama, Púertó Ríkó og Sómalía.

Einstakt hugrekki til sjós

Alþjóðasiglingamálstofnunin (IMO) óskar eftir tilnefningum til verðlauna fyrir einstakt hugrekki til sjós. Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki.

Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2007. Þjóðir eða samtök geta tilnefnt einstakling eða hópa sem hafa sýnt óvenjulegt hugrekki við björgun eða aðstoð á sjó.

Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki. Atvikið sem tilnefningin varðar skal hafa átt sér stað á tímabilinu 1. mars 2024 – 28. febrúar 2025.

Tilnefningar skulu sendar til Samgöngustofu eigi síðar en mánudaginn 7. apríl 2025. 

Frönsk kvikmyndahátíð á Ísafirði 28. febrúar – 1. mars

Franska kvikmyndahátíðin verður haldin á Ísafirði dagana 28. febrúar – 1. mars.

Sýndar verða þrjár myndir að þessu sinni. Seldir verða hátíðarpassar með góðum afslætti sem gilda á allar myndirnar á hátíðinni. Einnig verður hægt að kaupa miða á stakar sýningar.


Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Ísafjarðarbíó, Franska sendiráðið, Alliance Francaise og Bíó Paradís.
Menningarfulltrúa franska sendiráðsins á Íslandi Renaud Durville opnar hátíðina kl. 19 föstudaginn 28. febrúar og býður gestum upp á léttar veitingar.
Snævar Sölvi Sölvason kvikmyndagerðarmaður á Ísafirði heldur stutt erindi um franska kvikmyndagerð við opnunina.

Nýliðunarkvóta á grásleppu úthlutað

Alls sóttu 57 aðilar um nýliðunarkvóta í grásleppu sem Fiskistofa hefur nú úthlutað.  Erindum frá 9 útgerðum var hafnað og deildust því þau 65 tonn sem í boði voru á 48 nýliða.  

Aðeins tæp 1,4 tonn í aflamark á hvern og einn.  Magnið sem hér um ræðir eru 5,3% af upphafsaflamarki 1.216 tonnum. 

Í frétt Landsambands smbátaeigenda segir að hér sé “ um enn eina falleinkunn sem lögin fá.  Eins og sjá má er þetta ekki upp í nös á ketti.  Aðilar sem fóru á grásleppu í fyrsta skiptið 2023, stunduðu veiðar sl. tvær vertíðir eiga litla möguleika á áframhaldandi veiðum.  Að falla úr 60 tonna afla niður í 5 tonn er eitthvað sem gengur ekki upp.“  

Hvestuvirkjun fær lóð

Heimastjórn Arnarfjarðar, sem starfar innan Vesturbyggðar, hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi Hvestuvirkjunar. Breytingin gengur út að afmörkuð er lóð í fjórum skikum að heildarstærð 6.870 m² sem fær nafnið Hvestuvirkjanir. Vegslóði á uppdrætti er uppfærður til núverandi horfs og safnskurðum hnikað til skv. núverandi legu þeirra. Innan lóðarskikanna eru steinsteyptar stíflur með yfirfalli, botnrás, inntaksþró auk stöðvarhúsa.

Hvesturvirkjun er í Hvestudal, sem er austasti dalur Ketildala í Arnarfirði utan við Bíldudal. Ásett afl virkjunarinnar er 1,5 MW.

Tillagana verður nú auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga.

Ísafjarðarbær: vilja hita upp gervigrasið á Torfnesi

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í bæjarráði tillögu um að senda inn sameiginlega umsókn með
Bolungavík og Súðavík í fiskeldissjóð þar sem sótt er umbúnað til upphitunar á gervigrasvellinum á
Torfnesi á Ísafirði.

Í erindi þeirra til bæjarráðs segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi rætt við sveitarfélögin um þessa hugmynd og að hugmyndinni hafi verið fagnað, nágrannasveitarfélögin séu reiðubúin að vera með Ísafjarðarbæ í umsókninni.
„Einnig hefur verið rætt við Bláma um aðkomu þeirra að málinu, þeir eru reiðubúnir til samstarfs og er
vinna í raun þegar hafin til að skoða verkefnið. Fyrst þarf að meta hagkvæmi þess að setja upp varmadælukerfi og bera saman hvaða kerfi eru möguleg og kostnaðarmeta verkefnið.“

Hugmyndin er að setja upp varmadælur í kjallara íþróttahússins á Torfnesi, heildarkostnaður er
áætlaður um 45 milljónir.

