Síða 17

Gallerí úthverfa: 40 ára afmæli

Ingólfur Arnarson.

Anna Hrund Másdóttir

Eygló Harðardóttir

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Katrín Agnes Klar

,,Í lit“

1.3 – 13.4 2025

Laugardaginn 1. mars næstkomandi kl. 16 opnar sýningin ,,Í lit“ í Gallerí Úthverfu að viðstöddum sýningarstjóra og tveimur af listakonunum fjórum sem taka þátt. Þann dag eru 40 ár liðin frá því fyrst var opnuð sýning á samtímalist í rýminu við Aðalstræti 22 á Ísafirði. Fulltrúi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar opnar sýninguna og boðið verður uppá léttar veitingar.

,,Í lit“ er samsýning fjögurra listamanna, Katrínar Agnesar Klar, Önnu Hrundar Másdóttur, Eyglóar Harðardóttur og Ingibjargar Sigurjónsdóttur. Sýningarstjóri er Ingólfur Arnarsson, en hann var fyrsti listamaðurinn til að opna sýningu í rýminu 1. mars 1985.

,,Strax á námsárum okkar í Hollandi hafði Jón Sigurpálsson orð á því að gaman gæti verið að opna sýningarstað á Ísafirði þegar heim væri komið. Draumurinn rættist með samtakamætti nokkurra einstaklinga sem stofnuðu Myndlistarfélagið á Ísafirði og hófu rekstur sýningarsalar fyrir samtímalist. Sýningarstaðurinn hefur verið starfræktur í 40 ár og það er hægt að slá því föstu að þetta fallega herbergi að Aðalstræti 22, 400 Ísafirði, sé svo sannarlega áhugaverður punktur eða staður á kortinu.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrstur til að sýna í Slunkaríki og í tilefni afmælisins var mér boðið að sýna aftur. Að þessu sinni vildi ég virkja sýningarstjórahólfið í mér.

Ég hef haft þann háttinn á að smella af myndum á símann þegar ég rekst á áhugaverð listaverk. Það var því nærtækt fyrsta skref að skrolla í gegnum nýlegt myndasafn. Eitt af því sem blasti við voru ýmis verk þar sem meðferð lita var afgerandi. Þannig spratt fram val mitt á verkum og listamönnum fyrir þessa samsýningu. Fyrir mína kynslóð, sem ólst upp við svart/hvíta skjámynd af heiminum, hefur það að segja að eitthvað sé í lit sérstaka merkingu.

Það er von mín að þetta stefnumót bjóði upp á áhugaverðan samanburð og tengingar hjá áhorfendum.

Samsýningin markar upphafið að dagskrá þar sem haldið verður uppá 40 ár af samtímalist í Gallerí Úthverfu sem áður hýsti Slunkaríki. Aðrar sýningar á árinu eru m.a. bókverkasýning með Joe Keys o.fl. sem opnar um páskana, finnsku listamannanna Karoliina Hellberg og Josefina Nelimarkka sem opnar 17. júní í tengslum við tónlistarhátíðina ,,Við Djúpið“ og sumarsýning Roni Horn sem opnar 18. júlí. Á sama tíma verður einnig skipulögð sýning í sal Myndlistarfélagsins á Ísafirði, Slunkaríki, sem nú er hluti af Edinborg menningarmiðstöð.

Afmælisdagskrá ársins lýkur með útgáfu bókar/bæklings þar sem starfsemi Úthverfu og Slunkaríkis undanfarna áratugi verður gerð skil í máli og myndum.

Verk Önnu Hrundar Másdóttur, sem er hluti af sýningunni Í list.

Steinadalsvegur: lægsta tilboð 14% undir kostnaðaráætlun

Tilboð voru opnuð í Steinadalsveg 4. febrúar og bárust sjö tilboð, þar af tvö frá Vestfjörðum. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 274 m.kr. en lægsta tilboð, sem var frá Þrótti ehf á Akranesi var 234 m.kr. sem er rúmlega 14% lægra en kostnaðaráætlunin.

Frá Vestfjörðum komu tilboð frá Flakkarnum ehf á Brjánslæk, sem bauð 279 m.kr. og Hrútagil ehf í Hrútafirði sem var hæstbjóðandi með 332 m.kr.

Um er að ræða endurbyggingu á um 6,6 km kafla á Steinadalsvegi í Gilsfirði.

Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. ágúst 2026.

Næsta skref er að Vegagerðin semji við einhvern tilboðsgjafann. Venjan er að lægstbjóðandi fái verkið ef hann uppfyllir öll skilyrði sem sett eru í útboðsskilmálum.

Íslenska sem annað mál á Ísafirði 2.-3. júní

Í undirbúningi er málþing um nám og kennslu íslensku sem annars máls í framhaldsskólum, inngildingu og fjölmenningu.

