Alls sóttu 57 aðilar um nýliðunarkvóta í grásleppu sem Fiskistofa hefur nú úthlutað. Erindum frá 9 útgerðum var hafnað og deildust því þau 65 tonn sem í boði voru á 48 nýliða.
Aðeins tæp 1,4 tonn í aflamark á hvern og einn. Magnið sem hér um ræðir eru 5,3% af upphafsaflamarki 1.216 tonnum.
Í frétt Landsambands smbátaeigenda segir að hér sé “ um enn eina falleinkunn sem lögin fá. Eins og sjá má er þetta ekki upp í nös á ketti. Aðilar sem fóru á grásleppu í fyrsta skiptið 2023, stunduðu veiðar sl. tvær vertíðir eiga litla möguleika á áframhaldandi veiðum. Að falla úr 60 tonna afla niður í 5 tonn er eitthvað sem gengur ekki upp.“
Heimastjórn Arnarfjarðar, sem starfar innan Vesturbyggðar, hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi Hvestuvirkjunar. Breytingin gengur út að afmörkuð er lóð í fjórum skikum að heildarstærð 6.870 m² sem fær nafnið Hvestuvirkjanir. Vegslóði á uppdrætti er uppfærður til núverandi horfs og safnskurðum hnikað til skv. núverandi legu þeirra. Innan lóðarskikanna eru steinsteyptar stíflur með yfirfalli, botnrás, inntaksþró auk stöðvarhúsa.
Hvesturvirkjun er í Hvestudal, sem er austasti dalur Ketildala í Arnarfirði utan við Bíldudal. Ásett afl virkjunarinnar er 1,5 MW.
Tillagana verður nú auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga.
Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur.
Mynd: Ásgeir Hólm.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í bæjarráði tillögu um að senda inn sameiginlega umsókn með Bolungavík og Súðavík í fiskeldissjóð þar sem sótt er umbúnað til upphitunar á gervigrasvellinum á Torfnesi á Ísafirði.
Í erindi þeirra til bæjarráðs segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi rætt við sveitarfélögin um þessa hugmynd og að hugmyndinni hafi verið fagnað, nágrannasveitarfélögin séu reiðubúin að vera með Ísafjarðarbæ í umsókninni. „Einnig hefur verið rætt við Bláma um aðkomu þeirra að málinu, þeir eru reiðubúnir til samstarfs og er vinna í raun þegar hafin til að skoða verkefnið. Fyrst þarf að meta hagkvæmi þess að setja upp varmadælukerfi og bera saman hvaða kerfi eru möguleg og kostnaðarmeta verkefnið.“
Hugmyndin er að setja upp varmadælur í kjallara íþróttahússins á Torfnesi, heildarkostnaður er áætlaður um 45 milljónir.
Kostnaður við kaup á varmadælum er um 25 millj.
Uppsetning á varmadælum 5 millj.
Lagnir að fótboltavelli 5 millj.
Frostlögur í hitalagnir 5 millj.
Hönnun og annað ófyrirséð 5 millj. kr.
Gert er ráð fyrir að keyra hita á völlinn frá desember til apríl eða eftir veðri hverju sinni. Þegar völlurinn er ekki kynntur er hægt að nýta orkuna í íþróttahúsið. Orkukostnaður í íþróttahúsinu er um 5,3 millj á ári, þ.e. flutningur og orka. Orkukostnaður þá mánuði sem hiti er ekki á fótboltavellinum er um 2,7 millj. á ári. Einnig mætti skoða samstarf með Menntaskólanum á Ísafirði til að fullnýta varmadælurnar yfir vor- og sumarmánuði.
Bæjarráð tók vel í erindið og fól bæjarstjóra að undirbúa umsókn í fiskeldissjóð samhliða öðrum umsóknum sem eru í undirbúningi.
Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt að styrkja knattspyrnudeild Vestra með 330 þúsund króna framlagi á ári í 3 ár. Er fjárhæðin svipuð og veittur styrkur var á síðasta ári.
Þá var einnig rætt um aðstöðu fyrir líkamsrækt í Súðavík og var samþykkt að skipa þriggja manna nefnd til þess að finna lausn á aðstöðu til líkamsræktar. Er lagt til að haft verði samráð við skólastjóra Grunnskólans.
Loks má nefna að ungmennafélagið Geisli hyggst fara af stað með íþróttaskóla fyrir börnin í sveitarfélaginu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Þórarinn Pétursson, alþm.
Þessa vikuna er kjördæmavika á Alþingi og þingflokkarnir nota hana til þess að halda fundi út í kjördæmunum og fara í fyrirtæki og á vinnustaði. Þingflokkur Framsóknarflokksins hélt fundi á Vestfjörðum á sunnudag og í gær. Byrjað var á Patreksfirði og í gær voru fundir á Ísafirði og á Hólmavík.