  • Kostnaður við kaup á varmadælum er um 25 millj.
  • Uppsetning á varmadælum 5 millj.
  • Lagnir að fótboltavelli 5 millj.
  • Frostlögur í hitalagnir 5 millj.
  • Hönnun og annað ófyrirséð 5 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að keyra hita á völlinn frá desember til apríl eða eftir veðri hverju sinni. Þegar völlurinn er ekki kynntur er hægt að nýta orkuna í íþróttahúsið. Orkukostnaður í íþróttahúsinu er um 5,3 millj á ári, þ.e. flutningur og orka. Orkukostnaður þá mánuði sem hiti er ekki á fótboltavellinum er um 2,7 millj. á ári. Einnig mætti skoða samstarf með Menntaskólanum á Ísafirði til að fullnýta varmadælurnar yfir vor- og sumarmánuði.

Bæjarráð tók vel í erindið og fól bæjarstjóra að undirbúa umsókn í fiskeldissjóð samhliða öðrum umsóknum sem eru í undirbúningi.

Súðavíkurhreppur: styrkir knd Vestra um 1 m.kr.

Grunnskóli Súðavíkur.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að styrkja knattspyrnudeild Vestra með 330 þúsund króna framlagi á ári í 3 ár. Er fjárhæðin svipuð og veittur styrkur var á síðasta ári.

Þá var einnig rætt um aðstöðu fyrir líkamsrækt í Súðavík og var samþykkt að skipa þriggja manna nefnd til þess að finna lausn á aðstöðu til líkamsræktar. Er lagt til að haft verði samráð við skólastjóra Grunnskólans.

Loks má nefna að ungmennafélagið Geisli hyggst fara af stað með íþróttaskóla fyrir börnin í sveitarfélaginu.

Framsókn: vorum óundirbúin fyrir stjórnarslitin

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Þórarinn Pétursson, alþm.

Þessa vikuna er kjördæmavika á Alþingi og þingflokkarnir nota hana til þess að halda fundi út í kjördæmunum og fara í fyrirtæki og á vinnustaði. Þingflokkur Framsóknarflokksins hélt fundi á Vestfjörðum á sunnudag og í gær. Byrjað var á Patreksfirði og í gær voru fundir á Ísafirði og á Hólmavík.

Flokkur fólksins verður á Ísafirði í kvöld á Dokkunni kl 20 með almennan fund, en varð að fella niður fund á Þingeyri sem fyrirhugaður var í gær, þar sem ekki var flogið vestur. Þar mæta þingmenn kjördæmisins Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Fundur Framsóknarmanna á Ísafirði var á óhefðbundnum tíma, fyrir hádegi á mánudegi. Formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í framsöguræðu sinni að úrslit kosninganna hefðu verið mikil vonbrigði en því væri ekki að neita að flokkurinn hefði síðastliðið haust verið óundirbúin því að boðað var til alþingiskosninga. Þá hefði það komið fljótt í ljós að fólk var orðið leitt á fráfarandi ríkisstjórn og vildi breyta til.

Það þýddi hins vegar lítið að dvelja við það sem orðið er heldur þyrfti flokkurinn að huga að málflutningi og afla honum fylgis. Nú væri flokkurinn í stjórnarandstöðu og það gæfi honum færi á að leggja fram sín helstu mál og nefndi hann sem dæmi tillögu um nýja skipan íbúðalána með föstum vöxtum , tryggja heimilum og litlum fyrirtækjum forgangsraforku og að verjast ásælni erlendra aðila í jarðir. Framsóknarflokkurinn væri sterkur á sveitarstjórnarstiginu og næsta verkefni væri að undirbúa næstu sveitarstjórnarkosninga sem verða eftir liðlega eitt ár.

Sigurður Ingi var spurður að því hvers vegna hefði dregist að bjóða út lokaáfanga í stórum verkum á Vestfjörðum, Dynjandisheiði og í Gufudalssveit með þeim afleiðingum að verklokum seinkar um tvö ár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var innviðaráðherra stóran hluta síðasta kjörtímabils, sagði að framaf , á árunum 2021 og 2022 hefði fjárveitingar verið hærri en því sem var ráðstafað með útboðum. Þá hefði verið innistæða og hægt að bjóða meira út, en fjármálaráðuneytið hafi þá lagt áherslu á aðhald. Þetta hafi snúist við á árunum 2023 og 2024 þegar verðbólga jókst. Við það hækkaði verulega kostnaður við útboðsverkin og Vegagerðin hafi fengið fyrirmæli um að vera innan fjárheimilda. Þá hafi ekki náðst samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um PPP verkefnin sem gera ráð fyrir utanaðkomandi fjármögnun og ekki hafi heldur verið samstaða í ríkisstjórninni um að auka við fjárveitingar til vegamála.

Frá fundi Framsóknarflokksins í Edinborgarhúsinu.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýjustu fréttir