Að málþinginu stendur framhaldsskólateymi MEMM sem er verkefni innan Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menntavísindasvið Hí og Kennaradeild HA

Fyrir hverja er málþingið?

  • Kennara sem kenna íslensku sem annað mál í framhaldsskólum
  • Kennara og stjórnendur á íslenskubrautum
  • Náms- og starfsráðgjafa
  • Almenna kennara
  • Öll sem vilja kynna sér nám og kennslu íslensku sem annars máls, inngildingu og fjölmenningu í framhaldsskólum.

Dagskrá er í mótun en leitast verður við að kynna þá þekkingu og mismunandi reynslu sem orðið hefur til í framhaldsskólum á Íslandi um málefnið og skapa vettvang til samtals.

Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu

Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu kom í vikunni saman til síns fyrsta fundar. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að málefnum eldra fólks.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stýrir nefndinni en í henni eiga einnig fast sæti Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra.

„Ég bind miklar vonir við þessa ráðherranefnd sem er nýlunda í stjórn málaflokksins. Hún endurspeglar þá miklu áherslu sem ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins leggjur á málefni eldra fólks,” sagði forsætisráðherra í tilefni fyrsta fundar nefndarinnar.

Forsætisráðherra ítrekaði að á sama tíma og þjóðin eldist og áskoranir fylgi því, sé eldra fólk mikilvægir þátttakendur í samfélaginu, það sé almennt hraustara en áður og meginþorri þess búi í eigin húsnæði.

Á fyrsta fundi nefndarinnar var uppbygging hjúkrunarheimila sérstaklega á dagskrá og var fjallað um fyrirséða þörf, stöðu framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarheimila og fjármögnun hennar og þjónustunnar.

Ráðherranefndin leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á nauðsynlegri uppbyggingu og fjárfestingu til framtíðar. Því verður nú framkvæmdaáætlunin endurskoðuð til samræmis við þörf og tillögur að fjármögnunarleiðum kannaðar. 

Loftlínum fækkar í Reykhólahreppi

Á vefsíðu Reykhólahrepps er sagt frá því að stærstur hluti raflína í Reykhólahreppi sé nú kominn í jörð.

Í vetur var aftengd loftlína frá Bjarkalundi að Djúpadal. Sú lína var liðlega 10 km. með heimtaugum að Kinnarstöðum og Gröf. Auk þess var aftengdur sæstrengur yfir Þorskafjörð, rúmlega 1,5 km.

Í stað þessarar línu var tengdur jarðstrengur sem lagður var meðfram nýja veginum yfir Þorskafjörð og fyrir Hallsteinsnes.

Þegar þessi loftlína er aflögð er eftir línan frá Djúpadal að Kletti í Kollafirði liðlega, 20 km.

Mest traust borið til Landhelgisgæslunnar

Landhelgisgæslan er sú stofnun sem þjóðin ber mest traust til samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup sem kynntur var á dögunum.

Þetta er fimmtánda árið í röð, eða frá því Landhelgisgæslan var tekin inn í mælingar Gallup, sem stofnunin mælist með mest traust almennings. 86% þeirra sem taka afstöðu í könnuninni segjast bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar.

Ísafjarðarbær: 40 þús kr. frístundastyrkur

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að taka upp frístundastyrki og verður styrkurinn í ár 40 þúsund krónur.

Styrkurinn nær til frístundaiðkunar barna í 5.-10. bekk í grunnskóla með lögheimili í Ísafjarðarbæ.

Frístundastyrkur skal nýttur til að greiða æfingagjöld eða þátttökugjöld í skipulögðu íþrótta-, lista- og/eða tómstundastarfi, og skal einskorðast við kennitölu þess barns sem frístundastyrkurinn tilheyrir.
Frístundastyrk má nýta að fullu eða hluta til niðurgreiðslu æfinga- og námskeiðsgjalda og geta forráðamenn ráðstafað þeim hvenær sem er yfir árið og óháð fjölda greina/námskeiða.
Ekki er hægt að ráðstafa hærri upphæð til félags en námskeið kostar. Ef kostnaður við námskeið er hærri en ráðstöfunin, skal félag sjá um innheimtu mismunar hjá forráðamönnum barns.
Frístundastyrkur hvers árs gildir fyrir hvert barn á hverju 12 mánaða tímabili. Ónýttur frístundastyrkur fellur niður í lok hvers árs.

Í sérstökum reglum um frístundastyrk sem bæjarstjórn samþykkti segir að skilyrði þess að hægt sé að nýta frístundastyrkinn sé að um skipulagt íþrótta-, lista- eða tómstundastarf sé að ræða og sé stundað undir leiðsögn þjálfara, leiðbeinenda eða kennara, eldrien 18 ára. Heimilt er þó að ungmenni undir 18 ára aldri aðstoði við þjálfun eða leiðbeinendastörf í barnastarfi.