Flokkur fólksins verður á Ísafirði í kvöld á Dokkunni kl 20 með almennan fund, en varð að fella niður fund á Þingeyri sem fyrirhugaður var í gær, þar sem ekki var flogið vestur. Þar mæta þingmenn kjördæmisins Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Fundur Framsóknarmanna á Ísafirði var á óhefðbundnum tíma, fyrir hádegi á mánudegi. Formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í framsöguræðu sinni að úrslit kosninganna hefðu verið mikil vonbrigði en því væri ekki að neita að flokkurinn hefði síðastliðið haust verið óundirbúin því að boðað var til alþingiskosninga. Þá hefði það komið fljótt í ljós að fólk var orðið leitt á fráfarandi ríkisstjórn og vildi breyta til.
Það þýddi hins vegar lítið að dvelja við það sem orðið er heldur þyrfti flokkurinn að huga að málflutningi og afla honum fylgis. Nú væri flokkurinn í stjórnarandstöðu og það gæfi honum færi á að leggja fram sín helstu mál og nefndi hann sem dæmi tillögu um nýja skipan íbúðalána með föstum vöxtum , tryggja heimilum og litlum fyrirtækjum forgangsraforku og að verjast ásælni erlendra aðila í jarðir. Framsóknarflokkurinn væri sterkur á sveitarstjórnarstiginu og næsta verkefni væri að undirbúa næstu sveitarstjórnarkosninga sem verða eftir liðlega eitt ár.
Sigurður Ingi var spurður að því hvers vegna hefði dregist að bjóða út lokaáfanga í stórum verkum á Vestfjörðum, Dynjandisheiði og í Gufudalssveit með þeim afleiðingum að verklokum seinkar um tvö ár.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var innviðaráðherra stóran hluta síðasta kjörtímabils, sagði að framaf , á árunum 2021 og 2022 hefði fjárveitingar verið hærri en því sem var ráðstafað með útboðum. Þá hefði verið innistæða og hægt að bjóða meira út, en fjármálaráðuneytið hafi þá lagt áherslu á aðhald. Þetta hafi snúist við á árunum 2023 og 2024 þegar verðbólga jókst. Við það hækkaði verulega kostnaður við útboðsverkin og Vegagerðin hafi fengið fyrirmæli um að vera innan fjárheimilda. Þá hafi ekki náðst samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um PPP verkefnin sem gera ráð fyrir utanaðkomandi fjármögnun og ekki hafi heldur verið samstaða í ríkisstjórninni um að auka við fjárveitingar til vegamála.
Laugardaginn 1. mars næstkomandi kl. 16 opnar sýningin ,,Í lit“ í Gallerí Úthverfu að viðstöddum sýningarstjóra og tveimur af listakonunum fjórum sem taka þátt. Þann dag eru 40 ár liðin frá því fyrst var opnuð sýning á samtímalist í rýminu við Aðalstræti 22 á Ísafirði. Fulltrúi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar opnar sýninguna og boðið verður uppá léttar veitingar.
,,Í lit“ er samsýning fjögurra listamanna, Katrínar Agnesar Klar, Önnu Hrundar Másdóttur, Eyglóar Harðardóttur og Ingibjargar Sigurjónsdóttur. Sýningarstjóri er Ingólfur Arnarsson, en hann var fyrsti listamaðurinn til að opna sýningu í rýminu 1. mars 1985.
,,Strax á námsárum okkar í Hollandi hafði Jón Sigurpálsson orð á því að gaman gæti verið að opna sýningarstað á Ísafirði þegar heim væri komið. Draumurinn rættist með samtakamætti nokkurra einstaklinga sem stofnuðu Myndlistarfélagið á Ísafirði og hófu rekstur sýningarsalar fyrir samtímalist. Sýningarstaðurinn hefur verið starfræktur í 40 ár og það er hægt að slá því föstu að þetta fallega herbergi að Aðalstræti 22, 400 Ísafirði, sé svo sannarlega áhugaverður punktur eða staður á kortinu.
Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrstur til að sýna í Slunkaríki og í tilefni afmælisins var mér boðið að sýna aftur. Að þessu sinni vildi ég virkja sýningarstjórahólfið í mér.
Ég hef haft þann háttinn á að smella af myndum á símann þegar ég rekst á áhugaverð listaverk. Það var því nærtækt fyrsta skref að skrolla í gegnum nýlegt myndasafn. Eitt af því sem blasti við voru ýmis verk þar sem meðferð lita var afgerandi. Þannig spratt fram val mitt á verkum og listamönnum fyrir þessa samsýningu. Fyrir mína kynslóð, sem ólst upp við svart/hvíta skjámynd af heiminum, hefur það að segja að eitthvað sé í lit sérstaka merkingu.
Það er von mín að þetta stefnumót bjóði upp á áhugaverðan samanburð og tengingar hjá áhorfendum.
Samsýningin markar upphafið að dagskrá þar sem haldið verður uppá 40 ár af samtímalist í Gallerí Úthverfu sem áður hýsti Slunkaríki. Aðrar sýningar á árinu eru m.a. bókverkasýning með Joe Keys o.fl. sem opnar um páskana, finnsku listamannanna Karoliina Hellberg og Josefina Nelimarkka sem opnar 17. júní í tengslum við tónlistarhátíðina ,,Við Djúpið“ og sumarsýning Roni Horn sem opnar 18. júlí. Á sama tíma verður einnig skipulögð sýning í sal Myndlistarfélagsins á Ísafirði, Slunkaríki, sem nú er hluti af Edinborg menningarmiðstöð.
Afmælisdagskrá ársins lýkur með útgáfu bókar/bæklings þar sem starfsemi Úthverfu og Slunkaríkis undanfarna áratugi verður gerð skil í máli og myndum.
Verk Önnu Hrundar Másdóttur, sem er hluti af sýningunni Í list.
Tilboð voru opnuð í Steinadalsveg 4. febrúar og bárust sjö tilboð, þar af tvö frá Vestfjörðum. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 274 m.kr. en lægsta tilboð, sem var frá Þrótti ehf á Akranesi var 234 m.kr. sem er rúmlega 14% lægra en kostnaðaráætlunin.
Frá Vestfjörðum komu tilboð frá Flakkarnum ehf á Brjánslæk, sem bauð 279 m.kr. og Hrútagil ehf í Hrútafirði sem var hæstbjóðandi með 332 m.kr.
Um er að ræða endurbyggingu á um 6,6 km kafla á Steinadalsvegi í Gilsfirði.
Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. ágúst 2026.
Næsta skref er að Vegagerðin semji við einhvern tilboðsgjafann. Venjan er að lægstbjóðandi fái verkið ef hann uppfyllir öll skilyrði sem sett eru í útboðsskilmálum.
Í undirbúningi er málþing um nám og kennslu íslensku sem annars máls í framhaldsskólum, inngildingu og fjölmenningu.
Að málþinginu stendur framhaldsskólateymi MEMM sem er verkefni innan Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menntavísindasvið Hí og Kennaradeild HA
Fyrir hverja er málþingið?
Kennara sem kenna íslensku sem annað mál í framhaldsskólum
Kennara og stjórnendur á íslenskubrautum
Náms- og starfsráðgjafa
Almenna kennara
Öll sem vilja kynna sér nám og kennslu íslensku sem annars máls, inngildingu og fjölmenningu í framhaldsskólum.
Dagskrá er í mótun en leitast verður við að kynna þá þekkingu og mismunandi reynslu sem orðið hefur til í framhaldsskólum á Íslandi um málefnið og skapa vettvang til samtals.
Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu kom í vikunni saman til síns fyrsta fundar. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að málefnum eldra fólks.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stýrir nefndinni en í henni eiga einnig fast sæti Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra.
„Ég bind miklar vonir við þessa ráðherranefnd sem er nýlunda í stjórn málaflokksins. Hún endurspeglar þá miklu áherslu sem ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins leggjur á málefni eldra fólks,” sagði forsætisráðherra í tilefni fyrsta fundar nefndarinnar.
Forsætisráðherra ítrekaði að á sama tíma og þjóðin eldist og áskoranir fylgi því, sé eldra fólk mikilvægir þátttakendur í samfélaginu, það sé almennt hraustara en áður og meginþorri þess búi í eigin húsnæði.
Á fyrsta fundi nefndarinnar var uppbygging hjúkrunarheimila sérstaklega á dagskrá og var fjallað um fyrirséða þörf, stöðu framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarheimila og fjármögnun hennar og þjónustunnar.
Ráðherranefndin leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á nauðsynlegri uppbyggingu og fjárfestingu til framtíðar. Því verður nú framkvæmdaáætlunin endurskoðuð til samræmis við þörf og tillögur að fjármögnunarleiðum kannaðar.
Á vefsíðu Reykhólahrepps er sagt frá því að stærstur hluti raflína í Reykhólahreppi sé nú kominn í jörð.
Í vetur var aftengd loftlína frá Bjarkalundi að Djúpadal. Sú lína var liðlega 10 km. með heimtaugum að Kinnarstöðum og Gröf. Auk þess var aftengdur sæstrengur yfir Þorskafjörð, rúmlega 1,5 km.
Í stað þessarar línu var tengdur jarðstrengur sem lagður var meðfram nýja veginum yfir Þorskafjörð og fyrir Hallsteinsnes.
Þegar þessi loftlína er aflögð er eftir línan frá Djúpadal að Kletti í Kollafirði liðlega, 20 km.