Þá segir að þau félög og fyrirtæki sem taka við frístundastyrk frá Ísafjarðarbæ skuli leitast við að stilla verðlagi á æfinga- og þátttökugjöldum í hóf og veita skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd upplýsingar um gjaldskrár ef eftir því er óskað.

Vesturbyggð: þörf á 189 íbúðum á næstu 10 árum

Horft yfir Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt endurskoðaða húsnæðisáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2025. Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði 23,4% fleiri að 10 árum liðnum samkvæmt miðspá, þ.e. fjölgun um 290 íbúa og er áætluð íbúðaþörf í samræmi við það 189 íbúðir. Vesturbyggð leggur því áherslu á að fjölga lóðum samkvæmt skipulagi í öllum byggðakjörnum og í dreifbýli.

Gert er ráð fyrir í spánni um íbúafjölgun að íbúum fjölgi mest á Bíldudal eða um 100 manns skv. miðspá og á Tálknafirði einnig um 100 manns, en á Patreksfirði verði fjölgunin 90 manns.

Þörfin fyrir nýjar íbúðir næstu 10 árin er talin vera 73 íbúðir á Bíldudal, 59 íbúðir á Tálknafirði og 57 íbúðir á Patreksfirði.

Grunnskóli: kostnaður aukist um 46% á 5 árum

Hagstofa Íslands birti í þessum mánuði upplýsingar um kostnað við rekstur grunnskóla. Áætlaður meðalrekstrarkostnaður á grunnskólanema í febrúar 2025 reyndist vera 2.912.041 kr. Í janúar 2020 var sami kostnaður 1.918.731 kr. Hækkunin á þessum 5 árum nemur liðlega 46%.

Samkvæmt talnagrunni Hagstofunnar var heildarkostnaður við rekstur grunnskóla landsins árið 2023 um 135 milljarðar krónur, sem skiptist þannig að sveitarfélögin greiða liðlega 133 milljarða króna og ríkið ríflega 1,5 milljarð króna.

Til viðbótar þá kostaði rekstur framhaldsskóla landsins sama ár, 2023, um 39 milljarða króna, þar sem ríkið greiddi um 37 milljarða og sveitarfélögin tæplega 2 milljarða króna.

Rekstur leikskóla kostaði 2023 um 33 milljarða króna sem fellur allur á sveitarfélögin.

Heildarútgjöld sveitarfélaganna til fræðslumála árið 2023 voru, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, 178 milljarðar króna.

Landsvirkjun: greiðir milljarð kr. fyrir staðsetninguna

Hin nýja staðsetning á höfuðstöðvum Landsvirkjunar í Reykjavík.

Landsvirkjun tilkynnti á föstudaginn var að fyrirtækið hafi tryggt sér lóðir við austurenda Bústaðavegar í Reykjavík , með það í huga að þar rísi næstu höfuðstöðvar orkufyrirtækis þjóðarinnar.

Þó var tekið fram að það kæmi þó í hlut næstu stjórnar fyrirtækisins, sem skipuð verður í apríl, að taka frekari ákvarðanir um hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verður.

Lóðirnar eru þrjár og eru við Bústaðaveg 143, 145 og 147 og liggja að Reykjanesbraut, norður af veitingastaðnum Sprengisandi og gömlu hesthúsum Fáks. Þær voru seldar í einu lagi á um 1,3 milljarða króna með áföllnum gjöldum en fyrstu áform Landsvirkjunar gera ráð fyrir að syðri lóðirnar tvær, 145 og 147, verði sameinaðar undir nýjar höfuðstöðvar.

Í svari upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að lóðirnar hafi ekki verið keyptar af Reykjavíkurborg heldur af tveimur félögum sem höfðu átt þær einhvern tíma.

Þau félög voru búin að greiða öll gjöld vegna lóðarinnar í samræmi við byggingarheimild, þar á meðal gatnagerðargjöld. Kaupverðið skiptist þannig að rúmur milljarður var eiginlegt kaupverð og þessi gjöld voru rúmar 250 milljónir, samtals um 1,3 milljarðar.

Af þessu er ljóst að kostar fyrirtækið 1 milljarð króna að hafa höfuðstöðvarnar í Reykjavík.

Það væri t.d. ekki úr vegi að byggja nýjar höfuðstöðvar á Selfossi, í því héraði þar sem stór hluti orkuöflunar fyrirtækisins er. Við það myndi þessi lóðakostnaður sparast og ef til vill væru byggingarleyfisgjöldin lægri en þær rúmar 250 m.kr. sem innheimtar eru í Reykjavík. Ef svo er væri sparnaðurinn enn meiri en milljarður króna.

-k

Nýjustu fréttir